Pussy Riot og pönkbænin

Dagurinn virðist ætla að ganga sinn vanagang í Dómkirkju Krists frelsara í Moskvuborg. Þessi fagra kirkja á sér mikla og pólitíska sögu. Hún var byggð á ofanverðri 19. öld og myndaði umgjörn um veldi og ríkdóm tzarsins. Kirkjan var sprengd í loft upp árið 1931 sem óþarfa lúxus í kommúnistaríki og ráðgerði Stalín í framhaldinu að byggja á rústum hennar glæsihöll til heiðurs sósíalisma. Af þeim áætlunum varð ekki og kirkjan var endurbyggð eftir hrun kommúnismans á síðasta áratug tuttugustu aldar. Dómkirkja Krists frelsara er hæsta rétttrúnaðarkirkja í heiminum og gyllt þök hennar setja sterkan svip á höfuðborg Rússlands. Helgimyndahliðið, íkonostasis, afmarkar hið allra helgasta rými kirkjunnar í austri. Fyrir framan íkonostasann er upphækkaður pallur sem afmarkar hið frátekna rými sem almenningur má ekki fara inn í og fyrir neðan eru íkonarnir sem fólkið kyssir við tilbeiðslu sína í kirkjunni, þeótókos, Guðsmóðir til vinstri og pantókrator, Kristur í endurkomu sinni hægra megin.

21. febrúar 2012 reyndist ekki venjulegur dagur þrátt fyrir allt. Fjórar ungar konur sem allar eru meðlimir í femínísku pönkhljómsveitinni Pussy Riot réðust inn í helgidóminn í skærum kjólum og með lambhúshettur fyrir andlitinu. Þær stilltu sér upp á tröppurnar fyrir framan íkonostasinn, fjórar konur á yfirráðasvæði vígðra karlmanna. Þær signdu sig, krupu í bænastellingu, fluttu frumsamda pönkbæn og ákölluðu heilaga guðsmóður.

PÖNKBÆNIN

Pönkbæn Pussy Riot er samsett af ómstríðu pönki og viðlagi í gregorskum kirkjustíl, og hefur að geyma hnífskarpa þjóðfélagsádeilu blandna bænarákalli. Í bæninni ákalla þær guðsmóðurina þeótókos og biðja hana að losa þjóðina við Pútín.[1] Svona hljóðar textinn í þýðingu minni:

Viðlag: Guðsmóðir, meyja
steyptu Pútín, steyptu Pútín, steyptu Pútín!

Lýðurinn bukkar og beygir sig móti
biksvörtum kápum og gullskúfadóti.
Frelsið er vofa í himinsins vistum,
í varðhald er Gay Pride hneppt, dúsir í kistum.

Dýrlingur KGB kominn er niður,
kaldan í fangavagn pönkurum ryður.
Krakka og ástir skulu konur við una,
og kunna sig, styggja ekki helgislepjuna.

Skítur, skítur, guðdómlegur skítur,
Skítur, skítur, guðdómlegur skítur.

Viðlag: Móðir Guðs, meyja
vertu femínisti, femínisti vertu, vertu femínisti!

Einræðisherrar frá kirkju fá kossinn,
á kerrunum glæstu er borinn fram krossinn.
Skólunum allt finnst hjá eins upp á tening,
elskaðu kennarann, gefðu honum pening!

Biskupinn Gúndjaev tók Pútíns trúna.
Tík! Frekar Guð skyldir þinn biðja núna.
Uppbót ein máttlaus er meyjar- þín gjörðin
þá María rís upp, að baki henni hjörðin.

Viðlag: Guðsmóðir, meyja
steyptu Pútín, steyptu Pútín, steyptu Pútín!

Flutningur Pussy Riot í dómkirkjunni tók u.þ.b. 40 sekúndur áður en öryggisvörðum í dómkirkjunni tókst að flæma konurnar niður af pallinum.[2] Þær voru handsamaðar og beittar harðræði í gæsluvarðhaldinu. 17. ágúst síðastliðinn voru þær dæmdar til tveggja ára fangelsisvistar fyrir ólæti og trúarhatur samkvæmt 213.2 grein rússneskra hegningarlaga.

Réttarhöldin hafa vakið blandin viðbrögð innan Rússlands og á alþjóðlegum vettvangi. Margir telja að Pussy Riot hafi gengið fram af öllu velsæmi með gjörningi sínum. Bent hefur verið á hversu erfitt kristið fólk átti uppdráttar á tíma kommúnismans og að trúin þá hafi myndað hljóða andspyrnu við mannréttindabrot og óréttlátt þjóðskipulag. Innrás Pussy Riot inn í heilagt rými, rými sem þar að auki vitni um óáran og óstöðugleika hins rússneska samfélags gangi því þvert á óskir um bætt mannréttindi þar sem trú og lífsviðhorf njóti virðingar og verndar.

Á móti má færa rök fyrir því að pönkbænin, gjörningurinn og réttarhöldin kalli fram viðbrögð og andspyrnu við mannréttindabrotum og ójöfnuði á þrenns konar hátt. Gjörningur Pussy Riot er hápólitískur. Hann er einnig trúarlegur. Og að síðustu ber hann femínísku andófi vitni. Það er þessi þrefalda flétta hins pólitíska, trúarlega og femíníska sem gerir gjörning Pussy Riot svo eldvirkan og einstæðan.

TRÚ OG PÓLITÍK

Pönkbæn Pussy Riot beinist gegn forseta Rússlands,Vladimir Pútín og gjörningurinn var settur fram á lokaspretti kosningabaráttu Pútíns til endurkjörs. Pútín er fyrrverandi forsætisráðherra landsins og alinn upp innan hinnar alræmdu leyniþjónustu fyrrum Sovétríkjanna, KGB. Efnahagslegum stöðugleika hefur verið náð í valdatíð hans, en sá stöðugleiki er dýru verði keyptur, því spilling er mikil í Rússlandi og lýðræði lítils metið.

Í gjörningnum bendir Pussy Riot á náið samband rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og Pútíns, en partríarki rússnesku réttrúnaðarkirkjunnar, Kirill I af Moskvu, (eða Vladimir Mikhailovich Gundyayev) hefur tekið virkan þátt í kosningabaráttu Pútíns og m.a. kallað forsetann kraftaverk frá Guði. Þessi tengsl milli veraldlegs og andlegs valds eru undirstrikuð í pönkbæninni, þar sem söfnuðurinn beygir sig jafnt fyrir svörtum kápum prestanna og borðalögðum hermönnum. Pútín er orðinn höfuðdýrlingur kirkjunnar að þeirra mati, skólarnir lepja upp prédikun Pútíns, og svartar límósínur rússnesku mafíunnar renna saman við klerkana sem bera fram kross Krists til altarisins.

Pútín stundar sterka ímyndarsmíð og lætur einatt taka myndir af sér berum að ofan við karlmannlega iðju, veiðar og líkamsrækt, tzar Rússlands endurborinn. Og það er einmitt þessi landsföðurlega, goðsagnakennda ímynd Pútíns sem hins útvalda og blessaða sonar Rússlands sem Pussy Riot hefur að einhverju leyti náð að flysja af honum með gjörningi sínum.

Gjörningur Pussy Riot er eftirherma af helgisiðum inni í helgidóminum sjálfum, sem aftur gagnrýnir eftirhermu Pútíns á trúarbrögðum í ímyndarsmíð sinni. Þegar táknmyndir Pútínveldisins eru settar svo nálægt táknmyndum kristninnar fer eitthvað að skjálfa í symbólíkinni. Þennan skjálfta nemur ein hinna þriggja Pussy Riot kvenna, Nadezhda Tolokonnikova í lokaorðum sínum við réttarhöldin[3] og segir:

Það var leit okkar að sannleikanum sem leiddi okkur að Dómkirkju Krists frelsara. Ég held að kristindómur, eins og ég skildi hann þegar ég las gamla og sérstaklega nýja testamentið styðji við ástina á sannleikanum og að yfirstíga sjálfan sig, að hafna sínum gamla manni. Það var ekki tilviljun að þegar Kristur talaði við vændiskonurnar, þá sagði hann að það væri hægt að hjálpa þeim sem falla. Ég fyrirgef þeim,“ sagði hann. Ég sé ekki þessa fyrirgefningu í þessum réttarhöldum sem eiga sér stað undir merkjum kristninnar. Í staðinn virðist mér að lögsóknin öll troði trúarbrögðin fótum.

Eins og ég skil Tolokonnikovu, þá telur Pussy Riot sig aðeins benda á sáran sannleika og telur hin eiginlegu helgispjöll vera á sameiginlega ábyrgð Pútíns og Kirills I af Moskvu.

GUÐSMÓÐIR, VERTU FEMÍNISTI!

Pussy Riot berjast fyrir kvenfrelsi og jöfnuði. Það er engin tilviljun að þær völdu Dómkirkju Krists frelsara í leit sinni að sannleikanum og staðsetning gjörningsins innan helgirýmisins hittir í mark. Fjórar öskrandi konur taka sér stöðu innan hins karllæga, hefðbundna og reglufasta rýmis, eins og gangandi sýning á því sem Julia Kristeva kallar the return of the repressed eða afturhvarf hins bælda. Þær mega ekki vera þarna sem almúgi, sem konur og sem kvenkynsforsöngvarar sem taka sér leiðtogahlutverk í söfnuðinum.

Gjörð kvennanna í dómkirkjunni er femínískur gjörningur. Slíkur gjörningur byggir á einstæðum atburði, þó svo að bænin og yfirlýsingarnar geti tekið á sig nýtt líf og jafnvel öðlast gildi sem eins konar femínísk litúrgía. Gjörningar eru gjarnan óþægilegir, því að það er hlutverk þeirra að hrista upp í reglufestu og vana. Og það er á grundvelli slíkrar einstæðu sem meta þarf þessa tilteknu gjörð Pussy Riot.

Konurnar ákalla Maríu sem þeótókós, guðbera og nota þar með umdeildan titil í fornkirkjunni, þegar menn rifust um guðdóm og manndóm Krists, héldu kirkjuþing og sömdu játningar. Sumir vildu meina að María gæti ekki kallast annað en kristótókos, kristsberi, vegna þess að hún væri jarðnesk kona. Óhugsandi væri að guðdómurinn blandaðist saman við svoleiðis líkama. Aðrir vildu meina að María væri þeótókos og að í kviði hennar hefði komið saman sannur maður og sannur Guð. Þessi kennisetning um eðli Guðs og stöðu Maríu varð ofan á í þorra kristnu safnaðanna og vegur Maríu óx að sama skapi. Þeótókos er megintitill Maríu í rétttrúnaðarlöndum, en endurspeglar líka þessa fornu glímu um möguleikann eða ómöguleikann á að kona fæði af sér guðdóm.

Pussy Riot ákalla guðberuna um að koma Pútín frá völdum og enduróma þannig ákallið um viðsnúning hinna fátæku og valdlausu í lofsöng Maríu í Lúkasarguðspjalli 1:51-53:

Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.

Þær vitna um að samkvæmt röksemdum feðraveldisins sé hlutverk kvenna á hinu persónulega sviði, ástalífs og barneigna, og að konur eigi að halda sig utan við stjórnmálaumsvif. Það er hægt að lesa þessar línur á þann hátt að konurnar kalli til Maríu um að vakna til vitundar um ástand fólksins. Þeótókosinn sé líka geymdur í bómull eins og konurnar, upphafinn sem íkon um barn og kærleika, vofa fryst á himnum á meðan fólkið þjáist og Gay Pride er hneppt í hlekki. Og þess vegna biðja konurnar Maríu ekki aðeins um að losa sig við Pútín, heldur hina karllægu táknhlekki sem haldi þeim öllum í viðjum.

Móðir Guðs, meyja
vertu femínisti, femínisti vertu, vertu femínisti!

Pussy Riot endar síðan pönkbænina á að vísa til gjarðar eða linda þeótókosins, en forn helgisögn segir frá því að María hafi gefið Tómasi postula gjörðina þegar hann vitjaði grafar hennar. Þessi megingjörð meyjarinnar er tilbeðin víða í rétttrúnaðarkirkjunni. Gjörðin er geymd í klaustri í Grikklandi og var flutt til Moskvu vorið 2011 til að gefa Rússum tækifæri á tilbeiðslu frammi fyrir henni. Um tvö hundruð þúsund Moskvubúar komu til að að sjá hina helgu megingjörð og Pútín auðvitað fremstur í flokki.

Lambhúshettusveitin skilur okkur eftir með myndina af Pútín með gjörðina í hendinni eins og Tómas forðum. Hann situr eftir með sárt ennið, en sú sem beltið á að vitna um er horfin frá gröfinni.

Hún er úti að mótmæla Pútín.

Uppi á Íslandi var haldinn sprengidagur 21. febrúar og þetta árið olli dagurinn sannarlegu femínísku sprengifári í Moskvu.

 Myndin er fengin að láni hér

[1] Upphaflega textann að pönkbæninni má finna hér og enska þýðingu hér. Önnur og nákvæmari ensk þýðing er prentuð fyrir neðan upptökuna af gjörningnum, sjá neðanmálsgreinina hér fyrir neðan.

[2] Upptöku af flutningnum má nálgast hér.

[3] Lokaorð kvennanna þriggja við réttarhöldin má nálgast hér.

4 athugasemdir við “Pussy Riot og pönkbænin

  1. Hvernig færum við þetta uppá kirkjuna hér – já eða kirkjurnar almennt í Vesturheimi? Stuðninginn við kapitalismann, þögnina gagnvart fjármálaspillingunni, óttanum við almenningsálitið og hræðsluna við að gagnrýna?
    Eða á það ekki við hér á Vesturlöndum, í þessum dásamlegasta heimi frelsisins þar sem allir fá að njóta lystisemdanna jafnt?

  2. Bakvísun: Kirkjupönk Pussy Riot | Kirkjuritið

  3. Spurning: Var Pönkbænin þýdd beint úr rússnesku yfir á íslensku?

    P.s. Fyrri krækjan við fyrstu neðanmálsgreinina er óvirk. :/

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.