Sáðmenn umræðunnar

Höfundur: Elva Björk SverrisdóttirKarl, karl, karl, karl, karl, karl, karl, karl, karl, karl, karl, kona, karl, karl. Er eitthvað sem stingur í stúf í þessari upptalningu? Jú, það er þessi „kona“. Hvar skyldi hún vera að vilja upp á dekk?

Konan er í hópi þess fólks sem Ríkisútvarpið kynnir sérstaklega sem pistlahöfunda  á vefsíðu sinni.  Af  þeim  sem hafa  á vefnum tækifæri til að skrifa um mál sem þeir telja eiga erindi við almenning eru þrettán karlar og ein kona. Það er áhugavert í ljósi jafnréttisáætlunar Rúv, sem nýlega hefur verið fjallað um.

Frá því ég hjó fyrst eftir þessari kynjaskekkju meðal vefpistlahöfunda Rúv eru liðnir nokkrir mánuðir. Með reglulegu millibili hef ég litið inn á pistlasíðuna. Ég hef gert það í þeirri von um að sjá breytingar á höfundalistanum, að konum fjölgi, vegna þess að auðvitað vilji Rúv ekki hafa þetta svona skakkt. Mér hefur því miður ekki orðið að ósk minni. Staðan er ennþá 13-1.

En hvers vegna er ég að tala um þetta? Það er mikilvægt að í fjölmiðlum landsins heyrist fjölbreyttar raddir. Þar er lykilatriði að bæði karlar og konur komist að. Ríkustu skyldurnar í þessum efnum hvíla á þjóðarútvarpinu. Aðrir fjölmiðlar bera einnig samskonar ábyrgð.

Og fleira hangir á spýtunni. Í ítarlegri úttekt bandaríska fjölmiðlaritsins Columbia Journalism Review er fjallað um skoðanafjölmiðlun í bandarískum fjölmiðlum út frá kynjavinkli.

Þar er vísað í nýlegar rannsóknir á skoðanafjölmiðlum og er niðurstaðan sú að þrátt fyrir nýmiðlun á netinu móti stóru miðlarnir (mainstream media) enn almenningsálitið að stórum hluta. Þeir leggi línurnar og séu öflugastir í að koma málum á dagskrá. Umræðan sem þar fer fram seytli svo niður í netumræðuna.

Í þessu sambandi er vert að líta á fleiri íslenska fjölmiðla. Fréttablaðið er útbreiddasta dagblað landsins og vefur þess, vísir.is, sá næstmest lesni. Fréttablaðið hefur valið hóp fólks til þess að skrifa skoðanapistla, í formi leiðara, fastra aðsendra greina, bakþankapistla og efnis á vísi.is Þetta efni er gjarnan mikið rætt úti í samfélaginu, því er deilt á Facebook og það er tekið upp í dægurmálaþáttum. Hvernig eru kynjahlutföllin hérna?

Ég skoðaði lista yfir höfunda sem birtur er á vísi.is. Niðurstaðan er sú að tuttugu karlar eru í þessum skrifum, en átta konur. Hlutfall kvenna í hópri fastra höfunda skoðanaefnis er því rétt undir þrjátíu prósentum.

Þótt það halli á konur í fjölda höfunda þarf það ekki að segja alla söguna um hversu margir pistlar birtast eftir konur annars vegar og karla hins vegar. Þó má benda á að það sem af er þessu ári hafa karlar skrifað um 75% leiðara blaðsins, eða um þrjá af hverjum fjórum. Einungis tvær konur skrifa fasta skoðanapistla á leiðaraopnu blaðsins, samkvæmt vísisyfirlitinu, en níu karlar. Engin kona skrifar slíka pistla sérstaklega á vefmiðilinn vísi.is, en tveir karlar. Báðir fjalla þeir um viðskiptatengt efni. Í bakþankapistlunum er hlutfallið mun skárra, en samt hallar á konur. Þær eru sex talsins, en karlarnir níu.

Getum við verið sátt við 13-1 og 20-8? Er í lagi að karlar taki langflest sætin við skoðanaskrifborðið á útbreiddustu og áhrifamestu miðlum landsins?
Ef við viljum að sem fjölbreyttastar raddir taki þátt og nái máli í umræðunni hlýtur svarið að vera nei.

Fjölmiðlar velja sjálfir fólkið sem úthlutað er föstum sætum við skoðanaskrif. Boltinn hlýtur því að vera hjá þeim. Og enginn vill tapa 14-2 í neinum leik, er það nokkuð?

Ein athugasemd við “Sáðmenn umræðunnar

  1. Bakvísun: 100 prósent karlakvóti | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.