Hver þarf femínisma?

Í apríl á þessu ári hrintu 16 nemendur við Duke-háskóla í Norður-Karólínu af stokkunum herferðinni Who needs feminism? Markmið herferðarinnar er að hvetja til opinberrar umræðu um það hvers vegna femínismi er mikilvægur, hverju hann hefur skilað og hverju hann á eftir að skila. Aðferðin felst í að dreifa myndum af fólki sem heldur uppi spjöldum með setningum sem byrja á orðunum „I need feminism because …“

Hver sem er getur sent inn mynd og fjölmörg dæmi eru um að margar myndir berist frá sama vinnustaðnum eða skólanum þar sem einhver hefur tekið sig til og fengið fólkið í kringum sig til að taka þátt.

Herferðin var upphaflega lokaverkefni í námskeiði um konur í almannarými en vakti mjög fljótt athygli og varð „viral“ (eins og krakkarnir segja) á undraskömmum tíma. Ýmis sambærileg verkefni hafa sprottið upp í öðrum skólum og hér og þar um internetið í kjölfarið. 

Vettvangur alls þessa stuðs er bloggsíða á Tumblr, svo og sérstakir Facebook– og Twitter-reikningar. Þeirra eigin heimasíða er í vinnslu en þar má þó skrá sig á póstlista. Í dag er um hálft ár síðan verkefnið fór af stað, það eru um 3.000 færslur á Tumblogginu og Facebook-síðan hefur tæplega 19.000 aðdáendur.

Höfundar herferðarinnar hafa þetta að segja um tilurð hennar og markmið:

„Ef þú titlar sjálfa(-n) þig femínista í dag munu margir gera samstundis ráð fyrir því að þú sért karlhatandi, brjóstahaldabrennandi, vælandi vinstrisinni. Tiltekinn sjarmerandi útvarpsmaður mun mögulega kalla þig femínasista eða druslu. Jafnvel í hófsamari kreðsum þykir femínismi enn of róttækur, of óþægilegur eða einfaldlega ónauðsynlegur. Femínismi er bæði misskilinn og honum hafnað, einmitt hér á háskólasvæðinu í Duke. Við, konurnar 16 í námskeiði Rachel Seidman um konur í almannarými, höfum ákveðið að rísa upp gegn þessum algengu ranghugmyndum um femíníska baráttu. Bekknum okkar brá verulega við að sjá það sem við upplifum sem yfirgnæfandi útbreitt viðhorf meðal nemenda, um að samfélag dagsins í dag þurfi ekki á femínisma að halda. Til þess að reyna að breyta þessu viðhorfi hérna í kringum okkur höfum við hrint af stað auglýsingaherferð fyrir femínisma. Við ætlum okkur að breyta staðalímyndunum um femínista og vekja athygli á mikilvægi femínisma í dag.“

Fyrir hönd Knúzzins sendi ég baráttukveðjur til Norður-Karólínu og hvet lesendur okkar til að taka þátt í herferðinni eða hrinda sinni eigin af stað. Taktu þátt í að mölva feðraveldið!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.