Kynferðisleg áreitni: Frakkar auðvelda dómaframkvæmd og þyngja refsingar

Formáli og þýðing: Guðrún C. Emilsdóttir

__________

Áður hefur verið fjallað um ógildingu laga um kynferðislega áreitni í Frakklandi á Knúzinu. Lögin voru numin úr gildi í maí sl. og var aðgerðin umdeild því ný lög voru ekki sett í staðinn á sama tíma. Ástæðan sem gefin var upp fyrir ógildingunni var sú að endurskoða þyrfti lögin með tilliti til skilgreiningar og refsinga, en mörgum þótti þetta undarleg tilhögun því mörg mál sem voru í ferli féllu sjálfkrafa niður við ógildinguna. Ekki verður hægt að taka málin upp aftur við setningu nýrra laga, því þau eru ekki afturvirk.

Nú hafa ný lög lítið dagsins ljós þar sem búið er að endurskilgreina kynferðislega áreitni og rýmka refsiheimildir. Á síðu EWLA (European Women Lawyers Association) er að finna ágæta samantekt og fylgir hér þýðing á henni.

__________

Þann 4. maí 2012 lýsti Stjórnarskrárráðið því yfir að ákvæði nr. 222-33 refsilaganna væri ekki í samræmi við yfirlýsingu um mannréttindi frá 1789. Ákvæðið tók til refsinga „vegna áreitni í þeim tilgangi að fá svörun/viðbrögð af kynferðislegum toga“ og gat varðað eins árs fangelsi og sekt að upphæð 15.000 evra (2.396.550 kr.).

Af þeim sökum var ákvæðið fellt úr gildi og ný lög nr. 2012-954 samþykkt 6. ágúst 2012. Lögin fjalla um kynferðislega áreitni og mismunun tengda kynferðislegri áreitni.

1. Ný skilgreining á kynferðislegri áreitni:

Eldri skilgreiningin á kynferðislegri áreitni var svohljóðandi:

„Sá verknaður að áreita annan aðila í þeim tilgangi að fá svörun/viðbrögð af kynferðislegum toga.“

Nýju lögin innihalda mun nákvæmari skilgreingu:

„Kynferðisleg áreitni telst vera sá verknaður þegar veittst er ítrekað (endurtekið) að einstaklingi, með orðum eða hegðun af kynferðislegum toga, sem annað hvort lítilsvirðir einstaklinginn með niðurlægjandi eða auðmýkjandi hætti, eða skapar þvingandi, fjandsamlegt eða særandi andrúmsloft/aðstæður.“

Teiknari: Wolinski

Einnig tiltaka lögin að „það jafnast á við kynferðislega áreitni, jafnvel þó það sé ekki ítrekað, að beita þrýstingi í þeim tilgangi að kalla fram, raunverulega eða til að sýnast, viðbrögð af kynferðislegum toga, hvort sem það er gert í eigin hagsmunaskyni eða fyrir þriðja aðila.“

Hvað felst í „hegðun af kynferðislegum toga“ er skýrt nánar: Átt er við ummæli, látbragð (handahreyfingar), bréfa- eða bögglasendingar, framkomu … Með þessum lögum er ekki lengur gerð krafa um að glæpsamlega atferlið beri með sér að markmiðið hafi verið að fá viðbrögð af kynferðislegum toga, eða að verknaðurinn  hafi beina eða skilmerkilega skírskotun til kynlífs. Til dæmis getur verknaðurinn falist í ummælum eða hegðun sem augljóslega beinist að kynjamismunun, tvíræðni, klámi, svo sem ítrekuð ögrandi, móðgandi eða ærumeiðandi orð eða skrif sem tilkomin eru vegna kyns, kynhneigðar eða kyngervis þolandans.

Og að lokum getur kynferðisleg áreitni verið auðkennd út frá lítilsvirðingu EÐA aðstæðum sem eru þvingandi, fjandsamlegar eða særandi.

Það gefur auga leið að þolandinn má ekki hafa gefið samþykki sitt fyrir hegðun af þessum toga.

2. Nýju lögin eru felld inn í Vinnuréttinn og í lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna

Ákvæði nr. L. 1153-1 í Vinnuréttinum og ákvæði 6 í lögum nr. 83-634 frá 13. júlí 1983 um skyldur og réttindi opinberra starfsmanna hefur verið breytt á eftirfarandi hátt:

„Enginn starfsmaður á að þurfa að þola:

–     kynferðislega áreitni í formi ummæla eða hegðunar af kynferðislegum toga, sem annað hvort lítilsvirðir einstaklinginn með niðurlægjandi eða auðmýkjandi hætti, eða skapar þvingandi, fjandsamlegt eða særandi andrúmsloft (aðstæður),

–     verknað sem jafnast á við kynferðislega áreitni og felst í hvers konar þrýstingi, jafnvel þó það sé ekki ítrekað, í þeim tilgangi að kalla fram, raunverulega eða til að sýnast, viðbrögð af kynferðislegum toga, hvort sem það er gert í eigin hagsmunaskyni eða fyrir þriðja aðila.“

Atvinnurekandi er skyldugur til þess að reyna að fyrirbyggja kynferðislega áreitni og á að sjá til þess að ákvæði refsilaganna nr. 222-33 sé hengt upp á vinnustaðnum, svo og á þeim stöðum eða á hurð þeirra staða þar sem ráðningar fara fram.

Trúnaðarlæknir á að vera vinnuveitandanum til ráðgjafar um fyrirbyggjandi aðgerðir til aðkoma í veg fyrir kynferðislega áreitni.

Vinnueftirlitið getur lagt mat á það hvort kynferðisleg áreitni hefur átt sér stað.

Trúnaðarmenn geta nýtt sér tilkynningarrétt sinn.

3. Lögin taka einnig til mismununar

Ákvæði refsilaganna nr. 225-1-1 segir svo: „Öll aðgreining sem gerð er milli aðila vegna þess að þeir hafi orðið fyrir eða hafi neitað að beygja sig undir kynferðislega áreitni eins og hún er skilgreind í ákvæði nr. 222-33 eða hafa tilkynnt slíkan verknað, jafnvel þó ummæli eða hegðun hafi ekki verið ítrekuð […] telst vera mismunun.“

Mismununin varðar:

–      þolendur kynferðislegrar áreitni, hvort sem þeir hafi orðið fyrir eða neitað að beygja sig undir hana,

–      þá aðila sem tilkynnt hafa slíkan verknað.

Mismununin getur verið í formi þess:

–      að neita aðila um vöru eða þjónustu,

–      að koma í veg fyrir venjubundna aðgerð af fjárhagslegum toga,

–      að neita að ráða, að hegna eða segja upp aðila,

–      að skilyrða veitingu vöru eða þjónustu á grunni kynferðislegrar áreitni,

–      að skilyrða boð um starf, beiðni um námskeið eða þjálfun innan fyrirtækis á grunni kynferðislegrar áreitni,

–      að neita aðila um þátttöku í námskeiði af sömu ástæðum.

Og fyrir handhafa löggjafarvalds (stjórnvalds) felst mismununin í því:

–      að neita aðila um rétt sem hann hefur samkvæmt lögum, s.s. veitingu tryggingarbóta,

–      að koma í veg fyrir að aðili sinni venjubundinni starfsemi.

4. Refsiramminn rýmkaður

Refsing fyrir kynferðislega áreitni varðar 2 ára fangelsi og sekt að upphæð 30.000 evra (4.805.100 kr.), í alvarlegri tilfellum varðar það 3 ára fangelsi og sekt að upphæð 45.000 evra (7.207.650 kr.).

Refsing fyrir mismunun varðar 3 ára fangelsi og sekt að upphæð 45.000 evra (7.207.650 kr.), í vissum tilfellum getur refsingin verið þyngd þannig að varði 5 ára fangelsi og sekt að upphæð 75.000 evra (12.012.750 kr.), þar á meðal ef verknaðurinn er framinn af handhafa stjórnvalds.

Á þessu sviði virðast Frakkar vera til eftirbreytni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.