Af útgefnum kynórum fyrr og nú – um fantasíusöfn Hildar Sverrisdóttur og Nancy Friday

Af fantasíum fyrr og nú

Nú í sumarlok kom út bók hérlendis þar sem safnað hafði verið saman úrvali af kynlífsfantasíum íslenskra kvenna. Um tilurð bókarinnar, aðferðir ritstjórans Hildar Sverrisdóttur við efnissöfnun og umræðuna sem hefur skapast í kringum útgáfu bókarinnar þarf svo sem ekki að orðlengja; flestir þeirra sem eru líklegir til að lesa þetta greinarkorn þekkja líklega til þess.

Það sem teljast stórtíðindi í einum kima veraldarinnar er hins vegar gjarnan löngu sprungin fréttabóla í einhverjum öðrum og svo er einnig í þessu; á áttunda og níunda áratug síðustu aldar komu út nokkrar slíkar bækur í Bandaríkjunum svo eftir var tekið, í umsjón og ritstjórn rithöfundarins og femínistans Nancy Friday. Og það er áhugavert að spóla svolítið til baka og rifja upp bækur Friday, velta fyrir sér forsendunum að baki útgáfu þeirra og bera þær lítillega saman við Fantasíur Hildar Sverrisdóttur.

 Nancy Friday (1933-) ólst upp í Suðurríkjunum og lauk háskólanámi, svo sem þótti hæfilegt ungum konum af miðstétt og upp úr á þeim tíma, frá Wellesley-kvennaskólanum árið 1955. Hún hóf því næst störf við blaðamennsku og varð þekkt á því sviði í New York, en sneri sér svo að bókaskrifum og gaf út sína fyrstu bók, My Secret Garden, Women’s Sexual Fantasies, árið 1973. Bókin inniheldur viðtöl við konur þar sem þær ræða kynverund sína og kynóra og varð metsölubók í Bandaríkjunum, þótt umdeild væri sem von var. Aðrar bækur Friday af sama meiði (að bókum hennar um önnur efni ótöldum) eru Forbidden Flowers; More Women’s Sexual Fantasies (1975), Men In Love, Men’s Sexual Fantasies: The Triumph of Love over Rage (1980) og Women On Top: How Real Life Has Changed Women’s Fantasies (1990). Við efnissöfnun notaði Friday aðferðir sem svipar mjög til aðferða Hildar Sverrisdóttur í bókinni Fantasíur; hún auglýsti eftir aðsendu efni í blöðum og tímaritum og hét fullkomnu nafnleysi.

Það sem er hins vegar ólíkt með bókum Friday og safni Hildar er að Friday fjallar nokkuð ítarlega um aðsenda efnið og reynir að greina það og rýna í; framlögin í My Secret Garden eru til dæmis flokkuð í tiltekna þemahópa sem Friday kallar „herbergi“ og hún reynir að greina eðli og uppruna hvers þema og setja það í félagslegt samhengi. Þetta ljær bókum hennar yfirbragð félagsfræðirits, sem er víðs fjarri einföldu ritsafnsformi íslenska fantasíukversins. „Herbergin“ sem sögurnar í My Secret Garden mynda eru of mörg (nánar tiltekið sextán) til að gera þeim tæmandi skil í stuttum pistli, en á meðal þeirra mætti nefna „Rape (or „Don´t Just Stand There, Force Me!“), „Prostitution“, „Incest“, „The Audience“ og „Other Women“ (öll þessi þemu koma raunar líka fyrir í Fantasíum, nema sifjaspellin). Nauðungarþemað – að vera tekin gegn vilja sínum – er einmitt eitt af því sem mörgum hefur orðið tíðrætt um eftir lestur á Fantasíunum íslensku, og Hildur Sverrisdóttir virðist hafa séð slík viðbrögð fyrir þegar hún ritar í formála bókarinnar:

Það þarf þó ekki að hræðast fantasíur, sama í hvaða mynd þær birtast. Fantasíurnar í þessari bók eru sagnaheimur þar sem ímyndunarafl hverrar konu fær að ráða. Í slíkum hugarheimi er konan alltaf við völd því hún ræður öllum aðstæðum.

(Fantasíur, formáli)

Mjög svipaðan varnagla við því að taka nauðgunarþrá kvenna of bókstaflega er að finna í aðfararorðum Friday að „nauðgunarherberginu“ í My Secret Garden, þar sem hún segir m.a.:

It’s worth repeating my conviction that fantasy need have nothing to do with reality, in terms of suppressed wish-fulfillment.

(My Secret Garden, bls. 117)

Í bókinni Women On Top, sem kom út nokkrum árum síðar, útfærði Friday svo kenningar sínar um forsendur nauðungaróra kvenna á áhugaverðan hátt og skýrði þessa ríku tilhneigingu sem virtist mega greina í kynórum kvenna sem svo, að hún væri ein aðferð þeirra til að losna við sektarkenndina sem fylgdi því að langa í, sækjast eftir og jafnvel eiga frumkvæði að kynlífi:

The most popular guilt-avoiding device was the so-called rape fantasy – “so-called” because no rape, bodily harm, or humiliation took place in the fantasy. It simply had to be understood that what went on was against the woman’s will. Saying she was “raped” was the most expedient way of getting past the big No to sex that had been imprinted on her mind since early childhood. (Let me add that the women were emphatic that these were not suppressed wishes; I never encountered a woman who said she really wanted to be raped.)

(Women on Top, bls. 4)

My Secret Garden varð til í félagslegu og menningarlegu umhverfi sem ekki viðurkenndi eða veitti neitt svigrúm því sem flest sæmilega upplýst fólk lítur sennilega á sem augljósa staðreynd á vorum dögum: að konur hefðu kynóra í sama mæli og karlmenn. Til þess ber að horfa þegar viðtökur við henni eru skoðaðar; þær einkenndust af hneykslan og stundum viðbjóði, í skásta falli ónotakennd gagnvart því að þurfa að horfast í augu við þann, að margra mati, óþægilega sannleik að kynverund kvenna lifði sjálfstæðu lífi utan samþykktra kynlífsathafna þeirra við samþykkta kynlífsfélaga (eiginmann). Nancy Friday skrifaði inn í samfélag þar sem enginn hafði enn kallað konu „bitch“ og „ho“ á MTV, klámmyndir voru sýndar í hrikalega subbulegum bíóum og klámblöð seld með flóttalegu augnaráði. Og konur áttu sér enga kynóra, eða svo átti að heita:

Before My Secret Garden was published, there was nothing on the subject. The assumption was that women did not have sexual fantasies […] In the late 1960s I chose to write about women’s sexual fantasies because the subject was unbroken ground, a missing piece in the puzzle. I had sexual fantasies and I assumed other women did too. But when I spoke to friends and people in the publishing world, they said they’d never heard of a woman’s sexual fantasy.

(Women on Top, bls. 6-7)

Samfélag dagsins í dag er gegnsýrt kynferðislegu myndmáli sem varla reynir að fara undir rós og það er ljóst að fantasíur kvenna, útgefnar á bók, vekja ekki sömu viðbrögð á Íslandi 2012 og gróskumikil flóran í „leynigarðinum“ gerði í Bandaríkjunum 1973. Klám og myndmál klámiðnaðarins hefur verið normalíserað að því marki að sá eða sú sem lýsir sig á móti því fær auðveldlega á sig teprustimpil. Samtími okkar er umhverfi þar sem kynferðisleg þvingun er komin út úr skápnum, ef segja má, en hugsanlega með dálítið öfugum formerkjum; um leið og nauðganir og annað kynferðisofbeldi er fordæmt opinberlega er nauðgunarmyndmál algengt í tónlistarmyndböndum og hvarvetna í dægurmenningunni, til dæmis í auglýsingum frá hátískuhönnuðum.

Í klámvæddu samfélagi dagsins í dag þykjum við ekki bara hvert öðru líklegra til að ala með okkur hina margbreytilegustu kynóra, það er nánast ætlast til þess af okkur. Þó telur Hildur Sverrisdóttir greinilega að enn sé björninn ekki fyllilega unninn hvað varðar almennt samþykki við kynórum kvenna til jafns við karla, að minnsta kosti mætti skilja hana sem svo í formálanum að Fantasíum:

Með þessari bók er verið að fagna kynferðislegum fantasíum kvenna og upphefja þær. Henni er ætlað að skemmta konum og styrkja þær í fantasíum sínum og kynferðislegri tilveru.

(Fantasíur, formáli ritstjóra)

Og víst er að eitt er að samþykkja kynóra í orði og annað að gera það á borði. Með það í huga er áhugavert að skoða viðbrögð tveggja gagnrýnenda við bókinni, karls og konu. Þau Páll Baldvin Baldvinsson, Fréttatímanum, og Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, DV, gefa bókinni annars vegar hálfa og hins vegar eina stjörnu og eru almennt svo samhljóða í ummælum sínum að nánast furðu sætir. Úr ritrýni þeirra má lesa þrennt:

  • Fantasíur er klámrit, klætt í huggulegan búning
  • Fantasíur er bók sem hefði hneykslað fólk óskaplega ef efnið væri eignað karlmönnum, en er hampað sem kynfrelsandi af því að efnið er eftir konur
  • Fantasíurnar í bókinni virðast að verulegu leyti sprottnar úr myndmáli og hefðum klámmenningar samtímans

Þannig segir Sólrún Lilja t.d. að sögurnar séu „eins og þær séu skrifaðar eftir uppskrift frá klámiðnaðinum“ en Páll Baldvin að þær gefi „sína mynd af þröngu og þjökuðu ímyndunarafli frásegjenda sem eru fastir á klafa arfsagna klámiðnaðar okkar daga“. Og bæði staðhæfa þau að bókin innihaldi klám og virðast ekki hrifin af því sem þau sjá sem viðleitni ritstjóra og forlags til að breiða yfir það; þannig segir Sólrún Lilja að „klám og ofbeldi verður ekkert minna klám eða ofbeldi þó því sé snyrtilega komið fyrir í vasabrotsbók með kvenlegri kápu“ en Páll Baldvin áréttar að „í þessari pakkningu er reynt að telja okkur trú um að klámið sé fínt og gefi okkur innsýn í hugarheim kvenna svo að kverið er helgað kynfrelsi kvenna“.

Eitt er það svo sem lesa má, og það nokkuð afdráttarlaust, úr dómi Sólrúnar sem ekki á sér hliðstæðu í dómi Páls: hún setur spurningarmerki við það að fantasíurnar sem snúast um nauðgun eða nauðung séu raunverulegar.„Ég neita að trúa því að kynlífsfantasíur kvenna snúist að miklu leyti um að vera þvingaðar til kynlífsathafna.“ Þetta er stór fullyrðing og ég ætla ekki að leggja dóm á hana, að öðru leyti en því að ef bækur Nancy Friday eru skoðaðar bendir ansi margt til þess að kynlífsfantasíur kvenna snúist að minnsta kosti að talsverðu leyti um þvingun. Hversu heilbrigt eða æskilegt það svo er, eða í hvaða mæli hægt er að leggja hugaróra fólks á slíkar vogarskálar, mætti lengur ræða en pláss er fyrir hér. Það er nokkuð ljóst að viðtökur samfélagsins í dag við bók þar sem konur lýsa kynórum sínum – og hvað sem allri umræðu um hugsanlega karlhöfunda líður er í sjálfu sér engin ástæða til að gefa sér annað en að textarnir í bókinni séu eftir konur – virðast  ekki endilega mótast af því hvort lesendur sitji eftir alveg standandi bit yfir því að konur skuli hafa kynóra og það meira að segja svolítið furðulega, heldur jafnvel fremur af því viðhorfi sem lesendur hafa til staðalmynda kynjanna og klámvæðingar, og raunar einnig því hvort lesendur telja yfirleitt ástæðu til að nota slík hugtök.

Stóra spurningin stendur eftir ósvarað: er yfirhöfuð einhver ástæða til að kveða upp dóma yfir innihaldi, birtingu eða tilvist kynóra fólks, karla sem kvenna? Kannski ekki. Geta kynórar, settir í samhengi við það samfélag og þann táknheim sem þeir óhjákvæmilega fæðast úr, haft eitthvað að segja okkur um kynhlutverk, staðalmyndir, leiðarminni og samfélagsanda okkar tíma? Hugsanlega.

 

Heimildir:

Um Nancy Friday.

Bókina My Secret Garden má nálgast á rafrænu formi hér, bls.tal í greininni vísar í þá útgáfu.

Bókina Women On Top má nálgast á rafrænu formi hér, bls.tal í greininni vísar í þá útgáfu.

Fantasíur. Hildur Sverrisdóttir ritstýrði. Forlagið, 2012

Páll Baldvin Baldvinsson í Fréttatímanum.

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir í DV.

 

4 athugasemdir við “Af útgefnum kynórum fyrr og nú – um fantasíusöfn Hildar Sverrisdóttur og Nancy Friday

  1. Ég skil það þannig að við erum öll kynverur. Við vöxum upp í ákveðnu samfélagi sem að virðist vera mjög upptekið af kynlífi. Við hugsum oft um alls konar klám, nauðgara, barnaperra og fleiri náskyld umræðuefni. Þessi fyrirbæri leggja því sitt mark á okkur og við tökum þau um leið inn í líf okkar og finnst langmest af þessu viðbjóðslegt, sjúkt og forboðið. Hins vegar löðumst við að því sem að við megum ekki, við verðum forvitin um þannig mál. Svona nauðgunar-kynórar eru því virkilega sterkir innan samfélags okkar og gjörsamlega eðlilegir. Prufum að hugsa þetta eins og áfengi fyrir 15 ára unglingi. Við leggjum bara ekki aldurstakmark á kynórana. 🙂

    • Já, það er ljóst, held ég, að hið forboðna hefur sterkt aðdráttarafl. Mér finnst kenning Friday um nauðgunarfantasíuna sem eins konar „afsökun“ líka mjög áhugaverð. Að nauðgunarsviðsmyndin sé notuð sem aðferð til að komast fram hjá „banninu“ við því að langa í kynlíf kynlífsins vegna – „ég gat ekkert að þessu gert, ég var neydd til þess“. Þetta kann að hafa vegið þyngra á þeim tíma sem Friday kom fram með kenninguna (um 1980) en er áhugavert fyrir því.

      Kv. Halla

  2. Er ekki ástæðan fyrir því að það sé sett spurningamerki við það hvort fantasíurnar séu raunverulega eftir konur vegna þess að það er bara ekki vitað? hver sem er gat sent inn sögur og það er ekkert sem segir að þetta séu frekar sögur eftir konur heldur en karlmenn. Það er aðalvandamál bókarinnar. Ef það væri 100% garantí að þetta væru allt saman sögur eftir konur að þá væri vel hægt að ræða þetta út frá t.d hvers vegna konur fantaseri um nauðganir og hver pælingin er þar. En á meðan það er ekki vitað hver sendi inn sögurnar að þá finnst mér bara ekki hægt að vita hvort þetta eru raunverulegar fantasíur kvenna eða hvort þetta eru fantasíur karlmanna settar upp sem fantasíur kvenna.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.