Af kvenna- samstöðu

Ekki stinga spjótum í aðrar konur

Það er mikilvægt að skoða ólíka merkingu orða í kynjaumræðu. Til dæmis hefur orðið karlasamstaða ekki sömu merkingu og orðið kvennasamstaða.

Karlasamstaða táknar gjarnan samtryggingu karla sem tengist valdastöðu þeirra innan þjóðfélagsins. Rætt er um karlasamstöðu þegar karlar ráða hvor annan í vinnu óháð menntun og reynslu eða þegar þeir virðast standa saman á annan hátt í nafni kynferðis eingöngu. Kvennasamstaða er skyld karlasamstöðu þar sem hún speglar karlasamstöðuna. Að auki snýst kvennasamstaðan um að konur skuli vera samtaka um að bæta kjör kvenna, til dæmis hvað varðar launamun, menntunar- og atvinnutækifæri og ýmislegt fleira í þeim dúr. Birtist sú samstaða til dæmis á mjög jákvæðan hátt á Kvennafrídeginum 24. október 1975. Aðrar birtingarmyndir þessarar samstöðu eru alls kyns viðburðir, félög eða samtök og ýmislegt fleira sem tengist jafnréttisbaráttu kvenna og lífsgæðum þeirra yfir höfuð.

„Líf, ljómi þinn er skínandi skær“

Kvennasamstaða getur líka verið fólgin í að konur verði skilyrðislaust að styðja allt framtak sem tengist velferð kvenna, sama hverjar forsendurnar eru. Það er þessi skilyrðislausa kvennasamstaða sem ég skil ekki. Á ég að standa með konum bara af því að þær eru konur, sama hvað mér finnst um málefnið sem þær standa fyrir? Fyrir mig er svarið við þessari spurningu nei. Mér dettur ekki í hug að standa með málstað sem hefur enga merkingu fyrir mér.

 (Úr umræðu á FB-síðu Styrktarfélagsins Lífs)

Þessi ummæli má finna á Facebook-síðu Styrktarfélagsins Lífs. Þau voru látin falla í kjölfar gagnrýnni minnar og fleiri á aðkomu Egils Einarssonar að peningasöfnun félagsins fyrir kvennadeild LSH1.  Félagið var spurt hvers vegna að fjáröfluninni kæmi maður sem hefði gert kvenfyrirlitningu að skemmtiefni. Þeim voru svo sýnd dæmi um opinber ummæli Egils um konur þar sem hann lýsti að þær mætti fylla eins og „hátíðarkjúkling“ og að æskilegt væri að reka femínistum einn „granítharðann [sic]í háruga bílskúrinn til þess að þagga niður í þeim“.

Aðstandendum Lífs og Hestamannafélagsins Harðar, sem einnig stóð að söfnuninni, virtist ekki detta í hug að endurskoða aðkomu Egils að fjáröfluninni. Eins og sjá má fengust þess í stað svör á borð við að gagnrýnendur væru að „kasta rýrð“ á góðan tilgang söfnunarinnar með „harðorðum athugasemdum.“ Gagnrýnendur fengu þau tilmæli að við konur þyrftum að „passa okkur á því í kvenfrelsisbaráttunni að stinga ekki spjótunum í augun á hvor annarri heldur standa saman.“

Mældu bara tímann þinn sjálf

Þegar ég hef opinberlega gagnrýnt eða spurst fyrir um hluti sem varða konur eða málefni kvenna hef ég gjarnan fengið svipaða gagnrýni fyrir það eitt að vera að rýna í málin á annað borð. Og aftur og aftur kemur kvennasamstaðan fyrir með einum eða öðrum hætti. Skemmst er að minnast spurninga minna á Facebook-síðu Kvennahlaups ÍSÍ en samkvæmt heimasíðu hlaupsins á það að „höfða til samstöðu kvenna“. Ég frétti að það færi ekki fram tímataka í hlaupinu2 og fór á Facebook-síðu þess3 og spurðist fyrir um málið. Ég fékk þau svör frá stjórnanda síðunnar að tímataka hentaði ekki. Gott og vel, í það minnsta hlýtur að vera hægt að vera sammála um að vera ósammála.

Í umræðunum sem spunnust í framhaldinu komu fram önnur svör sem bentu ekki beinlínis til þess að fólk tæki fyrirspurn mína um tímatöku í Kvennahlaupinu neitt sérstaklega alvarlega. Mér var til dæmis bent á að ég gæti tekið tímann minn sjálf – eitthvað sem ég hafði augljóslega gert mér í hugarlund að hægt væri að gera. Svo var mér sagt að kosturinn við kvennahlaupið fælist í því að vera ekki undir tímapressu:

Allar saman að sýna samheldni sem felst í því að hlaupa í hlaupi sem ekki má keppa í.

„Allir sem taka þátt eru sigurvegarar á sinn hátt“

Mér finnst sú tegund af samheldni sem þessi tvö dæmi snúast um vera skilyrt. Hún gengur í grófum dráttum út á að nota kvennabaráttuna sem spil til þess að koma í veg fyrir heilbrigða gagnrýni. Konur og sú starfsemi sem okkur tengist með beinum eða óbeinum hætti er ekki yfir gagnrýni hafin. Kvennabaráttan er það ekki heldur. En að tefla konum fram sem heildstæðum hóp með einsleitar skoðanir er konum ekki til framdráttar. Það elur á gagnrýnisleysi í skjóli ímyndaðrar samkenndar. Því þessi samkennd er ekki fyrir allar konur eins og athugasemdirnar hér fyrir ofan sýna svart á hvítu.

——-
[1] https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=169379346447541&id=153816111337198

[3] https://www.facebook.com/permalink.php?story_fbid=415974408447924&id=78367780793&notif_t=share_reply

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.