Munurinn á lömbum og fórnarlömbum

Höf.: Guðný Elísa Guðgeirsdóttir

Þegar náttúruhamfarir eiga sér stað er það frétt. Þegar einhver er myrtur er það frétt. Þegar einhver er sakfelldur fyrir nauðgun er það frétt. Við ætlumst til þess að fjölmiðlar flytji okkur fréttir af mikilvægum atburðum, líka þeim sem eru hörmulegir, og gefi okkur kannski um leið tækifæri til hrósa happi með sjálfum okkur yfir því að þurfa ekki sjálf að upplifa svona hörmungar. Við gerum jafnvel ómeðvitað ráð fyrir því að svona hlutir komi bara fyrir aðra – en ekki okkur. Þetta er allt svo hræðilegt og á einhvern lúmskan hátt óhugnalega áhugavert. Við erum kannski ekki að hlakka yfir óförum annarra en við erum pínu forvitin að lesa um þessa dramatíska viðburði.

Þetta vita fjölmiðlar og þegar eitthvað „krassandi“ gerist eru þeir fljótir að skella upp á vefsíður sínar stærðar fyrirsögnum sem koma boðunum hratt og örugglega til skila. Sum okkar eru jafnvel svolitlir fréttafíklar og nota sér fjölbreytta tækni til að fá fréttirnar sendar til sín nánast um leið og þær eiga sér stað. Tæknin er svo sannarlega stórkostleg.

Þegar kindur grafast í fannfergi fylgjumst við full aðdáunar með björgunaraðgerðunum. Það er magnað að sjá kind koma sprelllifandi og frelsinu fegin undan skafli eftir að hafa verið grafin í fönn svo dögum skiptir. Fjölmiðlar vita að okkur finnst þetta spennandi og áhugavert. Við erum ekki að hlakka yfir óförum lambanna; við höfum áhyggjur af þeim og við vonumst til að hraustmenni nái að bjarga þeim í tæka tíð. Við viljum vera upplýst, við viljum ekki að dýr þjáist og við viljum ekki að bændur verði fyrir áföllum.

Þegar einhver er sakfelldur fyrir nauðgun viljum við vita það. Við erum öll sammála um að þeir sem fremja ofbeldisglæpi eigi að vera dregnir til ábyrgðar. Við viljum að réttarkerfið sýni í verki að það viðurkenni að nauðgun er hræðilegur glæpur og að brotaþolar eigi skilið að þeim sé sýnd virðing og skilningur. Oft tölum við um að dómskerfið sýni brotaþolum lítinn skilning og að allt of fáir nauðgarar þurfi að svara til saka. Því eflir það trú okkar á réttarkerfið að sjá að nauðgarar þurfi að taka afleiðingum gerða sinna.

Þetta vita fjölmiðlar líka og þeir eru til þjónustu reiðubúnir. En stundum villast þeir af leið í ákafa sínum við að færa okkur góðu fréttirnar. Þeir vilja flytja okkur fagnaðarerindið og þeir vilja gera það með stæl. Þeir muna hvað við urðum ánægð þegar við sáum lömbin grafin upp úr fönninni. Svo fjölmiðlarnir ákveða, af einskærri góðmennsku og þjónustulund, að myndskreyta líka nauðgunarfréttirnar.

En það er þarna sem þeir misstíga sig stundum. Þeir ruglast stundum á lömbum og fórnarlömbum glæps. Þeir halda að ef við sjáum lamb við fréttina skiljum við betur gleðitíðindin. Þarna var lambi bjargað og réttlætið nær fram að ganga.

Stundum fer þessi boðskapur öfugt ofan í okkur sem höfum orðið fyrir nauðgun. Við lítum nefnilega ekki á okkur sem lömb. Við gleðjumst líka yfir að réttarkerfið dragi menn til ábyrgðar, en við fyllumst viðbjóði við að sjá fréttina myndskreytta með sviðsettum myndum.

Kæru lesendur, getum við ekki orðið sammála um þann skilning að þegar einhverjum er nauðgað upplifir hann eða hún ótta og varnarleysi? Að nauðgun felur í sér að einhver taki líkama manns og fái útrás á honum án samþykkis okkar? Getum við ekki sammælst um þann skilning að nauðgun er ein ógnvænlegasta reynsla sem manneskja getur orðið fyrir? Ef við erum öll sammála um þetta, getum við þá ekki sammælst um að við þurfum ekki myndir af lambakjöti til að fylla í eyðurnar á ímyndunarafli okkar?

2 athugasemdir við “Munurinn á lömbum og fórnarlömbum

  1. Góð ádrepa. Og það að tíunda nákvæmlega í fjölmiðlum hvernig nauðgun fór fram, inn í hvaða líkamsop var ráðist og með hverju, er í rauninni framlenging á nauðguninni. Þetta er sérstaklega áberandi í fréttum sem fjalla um nauðgun á börnum – sem sjaldnast er nefnd nauðgun heldur barnaníð, kynferðisleg áreitni o.þ.h.

  2. Mér finnst myndatextinn undir myndinni sem fylgir greininni líka áhugaverður. Svona kankvíslegur tónn í honum, soldið fyndin þessi „framúrstefnulega nuddaðferð“ – eins og það sem fram fór hafi haft nokkurn skapaðan hlut með nudd að gera. Flott ádrepa.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.