Nunnur fyrir rannsóknarrétti

Mér finnast nunnur flottar.

Fyrir mörgum árum átti ég stutta námsdvöl í Svíþjóð. Það hafði nýlega runnið upp fyrir mér að líklega væru karlar og konur ekki alveg jöfn, hvorki í samfélaginu eða kirkjusamfélaginu. Ég notaði mestallan tímann til að glugga í femíníska guðfræði og kynna mér aðstæður kvenna í hinum ýmsu kirkjudeildum. Mér var bent á að ræða við framúrstefnulega nunnu sem m.a. barðist fyrir prestsvígslu kvenna í rómversk-kaþólsku kirkjunni. Konan sat á móti mér með svart höfuðfat með hvítri rönd, bauð mér kaffi og spurði hverja ég ætlaði að tala við. Ég nefndi nokkur nöfn, en nunnan hristi höfuðið og sagði: „Þessi er allt of íhaldssamur, þessi er allt of íhaldssamur.“ Og ég sem hafði í fávisku minni talið að fátt væri íhaldssamara en nunnur. Fyrir nokkrum árum rakst ég síðan á aðra nunnu í fullum skrúða á ráðstefnu evrópskra kvenguðfræðinga. Þessi var spænsk og var að halda erindi um dulúð og Judith Butler.

Myndin er fengin að láni héðan.

Innan hins fjölmenna rómversk-kaþólska kirkjusamfélags eru fjölmargir kvenkyns guðfræðingar. Margar þeirra eru nunnur. Þær hafa rödd og mál í krafti reglu sinnar, sem er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að rómversk-kaþólska kirkjan hefur ekki heimilað prestsvígslu kvenna og öll helstu valdaembætti og kennivald eru í höndum karlmanna. Þessir sömu karlmenn taka síðan ákvarðanir sem hafa áhrif á líf og heilsu kvenna um veröld víða, ákvarðanir sem meðal annars lúta að fóstureyðingum, getnaðarvörnum og hefðbundnum kynhlutverkum karla og kvenna. Margar þessara kvenguðfræðinga eru jafn íhaldssamar og karlarnir, en þar fyrirfinnast líka eitilharðir femínistar sem hafa mótað kvenfrelsisguðfræði sem hefur haft áhrif langt út fyrir þeirra eigin raðir og kirkjudeild.

Greinilegt er að Vatíkanið hefur þungar áhyggjur af fræðaiðkun og áhrifum þessara kvenna. Þrjú síðustu ár hafa tveir heimsfrægir kvenguðfræðingar lent í klónum á CDF (Congregatio pro Doctrina Fidei) og heil nunnusamtök með.  CDF sker úr um rétta eða ranga guðfræði, er til húsa í Vatíkaninu í Róm og er að stofni til Rannsóknarrétturinn gamli, þótt hann hafi verið dubbaður upp með nýju nafni í aldanna rás. Hann er skipaður tveimur tugum kardínála, auk presta og leikmanna.

Og nú er rannsóknarréttur 21. aldar búinn að þefa uppi nunnurnar.

Elizabeth Johnson er einn frægasti kvenguðfræðingur heims og starfar sem prófessor við kaþólska háskólann Fordham University í New York. Helsta verk hennar er „She Who Is“, bók sem ræðir um mikilvægi þess að nota kvenkynsorð jafnt sem karlkynsorð um guðdóminn. Elizabeth Johnson telur að ef alltaf er vísað til guðsins sem „hans,“ fari fólk ósjálfrátt að tilbiðja karlmennskuna í stað almættisins. Johnson skrifar verk sitt í samræðu við helstu kirkjufeður kristninnar og færir rök fyrir því að tala um hið kristna guð sem þríeina visku, Móðurvisku, Jesúvisku og Helgrar andar visku. Biskupafundur allra rómversk-kaþólskra biskupa í Bandaríkjunum tók Elísabetu á teppið fyrir bókina „Quest for the Living God“ sem kom út árið 2007 og hélt áfram fyrri vinnu hennar við að auka fjölbreytni í því hvernig tala má um hið heilaga. Niðurstaðan lá fyrir í mars í fyrra, þar sem amerísku biskuparnir fordæmdu bókina. Margir hafa hins vegar komið Elizabeth Johnson til hjálpar, þar á meðal skólayfirvöld í Fordham og margir kirkjunnar karlar og konur.

Í apríl á þessu ári réðst CDF síðan til atlögu við Samtök klausturkvenna (Leadership Conference of Women Religious) í Bandaríkjunum, en þessi samtök hafa verið í rannsókn hjá réttinum síðustu fjögur ár. Um 80% allra nunna í Bandaríkjunum eða um 57000 nunnur heyra til samtökunum, þar á meðal téð Elizabeth Johnson, og þau hafa greinilega þótt frjálslynd í meira lagi. Úrskurðinn má lesa hér.[1] Þar er byrjað á að klappa nunnunum fyrir allt þeirra góða starf meðal fátækra og þurfandi, en síðan tekur að hvessa í Vatíkaninu sem húðskammar nunnurnar fyrir róttækan femínisma. Nunnurnar eru gagnrýndar fyrir frjálslyndi í kynferðismálum. Þær höfðu leyft sér að draga það í efa að getnaðarvarnir og fóstureyðingar væru af hinu illa, höfðu haldið fram nauðsyn þess að vígja konur til prests og klykktu síðan út með að blanda saman hinu helga máli um Guð föður og hans eingetna son saman við eitthvað skuggalegt feðraveldi.  Í úrskurðinum tekur CDF ákvörðun um að samtökunum verði stjórnað næstu fimm árin af þremur karlmönnum, einum erkibiskupi og tveimur biskupum, sem munu væntanlega reyna að koma einhverjum böndum yfir nunnurnar.

Myndin er fengin að láni héðan.

Í byrjun júní birti CDF síðan nýjan úrskurð um „Just Love“, bók Margaret Farley, prófessors við Yale háskóla sem kom út árið 2006. Úrskurðinn má lesa hér.[2] Í bókinni heldur Farley meðal annars fram að það sé í fínu lagi að fróa sér, samkynhneigð sé ekki eins slæm og af sé látið og að hjónaskilnaðir ættu að leyfast í rómversk kaþólsku kirkjunni. CDF er ekki skemmt og hefur nú lýst því yfir að bókin birti á engan hátt kenningar rómversk-kaþólsku kirkjunnar og að Vatíkanið snúist öndvert gegn því að hún sé kennd eða lesin í kaþólskum skólum.

Sem aftur hefur leitt til þess að þessi hógværi texti um ágæti sjálfsfróunar hefur vakið upp andóf. Hann er orðinn að metsölubók og var sextánda vinsælasta bók júnímánaðar hjá Amazon.

Eins og ég segi, þessar nunnur eru töff.


[1] Úrskurður CDF um LCWR: http://www.usccb.org/loader.cfm?csModule=security/getfile&pageid=55544, sóttur 4. okt. 2012.

[2] Úrskurður CDF um Margaret Farley: http://press.catholica.va/news_services/bulletin/news/29292.php?index=29292&lang=en#, sóttur 4. okt. 2012.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.