Vont er þeirra réttlæti

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

Úrskurður Hæstaréttar vegna beiðni um farsímagögn í tengslum við nauðgunarmál í Herjólfsdal á nýliðinni þjóðhátíð hefur vakið athygli. Þar hafði þolandinn, ólögráða stúlka, lýst sakborningi og klæðnaði hans. Lögreglan á Selfossi taldi að á myndbandsupptöku úr eftirlitskerfi Þjóðhátíðar, mætti sjá karlmann sem svipaði til lýsingar á sakborningi hlaupa frá vettvangi. Sá sést tala í farsíma.

Lögreglan taldi mikilvægt að fá upplýsingar um símtöl úr Herjólfsdal á tíu mínútna tímabili kl. 05.35-05.45 um morguninn þegar brotið átti sér stað, svo bera mætti kennsl á manninn.
Héraðsdómur taldi að Símanum bæri að afhenda upplýsingarnar. Síminn áfrýjaði úrskurðinum til Hæstaréttar, sem sneri þeirri niðurstöðu við, en í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt 80. gr. sakamálalaga sé hægt að leggja fyrir símafyrirtæki að veita upplýsingar um símtöl við tiltekinn síma, en ekki ótilgreindan fjölda símtækja.

Forstjóri Símans var eins og bráðið smér í viðtali við Stöð 2 og sagðist „allur af vilja gerður til að vinna með lögreglunni í málum sem þessu.“ Sú fullyrðing heldur varla vatni því Síminn hefði getað sleppt því að áfrýja málinu, sýnt þennan meinta samstarfsvilja og afhent gögnin. Þá hefði úrskurður Hæstaréttar ekki komið í veg fyrir það. Þetta heitir tvöfeldni á mannamáli.
Sveinn Andri Sveinsson lögmaður er á öðru máli og segir þetta enga tvöfeldni: „Það er líka hlutverk Símans að gæta trúnaðar gagnvart viðskiptavinum og sjá til þess að allt inngrip hins opinbera í slíkar viðkvæmar trúnaðarupplýsingar sé byggt á fullkomnum lagagrundvelli.“ (Heimild)

Lögreglumenn eru eðlilega ósáttir við þessa niðurstöðu. Fram hefur komið í fréttum að borin hafi verið kennsl á tvo gerendur í þremur nauðgunarmálum á Þjóðhátíð. Farsímaupplýsingarnar hefðu hugsanlega dugað til að finna þann þriðja. En þar sem þessi úrskurður vinnur beinlínis gegn rannsókn málsins verður hann hugsanlega til þess að gerandinn verður ekki dæmdur. Væntanlega er leitun að þeim sem er ánægður með þá niðurstöðu, að gerandanum einum undanskildum.
Oft hefur verið vísað í rannsóknarhagsmuni í úrskurðum til að réttlæta varðhald og annað. Hér eru þessi hagsmunir lagðir til hliðar til að vernda viðskiptavini símafyrirtækja. Ég efa ekki lögmæti úrskurðarins en finnst réttlætisröðin brengluð.

Ég velti því fyrir mér hvaða trúnaðarupplýsingar sem fram koma í símtölum á tíu mínútna bili í rauðabítið, sé svo brýnt að vernda fórnað sé möguleikanum á að upplýsa nauðgun á ólögráða stúlku.

29 athugasemdir við “Vont er þeirra réttlæti

  1. Skylda ríkis, lögreglu og dómsvaldsins til að sjá til þess að réttlæti nái fram að ganga í svo alvarlegum málum hlýtur að trompa trúnað einkafyrirtækis við viðskiptavini, eða hvað? Og síðan hvenær er lögreglu og saksóknara ekki treystandi fyrir svona upplýsingum? Er einhver ástæða til að efast um getu þeirra til að vernda þennan trúnað?

    • „Og síðan hvenær er lögreglu og saksóknara ekki treystandi fyrir svona upplýsingum? Er einhver ástæða til að efast um getu þeirra til að vernda þennan trúnað?“

      Já, það er mikil ástæða til þess. Íslenska ríkið hefur á nýliðnum árum verið dæmt skaðabótaskylt fyrir að nota ólöglegan eftirfylgnibúnað, eða nota slíkan búnað ólöglega. Auk þess hafa yfirvöld (ekki bara erlendis heldur líka á Íslandi og ekki bara í Kalda stríðinu heldur líka nær okkur í tíma) stundað persónunjósnir á fólki með ákveðnar pólitískar skoðanir. (Afsakið letina en ég nenni ekki í fljótu bragði að finna skaðabótadóminn sem mér er efst í huga. Hann er hins vegar tiltölulega nýlegur, 2-3 ára gamall kannski, og verjandi þess sem málið höfðaði lét hafa eftir sér að ástæða þess að ekki hefðu fleiri höfðað og unnið sambærileg mál gegn ríkinu væri líklega sú að fæstir sem hefði verið fylgst með á þennan hátt vissu yfirhöfuð af því að njósnað hefði verið um þá.)

      Þannig að það er algjörlega ástæðulaust að treysta lögreglunni til að vernda einkalíf eða hagsmuni fólks en hitt er annað mál að í þessu tiltekna máli sem hér er til umræðu kemur berlega í ljós stórmerkileg forgangsröðun sem byggir á ákaflega ógeðfelldu gildismati bæði Símans og Hæstaréttar.

  2. Við þetta vil ég bæta eftirfarandi: Í fíkniefnarannsóknum fær lögregla opna heimild til að hlera ótilgreindan fjölda farsíma hjá aðilum sem eru taldir líklegir að standa í fíkniefnaviðskiptum eða vera að skipuleggja þau. Slík heimild hefur oft gilt í marga mánuði eða þar til rannsókn telst lokið og er réttlætt með rannsóknarhagsmunum. Kostnaður við hlerun og málsrannsókn er innheimtur með sektum á þá dæmdu.
    Ég get því ekki annað en spurt af hverju lögreglu er í þessu einstaka og afmarkaða tilviki meinað að skoða skrár yfir síma sem hringt er úr á ákveðnu svæði á ákveðnum tíma, án tillits til efnis símtalsins.

  3. Lagaheimildin er einfaldlega ekki til staðar. Alþingi þarf að breyta því ef menn telja rannsóknarhagsmuni í sakamálum af þessu tagi réttlæta þetta úrræði. Ég hefði tafarlaust sagt upp viðskiptum við Símann ef fyrirtækið hefði ekki leitað endanlegrar niðurstöðu dómsstóla í máli sem varðar upplýsingagjöf um einkamálefni viðskiptavina fyrirtækisins.

    • Hvernig er það einkamálefni ef lögreglan fær aðgang að því hverjir hringdu á einhverju 10 mínútna bili í Vestmannaeyjum? Ég myndi segja að þetta væru hreinlega rannsóknarhagsmunir.

  4. Það er allt gert til að vernda nauðgara og vændiskaupendur á Íslandi…….. kynferðisofbeldismenn og verjendur þeirra (svokallaðir ósómalögfræðingar) eru mjög vel verseraðir í lögum um persónuvernd, og beita hótunum sem byggja á þeirri lagasetningu óspart. Það er margt sem kallar á endurskoðun á þeim lögum……eða eigum við frekar að tala um túlkun þeim lögum? Túlkun sem er afbrotamönnum í hag………það þarf að tala meira um að stundum fari hagsmunir einstaklinga og persónuvernd þeirra gegn hagsmunum heildarinnar, dæmi um það er maður sem með einbeittum brotavilja fremur nauðgun og gengur áfram laus, hann er því hættulegur öðrum ungum stúlkum og hagsmunum heildarinnar. Hann mun gera þetta aftur…….hefur mjög líklega gert þetta áður……hugsanlega ár eftir ár……..

    Stígamótakonur töluðu um það fyrir nokkrum árum að þeim virtist sem gengi ungra karlmanna færi á þjóðhátíð í Eyjum í þeim tilgangi að nauðga……e.t.v. er þetta gengi enn við lýði, og gorta sig svo við hvor aðra og skemmta sér yfir því sem þeir gera annarri manneskju……

  5. Höfundur er með hjartað á réttum stað, en lætur tilfinningahitann byrgja sér sýn.

    Einstaklingurinn á ríkan og heilagan rétt til einkalífs. Við erum þarna að tala um grundvallarfrelsi frá rýni og rannsóknum af hálfu ríkisins og/eða samborgaranna. Við erum að tala um algjört lykilatriði í frjálsu og siðuðu samfélagi.

    Það að einhver glæpur hafi verið framinn í næsta nágrenni er ekki nóg til að gera rétt þinn til einkalífs að engu. Ef lögregluna grunar að glæpon búi í einhverju húsi í götunni þinni þá má hún ekki lesa öll sendibréf allra íbúa, í von um að finna eitthvað sem kemur þeim á sporið. Hún má ekki hlera öll símtöl í öll hús til að geta þrengt hringinn í leit að hinum grunaða. Hún má ekki skoða ferðasögu, eða greiðslukortasögu, eða vefsíðuheimsóknir allra í götunni til þess að mögulega finna vonda karlinn, jafnvel þó skoðunin sé aðeins afmörkuð við eina mínútu eða eitt sekúndubrot á einum tilteknum degi.

    Rannsókn hins opinbera verður alltaf að beinast að tilteknum einstaklingi eða einstaklingum vegna raunverulegs gruns um afbrot. Það er ekkert réttaríki lengur, og frelsi einstaklingsins að engu orðið, ef að hið opinbera getur varpað út dragneti í lögreglurannsóknum.

    Þeir sem stilla fram ungu nauðgunarfórnalambi sem réttlætingu til að mylja af undirstöðuatriðum einstaklingsfrelsis og mannréttinda ættu að hugsa sinn gang. Þeir ættu líka að fletta upp í sögubókunum og kynna sér þau tilvik þar sem tilfinningaleg hitamál hafa verið notuð til að valta, skref fyrir skref, yfir undirstöðumannréttindi.

    Ef að lögreglunni bærist tilkynning um að maður að nafni „Gísli“ hefði framið ljótan glæp, þætti Gísla Ásgeirssyni það næg réttlæting til að lögreglan rýndi í persónuleg gögn hans sjálfs og allra nafna hans á landinu?

  6. Fyrst ég er nefndur sérstaklega hér að ofan er best að ítreka: Í þessu máli var EKKI farið fram á að hlera símtöl, lesa einkabréf, skoða persónuleg gögn, kafa í viðkvæmar upplýsingar, greiðslukortayfirlit, vefsíðuheimsóknir og þess háttar.
    Beðið var um skrá yfir þá síma sem hringt var úr á 10 mínútna bili. Ekkert annað. Ég hef enn ekki komið auga á hvernig það skerðir rétt fólks til einkalífs að upplýsa um símanotkun, einkum ef það verður til þess að leysa glæpamál.
    Ef ég hefði verið staddur í Herjólfsdal á þessum tíma og verið einn af þeim sem notaði síma þennan morgun, hefði ég upplýst það að fyrra bragði og ekki þótt á rétt minn til einkalífs gengið. Það er alltaf kostur að koma auga á skóginn fyrir trjánum.

    • Gísli: Upplýsingar um farsímanotkun falla undir einkaupplýsingar fólks. Það hvaða númer þú hringir eða hringir ekki í eru gögn sem hið opinbera á ekki að geta vaðið í vegna þess að þú reyndist vera í næsta nágrenni við e-n skúrk.

      Þetta væri er ekki alveg jafn brútal brot á frelsinu til einkalifs og t.d. að hlera símtöl eða lesa pósta, en engu að síður alvarlegt og nærgöngult brot á þinni friðhelgi. Listi yfir símanotkun fólks er t.d. álíka persónulegt skjal og listi yfir vefsíðunotkun fólks -þætti þér sjálfsagt að lögreglan gæti lesið browser-söguna þína til þess að þrengja hringinn utan um einhvern meintan glæpon í þínu næsta nágrenni?

      (Ef þú átt í erfiðleikum með að skilja hvar mörkin liggja utan um friðhelgi einkalífsins: þætti þér í fínu lagi ef gögn um farsímanotkun þína væru öllum aðgengilegar? Þætti þér í lagi ef Pósturinn birti á netinu frá hverjum þú hefðir fengið sendan póst? Þætti þér í lagi ef Gmail gerði hverjum sem er kleift að sjá lista af nöfnum þeirra sem hafa sent þér línu?)

      Geturðu svo, Gísli, ekki komið auga á hvernig opnað er á blatant misnotkun og big-brother ríki, ef þín leið er farin? Vantar þig að vita eitthvað um pólitíska andstæðinga þína -um leið og einhver óupplýstur glæpur er framinn í þeirra næsta nágrenni þá, voilá, það má skoða persónulegu gögnin til að „útiloka sekt“ viðkomandi.

      Sérðu ekki, Gísli, að þessi rannsóknaraðferð felur í raun í sér að allir farsímaeigendur í radíus við nauðgunina eru álitnir sekir. Sekir þar til búið er að sanna sakleysi þeirra með því að rjúfa friðhelgi einkalífsins!

      Og sem smá hugsunaræfingu skaltu velta fyrir þér hvort að stærð og eðli glæpsins skiptir mál um hvort má rúlla yfir grundvallarfrelsi einstaklinganna. Er eðlilegt að suspenda réttindi allra nærstadda ef einhver stelur dagblaði frá nágrannanum? Má rýna í farsímagögn allra á sendisviði sama masturs ef maður er laminn í höfuðið? En ef rannsakendur telja hryðjuerkaárás yfirvofandi -eru þá rannsóknarheimildir eins og veitt eru í lögum á borð við Patriot Act í fínu lagi og hunky-dory? Eiga einar reglur um frelsi fólks og réttindi að gilda um brot af einu tagi en aðrar reglur að gilda um brot sem fá flest fólk til að krauma af bræði og hneykslan?

      Það er hörmulegt að ungri stúlku hafi verið nauðgað, en það væri ennþá hörmulegra ef glæpurinn yrði til þess að rýra friðhelgi allra borgaranna til einkalífs.

  7. Vísun mín í skóginn og trén var til að ítreka að hér er um afar afmarkað tilfelli og tíma, þ.e. 10 mínútna tímabil að morgni (ég gef mér að þetta séu ekki mörg símanúmer sem koma til greina). Ég sé ekki hvernig þessi afmarkaða heimild opni á það sem þú lýsir um almennar birtingar farsímagagna, póstfanga og sendenda. Ég hef áður varað við oftúlkunum og geri það aftur.Dæmin þín um dagblað nágrannans og barsmíð í höfuð eiga ekki við. Komdu með annað afmarkað dæmi og notaðu .það frekar.
    Það er rétt hjá þér að þeir sem voru nálægt mastrinu á þessu stutta tímabili liggja undir grun. Væri ég í þeirra hópi myndi ég hafa frumkvæði að birtingu minnar notkunar. Ég efast ekki um að fleiri myndu gera það.

    • Þú ert ekki að fatta þetta Gísli.

      Það er sama hvort lögreglan vill skoða farsímanotkun á 10 mínútna tímabili, 10 sekúndna tímabili eða 10 ára tímabili. Prinsippið er það sama. Þú annað hvort nýtur verndar einkalífs eða ekki.

      Og það er ekki réttarríki að hópur fóks sé höndlaður eins og grunaðir menn fyrir það að hafa verið staddir í næsta nágrenni þegar glæpur var framinn. Það gildir einu hvort glæpurinn var stór eða smár, léttvægur eða ógeðfelldur.

      Værir þú í nágrenni við mastrið þá hefðirðu fullt frelsi til að taka frumkvæði um að birta umrædd gögn, en öðru fólki á svæðinu ber hvorki lagaleg né siðferðisleg skylda til þess sama, né hefur ríkið lögmæta ástæðu til að sækja slík gögn með valdi.

      Í greininni og kommentunum er fólki tíðrætt um réttlæti. Enginn virðist nenna að velta fyrir sér hvernig réttlætið snýr að frelsi og grundvallarmannréttindum hins almenna þjóðhátíðargestar.

      En það er reyndar ekkert nýtt hjá feministum að þjást af algörri tunnel-vision, missa alla getu til að skoða víðari myndina, þegar kynferðisglæpamál eru annars vegar.

      Það er reyndar alveg nýr vinkill að ekki bara sá grunaði álitinn sekur þar til annað er sannað, heldur núna einnig allir þeir sem slysuðust til að vera í mastursfæri við verknaðinn.

      Vont er ykkar réttlæti.

      • Mér finnst þetta óþarflega heiftúðugt svar. Þú getur ekki ætlast til að vera tekinn alvarlega þegar þú ert ókurteis, alhæfir um fjölbreyttan hóp fólks (femínista) og kemur ekki einu sinni fram undir nafni.

      • Helga, þér er velkomið að móðgast fyrir hönd feminista. Ef þér þykir þetta heiftúðug skrif þá veit ég ekki hvernig nokkur maður á að get átt í samtali við þig án þess að þú takir eitthvað nærri þér.

        Mig grunar að það séu seinustu málsgreinarnar sem þér þykja heiftúðlegastar. Ég býð þér að leiðrétta misskilninginn hjá mér ef það er ekki rétt að tvö ráðandi stef í umræðu íslenskra feminista er a) öfug sönnunarbyrði í nauðgunarmálum og b) að sjálfráða fullorðnu fólki eigi að refsa fyrir að kaupa og selja aðgang að eigin líkama. Að kalla þessi tíðræddustu stefnumál rörsýni er frekar pent orðað.

        (Ég veit, auðvitað, að þú hefur aldrei á lífsleiðinni alhæft nokkurn hlut um fjölbreyttan hóp fólks)

        Ef þér þykir, annars, ekki mark takandi á því sem sett er fram nafnlaust, þá væntanlega gefurðu frat í fyrirbæri eins og Anonymous hreyfinguna, uppljóstrarastarf Wikileaks, og hefðir fúlsað við ritinu Common Sense ef þú hefðir verið uppi 1776. Þú ert væntanlega til í að afskrifa í leiðinni þann áhugaverða nafnlausa hóp Stóru systur.

        Ef þér þykir ekki mark takandi á þeim sem tala ekki eintóma bómull þannig að einhver lætur styggjast og særast, þá væntanlega þykir þér lítið varið í það sem menn á borð við Christopher Hitchens, nú eða klikkhausinn Valerie Solanas hafa haft til málanna að leggja, svo aðeins séu tekin tvö dæmi.

      • Kæri „Al“ – Helga svarar þér ef hún kýs að gera það en ég tek fúslega að mér, eins og þú hálfpartinn baðst um, að leiðrétta þig: já, það er mikill misskilningur að tvö „ráðandi stef“ í umræðu um jafnréttismál séu (krafan um?) annars vegar öfug sönnunarbyrði og hins vegar „að sjálfráða fullorðnu fólki eigi að refsa fyrir að kaupa og selja aðgang að eigin líkama“.

        Um hið fyrra: Það kann að vera að einhver hafi einhvern tíma, einhvers staðar harmað að sönnunarbyrði gæti ekki í einhverjum ímynduðum aðstæðum barasta verið öfug. Hitt er ljóst að 99% allra femínista, rétt eins og 99% af flestu fólki, gengur út frá því að fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð. Það breytir því ekki að mörgum þykir sönnunarbyrði ákæruvaldsins í kynferðisbrotamálum ansi mikil og þung og telja hægt að gera sitthvað til að fjölga málum sem fara alla leið fyrir dóm. Það er himinn og haf á milli þeirrar afstöðu og þess að krefjast öfugrar sönnunarbyrði.

        Um hið síðara: Það er ekki hægt að kaupa aðgang að eigin líkama og ég hef aldrei hitt, heyrt, séð eða lesið neinn femínista sem vill gera vændisSÖLU refsiverða – nema þá fyrir milligöngumanneskjuna eða dólginn. EKKI fyrir vændiskonuna/karlinn. Að vilja gera KAUP á vændi refsiverð, eins og nú er, snýst um að gera kaupandann ábyrgan fyrir því sem lögin túlka sem misnotkun á annarri manneskju og ganga um leið út frá því að það séu miklar líkur á því að viðkomandi manneskja (karl eða kona) noti vændi sem neyðarúrræði. Um þetta má vel deila og um þetta er deilt, en feminíistar eru í það minnsta almennt sammála um að sá glæpur sem að margra mati felst í vændiskaupum eigi að vera kaupandans en aldrei seljandans.

        Góðar stundir!

      • Halla:

        Um hið fyrra: Ég reikna ekki með að fundargestir hafi beinlínis púað þegar Gyða Pétursdóttir flutti eftirfarandi ávarp á stofnfundi Feministafélagsins.

        http://www.feministinn.is/anno2003/stofnfundur/gyda-stofnfundur.htm

        Taktu sérstaklega eftir partinum þar sem hún talar fyrir múgofbeldi gegn manni sem /sakaður/ er um nauðgun.

        Þú veist mæta vel það væri ekki erfitt verk að safna saman af netinu alls kyns skrifum í sama dúr eftir leiðandi/áberandi feminista á Íslandi þar sem mælt er fyrir ótrúlegustu afbökunum og tilslökunum á eðlilegri og réttlátri málsmeðferð í nauðgunarmálum -jafnvel að því marki að snúa sönnunarbyrðinni við.

        Um hið síðara: hamagangur íslenskra feminista gegn vændi, keyptu eða seldu, einkennist af svakalegri rörsýni, blindu á raunverulegar afleiðingar hinna ýmsu „lausna“ sem settar eru fram og algjörrar hundsunar á frelsi einstaklingsins (kaupanda jafnt sem seljanda) til að fá að ráða yfir eigin líkama og stýra eigin gjörðum. Birtist rörsýnin m.a. í því að það má yfirleitt ekki hvísla eitt orð til varnar vændi án þess að viðkomandi sé vændur um að styðja mansal, nauðganir á konum og börnum, og ég veit ekki hvað.

        Greinin hér að ofan, kommentin fyrir neðan, og meðaltónninn í umræðu íslenskra feminista vitnar svo um að þar tjáir sig fólk sem hefur ofboðslega bjagaðan, eða í besta falli mjög grunnan skilning á hugtökum eins og frelsi og mannréttindum. Þar tjá sig pjúrítanar, sem þykir heimurinn ekki geta beðið stundinni lengur eftir að láta þröngva upp á sig þeirra hugmyndum um rétt siðgæði.

      • Sá sem hefur ekkert að fela, hefur ekkert að fela. Lögreglan má fá leyfi til að gera hvað sem hún vill, eins lengi og hún brýtur ekki á vilja mínum. Ekki brýtur hún á vilja mínum með að fá að skoða skilaboðin mín, íbúðina mína, netið mitt, símann minn o.s.frv. í heiðarlegum tilgangi, ef ég hef ekkert að fela. Af hverju ætti mér að líða illa yfir því ef ég hef ekkert að fela?

      • Vááá Alexander. Þú hlýtur að vera alveg svaka hress með stjórnvöld í Kína. Þú hlýtur að syrgja liðna tíð þegar þú lest um njósnaríki Stasi og KGB. Þú hefur væntanlega lagt 1984 frá þér að lestri loknum og sagt „en sniðugt!“.

        Ég veit eiginlega ekki hvar ég að byrja. Grunar helst að þú sért að trollast -ef ekki, þá ertu með pathológíska oftrú á góðum og einlægum ásetningi stjórnvalda, og gjörsamlega naíf á mannkynssöguna þessi síðustu 250 árin eða svo.

        Ég gæti byrjað á að fræða þig um að lögin, og þá sérstaklega grundvallarlög um friðhelgi einkalífs og eðlilega málsmeðferð, eiga að vera þannig skrifuð að einstaklingurinn búi við sömu vernd hvort sem við stjórnvölin eru vondir eða góðir menn. Það má vel vera að þú haldir að núna sitji algjörir englar í hverju embætti en þú vilt að umgjörðin um verk stjórnvalda sé þannig að þú þurfir ekkert að óttast þó óbermi eins og ég komist til valda. -Mundu að allar líkur eru á að reglulega rati í embætti og jafnvel ráðherrastól fólk sem þú myndir hreint alls ekki vilja fá inn á teppi hjá þér sísvona.

        Kannski ertu að gerast sekur um þá villu að upplifa samfélagið sem velmegandi góðborgari, af réttu kyni, réttu litarhafti, og réttri samfélagsstöðu til að enginn hafi á þér illan bifur. En hvað þætti þér um svona brjálæðislega víðar rannsóknarheimildir, eins og þú mælir fyrir, ef þú værir t.d. latínó í suðurhluta Los Angeles? Eða ef þú værir kvenréttindasinni í Kairó? Eða svertingi í Fíladelfíu? Eða hassreykingamaður í Singapúr? Eða arabi í Jerúsalem?

        „Af hverju ætti mér að líða illa yfir því ef ég hef ekkert að fela?“

        – Vegna þess að ruðst er inn á einkasvæði þitt og ókunnugir hnýsast í þínum persónulegustu gögnum.
        – Vegna þess að með þig (og alla sem þér er kært um) er farið eins og þú sért sekur, þar til stjórnvöld hafa leitað af sér allan grun.
        – Vegna þess að friðhelgi til einkalífsins myndar verndarhjúp utan um eignarréttinn, tjáningarfrelsið, skoðanafrelsið, trúfrelsið

        Reynum að setja þessa síðustu viskuperlu þína í samhengi við nokkur önnur grundvallarmannréttindi, og sjáum hvort það kviknar þá á perunni:

        – Af hverju ætti ég að vera hlynntur trúfrelsi ef ég trúi hvort eð er á ríkistrúna?
        – Af hvejru ætti ég að vera hlynntur leynilegum kosningum ef ég kýs hvort eð er ráðandi flokk?
        – Af hverju ætti ég að vera hlynntur tjáningarfrelsi ef ég er hvort eð er sammála ráðamönnunum um alla hluti?

      • Takk fyrir frábær skrif. Gleymdirðu samt að gefa þér það að ég þyrfti að sjálfsögðu að gefa leyfi fyrir takmörkuðu hnýsninni? Af hverju ætti ég ekki að gera það?

      • Alexander: Það mátti ekki skilja af innskoti þínu að þú ættir við það tilvik að þú veitir persónulega leyfi fyrir að friðhelgi þíns einkalífs væri rofin. Ég gat ekki skilið textann öðruvísi en þér þætti léttvægt að friðhelgi einkalífs þíns væri rofin ef þú hefðir ekkert gert, og ásetningur rannsakandans væri góður.

        Og í sjálfu sér er þér alveg guðvelkomið að hleypa stjórnvöldum, eða í raun hverjum sem er, í þín einkagögn og inn á þitt einkasvæði.

        Sumir myndu þó meina að þú tryggir réttindi þín best með því að iðka þau. Sumir myndu meina að ef þú ert alsaklaus þá beri þér, ef eitthvað er, ríkari siðferðisleg skylda til að standa vörð um eigin friðhelgi. Annars ertu að skapa óeðlilegan og óæskilegan félagslegan þrýsting á aðra saklausa einstaklinga að fella niður eigin friðhelgi, og eins að auka á sektarstimpilinn á þeim saklausu einstaklingum sem velja áfram að verja friðhelgi eigin einkalífs með kjafti og klóm.

        Sumir myndu segja að ef við stöndum ekki staðfastlega vörð um réttindi okkar þegar lítið er í húfi, þá verður ennþá erfiðara að standa vörð um þau þegar mikið er í húfi.

        Sumir myndu segja að ef þú afsalar þér grundvallarrétitndum þínum nógu oft, þá getirðu hreinlega misst þau. Ef t.d. þú hleypir lögreglunni þrisvar inn til þín án leitarheimildar, gæti þá lögreglan í fjórða skiptið haldið því fram að hefð hefði myndast og vaðið inn á þig hvort sem þú hefðir veitt samþykki eður ei?

  8. Það er sjálfsagt rétt að ég skil þetta ekki á sama hátt og þú. Mér finnst þú oftúlka þetta og misskilja en það er bara mín skoðun. Mér dettur samt ekki í hug að væna þig um rörsýni, hvað þá að láta alhæfingar fylgja eins og þú gerir, sem eru frekar upplýsandi. Þar með er loku fyrir það skotið að ég nenni að ræða þetta frekar.Haf þú þína skoðun. Hún er sjálfsagt góð fyrir sinn hatt.

  9. Ef það myndi auka líkurnar á því að nauðgari táningsstúlku yrði handsamaður að þá mættu þeir skoða símagögn mín síðasta árið, ef það myndi hjálpa.

    Það þarf að ná þessum predator og ég skil ekki afhverju Síminn getur ekki unnið í sameiningu með lögreglu til að hafa hendur í hári hans.

    Mér þætti fróðlegt að vita hvort þeir sem hér tjá sig gegn þessu í athugasemdakerfinu væru sömu skoðunnar ef um dóttur þeirra eða systur væri að ræða.

    Hér er ekki verið að sækjast eftir því að hnýsast í einkasímtöl eða önnur persónuleg gögn. Aðeins sjá símanúmer sem hringt var í á nokkra mínútna tímabili, til að ná nauðgara.

  10. Og ef ég má bæta við. Að þegar um fíkniefnamál er að ræða að þá virðist vera í góðu lagi að hlera fleiri símanúmer vikum og mánuðum saman. En hér er kallað eftir símanúmeranotkun á afmörkuðu svæði á 10 mínútna tímabili í tilraun til þess að ná nauðgara og Hæstiréttur fellir dóm Héraðsdóms úr gildi sem hafði gefið þau tilmæli að fyrirtækið Síminn afhendi gögnin.
    Ég er hissa á þessu… vægast sagt.
    .

    • Þórir: þegar lögreglan fær heimild til hlerana þá beinast hleranirnar að tilteknum einstaklingum sem liggja undir grun. Gerð er rík krafa um að grunurinn sé á rökum reistur og hlerunarheimildin bundin við símasamskipti þessara tilteknu einstaklinga.

      Það er allt annað en að hleypa lögreglu í símagögn þúsunda manna sem ekki liggja undir grun fyrir nokkurn glæp.

      Þú einfaldlega sviptir ekki fólk grundvallarfrelsi, réttindum og lögmætri málsmeðferð til þess eins að finna einn skúrk í þvögunni!

      „Mér þætti fróðlegt að vita hvort þeir sem hér tjá sig gegn þessu í athugasemdakerfinu væru sömu skoðunnar ef um dóttur þeirra eða systur væri að ræða.“

      – Frelsi einstaklingsins og rannsóknarheimildir ríkisins eru einmitt þess vegna bundnar í reglur og ekki háðar geðþóttaákvörðunum og geðshræringu augnabliksins. Þegar kemur að frelsum okkar og mannréttindum eru ríkari langtímahagsmunir samfélagsins alls í húfi. Ef þú byðir ættingjum fórnarlamba morðingja eða nauðgara að ráða reglunum utan um viðkomandi rannsókn er ég hræddur um að þú fengir heldur betur ógeðfellt kerfi og óskemmtileg vinnubrögð.

      Mig grunar að höfundur greinarinnar, og kommentararnir, hafi bæði mjög takmarkaðan skilning á mikilvægi þess að verja með kjafti og klóm þau frelsi og mannréttindi sem við njótum, og séu einnig að láta tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur.

      Það er einfaldlega þannig að suma ógeðslega glæpi er ekki hægt að upplýsa, því til þess þyrfti að fremja enn ógeðslegra og alvarlegra brot á frelsi og mannréttindum borgaranna.

  11. Þótt AI, nafnlaus höfundur athugasemda, vegi hér hraustlega í skjóli nafnleysis að höfundi þessarar greinar og öðrum sem tjá sig og væni þá um skilningsleysi, stendur ekki til af minni hálfu að leggjast jafn lágt. En sá sem heldur því fram að…. „tvö ráðandi stef í umræðu íslenskra feminista er a) öfug sönnunarbyrði í nauðgunarmálum og b) að sjálfráða fullorðnu fólki eigi að refsa fyrir að kaupa og selja aðgang að eigin líkama… “ hefur greinilega lesið yfir sig af pistlum Evu Hauksdóttur um þetta efni, eða er hún sjálf.

    Um efni þessa pistils ræði ég fúslega við hvern sem er, á málefnalegum grundvelli, en nenni satt að segja ekki að fara út um jafn víðan völl og AI reynir hér að ofan. Þessar fullyrðingar um öfuga sönnunarbyrði eru orðnar svo snjáðar að þær halda vart vatni og er tilvalið að ræða á réttum vettvangi.

    • En það hefur verið talað um að slaka á sönnunarbyrði, sbr. http://i.imgur.com/4kJaF.jpg

      Þetta er tvímælalaust daður við að slaka á sönnunarbyrði, og það er svo ótrúlega auðveld slippery slope beina leið í öfuga sönnunarbyrði.

      Annars þá hefur hann ekki verið nærrum því jafn „heiftúðlegur“ og fólk ásakar „AI“ um. Hann er óvæginn, og umræða í kringum feminista hefur haft þessi tvö stef þó hún vissulega hafi önnur líka; ólögmæt kaup á lögmætri sölu (ótrúleg röksemd) og slökun á sönnunarbyrði. Jafnvel daður um að byrja umræðu um öðruvísi sönnunarbyrði er fíll að stærð.

      En það er ekki hans megin atriði sem hann talar um, það er persónufrelsið. Og sama hvort hann hafi rangt fyrir sér með feminista, vændi og/eða sönnunarbyrði, þá er bara ekki aðra skoðun hægt að hafa en að hann hafi rétt fyrir sér um einkalíf persónunar.

      Það er hryllingur að stúlkunni hafi verið nauðgað, en sama hver glæpurinn er þá skal aldrei fórna frelsi eða mannréttindum. Það gefst illa, í hvert einasta sinn.

      • Ég myndi segja enginn skaði skeður, ef báðir aðilar gefa leyfi. Eins og sést á umræðum okkar AI hér ofar.

      • Hvernig er verið að fórna frelsi og mannréttindum ef það er skoðað, vegna nauðgunarrannsóknar, hverjir hringdu á einhverju 10 mínútna tímabili á einhverjum afmörkuðum stað? Ég myndi segja að það væri nauðsynlegt vegna rannsóknarinnar. Ogh mér finnst ansi kaldranalegt af þér að ýta þessari nauðgun bara svona til hliðar. Svona „já já það er hrikalegt að stúlku hafi verið nauðgað EN……..“.

Skildu eftir svar við AI Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.