Karlremba og elska það

Höfundur: Óttar Martin Norðfjörð

Erlendur blaðamaður greip mig á rölti niður Laugaveginn á dögunum. Hann var að skrifa grein fyrir bandarískt tímarit um íslenskar konur og bað um mitt álit. Ég jós úr viskubrunni mínum á þessu sviði í dágóðan tíma og bölvaði því að íslenskar konur væru orðnar svo sjálfstæðar. Þegar hann spurði mig af hverju ég héldi að það væri var ég þó alveg mát. Sú spurning hefur blundað í mér síðan. Hvað drap ósjálfstæðar íslenskar konur? Eru þær dauðar? Kalla breyttir tímar kannski á öðruvísi ósjálfstæði? Umræðan um það hversu framarlega Ísland stendur hvað réttindi samkynhneigðra, transfólks og annarra minni samfélagshópa varðar hefur minnt mig á það hvað kvenréttindabaráttan hefur náð góðum árangri hérlendis. Er það mögulega hún sem drap ósjálfstæðar konur?

Ég á oft erfitt með að átta mig á hversu langt ég vil að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna gangi. Ég er ekki tilbúinn að fórna því að mega ráða vissum hlutum bara vegna þess að ég er karlmaður. Einu sinni reyndi ég til dæmis að strauja heima hjá mér. Útkoman var gat í veggnum á stærð við múrstein.

Um daginn var ég svangur. Eftir að hafa horft á ísskápinn hugsi í dágóðan tíma prófaði ég að opna hann. Á meðan ímyndaði ég mér að ísskápurinn myndi allt í einu springa. Eða hvolfa yfir mig og taka nokkrar veltur um eldhúsgólfið og ég stórslasast í kjölfarið – það gæti gerst! Kannski hefði ég átt að panta mér pítsu.

Mér tókst þó að opna ísskápinn heilu og höldnu. Þegar ég loksins fann mat stóð ég með hann í smá stund, klóraði mér í skallanum og þóttist lesa leiðbeiningarnar (en var í raun að fylgjast með verkfærakassanum mínum í næsta herbergi) þar til gullfallega eiginkonan mín kom loksins upp að mér og bauð fram aðstoð sína. Hún vippaði matnum á eldavélina og reddaði hlutunum á nokkrum sekúndum.

Eftir að hún hafði vaskað upp þakkaði ég fyrir mig og gekk í burtu sæll og glaður. Ég var samt örlítið pirraður á því hvað hefði tekið hana langan tíma að koma mér til hjálpar. Ég velti því fyrir mér hvort kvenréttindabaráttan sé virkilega svo langt leidd að einhverjum þyki eðlilegt að stór, skeggjaður strákur geti eldað matinn sinn sjálfur?

Ég vil að skoðanir mínar séu teknar alvarlega og að mér séu veitt hærri laun fyrir sama starf og kona. Ég hef þó engan áhuga á að strauja, skipta um bleyjur eða annast börnin og svo sannarlega hef ég engan áhuga á að kunna að elda matinn minn. Ég meinaða!

Endurbirt að ósk höfundar, birtist fyrst hér. Ritstjórn bendir á að pistill Óttars eru viðbrögð við bakþönkum dagsins í Fréttablaðinu. Þá má lesa hér.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.