Takk, stelpur

Höfundur: María Hjálmtýsdóttir

Mynd héðan

„Konur eru konum verstar“ er setning sem hefur dúkkað upp reglulega við hin ýmsu tækifæri frá því ég man eftir mér og ég man eftir mér alveg frá nítjánhundruð-sjötíuogeitthvað. Setningin sem slík er þó mun eldri og útjaskaðri en ég sjálf. Nú skal viðurkennast að uppruna hennar, sögu eða upphaflega meiningu hef ég sama og ekkert kynnt mér, en ég geri fastlega ráð fyrir því að hún tengist Íslendingasögunum á einhvern hátt og hefndum skapmikilla víkingakvenna sín á milli (vinsamlegast leiðréttið mig þið sem meira vitið og kunnið). Samkvæmt þessari litlu óvísindalegu kenningu minni er höfundurinn karlmaður. En eins og ég segi, veit ég það eitt að ég veit ekki neitt. Nóg um það. Aftur að setningunni sjálfri.

Engin takmörk virðast fyrir því hvenær fólki þykir viðeigandi að slengja fram fullyrðingunni um að konur séu konum verstar. Dæmi: Kvenkyns fatahönnuður gagnrýnir verk annars kvenkyns fatahönnuðar í fjölmiðlum. Kona á í ástarsambandi við giftan mann og „stelur“ honum þar með frá eiginkonunni (sem er reyndar efni í aðra grein). Vinkonur verða ósáttar og tala illa hver um aðra. Systur eru ósammála og rífast. Kvenkyns fjölmiðlamanneskja gagnrýnir verk, orð eða gjörðir annarrar konu. Kvenkyns femínistar gagnrýna skoðanir og hugsanahátt kvenna sem eru þeim ósammála (og öfugt). Konur fara í framboð gegn öðrum konum, og svo mætti endalaust telja.

Allt eru þetta dæmi um að allar konur séu öllum konum verstar. Ekki vondar eða verri heldur skulum við fara alla leið og splæsa í efsta stig lýsingarorðsins – VERSTAR. Ekkert kemst uppfyrir efsta stigið. Ekkert er verra við konur en aðrar konur. Nú skulum við snúa hlutunum aðeins, því það er svo hollt og gaman, og segja sem svo að karlkyns fjölmiðlamanneskja gagnrýni verk konu, vinkona verði ósátt við vin sinn og tali illa um hann eða að karlmaður eigi í ástarsambandi við giftan mann. Má ég heyra kynbundnar alhæfingar þessu tengdar? Nei, ég hélt ekki.

Mynd héðan

Fáránlegasta dæmi sem ég hef heyrt um notkun frasans góða var þegar systir mín, þá ólétt, var spurð af annarri konu hvort hún gengi með dreng eða stúlku. Það að barnið skyldi vera karlkyns þótti konunni heppni fyrir hönd móðurinnar vegna þess að stúlkubörn gera mæðrum svo erfitt fyrir, jafnvel enn í móðurkviði. Konur eru nefnilega konum verstar meira að segja áður en þær fæðast. Við konur erum svo grimmar hver við aðra að þó svo að við getum ekki einu sinni talað, gengið, hugsað eða andað, finnum við einhverjar leiðir til að gera hver annarri grikk innanúr legvatninu.

Var mömmu þinni meira óglatt þegar hún gekk með stelpu heldur en strák? Eðlilega! Fékk hún tak í bakið þegar hún gekk með stelpurnar? Auðvitað! Óheppin var hún að ganga með allar þessar stelpur því konur eru jú konum verstar.
Stundum heyri ég hluti svo oft að ég hætti að heyra þá. Þessi setning er dæmi um það. Þegar ég loksins heyrði hana með heilanum en ekki bara eyrunum fann ég hvað hún stakk mig mikið. Fyrir utan þá staðreynd að ég á óskaplega erfitt með að höndla alhæfingar um jafn stóra hópa og konur eru, þá upplifi ég svona yfirlýsingar mjög niðrandi fyrir mig og okkur allar.

Í raun er sama hver segir hana, kona eða karl. Setningin sjálf er eins og yfirlætis- og hrokafullur beturviti sem hristir hausinn og glottir í gegnum yfirvaraskeggið yfir kjánagangi kvenna alltafhreint. „Þessar elskur sem eru í sífelldri baráttu sín á milli og höndla hreinlega ekki ef kynsystir þeirra nær lengra eða fær meiri athygli frá karlmönnum“. Og svo er það eins og með svo margt sem við heyrum sífellt og sjáum allstaðar, það síast inn og veldur allskyns hugsanatengslum án þess að við gerum okkur grein fyrir því. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef án efa í gegnum tíðina kinkað kolli og samþykkt þessa yfirlýsingu í einhverju samhengi. Algerlega hugsunarlaust. En ég hef ákveðið að hætta að heyra ekki það sem sagt er við mig og fiska eftir svona setningum þegar þeim er hent út í andrúmsloftið eins og algildum sannleika. Þetta er ekki satt. Þetta er algjör merkingarleysa sem grefur þó lúmskt undan samkennd kvenna sem við þurfum svo mikið á að halda. Ég vil ekki heyra svona bull.

Mynd héðan

Í mínu lífi eru það oftast konur sem hafa reynst mér best þegar á reynir. Ég er svo heppin að eiga systur sem ég get treyst fullkomlega, hlegið eða grátið með hvernig sem á stendur, vinkonur sem eru mér samferða í gegnum frumskóg tilverunnar, mömmu sem hjálpar mér á allan hátt þegar ég þarf á því að halda og samstarfskonur sem fá mig jafnvel til að hlakka til að vakna fyrir hádegi. Þetta eru konurnar sem gefast ekki upp á að gefa mér góð ráð, sem mynduðu skjaldborg utanum mig þegar ég var að bugast af völdum karlmanns og eru alltaf boðnar og búnar til að leggja allt í sölurnar fyrir mig. Þær vilja vita hvernig mér gengur, þeim er ekki sama þegar mér líður illa og þær gleðjast með mér þegar allt er gott. Þær hafa endalausa þolinmæði til að deila þekkingu sinni og þær vilja reynast mér vel eins og ég vona að ég geri fyrir þær.

Nú er ég ekki einu sinni byrjuð að telja upp allar hinar konurnar sem ég tengist fjölskylduböndum eða hef kynnst í gegnum tíðina sem saman mynda net sem ég veit að ég á að á einhvern hátt. Konurnar sem gauka að mér fötum af börnunum sínum þegar ég er blönk, baka og elda fyrir veislur sem þær vita að ég gæti aldrei haldið ein og gefa mér ráð til að redda öllu mögulegu klúðri. Eins detta mér í hug konurnar í Kvennaathvarfinu og Stígamótum sem myndu ávallt taka vel á móti mér og hjálpa mér endurgjaldslaust af eintómri hugsjón og umhyggju og eins margar margar fleiri konur sem ég þarf ekki einu sinni að þekkja til að vita að ég á þær að. Þær eru þarna úti í samfélaginu, ég veit af þeim og það eitt gefur mér styrk og ró. Og svo er auðvitað bannað að gleyma þeim ótalmörgu konum sem fórnuðu orðspori sínu, tíma og jafnvel lífi og limum til þess að við, konurnar sem á eftir þeim komum, mættum öðlast frelsi og kvensæmandi líf.

Að sjálfsögðu á ég ýmsa karlmenn að líka en ég upplifi þá ekki sem þetta sama þétta net og ég upplifi með konurnar í kringum mig. Eins þegar ég skoða söguna veit ég af körlum sem hafa gert ýmislegt gott og gagnlegt, en ég sé þá ekki sem hóp sem stendur saman og berst fyrir mér og mínum réttindum til að lifa og blómstra eins og femínistar fyrri ára gerðu.

Að öllum góðum mönnum ólöstuðum bendir tölfræðin og mín persónulega reynsla til þess að það séu í raun karlmenn sem eru konum verstir. Þolendur heimilisofbeldis eru oftar konur og gerendur karlar. Nauðgarar eru oftast karlar og þeir nauðga oftast konum. Völd eru oftar í höndum karla og þeir deila þeim frekar með öðrum körlum. Þolendur mansals eru oftar konur og seljendur karlar. Kaupendur vændis eru oftar karlar sem kaupa líkama kvenna. Þarf ég að segja meira?

Ég er sú sem ég er og hef komist eins langt og ég hef komist fyrst og fremst vegna allra þessara kvenna sem lögðu leiðina fyrir mig og eru samferða mér. Án kvenna ætti ég ekki séns.

Takk, stelpur.

8 athugasemdir við “Takk, stelpur

 1. Alveg sammála þér þangað til þú endar á þessu barnalega; „iiii , hin 50% eru miklu verri“

  „Sumir eru öðrum verstir“ er það eina sanna í þessu, en það hefur náttúrlega ekki eins hlaðna og spennandi merkingu og eitthvað svona trölla tal eins og þessi bull setning sem greinin fjallar um – og það bætir þá setningu ekkert að koma með sama bullið með öfugum formerkjum

  Það er ekkert kynjastríð í gangi nema í hausnum á minnihluta kreddufullra karlmanna, og sömuleiðis; minnihluta kreddufullra kvennmanna (sem oftar en ekki eru feministar)

  Helmingur mannkyns ber ekki, einn og óstuddur, ábyrgð á voðaverkum mikils minnihluta þess Venn hrings – Ekkert frekar en að allir múslimar beri ábyrgð á hryðjuverkum minnihlutahóps.

  Það er ekkert mál að bera virðingu fyrir og að virða áhyggjuefni feminista, en þetta „við á móti þeim“ mótíf sem er alveg sérlega algengt hér er barnalegt, þröngsýnt, og hjálpar minna en ekkert. (og það skiptir engu hvort það er feministi eða George W. Bush sem beitir slíkri orðræðu; það er alltaf jafn kjánalegt)

  • Takk fyrir gagnrýnina Leifur, góður punktur hjá þér. Ég var reyndar bæði búin að taka fram að svona alhæfingar væru merkingarleysa og að karlmenn væru yfir höfuð góðir, sem þeir vissulega eru.

   • Takk sömuleiðis fyrir góða móttöku…

    Þú afvopnaðir gremju mína algjörlega með svona lipru og virðingafullu svari.

    Ég verð þá bara að viðurkenna að ég hef kannski lesið aðeins og stíft í þetta hjá þér, og mögulega verið of fljótur að móðgast fyrir „mín“ 50%.

    Þú ert flott

Færðu inn athugasemd við Guðrún Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.