Stelpur, strákar og stærðfræði

Í hundrað þúsund ár spurðu karlar sjálfa sig að því hvers vegna konur væru svona heimskar. Eftir að fræði urðu til og háskólar varð spurningin æ áleitnari. Hvað skýrir yfirburði karla í öllum vísindum og listum, spurðu menn. Og þetta voru hlutlægir yfirburðir, niðurstöður prófa, sem sýndu að óþarft var að senda stúlkur í langskólanám – það væri léleg fjárfesting. Hinir víðsýnni voru tilbúnir að gera undantekningar – ein og ein kona næði ef til vill þroska á við karlmann, og þær mættu auðvitað njóta þess. Við vitum auðvitað að þessi viðhorf hafa að nokkru leyti breyst. Konur njóta sömu réttinda á blaði og karlar. En allt fram á síðustu ár hafa verið vinsælar hugmyndir um líffræðilegan eðlismun á hugsun karla og kvenna. Eru strákar ekki aðeins hæfileikaríkari í stærðfræði og í að bakka bíl í stæði? Og stelpur betri í að skynja tilfinningar annarra og töfra fram kvöldmat handa fjölskyldunni?

Ríkjandi hugmynd um hinn unga stærðfræðisnilling sem vinnur einn og í þögn með karl-heilann að vopni. (Úr Logicomix: An Epic Search for Truth eftir Doxiadis og Papadimitriou)

Áratugum saman sýndu rannsóknir að strákar voru að jafnaði stúlkum fremri í stærðfræði. Allt fram á áttunda áratug síðustu aldar mátti lesa um marktækan mun á meðalárangri á prófum, strákum í hag, í stórum bandarískum rannsóknum. En á seinni árum hefur dregið saman með kynjunum og telst nú enginn marktækur munur á meðalárangri unglinga þar í landi. Og ef litið er yfir allan heiminn kemur í ljós að í dag ná stelpur sums staðar að jafnaði betri árangri en strákar á prófum og í könnunum við lok skyldunáms, á meðan því er öfugt farið annars staðar, og víða er munurinn ekki marktækur. Það sama má segja um dreifni – í sumum löndum dreifist árangur stráka meira en árangur stelpna en í öðrum tilfellum er enginn munur. Enn er þó töluverður munur á fjölda karla og kvenna í háskólum í greinum þar sem mikil stærðfræði er hluti af náminu, meiri munur eftir því sem menntunarstigið hækkar. Og í stað þess, sem áður var, að menn töldu stráka hæfileikaríkari, hafa sumir tekið upp gamla kenningu um að geta karla sé dreifðari – það séu fleiri mjög slakir og líka fleiri snillingar, hlutfallslega, miðað við konur.

Rannsókn Kane og Mertz frá þessu ári, Debunking myths about gender and mathematics performance, sem birtist í tímariti Bandaríska stærðfræðafélagsins, Notices of the AMS, 59(1), bls. 10-21, bendir eindregið til þess að kynjamunur á árangri unglinga á stærðfræðiprófum ráðist fyrst og fremst af félags-menningarlegum þáttum. Rannsókn þeirra byggir á gögnum úr stórum alþjóðlegum samanburðarkönnunum (PISA og TIMSS) og Ólympíuleikum í stærðfræði (sem er alþjóðleg stærðfræðikeppni fyrir unglinga) og hún sýnir að sér í lagi skiptir máli að hve miklu marki jöfnuður ríkir milli kynja í samfélaginu, og nánar tiltekið skiptir munur á launum og atvinnuþátttöku miklu máli. Eftir því sem konur eru nær því að hafa sama aðgang og karlar að menntun og atvinnu og eru nær þeim í launum, þeim mun minni munur á kynjunum (bæði í meðalárangri og dreifni). Og reyndar batnar árangur bæði stráka og stelpna eftir því sem kynin eru jafnari. Þetta er í samræmi við aðrar stórar rannsóknir sem ganga þvert á tíma og samfélög og ljóst er að kynjamunur á árangri í stærðfræði er ekki eðlislægur heldur háður félags- og menningarlegum veruleika.

Mynd sem sýnir ólíkar dreifingar á stigum á sama prófi í ólíkum löndum. (Úr grein Kane og Mertz)

En þó að stelpur séu farnar að standa sig jafn vel og strákar (eða betur) í skólastærðfræði velja þær þó mun síður feril innan stærðfræðinnar eða þeirra vísindagreina þar sem stærðfræði leikur hvað stærst hlutverk. Þetta er áhyggjuefni vegna þess að þessar greinar veita almennt aðgengi að vel launuðum og virtum störfum sem fela í sér meiri völd en flest önnur. Kynjamunurinn felst ekki í ójafnri frammistöðu heldur ójafnri hlutdeild og þátttöku. Samkvæmt umfjöllun Yvette Solomon í bókinni Mathematical literacy: Developing identities of inclusion (2008) er þetta ekki vegna þess að konur standi sig verr í fræðunum heldur vegna þess að þær upplifa sig ekki sem fulla þátttakendur í „heimi stærðfræðinnar“, eða á leið þangað inn. Stærðfræðin verður meira og meira útilokandi fyrir þær, eftir því sem ofar dregur. Menningarheimur háskólastærðfræðinnar einkennist af upphafningu á gildum ríkjandi karlmennsku, svo sem hörku, samkeppni og einstaklingshyggju (en ekki til dæmis samvinnu og umhyggju). Við þetta bætist að leiðir til skilnings, þekkingar og sköpunar innan stærðfræðinnar eru yfirleitt „faldar“ í stað þess að vera ræddar upphátt. Maður þarf ákveðinn vilja til að líta á sig sem tilheyrandi þessu samfélagi, eða jafnvel stuðning sem er ekki veittur í skólunum sjálfum (og þar kemur stéttastaða, menntun foreldra og fleira inn í myndina). Margt bendir til þess að stærðfræðikennarar líti frekar á stráka en stelpur sem hæfileikaríka verðandi stærðfræðinga og tali við þá sem slíka, jafnvel þótt enginn munur sé á árangri þeirra í skólanum. Margar ungar konur virðast af þessum sökum ekki fara í þessar greinar eða hætta fljótlega. Hið sama má reyndar segja um marga unga karla þó að minnihluti þeirra nái góðum árangri og samsami sig þessari menningu.

Í þessum pistli hef ég reynt að gera grein fyrir því að árangur stráka og stelpna í stærðfræði í skólum er háður samfélags-menningarlegum veruleika. Til marks um þetta er að samanburðurinn er ólíkur eftir tíma og löndum. Einnig er mikilvægt að minnast á ójafna stöðu kynjanna innan raunvísinda þar sem stærðfræði er veigamikil, hvers vegna það skiptir máli og rekja nokkrar ástæður sem kunna að vera fyrir því. Ég ætla að taka sérstaklega fram í lokin, til ítrekunar, að það er ekki vegna þess að kynin séu í eðli sínu ólík, heldur hefur það að gera með það hvers konar sjálf og sjálfsmyndir eru í boði, hverjir eru hvattir áfram og hvernig menning stærðfræðinnar verður meira og meira útilokandi eftir því sem ofar dregur (fyrir konur en líka karla sem hafa ekki stuðning til að líta á sig sem verðandi stærðfræðinga).

10 athugasemdir við “Stelpur, strákar og stærðfræði

 1. Er þetta ekki allt eins vegna þess að konur hafa fleiri fleiri ásættanlega valkosti þegar kemur að menntunarvali. Það er miklu erfiðara félagslega fyrir karla að velja kvennadómineraðar greinar en fyrir konur að velja karladómineraðar greinar, þ.e. þær fá að heyra að þær séu duglegar ef þær fara í karlagreinar, meðan að karlar í kvennagreinum fá jafnan á sig stimpil um að vera ekki alvöru karlar.

  Þegar ég fór í eðlisfræði var allavega áberandi að það var nánast engin stelpnanna sem var á vitlausum stað, meðan að stór hluti strákanna var augljóslega í vitlausu námi.

  Þegar hugað er að lausnum er að mínu mati mikilvægt að við skoðum það til jafns hvernig við opnum kennara- og heilsugreinarnar fyrir körlum eins og hvernig við opnum raungreinarnar fyrir konum.

  • Ég hef einmitt heyrt beint frá einum og lesið hjá öðrum á bloggi, að það var ekkert smá gott að vera karl í hjúkrunarfræði. Þeim var víst vel tekið og fengu jákvæða athygli frá samnemendum, var frekar hjálpað „of mikið“ ef eitthvað var.

 2. Ég man eftir augnablikinu þegar ég fékk þau skýru skilaboð að stærðfræði væri eitthvað sem ég ætti ekki að skipta mér af. Við höfðum verið að leysa verkefni í tíma í stærðfærði í 9. bekk og ég lét kennarann vita að ég væri búin. Honum þótti það frekar ólíkleg saga og fékk stærfræðiséni bekkjarins til að setjast á borðið mitt og fara yfir verkefnið mitt á meðan allur bekkurinn fylgdist spenntur með. Séníð fann eitthvað af villum sem ég hafði gert og þuldi þær upp. Þetta var hin besta skemmtun fyrir hann, kennarann og alla bekkinn. Áður en ég dó alveg úr skömm sagðist ég ætla að klára verkefnið heima og koma með það daginn eftir. Og það gerði ég. Ég sat sveitt yfir öllum dæmunum þar til þau voru fullkomin. En í næsta tíma var kennarinn búinn að gleyma þessu eða missa áhugann og leit aldrei á afrakstur vinnu minnar. Ég hætti ekki að læra stærðfræði og þótt ég væri kannski ekki séni gekk mér alltaf prýðilega. En skilaboðin voru greinilega þau að ef ég ætlaði eitthvað að færa mig upp á skaptið gat ég átt von á opinberri auðmýkingu og útskúfun. Þannig að ég er bókmenntafræðingur.

 3. @ Héðinn: Fjárhagslegur hvati fyrir konur til að fara í „karlagreina“ er aðeins hærri en öfugt. Ef t.d. almennileg kennaralaun væru í boði, þá geturðu verið viss um að strákar flykktust í alla skóla.

 4. Ég hætti við að fara í hagfræði á sínum tíma af því að ég sá fram á að verða eina stelpan í árganginum í hagfræði. Það fylgir því yfirleitt félagsleg einangrun og jafnvel útskúfun að vera eina stelpan í karlahópi. Maður fær ekki að vera ein af þeim. Mig langaði ekki að vera eina stelpan og eyða árunum í háskólanum ein og án félagslífs eða námsfélaga. Ég hætti því strax og skráði mig í annað nám.

 5. Á vísindalegum ráðstefnum í jarðvísindum, þar sem kynjaflutfallið er heldur jafnara en í mörgum öðrum raunvísindum heyrir maður samt svona svar við erfiðri spurningu eftir fyrlrestur: „Well, if we knew that, we would be driving around in expensive sportcars and picking up girls left and right..“ (og salurinn springur) Þar sem „we“ vísar til jarðvísindamanna.. ekkert sérlega inklúderandi fyrir konurnar í salnum..

  • Sjitt…minnir mig á þegar ég sat fyrirlestur í HÍ, fyrir fjórum árum, um vefsvæði fyrir fjarnema, hvernig ætti að setja hitt og þetta upp í tölvunni þannig að tæknilegir örðugleikar væru í lágmarki. Fyrirlesarinn klikkti út með orðunum: „Og þá hagar hún (tölvan) sér eins og vel öguð eiginkona…“

 6. Ég var kominn vel áleiðis með þessa grein og leist vel á þangað til koma að þessari málsgrein: ,,Menningarheimur háskólastærðfræðinnar einkennist af upphafningu á gildum ríkjandi karlmennsku“. – Þarna missti ég trú á greininni og ranghvolfdi augunum….Enn ein greinin fyllt með kynjafræðifroðu.

  Freyja: Þetta heitir á islensku að gefast upp. Það er kannski hluti af ,,vandamálinu“ þ.e að það vanti bein í nefið á ykkur stelpunum. Ég var að vinna sem stjórnandi hjá stóru fyrirtæki fyrir nokkrum árum og ég þurfti bókstaflega að ýta þeim kvenkynsstarfsmönnum í launaviðtal sem höfðu staðið sig vel. Svar þeirra var yfirleitt á þá leið að þær vildu ekki rugga bátnum!

  Vissulega voru sumar sem fóru í sitt árlega launaviðtal og það var greinilega fylgni á stöðu(launum) og hversu aggresívar þær voru. ,,Litil mús“ út í horni fær ekki stöðuhækkun þar sem þarf mögulega að hafa mannaforráð og kemur það kyninu ekkert við. Það snýst um að hafa þá kosti og eiginleika sem þarf í starfið.

  Ég held að ef allar konur myndu venja sig á að fara í sitt launaviðtal árlega þá myndi koma skriður á þennan launamun og hann minnka jafnt og þétt. Sem barn getur lítil prinsessa fengið allt sem hún biður um en þegar maður fullorðnast þá fær maður nefnilega ekki allt upp í hendurnar og það þarf að hafa fyrir hlutunum. Sú afsökun að kenna karlmönnum um eigið dugleysi er hjákátleg, hið minnsta.

  • En hvers vegna heldurðu að þær vilji ekki rugga bátnum? Mér sýnist þú draga þá ályktun að það sé bara vegna þess að þær séu „litlar mýs“ úti í horni. Það er afar ólíkt flestum þeim konum sem ég þekki. Ég veit t.d. um eina sem fékk ekki stöðuhækkun þó hún ætti hana skilið en þó hana dauðlangaði til að fara með málið í hart ákvað hún að gera það ekki til að afla sér ekki óvildar meðal yfirmannanna. Til að eiga mögulega séns síðar. Ég þekki svosem ekki hvernig þessar konur voru sem þú varst að vinna með en þú verður að athuga að í hverju tilfelli fyrir sig verða konur að meta það hvort það borgi sig fyrir þær að „rugga bátnum“ og eiga e.t.v á hættu óvild yfirmanna sinna – eða hvort þær eigi frekar að sætta sig við aðeins lægri laun. Þetta stafar því allt eins af því að álíta sig ekki alveg hluta af vinnuumhverfinu og óöryggi um að halda vinnunni, fremur en einhverjum aumingjaskap.

   Og er ekki ansi djarft af þér að álykta um að það „vanti bein í nefið“ á konum eins og Freyju fyrir að halda ekki áfram í námi þar sem hún yrði eina konan? Hefur þú einhvern tímann prófað að vera eina konan í strákahóp? (Ég veit ekki hvort það er sama upplifun og að vera eini karlinn í stelpuhópi – einhvern veginn grunar mig að það sé pínulítið öðruvísi, að það sé algengara að eini karlinn í kvennahópi verði gerðir að „dekurdrengjum“ af því að þeir þykja svo einstakir og góðir að leggja það á sig að vinna með konum. Það getur samt vel verið að þeir upplifi sig stundum útilokaða, t..d þegar umræðuefnið fer fyrst og fremst að snúast um „kvennamálefni“). En sem eina konan í strákahóp þarf venjulega eitthvað mikið til að maður fái að vera hluti af hópnum. Og ef þú hefur aldrei prófað einveru og félagslega einangrun á eigin skinni þá finnst mér ansi dómhart af þér að álíta að valið um að eyða ekki þremur árum (og kannski lengri tíma) í það að vera utanveltu, stafi af einhvers konar dugleysi. Sérðu það ekki líka hvað þetta krefst miklu, miklu meiri áhuga á viðfangsefninu heldur en hjá strákum? Þeir þurfa ekki að hafa breeeeeennnandi áhuga á hagfræði til að fara í námið því þeir eru líklegri til að fara fyrir félagslífið eða af því að það þykir kúl, en til að leggja á sig einangrunina þurfa stelpur virkilega að hafa passíon fyrir viðfangsefninu.

   Ég er samt sammála þér með að það taki greinina aðeins niður að fjalla um þessa „karlmannlegu“ eiginleika stærðfræðinnar, svo sem hörku, samkeppni og einstaklingshyggju. Að tala um hörku og samkeppni sem „karlmannleg gildi“ er mjög gildishlaðið í sjálfu sér. Ég held að konur fælist alls ekki frá hörku og samkeppni, meðal annars vegna þess að flestar þeirra hafa upplifað að vera unglingsstelpur (mín upplifun af því var að það ríkti miklu meiri harka og samkeppni meðal stelpnanna en strákanna þar sem einmitt ríkti meiri samstaða). Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú að sjá fram á að vera ein eða ein af örfáum stelpum, þekkjandi það hvað það hefur hamlandi áhrif á félagslíf og frama manns.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.