Hver má búa til reglur um tungumál?

Ég ólst upp við flámælsku ömmu minnar. Flögurnar söðuðu í gluggunum heima, en afi sem var alinn upp í Reykjavík pantaði prívatbíla, talaði um kastarholur, stakket og kaskeiti og gekk til skiptis út á altan og terras.  Þegar ég var barn heimsóttum við læknirinn, okkur hlakkaði til eins og annars og mér langaði reglulega í ís. Ég fór í skóla, var reglulega leiðrétt og lærði mun á flugum og flögum, að heimsækja lækninn, að skreppa út á svalir og sólpall og að hlakka til í nefnifalli.

Að tala það sem samfélagið upplifir sem rétt mál veitir manni stöðu og vald. Að tala það sem samfélagið upplifir sem rangt mál dregur úr valdi, ýtir manni út á jaðar samfélagsins. Það á við um leiðréttingar á dönskuslettum afa, flámæli ömmu og um pólitíska rétthugsun, því að pólitísk rétthugsun felst í stýringu og gagnrýni tungumáls.

Uppruni orðasambandsins pólitísk rétthugsun (political correctness á ensku, skammstafað PC) er nokkuð á reiki. Allnokkur dæmi eru til um jákvæða notkun orðasambandsins í kvennabaráttu og réttindabaráttu svartra á áttunda áratugnum. Pólitísk rétthugsun tengist þannig sjálfsmyndarpólitík minnihlutahópa, jaðarhópa og hópa sem eru undirskipaðir öðrum hópum. Hún tengist baráttunni fyrir því að fá að hafa áhrif á það hvernig talað er mann sjálfan og aðra þá sem eru í sömu stöðu. Pólitísk rétthugsun tengist andófi gegn staðalímyndum fólks. Hún snýst um það hvernig það er að vera kona, lesbía, hommi, bí, trans, þeldökkur, utan af landi, múslimi, frá fyrrum nýlendu, innflytjandi, aldinn að árum og af lægstu stigum samfélagsins, að fá að færa þessa reynslu í orð og að þau orð séu einhvers metin.

Eitt af grunnstefjum kvenfrelsisbaráttunnar fjallar einmitt um gagnrýni tungumáls og margir femínistar hafa barist fyrir veitulla tungumáli (inclusive language), sem rúmi bæði konur og karla, en ekki aðeins annað kynið.  Dæmi um slíka baráttu í íslenskri samtíð er ellefta íslenska Biblíuþýðingin sem kom út árið 2007 og ávarpaði safnaðarmeðlimi sem „systkin“ en ekki „bræður“. Þessi „byltingarkennda“ fornafnanotkun þótti mörgum mikil firn. Jafnframt hafa femínistar drepið fingri á ofbeldis- og nauðgunarorðræðu sem oft virðist samdauna samfélaginu. Pólitísk rétthugsun tengist slíkri sjálfsmyndarbaráttu vegna þess að baráttan fyrir sjálfsmynd fjallar öðrum þræði um vald tungumálsins. Orðræða hinna ráðandi afla er tekin sundur og skoðað hvernig slík orðræða endurspeglar hefð kúgunar, undirskipunar og ósýnileika í tungumáli.

Á okkar tíð virðist umræðan um pólitíska rétthugsun hins vegar yfirleitt vera á neikvæðum nótum. Hér á landi eru það ekki síst femínistarnir sem skammaðir eru fyrir pólitíska rétthugsun. Flest þau sem telja sig sæmilega upplýst og fjölhyggjandi láta sig mannréttindi einhverju varða. Fáir vilja hins vegar vera pólítiskt rétthugsandi því það er bæði fasískt og púkó. Þau sem sitja uppi með PC svartapétursspilið eru þannig ásökuð um að vera húmorslaus, tala óeðlilegt mál, stunda ritskoðun og kúgun einstaklingsins. Pólitískri rétthugsun er þannig stillt upp sem andstæðu hins fullmynduga og frjálsa einstaklings, auk þess sem hún er oft talin hamla sæmilega heilbrigðri gagnrýni á ýmsa hópa, t.d. í málefnum innflytjenda.

Ég velti því fyrir mér hvort gaffallinn milli hins fullmynduga og frjálsa samfélags og hinnar orwellísku rétthugsunar sé ekki að einhverju leyti falskur. Gaffallinn virðist gera ráð fyrr því að manneskjan geti lifað utan við tungumálið og horft á það utan frá. Slíkur frelsingi hinnar pólitísku rétthugsunar ætti að geta talað tungumál sem ekki væri preskriptíft, ekki segjandi fólki hvað það á að gera. En tvíhyggja vestrænnar hugsunar og ýmiss konar undirskipun virðist byggð inn í tungumálið sem við tölum. Tungumál okkar hafði að geyma boðvald löngu áður en stóru, ljótu og loðnu femínistarnir komust með puttana í það.  Eða eins og Foucault hefur verið ódeigur við að kenna okkur, eru orð okkar og orðasambönd  ekki einstök og sjálfstæð, heldur hluti af stórri heild hefða og hugmyndafræða sem rista djúpt og stýra listilega.  Og þau kerfislegu mynstur þarf sífellt að greina því hið ásættanlega er síbreytilegt. Að viðhalda því sem var samþykkt í gær kallast stöðnun.

Pólitísk rétthugsun fjallar að einhverju leyti um að sýna öðrum virðingu, að ljá eyra við öðrum sjónarhornum en þeim sem manni sjálfum eru eiginleg. Hún fjallar um ýmis grunngildi fjölhyggjunnar, um ólík sjónarhorn og vinkla, um þekkingarfræði sem er byggð upp af ótal mósaíkmyndum en ekki einni hvítri, karllægri, vestrænni sýn.

En jafnframt er það mikilvægt að þau sem tileinka sér hugsjónir og berjast gegn boðvaldi tungumálsins falli ekki í þá gryfju að halda að þeirra eigin heimssýn sé ekki lengur sett undir slík lögmál. Aðferðir sem notaðar eru til að greina hópa og sjálfsmyndir eru að sjálfsögðu ekki hafnar yfir gagnrýni.

Hér í upphafi gerði ég að umtalsefni þá málfræðilegu stýringu sem ég upplifði í barnaskóla þar sem dönskuslettur, flámælgi og þágufallssýki voru skipulega reyttar af mér. Vafalaust hefur verið farið offari í einhverju af þessu, en stýring máls er að einhverju leyti hluti af menningarlegu uppeldi líka, að vera læs á norm samfélagsins og eigna sér stað innan kima málsins.

Þess vegna er það mikilvæg spurning hver það er sem má búa til reglur um tungumál.

Flögur, einhvör?

Höfundur: Sigríður Guðmarsdóttir

6 athugasemdir við “Hver má búa til reglur um tungumál?

  1. Tungumálið verður fátæklegra ef allir tala eins. Flámæli er (var) staðbundinn framburður á Austurlandi og í Húnavatnssýslum, en fékk á sig stiimpil einhverrar ímyndaðrar lágstéttar og menningarlegrar lágkúru og var þess vegna útrýmt með valdi. Mér finnst líka óskaplega skemmtilegt að heyra börn segja „ég dreymdi“, það er svo rökrétt út frá upplifuninni. Ég vil minna á að það er samkomulagsatriði en ekki náttúrulögmál hvaða falli sagnir stýra.

  2. Áhugavert er, að þeir sem tala hvað harðast um pólitíska rétthugsun, líta sjaldan á leiðréttingar á íslensku málfari sem pólitíska rétthugsun. Í þeirra huga er allt í lagi að tala um negra og segja nauðgunarbrandara en það er glæpur að rugla saman orðtökum.
    Nú er ég auðvitað að búa mér til hóp til að gagnrýna og ekki víst að hann sé til sem slíkur. En við þurfum ekki að líta á þetta sem tiltekin hóp af mönnum heldur „raddir“ í samfélaginu. Það er aldrei talað um málfarsáhyggjur sem pólitíska rétthugsun.

  3. Mér sýnist hugtakið pólitísk rétthugsun eingöngu vera notað af fólki sem vælir um að fá ekki að halda ákveðnum óvinsælum málflutningi á lofti án þess að vera gagnrýnt harðlega fyrir það af þorra samlanda sinna. Það þykir þeim vera pólitísk rétthugsun sem fólk á að vera heilaþvegið af – þetta virðist vera tilraun til að snúa vörn í sókn með því að gera lítið úr þeim meirihluta sem er sammála um að skoðanirnar eru ógeðfelldar og væna hann um hjarðhegðun og heimsku – og setja sjálfan sig á stall þess sem þorir að hugsa sjálfstætt og segja sína meiningu. Oft fylgir með væl yfir því að í pólitísku rétthugsunni felist skerðing á málfrelsi. Þetta er í raun merkilega stöðluð notkun á hugtakinu.

  4. Paolo Freire sem skrifaði Pedagogy of the Oppressed benti á tengsl tungumáls og valds og sagði að það að tala viðurkennt „rétt“ mál væri forsenda þess: ,,,..subordinated groups would not remain at the periphery of political life: Finally teacher have to say to students, Look, in spite of being beautiful, this way you speak also includes the question of power. Because of the political problem of power, you need to learn how to command the dominant language,…“ (Mayo, Peter: Gramsci, Freire & Adult Education. Possibilities for Transformation Action. (1999)

  5. Það sem ég lærði í íslensku á suttum námsferli var ekki síst að bera virðingu fyrir málinu. Samkvæmt þeirri virðingu þurfa að vera reglur um allt það er málið varðar. Beygingar orða og öll meðferð málsins þ.m.t. setningaskipan þarf að vera samræmd á þann veg að allir tali sama málið og skilji til hlýtar. Í dag finnst mér að börn og unglingar ráð mest um þróun tungunnar. Sumir tala um að málið þurfi að vera „lifandi“ og þá síbreytilegt. Enginn ætti að efast um að sú málhreinsun sem kemur fram í grein Sigríðar var af hinu góða. Kennimenn þess tíma reyndu að ráða ferðinni og vernda málið. Nú virðist fátt um slíka. Þegar talað er í alvöru um „pólitíska rétthugsun“ skil ég ekki hvað við er átt. Ég held að flestum finnist að þeirra pólitík (stjórnmálaskoðun) sé rétt hugsuð þó að svo muni ekki vera. Mér finnst líka að menntað fólk sem skrifar fyrir almenning eigi ekki að nota orð annars tungumáls í skrifum sínum. Því ber að rita íslenskt mál, hið erlenda orð gæti þó í sumum tilfellum verið líðandi innan sviga.

  6. Afsakið. Föðurnafnið átti að vera með stórum staf og í þriðju línu vantar orðið að fyrir aftan skammstöfunina.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.