Kynlífsspunar kvenna og 50 gráir skuggar

Höfundur: Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir

Mynd tekin af vef Guardian

Skáldsagan Fifty Shades of Grey eða Fimmtíu gráir skuggar hefur valdið mikilli skelfingu menningarvita og femínista síðustu mánuðina. Bókin og tvær framhaldsbækur hennar hafa verið gífurlega vinsælar, en samkvæmt síðustu tölum hefur bókaflokkurinn selst í yfir 31 milljónum eintaka í yfir 37 löndum.

Það var dagblaðið New York Times sem vakti fyrst athygli á gífurlegum vinsældum Fimmtíu grárra skugga í grein sem kom út í apríl á þessu ári. Bókaflokkur E.L. James hafði þá bara komið út í rafrænu formi, en allar bækurnar voru skriðnar upp í efstu sæti lista dagblaðsins yfir best seldu bækurnar. Grein New York Times afskrifaði bækurnar sem „mommy porn,“ eða „mömmuklám.“

Og ég verð að viðurkenna að eftir að hafa hafið lestur fyrstu bókarinnar og gefist upp á blaðsíðu 100 fannst mér þessi lýsing afskaplega réttmæt. Saga um undirgefna stúlku sem afsalar sér öllum völdum í kynlífsleikjum billjónamærings… Ég skildi ekki af hverju þessi bók væri svona gífurlega vinsæl meðal kynsystra minna, skildi ekki af hverju við værum ekki komnar lengra í jafnréttisbaráttunni að við hefðum enn nautn af að sjá stúlkur undirseldar karlmönnum og mér leið betur næstu tvær vikurnar að geta afskrifað allt þetta fenómen sem „mömmuklám.“

En síðar fór ég að hugsa meira um bækurnar og tilurð þeirra og ég gerði mér grein fyrir að ég gæti ekki afskrifað þær svona auðveldlega. Þegar allt kemur til alls, þá er mömmuklám afskaplega niðrandi hugtak. Af hverju er saga sem segir ofsafengnar lýsingar af kynlífi frá sjónarhorni kvenna smættað niður í klám fyrir mömmur? Af hverju klám? Og af hverju mömmur en ekki barnlausar konur, einhleypingar, framakonur? Og hvaða rétt hef ég sem kona til að afskrifa kynlífsfantasíur kynsystra minna sem óásættanlegar og ógeðfelldar?

Aðdáendaspunar

50 gráir skuggar er bók sem byggir á langri spunasögu lesenda sem endurrita skáldskap og menningarafurðir samfélags okkar og skapa þar með sínar eigin sögur, sína eigin drauma, sínar eigin fantasíur. Mig langar hér að fjalla um endurritun skáldskaparins, hvernig lesendur, og þá sérstaklega kvenlesendur, skrifast á við vestrænan menningararf og spinna sögur sem segja kynlífsdrauma og fantasíur út frá forsendum kvenna. Mig langar sérstaklega að fjalla um undirgrein skáldskaparins, aðdáendaspunann svokallaða, eða fanfiction, en þar eru konur í miklum meirihluta lesenda og rithöfunda.

Aðdáendaspunar eru ritverk þar sem lesendur taka persónur og sögusvið eftirlætishugverka sinna og spinna nýjar sögur út frá þeim. Lesendur stoppa upp í göt sem fyrirfinnast í söguþræði prentaðra bóka og beita nútímatækni til að koma þessum sögubótum á framfæri til annarra aðdáenda.

Segja má að spunasögur séu samofnar sögu skáldsögunnar á Vesturlöndum. Don Kíkóti eftir Miguel de Cervantes kom út árið 1605 og er af mörgum talin fyrsta skáldsaga vestrænnar bókmenntasögu. Bókin varð gríðarlega vinsæl og árið 1614 kom út framhald hennar. Vandamálið var reyndar að framhaldið var ekki skrifað af Cervantes, heldur af aðdáanda fyrstu bókarinnar sem skrifaði undir dulnefninu Alonso Fernández de Avellaneda. Cervantes sjálfur gefur út sitt eigið framhald af skáldsögunni ári seinna og í lok þessa „alvöru“ framhalds, lýsir Cervantes því hvernig Don Kíkóti finnur eintak af þessari gerviframhaldssögu, þessari spunasögu, og hneykslast mjög á vitleysunni sem þar er skrifuð.

Mynd frá fanpop

Uppruna nútímaaðdáendaspuna má finna á áttunda áratugnum þegar aðdáendur sjónvarpsþáttaraðarinnar Star Trek fóru að skrifa sögur um meðlimi áhafnarinnar á geimskipinu Enterprise. Þeir dreifðu þeim fyrst fjölrituðum á ráðstefnum en fóru fljótlega að gefa út á prenti og senda til lesenda í áskrift. Á níunda áratugnum var farið að birta þessar sögur, fyrst á spjallrásum internetsins og loks á heimasíðum veraldarvefsins á tíunda áratugnum.

Spunamarkaðurinn er gríðarlega stór. Á stærstu spunasíðu veraldarvefsins, Fanfiction.net, er til dæmis hægt að lesa 609.710 sögur byggðar á bókum J.K. Rowling um galdrastrákinn Harry Potter. Lengd spunanna er mismunandi. Spunar geta verið 100 orða prósahækur sem lýsa einu augnabliki eða einum hughrifum spunahöfundar, en einnig er hægt að finna 600.000 orða mammúta þar sem spunahöfundur endurskrifar upprunaverk sitt algjörlega og bætir síðan við svo sem þrjú hundruð árum í viðbót við söguþráðinn. Stafsetning og gæði spunanna eru eins margvísleg og höfundar eru margir. Spunar geta verið algjörlega ólæsilegir vegna stafsetningavillna og málvillna en einnig er hægt að finna það vel skrifaða spuna að spunahöfundum hafa verið boðnir útgáfusamningar frá alvöru útgáfufyrirtækjum og flutt sig yfir í höfundarheim prentverksins.

E.L. James, höfundur 50 grárra skugga, er einn af þessum höfundum. 50 gráir skuggar hóf líf sitt sem gífurlega vinsæll aðdáendaspuni á Fanfiction.net sem bar heitið Master of the Universe. Master of the Universe endurritaði sögu Bellu Swan og Edwards Cullen úr Twilight-bókum Stephenie Meyer, en ímyndaði sér að leyndarmál Edwards væri ekki það að hann væri vampíra, heldur að hann væri BDSMari. Þessi saga var ekki sérstaklega frumleg. Og ég er hér ekki að vísa til þess að sagan endursagði söguþráð bókaflokks sem ég hef mikinn ímugust á. Nei, sagan var ófrumleg þar sem hún var ein af mörgum skrifuðum í vinsælli undirgrein aðdáendaspunans, AU fic, alternative universe saga, hliðarheimssaga.

Á Fanfiction.net er hægt að finna yfir 200 þúsund sögur sem endursegja ástarævintýri Bellu og Edwards og margar þessara sagna hliðra til söguheiminum. Saga þar sem Edward er tattúlistamaður? Hún er þarna. Sagan þar sem Bella og Edward kynnast á heljarför Titanic? Jebb. Saga þar sem Bella er hafmeyja? Minnsta málið! Og 50 gráir skuggar er ekki einu sinni fyrsta sagan sem hefur verið gefin út í bókaformi. Við síðustu talningu eru það rétt rúmlega 80 bækur sem hafa komið út á prenti eða í rafrænni útgáfu og hófu líf sitt sem aðdáendaspunar við bókaflokk Meyers.

Spunasögur: feminísk bókmenntagrein?

Sem bókmenntafræðingur les ég þessar spunasögur með miklum áhuga. Auðvelt er að túlka margar þessara sagna sem einfaldar fantasíur þar sem lesendur bæta við sögupersónum sem þjóna sem táknmyndir þeirra í söguheimi upprunasögunnar. Lesendur ímynda sér hvernig þeir myndu haga sér í samskiptum við eftirlætis söguhetjur þeirra og ímynda sér hvernig þeir gætu breytt framvindu söguþráðarins.

En einnig er hægt að túlka þessa spuna á róttækari máta. Sem feminískur gagnrýnandi tel ég að það sé engin tilviljun að langflestir spunahöfundar eru spunakonur. Rannsóknir sem gerðar voru á áttunda áratugnum á höfundum spunasagna í Star Trek tímaritum bentu til dæmis til þess að 90 prósent rithöfundanna voru konur. Þetta þýðir að aðdáendaspunar voru eina undirgrein hins karllæga vísindaskáldsöguheims þar sem konur réðu ríkjum (og ef satt skal frá segja, eru enn!).

Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á kynjahlutfalli í spunaheimi 21. aldarinnar, en óformlegar kannanir sem vefsíður hafa gert benda til að höfundar þessara sagna séu 80 til 95 prósent konur, og þá sérstaklega ungar konur frá 15 til 40 ára.

Mynd fengin að láni héðan

Í aðdáendaspunum endurskrifa konur bókmenntaarf Vesturlanda og gera að sínum eigin. Hægt er að greina aðdáendaskrif sem uppreisn kvenlesandans gegn ofurvaldi höfundarins. Margir spunar endursegja einmitt ritverk út frá sjónarhóli kvenpersóna sagnanna. Í Harry Potter heiminum, til dæmis, er algengt að Hermione Granger, besta vinkona Harry Potters, sé aðalsöguhetja spunanna. Spunahöfundar ímynda sér hvernig söguþráður Harry Potter bókanna breytist þegar hann er sagður frá sjónarhóli kvenpersónunnar, stækka hlutverk Hermiones og gera hana að vendipunkti atburðarrásarinnar.

Svo að aðdáendaspunar eru sögur þar sem konur taka yfir heim kvikmyndanna, sjónvarpsins og skáldsagna, heim sem oftar en ekki er skapaður af karlmönnum, stjórnað af karlmönnum og stútfullur af karlhetjum, og endurskrifa þennan heim á eigin forsendum. Og ég spyr, hvað er feminískara en þessi gjörningur?

Langanir og losti kvenna

Kynlíf er stór þáttur í þessari endurritun. Það er auðvelt að hlæja að kynlífinu í aðdáendaspunum, sem er ofsafengið, tryllt, hamslaust, lostafengið, og oft afskaplega kinky. En mig langar að leggja til að við lítum á spunasögur sem einan af fáum miðlum þar sem konur hafa fullkomna stjórn á eigin kynlífsfantasíum. Í aðdáendaspunum geta konur stjórnað nákvæmlega hvernig þær ímynda sér og sýna kynlíf.

Klámiðnaðinum er stjórnað af körlum og klámmyndir sýna karlafantasíur þar sem konur eru oftar en ekki nafnlaus viðföng karllegrar löngunar. Hvert leita þá konurnar ef þær vilja sjá kynlíf sem þeim hugnast, þar sem langanir og losti kvenna er mikilvægur þáttur kynlífsins? Aðdáendaspunar eru eitt af fáum afdrepum þeirra.

Í aðdáendaspunum getur lesandinn tekið stjórn yfir persónum söguheims, valið tvær eða þrjár eða tíu söguhetjur úr þessum heimi, og ímyndað sér þessar hetjur í kynlífsleikjum. Í stað þess að horfa á nafnlausar klámmyndastjörnur á skjánum lifa kynlífi sem svipt er úr öllu samhengi við samfélag, vinskap og ást, þá eru þátttakendur í þessum kynlífsleikjum spunanna söguhetjur sem höfundur og lesandi þekkir vel, kann vel við, elskar.

Kynlífslýsingar í spunasögum eru mun meira seðjandi, veita mun meiri fullnægingu heldur en kynlíf eins og það birtist í klámmyndum. Aðdáendaspunar bjóða lesendum upp á kynlíf með sál. Það að konur skuli vera svo aktívar í skrifum aðdáendaspuna bendir til einskis annars en að kynlífsmarkaðurinn eins og hann er í dag höfðar ekki til kvenna.

Vestræn menningarsaga er saga þar sem losti og langanir kvenna hafa verið strokaðar út, smættaðar, gerðar skelfilegar og óeðlilegar og ósiðlegar. Í aðdáendaspunum hafa hundruð þúsunda kvenna sest niður fyrir framan tölvuskjáinn sinn og skrifað á móti þessari menningarsögu, skapað sína eigin afkima þar sem kvenleg þrá og kvenlegur losti er í fyrirrúmi, sögur fyrir konur. Og já, það er svakalega heitt að lesa um tvo stælta og fallega karlmenn eins og Daniel Craig í hlutverki James Bond og Hugh Jackmann í hlutverki Wolverine ríða og sjúga og sleikja hvor annan.

Ahem, nú roðnaði ég…

Bylting á bókamarkaði

En aftur að 50 gráum skuggum. Nú hef ég ekkert fjallað um kynlífsfantasíurnar í því riti eins og til stóð. Og ég skil þær pælingar eftir fyrir gagnrýnendur mér þolinmóðari, betri og hugrakkari. Mér hugnast nefnilega ekkert sérstaklega það kynlíf sem lýst er í þeirri eðalbók. En ég vil ekki gera lítið úr tilvist þessarar bókar. 50 gráir skuggar er erótísk skáldsaga skrifuð af konu fyrir konur. Og útgáfu hennar er stjórnað af konum.

Þessa dagana á sér stað bylting á bókamarkaðnum. Þetta er tæknibylting. Veraldarvefurinn og lesbretti og spjaldtölvur hafa gefið almenningi tæki og tól til að gerast virkir þátttakendur í menningarlífi og menningarsköpun hér á Vesturlöndum. Og já, þessi tæki og tól hafa verið nýtt af konum til að taka stjórn á eigin kynlífsfantasíum. Síðasta áratuginn hefur fjöldi útgáfufyrirtækja sem gefa út erótískar skáldsögur fyrir konur sprottið upp á veraldarvefnum. Þetta eru fyrirtæki eins og Samhain og Ellora‘s Cave, fyrirtæki sem eru í eigu kvenna og gefa út bækur sem hin hefðbundnu bókaforlög hafa hingað til ekki viljað snerta á. Það var eitt slíkt fyrirtæki sem gaf út fyrstu útgáfuna af 50 gráum skuggum. Ástralska rafbókaútgáfan The Writer‘s Coffee Shop gaf fyrst út 50 gráa skugga og sú rafbók seldist í milljónum eintaka, svo vel að hefðbundnu bókaútgefendurnir gátu ekki lengur hunsað hana.

Bókaútgáfu hefur hingað til verið stjórnað af afmörkuðum hóp menningarvita og bókaforlaga. Við stöndum nú við upphaf nýrrar aldar þar sem skáldskapurinn stendur okkur öllum galopinn. Rafbókavæðingin og veraldarvefurinn gefa hverjum sem svo kýs tækifæri til að gefa út sínar eigin sögur, sínar eigin bækur. Og konur eru í miklum meirihluta þeirra sem skrifa bækur á netinu, lesa bækur á netinu, gefa út og kaupa bækur á netinu.

Og já, þessi skáldskaparlosti kvennanna hefur að miklu leyti birst í spunasögunum blessuðu þar sem konur taka menningarafurðir sem oftar en ekki er stjórnað af körlum og endurskrifa þær. E.L. James skrifaði skáldsögu sem endurskrifaði Ljósaskipti eftir Stephenie Meyer sem byggði sjálf á sögu Charlotte Brontë um Jane Eyre sem byggði á Pamelu eftir Samuel Richardson. Og 50 gráir skuggar er einnig skrifuð af þúsundum annarra kvenna. Þegar sagan birtist fyrst á Fanfiction.net fyrir einhverjum árum, þá skrifuðu lesendur sögunnar yfir 20 þúsund athugasemdir við kafla verksins, athugasemdir þar sem þeir gagnrýndu framvindu sögunnar, komu með hugmyndir um framhald hennar, sögðu frá því hverju þeim líkaði við og hvað þeim hugnaðist ekki. Og E.L. James skrifaði hvern nýjan kafla eftir að hafa lesið þessar athugasemdir þar sem hún tók tillit til og fékk hugmyndir frá löngunum og þrám lesenda sinna.

Afskaplega fáar rannsóknir hafa verið gerðar á spunaheiminum. Angela Thomas er ein af þeim fáu sem hefur rannsakað fyrirbærið og hún greinir frá niðurstöðum sínum í bókinni Youth Online: Identity and Literacy in the Digital Age. Þar kemst Thomas að þeirri niðurstöðu að ungar konur öðlist kraft frá ritun spunasagna og að þær sem skrifi spunasögur líði betur í daglega lífi sínu. Við það að hafa stjórn yfir söguheimi sínum öðlast ungar stúlkur meiri stjórn yfir raunheiminum. Einnig getur spunasöguheimurinn verið ungum stúlkum félagsleg stoð og afdrepi. Höfundar og lesendur spunasagna hittast reglulega á netsíðum og netsamfélögum og unglingsstúlkur sem ef til vill eru utanveltu í raunheiminum eignast þar góða vini.

Spunar eru spennandi birtingarmynd tæknivæðingar 21. aldarinnar og vísa í átt til hamslausrar framtíðar skáldskaparheimsins, til heims þar sem ritverk eru samin af samfélagi höfunda og lesanda. Spunasögur eru róttæk breyting á sambandi lesenda við ritverk. Lesendur eru ekki lengur passívir meðtakendur hugmyndaheims rithöfundar, heldur gefst þeim tækifæri á að breyta verkinu eftir sínu höfði. Og spunarnir vísa einnig aftur til fortíðarinnar, áður en lagaumhverfi 18. og 19. aldarinnar njörvaði skáldskaparlistina inn í eignarrétt lögfræðinnar, höfundaréttinn sem verður sístrangari og óskiljanlegri með hverju árinu sem líður.

Og þegar allt kemur til alls, þá hvetja spunasögur unga lesendur, ungar konur, til að skrifa og til að hugsa og til að horfa á heiminn með allt öðrum augum en vanalegt er.

Unnið upp úr erindi á hitti Femínistafélags Íslands 6. september 2012

13 athugasemdir við “Kynlífsspunar kvenna og 50 gráir skuggar

 1. Æji hvað það kom mér skemmtilega á óvart að þetta var ekki „..setur jafnréttisbaráttuna aftur um mörg ár…“, „… ég neita að trúa að nokkur kona…“, „…sendir mjög svo óásættanleg skilaboð…“ grein.

  Skemmtileg og fróðleg líka imo …

 2. Ég hafði bara rosalega gaman að bókunum, sérstaklega kinky kynlífinu (þar sem reyndar ekkert er gert nema með beggja samþykki). Bækurnar eru ekki vel skrifaðar, en oft fyndnar. Fyrir mér setur Brynhildur þær í skiljanlegt bókmenntalegt og – rafrænt samhengi. Takk fyrir það.

  Bækurnar minna mig á þá yndislegu bíómynd „Pretty woman“ með Juliu Roberts sem ég veit að margar stelpur og konur eru búnar að horfa 100 sinnum á.

 3. Ég hef fundið spunasögur skemmtilegar lesa en það eitt sem þú ert gleyma sem kannski það svarta við þennan spunaheim það séu fólk (menn & konur) nota hugverk rithöfunda setja það á netið án Leyfi Rithöfunda.

  En mér finnst þetta virkilega áhugaverð grein sérstaklega um hvaða rétt Lesanda hefur á nota ritverk rithöfunda og gera sögu um þær.

  Mikið er á netinu þar sem svo kallaðir FANS hafa til að mynda með Japanskar Teiknimyndabækur betur þekkt sem Manga tekið sem þeirra vinnu að þýða það yfir ensku eða öðru tungumáli án leyfi höfundar sett það á netinu.

  Ég verð viðurkenna lesa mikið á netinu enda er það ódýrra en þetta Fólk er samt ganga á virkilega grá svæði hvað varðar höfundarétt.

  Mæli suma lesa þessa wikipedia síðu:
  http://en.wikipedia.org/wiki/Legal_issues_with_fan_fiction

 4. Bakvísun: Stafrænar furðusögur « Rúnatýr

 5. Bakvísun: Stafrænar furðusögur | Rúnatýr

 6. Bakvísun: Eftir eigin höfði: spuna- og skásögur á netinu 2/2 | Sirkústjaldið

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.