Whatever, dude

Fyrir nokkrum dögum birtist bloggfærsla á nafnlausu bloggi sem fjallar að öllu leyti um femínisma. Yfirskriftin var Femínistar sem hata gagnrýni. Færslunni var að einhverju leyti beint til mín og innihélt skjáskot af Facebook-síðunni minni.

Tilefnið var uppskrifað samtal þeirra Snorra Páls Jónssonar Úlfhildarsonar og Steinunnar Gunnlaugsdóttur sem birtist á dögunum hér og fjallaði um skoðanir þeirra á óskilgreindum hópi íslenskra femínista. Eða skoðanir þeirra á skoðunum óskilgreinds hóps íslenskra femínista.

Það er flókið að ná utan um þessa umræðu og það sem hér fer á eftir er ekki tilraun til þess, né heldur svar við nokkurri þeirri gagnrýni sem þau þrjú sem að ofan eru (ó)nefnd eða allnokkrir aðrir hafa látið í ljós undanfarin misseri. Það sem hér fer á eftir ber miklu fremur að skilja sem tilraun til að koma mér frá umræðunni; tilraun til að segja: láttu mig í friði, ég vil ekki tala við þig.

Það er erfitt að segja þetta því maður fær umsvifalaust á sig stimpilinn femínisti sem hatar gagnrýni. En ég hata ekki gagnrýni. Ég tek henni fagnandi. Ég vil hinsvegar fá að ákveða sjálf hvaða slagi ég tek og hvaða umræða mér finnst vera þess virði að taka þátt í.

Í fyrrnefndu samtali Snorra og Steinunnar fer meira púður í að ræða þær skoðanir sem þau telja „aðra“ hafa á vændi en þær skoðanir sem þau hafa sjálf á því. Þau eru að vísu beint og óbeint að tala um Stóru systur allan tímann, sem ég svara sannarlega ekki fyrir og veit lítið sem ekkert um, en þau spyrða einhverri tegund femínista saman við Stóru systur í sífellu og ég hef á tilfinningunni að ég tilheyri þeim hópi, þótt hann sé hvergi skilgreindur.

Sumt sem þau segja að þessi hópur segi, geri, hugsi og honum gangi til samþykki ég fúslega. Það að vændi sé í eðli sínu ofbeldi er til að mynda eitthvað sem er alveg rétt hjá þeim að ég gæti sagt. Og hef sjálfsagt sagt. En þegar lagt er út frá því að ég sé sannkristinn móralisti sem fyrirlítur vændiskonur af því að þær eru syndugar og drýgja hór, að ég hafi fastmótaðar og íhaldssamar hugmyndir um kynlíf, að ég berjist fyrir forvirkum rannsóknarheimildum lögreglu og vilji veg hennar sem mestan, að ég líti niður á fólk sem spilar úr kynlífsfantasíum sínum, þegar allt þetta hefur verið sagt er einfaldlega orðið til samtal sem ég nenni ekki að standa í. Skilaboð sem mér finnst ekki taka því að svara.

Samtal Snorra og Steinunnar er uppfullt af óréttlátum og ljótum ásökunum í garð þeirra sem þau fjalla um. Í minn garð ef ég tek samtalið til mín, sem ég geri. Og mér finnst ég vera í fullum rétti með að segja ekkert við þessu. Hrista höfuðið og halda áfram í mínu.

Þegar annar bloggari skrifaði færslu sem gekk efnislega út á það að ég hefði ekki efni á því að halda úti Körlum sem hata konur af því að ég hefði einu sinni kallað dónalega konu truntu, þá nennti ég ekki að svara.

Þegar fólk gerir mér upp skoðanir og ástæður fyrir skoðunum mínum; gerir mér upp forsendur, tilfinningar og siðferði ýmist undir eða yfir rós í jafnmörgum orðum og finnast í meðallangri BA-ritgerð, þá nenni ég ekki að svara.

Þegar fólk hefur þá grundvallarafstöðu til vændis að öllum eigi að vera frjálst að kaupa aðgang að kynfærum annarra, hvort heldur sem sú afstaða byggir á anarkisma, frjálshyggju (línan þarna á milli er á köflum í móðu), ást á feðraveldinu, hatri á konum, hugsjónum um einstaklingsfrelsi eða atvinnufrelsi, botnlausri virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti kvenna eða einhverri annarri pólitík, þá er bilið á milli mín og þess fólks orðið svo stórt að það er fullkomlega tilgangslaust að reyna að brúa það.

Það þýðir ekki að ég hati gagnrýni. Það þýðir að mig langar að verja andlegum kröftum mínum í eitthvað sem ég trúi á. Og það er allt í lagi.

Hinsvegar er sjálfsagt að gleðja svarþyrsta lesendur með því að til er duglegra fólk en ég sem hefur einmitt haft fyrir því að skrifa svargrein við samtali Snorra og Steinunnar. Við munum birta það hér einhvern næstu daga.

2 athugasemdir við “Whatever, dude

  1. „Þegar fólk hefur þá grundvallarafstöðu til vændis að öllum eigi að vera frjálst að kaupa aðgang að kynfærum annarra,“

    Er verið að halda því fram? Ég hef aðeins tekið eftir umræðu um vændi á þá leið að það væri frjálst að selja, og upp á seljanda komið að neita þjónustu rétt eins og mörg fyrirtæki áskila sér rétt til að gera. Jafnvel væru frjálsari lög fyrir að neita þjónustu en fyrirtæki njóta.

    Frjálst að kaupa, svo lengi sem þér er leyft að kaupa af þeim sem selur. Ef að þú gengur inn í Bónus og heimtar skyr.is þegar þeir eiga það ekki, er þér réttilega bent á að kaupa það bara seinna eða annars staðar. Kynfærin eru ekki á markaði núna, alveg eins og hendin mín er ekki á markaði ef ég neita fyrir að hún sé notuð í múrvinnu sama hvað stjórinn heimtar. Það sem gerist er að ég missi úr vinnu eins og sá gangur gengur, en ég get alveg neitað að vinna jafnvel þó ég sé „á launum“ (missi eflaust starfið samt).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.