Afnámsstefna tekin upp í Frakklandi

Í nóvember 2011 tóku 45 félagasamtök í Frakklandi sig saman og settu fram ákall til yfirvalda sem nefnist ABOLITION 2012 sem þýða má sem AFNÁM 2012. Þetta er undirskriftalisti á netinu og hafa ýmsir framámenn úr stjórnmálum og af öðrum sviðum þjóðfélagsins stutt átakið.

Afnámssinnar voru ekkert mjög vinsælir í
Suðurríkjunum 1873

Forsprakkar átaksins eru ýmis félagasamtök sem berjast gegn vændi og/eða aðstoða fólk sem vill komast út úr vændi og vilja þessi félagasamtök hvetja yfirvöld til að breyta stefnu sinni og taka upp afnámshyggju (abolitionnisme) sem viðmið til að fara eftir þegar lög um vændi komi til endurskoðunar. Loforð um slíka endurskoðun var undirritað á þingi 6. desember 2011 og nýsettur kvenréttindaráðherra, Najat Vallaud-Belkacem, hefur hafið undirbúning að lagabreytingum í samræmi við þessa stefnu.

Afnámshyggja er ólík bæði reglugerðarhyggju (réglementarisme) og bannhyggju (prohibitionnisme) og hún er í samræmi við Genfarsáttmálann frá 1949 (1). Þar kveður á um að vændi skaði sæmd þess sem það stundar, vændisfólk sé fórnarlömb sem eigi rétt á aðstoð við að komast aftur inn í samfélagið. Í Genfarsáttmálanum er farið fram á að aðildarríkin afnemi öll lög um skyldur vændisfólks til að skrá sig sem slíkt eða að það þurfi að fara að einhverjum reglum um eftirlit og/eða tilkynningaskyldu. Orðanotkunin abolition/afnám er bein tilvísun í baráttuna gegn þrælahaldi, afnám þrælahalds felst í því að það er bannað með lögum, samfélagið samþykkir ekki þrælahald. Sérstök áhersla er lögð á að afnám er ekki það sama og útrýming (éradication). Þó að yfirvöld geti ekki útrýmt vændi geta þau samt ákveðið að taka þá afstöðu að það skuli afnumið og ekki teljast samþykkt, beint eða óbeint, í samfélaginu og að slík afstaða efli baráttuna gegn vændi. Gefum Géneviève Duché, forseta Amicale du nid, félagasamtaka sem aðstoða fólk við að komast út úr vændi, orðið: „Við þau sem halda því fram að vændi muni aldrei hverfa og því sé nauðsynlegt að umbera það eða skipuleggja það get ég sagt að enginn myndi nokkurn tímann voga sér að leggja til endurreisn þrælahalds undir því yfirskyni að það sé enn til.“

Magnús Helgason, sagnfræðingur spáir í samhengi og líkindi.

Magnús Sveinn Helgason sagnfræðingur spáir í samhengi og líkindi

Í ákallinu er bent á að afnámshyggjan verði styrkt í sessi ef vændiskaupendur verði gerðir ábyrgir og sú afstaða tekin að vændi þrífist eingöngu á eftirspurn. Öll vændisstarfsemi byggist á þessari eftirspurn og lítið hafi verið fjallað um þennan vinkil hér í Frakklandi (2). Þetta framtak hefur vakið viðbrögð frá ýmsum sem telja vændi ekki þurfa að tengjast ofbeldi eða drottnun [karlsins] yfir [kven]líkamanum órjúfanlegum böndum. Það er himinn og haf milli mismunandi túlkana á vændi og hvað felst í raun og veru í því. Meðan einhverjir sjá í sölu líkamans [og ástúðar eða blíðu?] einhvers konar „ofurkapítalisma“ sem er angi anarkískrar frjálshyggju líta aðrir á möguleikann á slíkri sölu sem „sjálfsögð mannréttindi“.

Í byrjun júlí boðaði STRASS, samtök fólks sem starfar í kynlífsiðnaðinum, til mótmæla víðs vegar um landið vegna tilkynningar ráðherrans. Mótmælin voru fámenn, sem er að vissu leyti skiljanlegt, þar sem margir í þessum bransa hafa engan áhuga á að koma fram opinberlega, m.a.vegna fordóma og skilningsleysis samfélagsins. Sjónvarpsstöðin Canal + bauð til sín tveimur konum, önnur var afnámssinni frá OLF-femínistasamtökunum en hin frá STRASS. Það er næstum óþolandi að horfa á það innslag í þættinum því í raun fellur samræðan milli þeirra um koll strax í upphafi einmitt vegna þess sem áður er bent á, þessi grundvallarmunur á skilgreiningu á vændi gerir það að verkum að viðmælendurnir virðast hrópa sínar skilgreiningar og sín rök út frá þeim og svo er þetta búið og komið að næsta atriði í sjónvarpsheimi. Áhorfandinn situr eftir jafn nær og áður. Vændi er stórt pólitískt mál því það varðar vissulega bæði mansal og misnotkun á börnum. Skemmst er að minnast fregna af fótboltaköppum úr franska landsliðinu, sem „keyptu sér vændiskonu“ sem reyndist síðan vera stúlka undir lögaldri.

Það er aðkallandi að fram komi skýrslur og rannsóknir á þessum bransa og ef vel ætti að vera þyrfti sú rannsókn að vera yfir landamæri hafin. Til að geta rætt af alvöru um vændi og mansal væri óskaplega gott að hafa eitthvað í höndunum um stærð umsvifa, til dæmis yfir Evrópu.

Þangað til getur hvert og eitt okkar í það minnsta spurt sig ýmissa grundvallarspurninga sem varða kaup og sölu, verslun og viðskipti. Hvað er réttlætanlegt að selja og hvað á það eða má það kosta? Hvers vegna getum við svo auðveldlega lagt verð á eitt en fundist annað gersamlega falla utan þess sem mögulegt er að verðleggja? Meira að segja kreditkortarisinn Visa viðurkennir að til séu fyrirbæri sem aldrei væru föl fyrir fé.

(1) Sem reyndar var ekki samþykktur í Frakklandi fyrr en 1960.
(2) Þetta sýnist mér einmitt vera það sem hér á Íslandi er kallað „sænska leiðin“.

Ein athugasemd við “Afnámsstefna tekin upp í Frakklandi

  1. Bakvísun: Afnám vændis í Frakklandi | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.