Af mýtum og tenntum píkum

Teeth

Auglýsingaplakat úr Teeth

Höfundur: Guðrún Elsa Bragadóttir.

Kvikmyndin Teeth (2007) fjallar um unglingsstúlkuna Dawn, sem fæddist – líklega vegna nálægðar heimilis hennar við kjarnorkuver – með tennta píku. Hún uppgötvar þessa goðsögulegu eiginleika kynfæra sinna þó ekki fyrr en hún fer að taka sín fyrstu, mjög svo afdrifaríku, skref í kynlífi: hún ræður ekkert við sig þegar bólfélagar hennar ganga of langt, þegar þeir neita að hætta þegar hún biður þá um það, og… hún bítur. Píkan hennar bítur typpið af þeim.

Ég verð að viðurkenna að ég gapti svolítið þegar ég sá þessa mynd fyrst. Ekki af því að þetta væri skrítnasta eða ógeðslegasta hryllingsmynd sem ég hafði séð, langt frá því, heldur vegna þess að myndin skildi svo lítið eftir til túlkunar. Það er svo oft hægt að greina myndir þannig að tennta píkan komi fyrir í þeim á einhvern hátt, hvort sem það er munnur geimverunnar í Alien-myndunum eða flugbeittar tennur vampírunnar í Fright Night (1985). Vinir mínir segja oft við mig að stundum sé pípa bara pípa (og eiga þá væntanlega við að ég þurfi ekki að sjá fallusinn alls staðar) en það fyndna við Teeth er að þar er tennta píkan bara tennt píka. Og merking hennar breytist fyrir vikið: hún stendur ekki lengur (aðeins) fyrir geldingarógn konunnar heldur verður hún líka að vopni; hún verndar hana fyrir áreiti.

Alien

Geimveran í Alien

Hin gelda og geldandi kona birtist reglulega í goðsögnum allra feðraveldissamfélaga en ein birtingarmynd hinnar geldandi konu er tennta píkan (vagina dentata). Hún var ekki búin til af steiktum kvikmynda- og bókmenntafræðingum til að nota í greiningu heldur er hún til í goðsögnum margra þjóðflokka. Til dæmis var ein fyrsta kona jarðarinnar með píku sem gat breyst í tenntan munn sem át lim elskhuga hennar, samkvæmt þjóðsögum Yanomami-fólksins, en í New Mexico er til gömul saga af ungum manni sem sigraðist á tenntu píkunni, sem hafði tekið sér kvenmannsmynd, með því að gefa henni súrt berjameðal sem eyðilagði tennur hennar og breytti munninum þannig að hún gat ekki lengur tuggið, aðeins kyngt.

Tennta píkan birtist með ólíkum hætti í sögum ólíkra þjóða og stundum er hún bara tákn þess að kynfæri kvenna geti verið hættuleg karlmönnum þótt þau geti líka veitt þeim mikla ánægju. Hún stendur meðal annars fyrir svikult og tvöfalt eðli konunnar sem tælir fórnarlömb sín með kynferðislegum töfrum sínum en reynist svo stórhættuleg. Tennta píkan getur til dæmis birst í myndlist þegar fallegar konur eru sýndar með hættulegu dýri sem berar ógnandi tennurnar en dýrið táknar þá lífshættulegt kynferði konunnar og illar fyrirætlanir hennar.

Vampíran úr Fright Night

Þótt manni hefði ef til vill fundist það liggja beint við, fjallaði Freud aldrei um tenntu píkuna í öllum sínum rannsóknum á geldingarótta (sem vaknar þegar drengur sér kynfæri fullvaxinna kvenna í fyrsta sinn, yfirleitt móður sinnar, en vegna þess að þau eru hulin hárum líkjast þau kynfærum föðurins fyrir utan skortinn á getnaðarlimnum). Sennilegasta skýringin á því er að tennta píkan samræmist ekki kenningum Freuds þar sem karlmaðurinn/faðirinn geldir en konan er óvirk og geld. Hann er hrifnari af hugmyndinni um að píkan sé blæðandi sár heldur en að hún sé geldandi munnur.

Salomé (1865) – Pierre Bonnard

Barbara Creed hefur (sál)greint þessa tilhneigingu Freuds til að horfa framhjá konunni sem mögulegum geranda, þeim sem geldir, í bók sinni The Monstrous-Feminine, sem ég mæli með því að allir sem áhuga hafa á tenntum píkum lesi.¹ Fleiri fræðikonur hafa bent á þessa tregðu Freuds, þar á meðal Susan Lurie, sem hefur haldið því fram að menn óttist konuna einmitt vegna þess að hún er ekki limlest (eins og maðurinn væri hins vegar, yrði hann geldur) heldur vegna þess að hún er líkamlega heil og kynferðislega sterk. Hugmyndin um geldu konuna sé því frekar órar karlmannsins, sem séu til þess ætlaðir að draga úr raunverulegri hræðslu um að konan geldi hann bæði andlega og líkamlega. Tennta píkan er fyrirbæri sem er bæði heillandi og fráhrindandi, en hún er til í menningunni og því engin ástæða til að horfa framhjá henni. Hún er fremur frumlegt tákn hinnar hættulegu, geldandi konu og getur verið alveg bráðskemmtileg í greiningu, hvort sem er á bókmenntum, kvikmyndum eða myndlist.

 

Stundum vinna listamenn beint með tenntu píkuna eins og Alfreð Flóki gerir á þessari mynd, þar sem hin geldandi Salomé er nýbúin að afhöfða Jóhannes skírara og skartar þessari fínu tenntu píku. (Alfreð Flóki, Teikningar, 1963)

 

¹Creed, Barbara. The Monstrous-Feminine: Film, Feminism, Psychoanalysis. (London: Routledge, 1993)

7 athugasemdir við “Af mýtum og tenntum píkum

 1. Svolítið bitlaust.

  Lestur greinarinnar skilur lítið eftir sig annað en að fólki hafi dottið þetta fyrirbæri í hug. Að sjá tenntu píkuna í geimverunni í Alien eða vampírunni í Fright night er með öllu huglægt mat, þú gætir alveg eins sett fram þá kenningu að þar sé í raun fljúgandi spagettískrímsli á ferðinni – því ekki rökstyðiru tengingarnar við tenntu píkuna þar.

  Þú orðar það eiginlega sjálf best: „Fljúgandi spagettískrímsli getur til dæmis birst í myndlist þegar fallegar konur eru sýndar með girnilegum ítölskum mat en maturinn táknar þá óskiljanleika tilverunnar og tilgangsleysi.“ Algjörlega huglægar túlkanir. Vinir þínir standa sig ekki alveg nógu vel í því að árétta það að pípa er jú bara pípa „Ceci n’est pas une pipe“.

  • Ég held þú sért að misskilja tilvísunina í Magritte og pípuna hans. Magritte segir að pípan sé ekki pípa, heldur mynd af pípu. Mynd og pípa eru ekki sami hluturinn. Þótt einhver horfi á myndina og túlki hana sem pípu, þá er hún eftir sem áður bara mynd. Greining verksins felst í því á hvaða forsendur greinandinn fellst. Sjáir þú pípu sérðu ekki það sama og sá sem sér mynd.

  • Guð forði okkur frá því að lesa huglægt mat á internetinu! Annars ættirðu að glugga í heimildina sem er gefin neðst í pistlinum ef þig langar í langan rökstuðning.

  • Sæll Hrafn,
   takk fyrir að sýna greininni áhuga. Henni er alls ekki ætlað að sannfæra einn eða neinn um gildi tenntu píkunnar í greiningu, heldur frekar að koma með nokkur dæmi um það hvernig hún er notuð (svona fyrir áhugasama) – en til að skilja það almennilega þyrftirðu eiginlega að kynna þér málið betur. Ég mæli sérstaklega með Barböru Creed, en það hafa líka margir skrifað um hana í tengslum við dekadensinn.

   Það er mjög auðvelt að snúa út úr, eins og þú gerir með „spagettískrímslinu“ og ég bjóst alveg við því að einhver myndi gera það, enda tala ég úr ákveðnu samhengi og eðlilegt að greiningaraðferðir á borð við þessa virðist framandlegar. Þú hrósaðir mér einhvern tímann fyrir greiningu á Baywatch-þáttunum, hún var öðruvísi og að mörgu leyti meira beisikk kvikmyndagreina- og frásagnarstrúktúrsgreining. Tennta píkan er alveg jafn gild í greiningu, en kannski erfiðara að gera henni almennilega skil í svona stuttri grein eða bloggi. En bara svo það sé alveg á hreinu: þeir sem sjá tenntu píkuna í Alien eða Fright Night þurfa að færa sannfærandi rök fyrir því og það kemur alls ekki í veg fyrir aðra túlkun.

 2. Sæl Guðrún,
  Þakka þér fyrir að svara athugasemd minni. Hafi markmið þitt með greininni ekki verið að sannfæra lesandann um gildi tenntu píkunnar í greiningu þá skil ég ekki alveg markmiðið með henni. Mér virðist sem tilefni greinarinnar hafi verið það að þú hafir horft á myndina Teeth þar sem söguhetjan er með tennta píku (raunar hef ég séð hluta af b-mynd sem fjallar um smokk sem bítur liminn af körlum en það er önnur saga).

  En það er ósanngjarnt af þér að saka mig um að snúa út úr. Ég er að segja að þú færir ekki nægilega sterk rök fyrir máli þínu: „Það er svo oft hægt að greina myndir þannig að tennta píkan komi fyrir í þeim á einhvern hátt“ virðist vera uppistaðan í greininni.

  Aðalatriðið í greininni er svo : „Þótt manni hefði ef til vill fundist það liggja beint við, fjallaði Freud aldrei um tenntu píkuna í öllum sínum rannsóknum á geldingarótta“ þetta er algjörlega gildishlaðin setning. Þú færir ekki rök fyrir því að Freud hafi átt að fjalla um tenntu píkuna – hin tennta píka er ekki menningarlegt minni fyrir mér þótt þú reynir að fullyrða eitthvað annað um fornmenningu Yanomami-fólksins ég-veit-ekki-hvar. Þarna getirðu það að útgangspunkti að super-átoritetið Freud hafi verið í ruglinu þegar hann sniðgekk tenntu píkuna af því að hann „er hrifnari af hugmyndinni um að píkan sé blæðandi sár heldur en að hún sé geldandi munnur.“ Án þessa að fram komi neitt svakalega sannfærandi rökstuðningur. Svo teluru upp 2 fræðimenn sem eru sammála þessari órökstuddu skoðun Creed og Laurie, og segir „að menn óttist konuna einmitt vegna þess að hún er ekki limlest (eins og maðurinn væri hins vegar, yrði hann geldur) heldur vegna þess að hún er líkamlega heil og kynferðislega sterk“

  Þarna er eiginlega spurningin sem þú hefðir átt að tækla áður en þú fullyrðir að Freud hafi verið í ruglinu. Afhverju segiru að maðurinn óttist konuna? Er það bara óttinn við hið óþekkta?

  NB
  Mér finnst greinin ágæt sem slík, ef það virðist sem að ég sé að gera mikið úr litlu, en ég kann ekki við að vera sakaður um að snúa út úr.

  • Mér sýnist við bara vera ósammála um það hvað þetta greinarkorn er og hvað það ætti að vera. Mér sýnist líka ekki að þessar umræður séu að fara að breyta einhverju um þína skoðun á mér eða greininni, hvað þá tenntu píkunni (enda er það ekkert aðalatriði fyrir mér að öllum finnist hún frjó (!) eða sniðug). Ég sé á facebook-veggnum þínum að þú grínast með að þú sést „í slag við femínista og kynjafræðinga“, en ég hef ekki tíma til að taka þátt í þeim slag. (Svo er ég líka bókmenntafræðingur, þannig að ef þú ert að reyna að vera í slag við einhvern hérna þá er það við femínista og bókmenntafræðing.)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.