Höf.: Guðný Elísa Guðgeirsdóttir
Hvers vegna segir fólk að nauðgun sé sálarmorð? Hvers vegna segja margir að nauðgun sé sá glæpur sem kemst næst morði? Hvað verður um sál þeirra sem er nauðgað? Er líf eftir dauðann?
Þegar þér hefur verið nauðgað þá glímir þú ekki við afleiðingarnar í friði á eyðieyju. Þú heldur áfram að vera í samfélagi á meðal fólks, sem er eins misjafnt og það er margt. Lífið heldur áfram en þú hefur breyst og upplifun þín á umheiminum hefur breyst. Það er eins og að einhver hafi rænt þér og kastað inn í einhvers konar hliðarvídd, annan veruleika þar sem önnur lögmál gilda. Það sem fólk segir hefur aðra merkingu og það sem þú áður taldir öruggt er ekki lengur hægt að treysta á. Þú missir hluta af sjálfum þér og þarft að reyna að púsla brotunum saman í einhverri fjandans hliðarvídd sem var aldrei partur af þínu framtíðarplani. Þú færð menningarsjokk. Samskipti þín við annað fólk taka breytingum, ókunnugir eru hugsanlegir óvinir sem ekki er óhætt að snúa baki við. Þú verður sérfræðingur í „áhættumati“.
Hvar er best að sitja í opinberu rými?
Um það getur þolandi nauðgunar upplýst þig: veldu sæti uppi við vegg (svo enginn komi aftan að þér), nálægt útgangi (svo þú getir forðað þér fljótt), og á stað þar sem þú hefur góða yfirsýn í allar áttir og auga á öllum útgöngum. Gott ráð er að hafa stóra hliðartösku sem þú getur notað til að skapa meiri fjarlægð á milli þín og annarra.
Búin að finna gott sæti?
Þá hefst eftirlitið: vertu í viðbragðsstöðu (svo þú getir forðað þér hratt), ekki líta í augun á öðrum (þeir gætu sé þig sem bráð), hlustaðu eftir öllum mögulegum hljóðum sem gætu gefið vísbendingu um hvað gerist næst (ekki hafa áhyggjur, þú lærir þetta fljótt því þér mun bregða við minnsta hljóð).
Finnst þér þetta þreytandi?
Velkominn í klúbbinn. Við hin viljum gjarnan komast aftur í okkar vídd.
En hvað með fjölskyldu okkar?
Flest okkar eru svo lánsöm að hafa einhvern sem þykir vænt um okkur og stendur ekki á sama um það sem kemur fyrir okkur. Það að vera nauðgað og horfa upp á viðbrögð ættingja og vina við því sem hefur gerst, er eins nálægt og þú getur komist því að horfa upp á þá syrgja þig. Þú samhryggist þeim og þig langar að hugga þá, en líkt og værirðu dáin áttu erfitt með að snerta þá. Fyrir þér getur faðmlag verið eins og að vera haldið fastri á kafi í vatni. Þú stífnar upp, þú verður að losna og átt erfitt með að anda. Aðstandendur þína langar að hugga þig en geta það ekki og það hryggir þá og særir að vita að snerting þeirra veldur þér vanlíðan.
Hvað með eftir tvær vikur, eða mánuð, eða hálft ár? Er þetta ekki bara búið þá?
Þú verður ekki komin aftur „heim“. Þú aðlagast að einhverju leyti lífinu í nýju víddinni og uppgötvar að þú getur lært að lifa þar. Þú verður innflytjandi en hugsanlega kynnist þú öðrum innflytjendum (brotaþolum) og þið getið talað saman á móðurmálinu. Það er kærkomin hvíld frá tungumáli nýju víddarinnar. Ef þú ert heppin munu ættingjar þínir smám saman læra að tala þitt tungumál upp að vissu marki. Þú uppgötvar að til er fólk í heiminum sem hefur samúð með málefnum innflytjenda en það er líka til fullt af fólki með fordóma gagnvart innflytjendum sem er tortryggið gagnvart þeim. Oft reynirðu að láta lítið á því bera að þú sért ekki innfædd í þessari vídd því það er einfaldara en að láta reyna á hvort þú sért með fólki sem hefur ekki skilning á þeim sem eru ekki úr sömu vídd og það sjálft.
En er þá sálin í þér dáin?
Ef við gefum okkur að fólk hafi sál, hvernig heldur þú þá að innflytjendum líði þegar aðrir gera ráð fyrir að þeir hafi enga sál? Þeir eru þá væntanlega minna mannlegir og hafa lítið að lifa fyrir. Þótt þú sért ekki fæddur í þessari vídd og hafir neyðst til að koma inn í hana líkt og flóttamaður, þá ertu ekki minna mannlegur en innfæddir. Þú lærir að bjarga þér á nýja tungumálinu, þú aðlagar þig að nýju umhverfi og sumir aðlaga sig að því að þú hafir að sumu leyti aðra siði og menningu en þeir. Þú lærir að mynda tengsl við aðra og smátt og smátt ferðu að treysta á að þú sért sæmilega menningarlæs í þessari nýju vídd og ferð að prófa þig áfram og taka meiri áhættur. Vonandi nærðu að treysta böndin við þá sem þér þykir vænt um. Þú býrð þér til nýtt plan og kannar búsetuskilyrði og atvinnuhorfur í þessari vídd. Vonandi spjarar þú þig.
Hvernig verður þetta eftir eitt ár eða tvö?
Ég skal segja þér það þegar ég er búin að komast að því. Eitt er víst: ég er ekki dáin en því sem mér var gert er á margan hátt hægt að líkja við morð.
Höfundi var nauðgað.
Mjög gott viðtal var við Eddu Björk Þórðardóttir um áfallastreituröskun í Samfélaginu í nærmynd á Rás1 fyrir nokkrum dögum. Þar kom t.d. fram að um 60% þeirra sem upplifa kynferðisofbeldi þurfa að takast á við einkenni áfallastreitu.
Mér var nauðgað fyrir nærri 30 árum við byrjun unglingsáranna og svo aftur fyrir 20 árum þegar ég var rúmlega tvítug. Þann tæpa áratug sem leið á milli þessara tveggja atburða dvaldi ég í hliðarvíddinni, hálf dofin og í takmörkuðum samskiptum við annað fólk.
En eftir seinni nauðgunina fór ég í massíva vinnu, bæði hjá Stígamótum og sálfræðingi, og meðferð gegn áfallastreituröskun. Og ég komst upp úr djúpinu og aftur yfir í venjulega heiminn. En það tekur tíma og vinnu. Í mínu tilfelli hugsa ég að það hafi liðið alveg áratugur eða meira þar til ég varð nokkurn veginn sjálfri mér líka á ný, jafnvel lengur.
Auðvitað verður kona aldrei alveg eins og hún var eftir svona upplifun, en sem betur fer er hún ekki dæmd til ævilangrar útlegðar. Hvað þá að hún sé sálarlaus, enda þoli ég ekki þessa umræðu um sálarmorð frekar en greinarhöfundur.
takk fyrir einstaklega velskrifaða grein.
ég er einmitt ein af þeim sem hef aldrei kunnað við þetta orðalag,sálarmorð og það að líkja þessu við morð.það er alveg kominn tími á annað orðalag.mér hefur verið nauðgað.ég missti meydóminn þannig og fyrstu kynnin af slíkri snertingu var neytt uppá mig með ofbeldi.ég hef komist langa leið.ég hef átt erfið augnablik,skammast mín,efast um sjálfa mig,skammað mig fyrir að vakna upp við martraðir mörgum árum seinna.ég hef verið reið,sár,uppgefin og einnig grátið í faðmlögum makans eftir að ein ákveðin snerting sendi mig yfir í helvíti á einu sekúndubroti. en það er nefnilega það.ég er oftast allt í lagi.þetta kemur sjaldan fyrir.og margir halda að það sé í lagi að hugsa nauðgun eins og lélegt kynlíf,og vegna þess að við getum virkað dag frá degi og skaðinn sé læknanlegur og maður hljóti að skilja að allir séu nú ekki færir um svona verknað og við því gengið um í hljóði með áhættumat okkar á fólki og umhverfi. að skaðinn sé skeður en sé bara nokkuð viðráðanlegur.það sem við viljum er skilningur á verknaðinum. brotinu sem var framið gegn okkur..að samfélagið kalli sig til ábyrgðar.
Takk fyrir yndislega grein. Það þarf stundum að minna þetta samfélag á að við erum fyrst og fremst manneskjur!
Mjög góð grein
Takk fyrir góða grein. Við erum margar hér úti, því miður. Mér og vínkonu minni datt í hug að gera smá könnun og spurningin var. Hefur þér verið nauðgað. 100 svör og af þessum hundrað svaraði 57% játandi, sem er mjög sorglegt.
Þetta er svo ógeðslegt að ein (eða fleiri) geta brotið svona virkilega á annari manneskju og alveg hræðilegt að þetta er allt of algengt.
Þetta er góð grein.
Ég kannast við mörg þessara einkenna, að treysta engum, sitja við vegg, vera með stóra tösku við hliðina á mér og sjá allar hugsanlegar útgönguleiðir. En þetta var eftir áralangt einelti sem ég varð fyrir.