„Rómantíkin getur verið sjúk“

Eðvarð Ingólfsson

Fyrir nokkrum árum tók ég mig til og las meira og minna allar unglingabækurnar sem ég elskaði sem barn og unglingur. Lesturinn gekk reyndar svo langt að það endaði með því að ég skrifaði BA-ritgerð um Eðvarð Ingólfsson. Að sumu leyti vegna þess að mér finnst mikilvægt að skrifa um áhrif þess sem er vinsælt en líka vegna þess að mér fannst mikilvægt að gera fræðilega úttekt á mínum eigin viðtökum og afbyggja minn fyrri skilning á bókunum.

Það sem kom mér mest á óvart við lestur á efni úr bókaskápum æsku minnar var hve yfirgengileg áhersla er á ástarsambönd í sumum af þessum unglingabókum. Sérstaklega gengur þetta langt í þeim bókum sem fjalla um stelpur, strákar fá oft að eiga að minnsta kosti eitt áhugamál, t.d. fótbolta eða tónlist. Flestar bækurnar voru heterónormatívar og ég man ekki til þess að hafa lesið neinar bækur um sambönd fólks af sama kyni fyrir utan bækur Anaïs Nin sem voru ekki beinlínis ætlaðar börnum og unglingum. En bækur um ástina voru margar. Alveg ótrúlega margar. Hér kemur stutt úttekt á nokkrum höfundum.

Vinur minn Lúki

Nokkrar af bestu erlendu bókunum eru eftir höfundana Judy Blume og Christine Nöstlinger. Ég elskaði bókina Vinur minn Lúki eftir Nöstlinger svo mikið og ég las hana svo oft að hún rifnaði öll í sundur og ég þurfti að útvega mér nýtt og nýtt eintak.[1] Sagan segir frá Maríönnu sem verður fyrir hálfgerðu áfalli þegar vinur hennar Lúki kemur heim úr sumarskóla á Englandi. Vináttan sem hún hefur stjórnað í 14 ár fer skyndilega úr því að vera á forsendum Maríönnu yfir í að Lúki verður þungamiðja lífs hennar og reyndar alls skólans sem þau ganga í. Hann hefur breyst úr venjulegum strák í einhverja frumútgáfu af hipster. Hann prjónar trefla og hjólar um á eldgömlu hjóli af nytsemisástæðum og síðast en ekki síst vill hann taka samband þeirra Maríönnu skrefi lengra en áður. Söguþráðurinn er mjög skemmtilegur og alveg einstaklega fyndinn en þrátt fyrir að stelpa sé aðalsöguhetja bókarinnar, snýst bókin sjálf um vin hennar. Svo mikið að hún heitir í höfuðið á honum en ekki henni, aðalsöguhetjunni.

 

Judy Blume gerir ástum unglinga ágæt skil í sínum bókum og mesta furða að ekki fleiri bækur eftir hana hafi verið þýddar á íslensku. Þvílík heppni að hafa átt enskumælandi vinkonu sem kynnti mig fyrir þessum frábæra höfundi. Að eilífu (e. Forever) er, að ég held, sú eina sem hefur verið þýdd á íslensku. Að eilífu er svokölluð young adult bók og segir frá hinni 18 ára Katherine sem eignast kærasta og stundar með honum kynlíf. Blume segir hispurslaust frá samskiptum Katherine og Michael kærastans hennar. Allt frá sakleysislegum samskiptum þeirra í upphafi sambands og þar til þau stíga skrefið til fulls. Það sem kemur á óvart er hve fordómalaus frásögnin verður þegar Katherine missir áhugann á Michael og verður skotin í öðrum strák í staðinn. Í stað þess að hefja mögulega æskilegan meydóm upp, er atburðarásin framsett sem eðlilegur framgangur unglingsáranna og kynlíf aðalsöguhetjunnar verður merkilega lítið gildishlaðið. Önnur bók eftir Blume, sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og hefur elst mjög vel, er Deenie. Í henni segir frá Deenie sem er sérlega fögur þrettán ára stúlka sem er undir miklum þrýstingi frá móður sinni um að verða fyrirsæta. Deenie til (ó)láns kemur í ljós að hún er með hryggskekkju og þarf að fara í búkspelku í mörg ár og er það mikið áfall fyrir móður hennar. Deenie lætur það ekki slá sig út af laginu. Hún á marga góða vini og henni líður líka vel þegar hún stundar sjálfsfróun.

Fimmtán ára á föstuÞessu er ekki að fagna í bókum Eðvarðs Ingólfssonar um kakódrekkandi unglinga í barneignastússi. Þótt bækur Eðvarðs séu á margan hátt skemmtilega skrifaðar (sérstaklega því Eðvarð hefur svo einlægan stíl) þá varpa þær oft óraunsæju ljósi á ástarsambönd og kynlíf. Sem dæmi má nefna hinn dyggðuga Árna sem er svo góður að hann stenst þá öflugu freistingu að halda framhjá Lísu sinni þar sem hún liggur á sæng eftir að hafa fætt son þeirra, eða Birgi sem svíkur Ásdísi vegna þess að hann drakk áfengi en ekki vegna þess að hann langaði til þess. Innbyggt traust, vinátta og jafnrétti er ekki í forgrunni þeirra ástarsambanda sem fjallað er um í bókunum, jafnvel ekki þeim sem ganga mjög vel. Þess í stað ríkja hugmyndir byggðar á mun kristilegri hefðum um refsingar samviskunnar, þá sérstaklega hvað varðar freistingar.

Kollegi hans Andrés Indriðason skrifaði margar skemmtilegar bækur. Mér fannst fyrsti unglingabókaflokkurinn hans, Fjórtán, bráðum fimmtán, Viltu byrja með mér og Töff týpa á föstu langskemmtilegastar. Þær lýsa heimi skífusímans og Hallærisplansins mjög vel, auk þess sem þær eru oft alveg ofsalega fyndnar. Sú bók sem mér fannst erfiðast að lesa eftir hann þegar ég var orðin fullorðin var Með stjörnur í augum. Ég man hvað ég las hana oft sem forgelgja og fannst hún sérlega skemmtileg. Hún fjallaði um sambönd á forboðnari hátt en aðrar bækur Andrésar – hún var spennandi. Með stjörnur í augum segir frá Sif sem er sautján ára og kynnist Arnari sem er ári eldri. Eitt kvöldið heima hjá honum eru þau að kela og hún vill stoppa. Hann stoppar ekki, hann gengur of langt. Hann nauðgar henni. Það er ekki orðað þannig, umræðan er meira eins og það hafi verið slys. Svo verður hún ólétt. Hann sér eftir þessu en ekki nóg til að standa með henni. Hún heldur áfram að vera skotin í honum. Hann verður samt fjarlægur. Aðallega af því að hann er svo skotinn í henni. Hún eignast barnið ein.

Er þetta ást? Þær bækur sem eru merkilegastar í þessu samhengi eru eftir Liz Berry. Hún skrifaði bækurnar Er þetta ást? og Frjáls eða fjötruð? en þar segir frá listmálaranum Cathy sem 17 ára gömul villist inn fyrir girðingu á búgarði sem rokkstjörnur eiga. Tónlistarmennirnir sem þar búa rekast á hana fyrir tilviljun, fá hana með sér heim í býlið í mat þar sem annar þeirra talar um göldrótta hálsfesti áður en hann nauðgar henni. Hún verður í kjölfarið ólétt og ganga bækurnar út á stormasamt samlíf Cathy og rokkstjörnunnar Dev. Nauðgarans. Í þessum bókum er orðið nauðgun notað. Cathy segir við Dev að hann hafi nauðgað sér og að henni líði illa að vera nálægt honum, að hún fái blóðbragð í munninn. Úr þessu er þó ekki unnið á annan hátt en að smátt og smátt verður Cathy fjarlægari heiminum, hafnar nýfæddum syni þeirra og sekkur í þunglyndi. Að lokum viðurkennir hún að þar sem hálsfesti Devs slitnaði (?) hafi örlögin tekið yfir og leitt hana og Dev saman. Því hafi hún innst inni viljað sofa hjá honum þegar hann nauðgaði henni. Útaf hálsfestinni. Þau lifa hamingjusöm til æviloka.

Niðurstaðan var meira og minna sú að margar af þeim bókum sem ég las sem barn og unglingur drógu merkilega fáar fram raunsæja mynd af heiminum. Það sem mér fannst erfiðara að horfast í augu við var að margar þeirra höfðu haft talsverð áhrif á mig. Það þýðir ekki að ég hafi gengið um með þann draum að vera ólétt sextán ára og drekka kakó. Það þýðir frekar að með lestri bóka með þessum áherslum er auðvelt að fá skakka mynd af lífinu og hvað sambönd eiga og mega ganga út á. Nú er ég enginn sérstakur talsmaður þess að skáldsögur eigi að vera gallharður realismi en bækur sem fjalla um að stelpur elski nauðgarana sína eru kannski full mikið af því góða.

Brúðhjón


[1] Ég vil nota þetta tækifæri og þakka Bókasafninu í Garðabæ fyrir eitt af þessum eintökum. Límið á kilinum lét hana duga lengur en öll hin eintökin til samans.

3 athugasemdir við “„Rómantíkin getur verið sjúk“

  1. Flott að fá hugmyndir fyrir dóttur mína sem er mikill lestrarhestur. Hún liggur núna í Eragon-bókunum eftir Christopher Paolini. Ég játa að ég hef ekki gefið mér tíma í að lesa þær sjálf, en ég er alger sökker fyrir unglingabókum. Sú bók sem ég las hvað oftast hét Ég er kölluð Ninna, sænskur realismi par excellence. Þessar íslensku náðu mér ekki, ég geymdi enga þeirra.

  2. Bakvísun: Prinsessur og riddarar – skyndiúttekt á barnabókum í Frakklandi | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.