Athugasemdir við „Þú skalt ekki – samtal um listaverk, meinta femíníska byltingu og anarkisma“

Höfundar: Nanna Hlín Halldórsdóttir og Finnur Guðmundarson Olguson

Okkur þykir leitt að hafa ekki náð að sjá myndlistarsýningu Steinunnar Gunnlaugsdóttur, Hildar Hákonardóttur og Óskar Vilhjálmsdóttur síðan í vor, því við heyrðum vel látið af henni. Ennfremur þykir okkur afar hressandi að list fjalli um samfélagsleg og pólitísk málefni, pólitísk í víðum skilningi þess orðs. Þess vegna var áhugavert að fá innsýn í sýninguna og það sem bjó að baki henni með niðurrituðu samtali Steinunnar og Snorra Páls Jónssonar Úlfhildarsonar sem birtist á netinu fyrir skömmu. Engu að síður viljum við varpa fram nokkrum spurningum um efnistök samtalsins og þá aðallega hugmyndir og röksemdir um vændi og femínisma.

Í grófum dráttum vörpum við fram efasemdum um að sá mannskilningur sem kemur þar fram, sem er að mestu byggður á anarkískum viðhorfum til frelsis einstaklingsins og er settur fram sem gagnrýni á það sem Steinunn og Snorri kalla „móralisma“ eða ríkjandi siðferðisnorm, nái að gera raunverulegum aðstæðum fólks í kynlífssölu í dag góð skil. Ennfremur að þessi mannskilningur geri ekki ráð fyrir ólíkum styrk gerenda í hvers kyns valdatengslum og þá aðallega í samhengi kynlífssölu; hvernig sumar manneskjur eru undirokaðar/kúgaðar (hvort sem við köllum þær fórnarlömb eður ei) á meðan aðrar hafa dómínerandi stöðu í aðstæðum kynlífssölu í dag.

Okkur virðist sýn Snorra og Steinunnar á vændi að einhverju leyti rugla saman hugmyndinni um vændi í prinsippinu og hinum fjölbreyttu aðstæðum vændis í dag. Okkur þykir vændishugtak þeirra frekar abstrakt og minnir að því leyti mjög á það hvernig flóknir hlutir eins og vændi eru skilgreindir í lagatextum. Ennfremur þykir okkur nokkuð á skjön að í samtalinu sé hvers kyns smættun fólks í söluvöru fordæmd, en að gagnrýnendur vændis séu í sömu andrá fordæmdir fyrir að gagnrýna vændi út frá einmitt þeim forsendum.

Auk þess þykir okkur þau dæmi sem tekin eru um hina femínísku byltingu mjög einsleit, þegar það eru í raun mörg ólík viðhorf sem takast á innan femínisma og í allri jafnréttisumræðu í dag. Dæmin einblína á eina baráttuaðferð femínista, þeirri að beita tækjum og tólum ríkisvaldsins í baráttunni gegn ójöfnuði (með lögum, refsingum, kynjakvótum). En er ekki meira ráðandi viðleitni innan femínisma í dag að greina þá menningu sem viðgengst í samfélaginu og hvernig hún er mótuð af stofnunum samfélagsins, þau norm sem hylma yfir dulinn ójöfnuð, og reyna í greiningu sinni að standa utan lagabákna og stofnana?

Að lokum gerum við athugasemd við þann stíl sem Snorri ritar samtalið í sem okkur þykir vera í kaldhæðnislegri mótsögn við þær kenningar sem boðaðar eru innan þess. Stíllinn virðist okkur mjög undir áhrifum stofnanavæddrar, akademískrar listfræði og ekki vera í neinum tengslum við raunverulegt samtal. Það form sem valið hefur verið textanum byggir á orðanotkun og rökræðubrögðum sem er ein birtingarmynd félagslegs stigveldis í hag þess sem kann að vefja orðum og hugtökum um fingur sér og hörmum það að við séum líklegast að svara í sömu mynt í þessum texta.

Við viljum kafa aðeins dýpra í þessar athugasemdir og rökstyðja okkar mótbárur, en vonum að þær verði ekki notaðar sem tæmandi úttekt á samtali Snorra og Steinunnar, sem var í marga staði áhugavert og skemmtilegt aflestrar.

Allt dregið í efa

Það fyrsta sem stingur í stúf þegar rýnt er í samtalið er hvernig ákveðnar skoðanir eru kæruleysislega dregnar í efa og gerðar tortryggilegar án þess að vísað sé til þess sem við vitum um staðreyndir, til að mynda um tengsl mansals og vændis. Þessi tengsl er nauðsynlegt fyrir Snorra og Steinunni að véfengja þar sem erfitt er að halda uppi vörnum fyrir kynlífssöluiðnaðinn án þess að gera ráð fyrir að þeir einstaklingar sem ganga kaupum og sölum geri það af fúsum og frjálsum vilja. Á þann hátt er hægt að fordæma mansal (sem er reyndar einnig mórölsk afstaða) en fagna frelsi fólks til að kaupa og selja aðgang að líkömum, eins og þetta tvennt sé í raun bara lauslega tengt. Það athugaverða við þessa afstöðu er að hún byggist að engu leyti á staðreyndum. Snorri og Steinunn sjá sér ekki fært að vísa í neinar rannsóknir, samtöl, atburði eða tölfræði máli sínu til stuðnings, enda eflaust auðvelt að afskrifa allt slíkt sem áróður stofnanavaldsins og fjölmiðla.

Önnur röksemd af sama meiði er sú að höfundar setja samasemmerki milli vændis og hverrar annarrar launavinnu (til að mynda að klippa hár) á þeim forsendum að þetta tvennt fylgi sömu strúktúrum, það er að segja að hvað svo sem við vinnum við séum við í raun neydd til þess svo við getum haldið okkur á lífi. Þetta er greining á launavinnu sem við undirrituð getum í sjálfu sér fullkomlega kvittað upp á; að vinnuafl okkar og tími séu söluvörur innan markaðssamfélagsins sem við höfum ekkert val yfir hvort við seljum, ef við viljum yfirhöfuð halda í okkur lífinu. Hins vegar hljómar það hjákátlega að halda því fram að valmöguleikarnir á „atvinnugreinum“ sem þeirri að klippa hár og þeirri að selja aðgang að líkama sínum sé eins og að velja sér á pulsu. Það er með öðrum orðum munur á því hvernig við neyðumst til að selja okkur og því ráða hlutir eins og mismunandi félagslegar og efnahagslegar aðstæður fólks, en það er einmitt annar punktur sem Snorri og Steinunn neyðast til að hundsa eða gera lítið úr til að réttlæting þeirra gangi upp. Og viti menn, það er nákvæmlega það sem kemur næst; án allra tilvísana og raunverulegra raka er því haldið fram að allt of mikið sé gert úr neyð og eymd þeirra sem stunda vændi og það sé nú eiginlega ekki hægt að fullyrða neitt um að þau geri það ekki af fúsum og frjálsum vilja.

Er kreddukennd afstaða lýsandi fyrir femínisma í dag?

Með þessu orðalagi og stílbragði eru það þeir sem hafa raunverulega byggt afstöðu sína á rannsóknum á aðstæðum þeirra sem stunda vændi sem eru gerðir tortryggilegir, teprur og úr tengslum við raunveruleikann. Það er þetta fólk sem gerir sig að kúgurunum með því að gera ráð fyrir að fæstir kjósi það sem fyrsta, annan, þriðja eða fjórða valkost að selja líkama sinn kynferðislega. Andstöðu við réttlætingu vændis í raunheiminum í dag telja Snorri og Steinunn „furðulega“ og hljóti að fela í sér vandlætingu á manneskjunum sjálfum sem eru í vændi; að okkur sem tökum afstöðu gegn vændi finnist vændisfólk að einhverju leyti fyrirlitlegt eða óæðra okkur þar eð við fordæmum viðskiptin. Í raun er það þessi meinta vandlæting sem Steinunn og Snorri vilja meina að sé undirstaða þeirrar „femínísku bylgju“ sem hefur gagnrýnt vændi. Steinunn rökstyður (reyndar blússandi vel) að þessi vandlæting sé nátengd trúarlegum móralisma sem gengur út á setja fólki algildar siðferðisreglur að viðlögðum refsingum með tilvísun til einhvers æðra. Tengsl femínismans og móralismans kristallist í því að háværasta krafan sé sú að allir fari að þeim lögum sem ríkisvaldið hefur sett.

Nú getur vel verið að einhvers staðar fyrirfinnist fólk sem prédikar svo kreddukennda afstöðu til vændis, innan og utan femínískra hópa, en að ganga út frá því að það sé grundvöllur gagnrýni femínismans að vísa til trúarlegs móralisma er gjörsamlega úr tengslum við upplifun okkar undirritaðra, afstöðu okkar sjálfra og okkar nánustu. Að tala um að „innan þessarar femínísku bylgju örl[i] ekki á greiningu og gagnrýni á sjálfa lögreglustofnunina, eftirlitssamfélagið, fangelsin“ er í fyrsta lagi rangt, í öðru lagi rangt og í þriðja lagi rangt.

Það hefur einmitt verið þessi bylgja sem hefur boðið upp á hvað öflugasta greiningu á því hvernig ójöfnum valdatengslum hópa innan samfélagsins er beinlínis viðhaldið af ríkisvaldinu og stofnunum þess, til að mynda með því að leggja blessun sína yfir efnahagslega neyð eða hylma yfir með raunverulegum gerendum ofbeldis (sem Snorri og Steinunn virðast þó ekki trúa að eigi sér stað innan vændisheimsins). Hún hefur líka gengið lengra og lagt til ýmiss konar greiningu á því hvernig félagsmótun ráði afstöðu okkar til kynlífs, vændis, kvenleika og karlleika og svo framvegis. En öll þessi greining og gagnrýni er, ef tekið er mið af samtali Snorra og Steinunnar, ekki til.

Helstu gagnrýni þeirra er í raun beint að mjög afmarkaðri umræðu um vændi sem byggist á að réttlætanlegt sé að nýta sér stofnanir yfirvaldsins til að koma á eftirliti með þeim sem fylgja ekki lagasetningum og refsa þeim innan ramma réttarkerfisins, komist það upp. Þess konar aðferðir geta Snorri og Steinunn eðlilega ekki kvittað upp á, enda eru eftirlitssamfélag, sterkt lögregluvald og harðar refsingar fyrirbæri sem margir gjalda varhug við, hvar svo sem þeir standa í stjórnmálum, og af gildum ástæðum. Það sem við undirrituð getum þó ekki samþykkt er að þetta viðhorf, sem einhver dæmi má sannarlega finna um, sé gert að einhvers konar mottói femínískrar baráttu í dag og lýsandi fyrir skoðanir allra sem eru í andstöðu við vændiskaup, eins og Snorri og Steinunn virðast halda.

Þó að umræðan um það hvort algildar lagasetningar séu réttlætanlegar sé vissulega áhugaverð og kannski að einhverju leyti ástæða, eða að minnsta kosti átylla, skoðanaágreinings undirritaðra og Snorra og Steinunnar, er í hæsta máta varhugavert að afskrifa allan málflutning allra þeirra sem íhugað hafa að nota ríkisvaldið sem tól í baráttu fyrir hugsjónum. Ekki aðeins vegna þess að það útilokar skoðanaskipti ólíkra hópa, heldur vegna þess að það er í hrópandi mótsögn við meinta níhilíska afstöðu Steinunnar sem fordæmir hugmyndina um hið algilda boðorð: „Þú skalt ekki.“ Skilaboðin eru nefnilega: Þú skalt ekki vera ósammála okkur um tvö eða þrjú atriði því þá afskrifum við allt sem þú hefur fram að færa. Og það er móralskt yfirlæti.

Nokkur orð um níhílisma

Reyndar finnst okkur Steinunn bera á borð sýn á níhílisma í siðferði sem kemur ekki alveg heim og saman við okkar. Við erum þó sennilega sammála um margt; heimurinn er níhíliskur, ekkert æðra, guðlegt yfirvald hefur umsjón með refsingum og umbun og þar af leiðandi er siðferði ekki fasti sem er að finna í náttúrunni eða „eðli“ okkar. Steinunn virðist þó leiða af því að þá sé í raun enginn grundvöllur til að fordæma gjörðir manna, til að mynda vændiskaup og vændissölu, fyrst menn geti ekki vísað í æðri siðaboðskap sér til stuðnings. Þar skilur leiðir með okkur, því að okkar mati er ekki þar með sagt að manneskjur geti ekki fellt dóma og skapað einstaklingsbundið gildismat byggt á upplifun og staðreyndum, með rætur í tilfinningum, án þess að gerast sekar um móralisma.

Í raun og veru kemst enginn hjá því að skapa sér gildi og bæði Snorri og Steinunn fella dóma og boða ákveðin gildi út allt samtalið, því er ómögulegt að neita. Það er einnig það sem við undirrituð gerum þegar kemur að vændi, og það er engin ástæða til að ætla að við fellum frekar dóma byggða á trúarlegum hugmyndum um óhreinleika og synd heldur en Snorri og Steinunn. Vissulega er hægt að fella dóma á þeim skrumskældu forsendum og margt í íslensku samfélagi hefur kristnari rætur en flestir gera sér grein fyrir, en það er hvorki hægt að yfirfæra það á alla femínísku baráttuna, né heldur nota neikvæða trúarlega afstöðu til vændis sem rök fyrir jákvæðri persónulegri afstöðu til vændis.

Grundvallarpunktur í greiningu Steinunnar og Snorra er „anarkísk“ gagnrýni á stigveldi, stofnanir og yfirvald og þar skilur eðlilega á milli þeirra og margra andstæðinga þeirra í þessu máli. Þar er margt sem í okkar augum hittir naglann fullkomlega á höfuðið en annað sem orkar tvímælis og virðist beinlínis vera mótsögn. Hvernig er til dæmis hægt að fordæma kapítalíska launavinnu og halda því fram að vændi sé nákvæmlega sömu lögmálum ofurselt í sömu grein og færð eru rök fyrir því að ekki sé nauðsynlegt að gagnrýna vændi eins og við þekkjum það í dag? Hvernig er hægt að boða nokkurs konar siðferðislega afstæðishyggju í sömu andrá og boðuð er afstaða sem byggist á mannvirðingu, frelsi einstaklingsins og réttlæti? Er það ekki siðferðisleg afstaða? Getur hún verið afstæð eftir hentugleika?

Það er hressandi að takast á um þessi málefni vegna þess að þau skipta máli. Í samfélagi verðum við að fást við erfið mál og vera sífellt vakandi fyrir nýjum formum kúgandi valdasamskipta, nýjum formum ójöfnuðar, nýjum formum græðgi. Á sama tíma er sjálfskoðun og afbæling stöðugt verkefni, verkefni sem við vinnum í sameiningu þar sem oft þarf einhvern annan til að benda á ómeðvitaða þætti sálarlífsins. En í þá afstöðu til frelsis einstaklingsins sem Snorri og Steinunn aðhyllast sem og þann „rétt“ einstaklingsins að gera hvað sem er við líkama sinn, þar á meðal selja hann kynferðislega, skortir að okkar mati að taka með í reikninginn það sem við gerum og eigum sameiginlega. Sérstaklega samhjálp og hvernig skuli tækla það vandamál að sumir eru berskjaldaðri en aðrir. Steinunn gerir tilraun í þá átt þegar hún talar um sameiginlega virðingu, en á sama tíma gagnrýna hún og Snorri með öllu það sem byggist á almennu samkomulagimanna á milli, eins og má sjá af fordæmingu þeirra á hvers kyns „samfélagssáttmálum“. Þá á maður nokkuð erfitt með að ímynda sér hvernig allir þessir frjálsu einstaklingar geti átt samneyti og unnið í sameiningu gegn þjáningunum sem svo auðveldlega vilja spretta upp í heiminum, hvort sem það er í samfélagi manna eða innra með fólki. Að halda að slíkt gerist af sjálfu sér er ídealískt. Og afstaða fólks til flókinna fyrirbæra eins og vændis má ekki verða ídealísk heldur grundvölluð á staðreyndum, raunverulegum aðstæðum og raunverulegum tilfinningum fólks.

9 athugasemdir við “Athugasemdir við „Þú skalt ekki – samtal um listaverk, meinta femíníska byltingu og anarkisma“

 1. Frábært svar. Tæklar nákvæmlega allt sem var að greininni þeirra.

  Ég er mikið búinn að vera velta fyrir mér afstöðu þeirra, og sérstaklega þessu: „Hvernig er til dæmis hægt að fordæma kapítalíska launavinnu og halda því fram að vændi sé nákvæmlega sömu lögmálum ofurselt í sömu grein og færð eru rök fyrir því að ekki sé nauðsynlegt að gagnrýna vændi eins og við þekkjum það í dag?“

  • Sammála Jóni. Þar fyrir utan vitum við að það er vandfundinn sá iðnaður innan kapítalismans sem er tengdari spillingu, og glæpastarfsemi en kynlífsiðnaðurinn. Að láta eins og vændi sé einhverskonar útópískt for-kapítalískt cottage-industry þar sem sjálfstæðir verkamenn sem eiga eigin framleiðslutæki (bókstaflega líkama sinn) selja vinnu sína á jafnréttisgrundvelli er í besta falli barnalegur ídealismi.
   Þar fyrir utan gleymist gersamlega í hinni anarkísku og siðferðilega níhílísku gagnrýni að taka með í reikninginn að í vændisviðskiptum er ævinlega hrópandi valdaójafnvægi milli þátttakenda. Seljandinn er undantekningarlaust af lægri stöðu en kaupandinn, sem er oft jafnvel úr æstðu lögum samfélagsins. Fulltrúar og jafnvel handhafar þess valds sem anarkistar eru á móti.
   Ég skil, og get skrifað upp á, hina ídealísku hugmynd að vændi geti verið í lagi ef við upprætum allt valdaójafnvægi og misskiptingu úr samfélaginu. Ef enginn neyðist til að stunda vændi og vændi er ekki tengd samfélagslegri neyð og misbeitingu. En heimurinn er ekki þannig. Raunverulegt vændi er eitthvað allt annað en þessir ídealísku og útópísku gagnrýnisraddir vilja meina.

 2. Ég hef unnið við ýmislegt, t.d. verkamannavinnu, við afgreiðslu á skyndibitastöðum, á skrifstofum og við að selja kynlífsþjónustu.

  Valdaójafnvægið er meira í afgreiðslustörfum en kynlífssölu í minni reynslu, þar var ekki einsdæmi að öskrað væri á mann og aldrei máttu gera annað en að vera kurteis og veita kúnnanum þá þjónustu sem hann bað um. 13 tíma vaktir, skrúbba almenninssalerni, óþægileg föt, þetta var allt frekar niðrandi.

  Frjáls kynlífssali velur sér sína kúnna og semur við þá um hvað fari fram og hvað það kosti. Ég þekki fleira fólk sem hefur svipaða reynslu, og enn annað fólk sem hefur sagst myndi vilja selja kynlíf, ef ekki væri fyrir sterka samfélagslega fordóma gagnvart því. Ef þau væru ekki „hórur“ fyrir vikið.

  Þetta er ekki fólk sem ég leita uppi. Sjálfur hef ég ekki hátt um þessa reynslu mína, ekki því ég skammast mín fyrir hana, heldur vegna viðbragða annars fólks.

  Mansal er allt annar hlutur, og mikilvægt að aðgreina þetta tvennt vel í umræðunni.

  Ég neita því ekki að til er fólk sem beitir kynlífssala ofbeldi, en fordómar/virðingarleysi (sem ég les nokkuð af úr þessari grein hérna að ofan) gagnvart þessari starfsstétt kynda undir það. Það gera vændislögin sömuleiðis, með því að gera þetta allt að einhverju hræðilegu leyndarmáli.

  Megið líka endilega hætta að halda því fram að enginn velji að selja sig, því það er kolrangt; sjálfur prófaði ég þetta í raun ekki því mig vantaði pening, heldur því mig langaði að selja mig.

  Takk, bæ.

 3. Mér finnst þessi grein mjög skrítin. Það er t.d. mikið snúið út úr orðum og viljandi eða óviljandi mistúlkað.

  Í samtali þeirra er t.d. verið að gagnrýna svarthvíta sýn á vændi og þá tilhneigingu að notast við móralska kassa og sleggjudóma í stað þess að viðurkenna hversu flókinn veruleikinn getur verið.
  Hvergi er sagt að vændi sé frábært og allir í því glaðir, heldur einmitt að þar þrífist líka fjölbreyttar tilfinningar, aðstæður og valdatengsl. Samt er látið í þessari grein eins og að þar sé einfaldlega sagt að öllum hórum líði vel.

  Einnig finnst mér skrítið að tala eins og þau séu að beina spjótum sínum að „femínisma“ í heild sinni og þylja svo upp dæmi sem eru á skjön. Í gagnrýni þeirra er einmitt talað um tiltekna bylgju, kreðsu sem mér skyldist að væri Stóra Systir og önnur hugmyndafræðileg systkyni hennar, lauslegan hóp sem sumir myndu kalla yfirvaldssinnaðan arm femínisma.

  Mér finnst að þessi grein Nönnu og Finns missi marks þar sem hún tekst ekki á um það sagt er í samtali Snorra og Steinunnar nema að litlu leiti, restin er árásir á strámenn.
  Mér finnst það frekar sorglegt þar sem ég er sjálfur ósammála sumu í umræddri grein og hefði viljað fá almennilegt debat í gang. Vonandi taka fleiri upp penna.

 4. Bara til að svara í stuttu máli síðustu tveimur athugasemdum þá er það einmitt ekki ætlun okkar að halda því fram að allir sem stundi sölu á kynlífi séu undirokaðir þrælar, enda alhæfum við ekki út frá því. Stóri punkturinn hjá okkur er að það er einmitt ekki heldur hægt að alhæfa út frá hinu sjónarmiðinu; að vændi sé í heildina litið starfsgrein þar sem fullfrjálsir einstaklingar „velji sér kúnna“ og hafi það gott. Einstaka frásagnir gera lítið til að vega upp á móti kapítalískum kynlífsiðnaði í heild sinni, tengslum mansals við skipulagða vændisstarfsemi og þeirri staðreynd að fjárskortur margra berskjölduðustu hópa samfélagsins, t.d. fíkla og heimilislausra, er vísvitandi nýttur sem tæki til þess að svala kynferðislegum þörfum valdameiri aðila. Það eru staðreyndir málsins, og það eru raunverulegu strámennirnir að reyna að klína einhvers konar mórölsku yfirlæti á fólk sem er ekki sama.

  Málið blasir svona við mér: Ef við erum að rökræða um hvort einstaka tilvik vændis séu á þann veg að seljandinn upplifi sig ekki sem tilneyddan og kaupandinn sé í jöfnum valdasamskiptum við hann, þá erum við sammála um að slíkt geti alveg átt sér stað, en rifrildið er useless og þar að auki í engum raunverulegum debatt við aðkallandi málefni. Við erum ekki að segja að Sn. og St. haldi því fram að öllum hórum líði vel, heldur að ef debattið snýst um hvort einhverjum hórum líði vel, þá er það gagnslaust. Auðvitað líður einhverjum hórum vel, auðvitað líður einhverjum bankamönnum vel, auðvitað líður einhverju skúringafólki vel. Hvað á það að segja?
  En ef við erum að ræða um hvort þurfi að taka á vændisiðnaðinum í heild sinni þar sem í yfirgnæfandi meirihluta tilvika fjárhagsneyð fólks er notuð til þess að neyða fólk til að leyfa öðru fólki að svala fýsnum sínum á því, þá skil ég ekki hvernig einstaka tilvik um eitthvað annað getur breytt þeim staðreyndum. Ég hef líka verið í kapítalískri launavinnu sem var fáránlega fín og þar sem var komið vel fram við mig og vinna mín metin mikils. Eru það rök fyrir því að við getum bara hundsað að undir sama systemi er verið að misnota vinnuafl milljarða manna í veröldinni? Er ekki hægt að lýsa sig mótfallinn einhverju sem þú viðurkennir að finnist undantekningar á?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.