Þetta skiptir ekki máli, Egill Helgason sagði það

Sú lífseiga skoðun að sumt sé einfaldlega ekki þess virði að ræða hefur hreiðrað um sig hjá nokkrum af valdamestu mönnum íslenskra fjölmiðla. Hefðin fyrir þöggun á femínískum aðgerðum hefur viðgengist svo lengi að þegar hún er rofin verða menn og konur oftar en ekki uppvæg og óð. Gott dæmi um þetta voru svör Þorbjörns Þórðarsonar, fréttamanns, við fyrirspurn DV um karlaferð 365 til London. „Þorbjörn segir það ekki með vilja gert að engar konur séu með í för en hann vill taka það sérstaklega fram að blaðamennska DV snúist um að skapa tortryggni. „Ykkar blaðamennska gengur út á það að gera allt tortryggilegt,“ segir Þorbjörn við blaðamann.“

Annað svipað dæmi er umræðan um hamfaraskrif Tinnu Rósar Steinsdóttur, pistlahöfundar Fréttablaðsins. Tinna skrifaði pistil um þá ánægju sem hefðbundin kynhlutverk geta veitt, vöntun á áður vinsælli riddaramennsku íslenskra karlmanna og gerði hún góðlátlegt grín að sjálfri sér um leið. Upphófst í kjölfarið deilingaralda mikil á Facebook og létu allir sem vettlingi gátu valdið frá sér nokkur orð um pistilinn, þar á meðal ég sjálf.

Um gæði pistilsins má vissulega deila. En Tinna má hafa skoðun á þessu málefni ef henni sýnist en það þýðir ekki að sú skoðun sé yfir gagnrýni hafin. Það er ekki hægt að skrifa í blöðin og ætlast til þagnar. Það sem skiptir þó meira máli er hvernig umræðan í kringum pistilinn og Tinnu sjálfa þróaðist. Fólk kallaði hana vitleysing, þar á meðal mínir eigin vinir. Mér var ekki skemmt. Aðrir kölluðu hana kjána og enn aðrir fundu hjá sér hvöt til að segja Tinnu að hún ætti að „skjóta sig í hausinn.“

Það er eitt að þykja pistill sem birtist í vel útbreiddu blaði vera bjánalegur og tala um það. Það er annað að segja fólki að skjóta sig í hausinn. Það er ruddalegt að tala þannig um aðra og ekki síst lítilsvirðandi og særandi. Tinna á þá framkomu ekki skilið. Það er algert lágmark að gagnrýna pistilinn efnislega í stað þess að ráðast á persónu hennar.

Umræðurnar um pistilinn voru sem betur fer ekki allar jafn ömurlegar. Margir fóru beint í að ræða efni hans og þar á meðal var Lára Hanna Einarsdóttir þýðandi. Hún benti á líklega hefði meint riddaramennska íslenskra karla aldrei verið til.

„Þegar breskir og síðan bandarískir hermenn komu til Íslands í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar féllu konur í unnvörpum fyrir þeim – ekki síst vegna þess hve ólík framkoma þeirra var framkomu íslenskra karla. Þeir þóttu kurteisir herramenn í samanburðinum – á þeirra tíma mælikvarða.“

Mér fannst þetta áhugaverður punktur; Lára Hanna bendir á að kannski sé sýn pistlahöfundar á meinta riddaramennsku íslenskra karla ekki á rökum reist. Þar sem ég hafði heyrt svipaðar sögur af afdalamennsku íslenskra karla á stríðsárunum (a.m.k. í samanburði við stimamjúka hermenn) þá langaði mig að vita hvar hún hefði heyrt þetta og ákvað að spyrja Láru frekar út í málið. En þegar ég renndi niður athugasemdahalann blasti hins vegar við mér þetta:

Samkvæmt Agli Helgasyni er umræðan um pistilinn hneykslan. Skítt með gagnrýni, skítt með málefnalega umræðu. Við þurfum ekki að tala um þetta meir, þetta er hneykslan!

Nei, Egill – ég held ekki. Mér sýnist það aðallega þú sem ert hneykslaður. En rýnum aðeins í þessa meintu hneykslun í umræðunni. Að ræða pistil sem fjallar um meinta riddaramennsku íslenskra karla, heldur á lofti viðhorfum sem margt fólk hefur að fullu starfi að reyna að breyta getur varla heitið að hneykslast. Ég sé ekki betur en að það sé fullkomlega eðlilegt. Egill virðist þó ekki vera sammála mér því næsta dag segir hann á síðu Jakobs Bjarnars Grétarssonar:

Þá velti ég því fyrir mér af hverju það má ekki ræða pistilinn (svona án þess að segja fólki að skjóta sig í hausinn) og af hverju Egill Helgason, maður sem gefur sig út fyrir að halda úti gagnrýnni umræðu um þjóðfélagsmál, eyði meiri tíma í að smætta umræðuna með athugasemdum um froðufellingar og hneykslan en að ræða og rökstyðja sínar skoðanir?

Málið er bara að ég veit að þetta er engin nýlunda. Og mér datt aldrei í hug að Egill Helgason hefði áhuga á að ræða þetta á neinum alvöru forsendum. Annað væri lygi. Skyld mál hafa nefnilega ekki virst vera þess virði að ræða, hvorki í Silfrinu né í Kiljunni (bls. 31). Kannski eru þau of popúlísk fyrir hann, kannski vantar þau þetta je ne sais quoi. Af því að ég fylgist með umræðunni og reyni að vera dugleg að stunda minn femínisma þá veit ég að það er eitt málefni umfram öll önnur sem Egill Helgason gerir lítið úr eða kemur sér hjá því að ræða. Það er hið hneykslanlega málefni kvenréttindi.
Ég tók eftir þessu almennilega sama ár og Kvennafrídagurinn var haldinn hátíðlegur síðast, árið 2010. Ég er ekki ein þeirra sem hef (h)legið mjög mikið yfir bloggi Egils gerði mér því enga grein fyrir því að honum væri jafn mikið í nöp við kvennabaráttuna og raun ber vitni.

Kvennafrí 2010 bar upp á mánudag og daginn áður sat ég heima hjá mér og horfði á Silfrið eins og ég gerði gjarnan fyrir nokkrum árum. Í umræðunum fyrst í þættinum sat eitthvað fólk sem ég man ekki eftir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Ég man hvernig ég beið eftir að Kvennafrídagurinn yrði ræddur en allt kom fyrir ekki, rétt í blálok fyrsta hluta er minnst á daginn og segir Þórhildur eitthvað í þá áttina að það sé nú dæmigert að minnst sé á Kvennafrídaginn í framhjáhlaupi. Í bjartsýni minni hélt ég að einhver viðtalsgesta Egils myndi í staðinn tengjast réttindabaráttunni. Ég hafði rangt fyrir mér. Þórhildur sagði satt. Kvennafrídagurinn var ekki nógu mikilvægur til að fjalla um hann nema í framhjáhlaupi. Enda ekki nema 50.000 konur sem lögðu niður störf þann dag. Það er einn sjötti af Íslandi. Þriðjungur allra kvenna hér á landi. Smotterí.

 

Síðasta vetur rak ég mig á annað svipað dæmi um þögn þessa vinsæla fjölmiðlamanns. Þá reyndar aðeins vanari fjarveru kvenna í hans návist og löngu hætt að kippa mér upp við andvaraleysið. Það var þegar Hildur Lilliendahl birti albúmið Karlar sem hata konur á Facebook síðunni sinni (nú hýst á Tumblr.com). Egill fjallaði um málið í færslu sem heitir Ljótur listi. Í færslunni segir orðrétt:

Bókin Karlar sem hata konur fjallar um karlmenn sem drepa konur, nauðga þeim og gera þeim allt til miska. Að nota þetta sem yfirskrift á lista um menn sem hafa gerst sekir um óvarleg, heimskuleg eða ruddaleg ummæli á Facebook – það er í besta falli smekklaust. Að hata er býsna þungt orð og á ekki að nota í hálfkæringi. Það virðist líka vera algjörlega handahófskennt hvernig menn lenda á listanum – og svo er honum dreift út um internetið. En ég held ekki að neinn af þessum mönnum sé morðingi eða nauðgari eða neitt slíkt – nokkra þeirra þekki ég reyndar og þykist vita að þeir hata ekki konur.

Hvergi er minnst á inntak ummælana og það er slæmt, því það eru einmitt ummælin sem eru svo sláandi að þau myndu undir eðlilegum kringumstæðum kallast fréttnæm. Þess í stað er talsverðu púðri eytt í að sanna að heimildin sé svo ómerkileg að hún hafi ekki einu sinni verið skoðuð. Ummælin eru ljót og hatursfull, þess vegna vísar nafn albúmsins í hatur. Þetta er að hata:

 

Þessi hatursfullu ummæli fengu nákvæmlega enga umfjöllun í pistli Egils og engum pistli síðar. Þess í stað fær ónefndur höfundur „listans“ leiðbeiningar um notkun orðsins hatur. Fullorðin þrítug kona sem starfar, meðal annars, við ritstörf. Það var ekki heldur fjallað um þá augljósu staðreynd að ennþá er eitthvað í okkar samfélagi sem knýr fram réttlætingu á því sem Egill kallar svo óheppilega „óvarleg“ ummæli. Það var ekki „algjörlega handahófskennt“ hver lenti á listanum og hver ekki. Það var alltaf ástæða byggð á hatri.

Þögnin um Karla sem hata konur, tilgang albúmsins og innihald fór víða. Ekki síst í ljósi þess hve hatursfull og heiftúðug umræða átti sér stað. Hildi var hótað ofbeldi, henni var sagt að hún ætti að halda kjafti, hætta þessu væli, snúa sér að öðru, hætta að vera óþolandi, fá sér að ríða… Sama hvað, á meðan hún hætti að benda á að til eru karlar sem fyrirlíta konur sem berjast fyrir réttindum sínum og sýna það fyrir opnum tjöldum á internetinu. Sama interneti og þú ert að skoða núna.

Í stað þess að ræða femíníska gagnrýni efnislega er hnýtt í femínista, umræða þeirra smættuð og lítilsvirðing í þeirra garð hunsuð. Þetta sést í athugasemdum fjölmiðlanna í hvert sinn sem femínísk málefni eru rædd. Þetta sést á áhugaleysi þeirra sem miðlunum ráða. Þetta sést á ummælunum sem safnað hefur verið saman undir heitinu Karlar sem hata konur. Þetta sést á athugasemdum Egils Helgasonar um hneykslun og froðufellingar.

Einn þeirra miðla sem hunsaði umræðuna um Karlar sem hata konur var Vísir.is. Sami vefmiðill og birti í gær langa frétt um að það hefði verið sextug kona sem sagði Tinnu Rós að skjóta sig í höfuðið vegna pistils síns um að elska að vera ósjálfbjarga. Sami vefmiðill og er í eigu 365 hvers starfsmenn og yfirmenn hvers fóru í nýverið í áðurnefnda strákaferð til London. Sama fyrirtækis og á FM957 sem tóku Egil Einarsson, kvenhatara, í hresst viðtal á dögunum. Sama fyrirtækis og á Fréttablaðið sem setti nýliða í blaðamennsku í þá stöðu að þurfa að svara harðsnúnum netverjum fyrir pistil sem hæpnar forsendur eru fyrir.

Minna er fjallað um það sem raunverulega skiptir máli. Þögnina sem ríkir hjá stærstu fjölmiðlunum um femínisma og önnur áþekk baráttumál. Á meðan Tinna Rós gleymist og umræðan á Facebook skiptir pistlinum hennar út fyrir skjáskot af þýðingarmistökum Mörtu Maríu og Tinna fær frið frá ofsóknum netdólga, þá situr samfélagið uppi með það sama áfram. Vangetu og áhugaleysi fjölmiðlamanna á því að taka upp þau málefni sem tengjast kvenréttindum og femínisma. Þjónkun þeirra við fólk sem álítur gagnrýni ala á „tortryggni“ og eðlilega umræðu vera „hneykslan“ bendir ekki til annars.

19 athugasemdir við “Þetta skiptir ekki máli, Egill Helgason sagði það

  1. Vönduð, áhugaverð og brýn samfélagsrýni. Þetta fékk mig svo sannarlega til að velta vöngum bæði út og inn á við. Vel gert og takk Helga.

  2. Þetta er með málefnalegri og betri skrifuðum pistlum sem ég hef lesið.
    Takk kærlega fyrir að benda á þetta, sem einna mestu skiptir í umræðu um feminisma!

  3. Góður – og það sem meira er – málefnalegur og fordómalaus pistill. Sú staðreynd að öll mál sem varða konur og réttindabaráttu þeirra á erfitt uppdráttar, er ekkert annað en birtingarmynd varnarbaráttu þeirra sem óttast um sinn hag ef eitthvað breyttist. Beri þessi mál yfirhöfuð á góma tekur umræðan alltaf óvæntar vendingar og snýst upp í andhverfu almennrar skynsemi. Fordómar, vanþekking og gífuryrði ná yfirhöndinni og ummæli fara á skjön við alla sæmilega kurteisi – jafnvel siðferði. Þetta er ein birting þöggunar og valdbeitingar. Stöðvum þessa mannréttindaumræðu! Annars fer illa fyrir feðraveldinu og þá er fjandinn laus. Verjumst til síðasta manns!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.