Hann er skáldið, hún er tröll – um Máttugar meyjar eftir Helgu Kress

Í vikunni sem leið fann ég bók í Bóksölu stúdenta sem ég hélt að væri alveg uppseld, og kostaði hún ekki nema 828 krónur. Það er bókin Máttugar meyjar eftir Helgu Kress sem gefin var út af Háskólaútgáfunni árið 1993, tveim árum eftir að Helga var skipuð prófessor við Háskóla Íslands. Nú þegar Helga hefur nýverið látið af störfum sakir aldurs finnst mér fróðlegt bæði að rifja upp þessa bók sem gerði allt snælduvitlaust á sínum tíma svo og lesa hana sjálfur í fyrsta skipti (vert er að benda á að skrif Helgu hafa áður komið við sögu á þessum vef, í greinarkorni mínu Konur og djöflar á miðöldum). Helga byrjar bókina hressilega þegar í formálanum og segir að rauði þráðurinn í bókinni sé niðurþöggun kvenna í vaxandi karlveldi:

Þau átök milli karla og kvenna sem af þessu skapast eru eitt meginviðfangsefni íslenskra fornbókmennta og hreyfiafl í sögu þeirra. Í rannsóknasögunni má sjá framhald þeirrar niðurþöggunar á konum sem þessar bókmenntir lýsa. Allt frá fyrstu íslensku bókmenntastofnuninni á 13. öld og til dagsins í dag má sjá tilhneigingu fræðimanna til að ýta konum og skáldskap þeirra undir yfirborð bókmenntasögunnar.

Helga leitar ekki að „sögulegum veruleika, hvað hafi í rauninni gerst, hvar og hvenær, heldur að uppsprettum og merkingum í texta, að sögunni sem hann verður til úr og knýr hann áfram“. (9) Þessari áréttingu hljóta póstmódernistar meðal bókmenntafræðinga að fagna; veröldin er ekki ein og annað hvort svört eða hvít, heldur flókin og margbreytileg, og sjónarhorn Helgu er ekki aðeins innlegg í eldri feminíska umræðu í fræðunum (hún styðst við Svövu Jakobsdóttur, Else Mundal, Carol Clover, Gro Steinsland og Juliu Kristevu, meðal annarra) heldur er hún ný leið til að skoða þann veruleika og þann merkingarheim sem býr að baki bókmenntunum, í gegnum greiningu á bókmenntunum sjálfum, orðanna hljóðan og samhengi í texta. Þá er ekki þar með sagt að bókin höfði eingöngu til harðasta afstæðishyggjufólks og alls ekki til empírista, heldur að burtséð frá því hvort lesandinn er sammála allri greiningu Helgu þá er hún augsýnilega mikilvægt innlegg í staðnaða umræðu; umræðu sem sumpart hefur haldið áfram að staðna á þeim 19 árum síðan bókin kom út.

„Skegg, bók og skjöldur. Snorri Sturluson, bókmenntastofnun 13. aldar holdi klædd. Í Íslendinga sögu segir að Snorri fékk „skjöld, sverð og brynju“ í skáldalaun frá Hákoni jarli galna. Slíkt samband karlmennsku, ritmenningar og hernaðar má víða sjá í íslenskum fornbókmenntum.“ (bls. 16)

Aðdáendur Judithar Butler gleðjast því að á blaðsíðu 13 skýrir Helga líkan mannfræðingsins Edwins Ardener um átök menninga, þar sem lykilorð eru þöggun og drottnun, tungumál og vald. Ég nefni Butler því líkanið minnir á kenningu hennar um „jöðrun og öðrun“ sem hún byggir um margt á hugmyndum Derrida. Hugmyndin í lauslegri endursögn felst í því að þeir þjóðfélagshópar sem skilgreindir eru utan samfélagsnormsins eru jaðraðir, þeir verða hinir andspænis okkur; taki þeir þann stimpil upp á arma sína að vera þessir aðrir hættir normið að vera til án þeirra, hinna jaðarsettu. Það að benda á að ekkert getur verið eðlilegt nema eitthvað óeðlilegt sé sérstaklega búið til líka er ein leið til að benda á fáránleika óréttlætis; það að jaðra sig vísvitandi er tæki til að framandgera samfélagsnormin og krefjast réttar síns (sjá t.d. Butler 1993, Bodies that Matter). Dæmi um þetta er upphafning staðalmyndanna í Gay Pride og það stolt sem fylgir orðunum hommi og lesbía, orðum sem fyrir ekki svo löngu voru niðrandi þar til hommar og lesbíur sneru þeim á haus.

Helga vill leiðrétta þá umfjöllun um „fyrirferðarmiklar“ konur íslenskra miðaldabókmennta þar sem þeim hafi „gjarnan verið lýst sem sterkum og frjálsum, þar sem blandað hefur verið saman hugtökunum sterkur og frjáls. Þær máttugu meyjar sem koma fyrir í íslenskum fornbókmenntum eru ekki frjálsar, en þær eru sterkar, og styrkur þeirra felst einmitt í því að þær neita að láta kúga sig. Það gera þær að mestu án árangurs en andóf þeirra má sjá alls staðar í textanum og er það jafnframt einn helsti drifkraftur hans“ (12). Undir þessa áréttingu er óhætt að taka. Það að kona sé nefnd skörungur þýðir ekki að hún hafi haft nokkurt vald inni á heimili eða utan þess. Hallgerður langbrók var langþreytt á að vera undirskipuð körlum og erfiðar aðstæður hennar gleymast jafnan þegar ferill hennar í Njálu er gerður upp og henni legið á hálsi fyrir að hafa brugðist bónda sínum á ögurstund vegna smámuna á borð við heimilisofbeldi (sjá annars áhugaverða greiningu Óttars Guðmundssonar 2012, Hetjur og hugarvíl). Margar fleiri konur mætti nefna til.

Helga leggur fram þá áhugaverðu tesu að munnleg frásagnarlist hafi verið aðall kvenna á ármiðöldum og færir fyrir því sannfærandi rök: mörg eddukvæði, einkum hetjukvæði, fjalla um kvenlega reynslu og hafa kvenlegt sjónarhorn. Einnig nefnir hún tengsl skáldskapar og seiðs sem aðeins konur gátu stundað (karlar sem iðkuðu seið voru sagðir argir; Óðinn einn ása getur stundað seið og hefur margt verið skrifað og rætt um það kvenlega eðli hans), auk læknislistar. Allt heyrði þetta kvennamenningunni til en færist svo smám saman undir allsráðandi menningu karla líkt og áðurnefnt líkan Ardeners gerir grein fyrir, og þetta gerist að nokkru leyti fyrir tilstuðlan nýrrar eingyðistrúar á Norðurlöndum, kristninnar, og þeirrar ritmenningar sem hún hefur í för með sér (13). Á einum stað afsakar skrifari miðaldahandrits til dæmis að hann skuli telja konur með skáldum. Að vísu munu konur einnig hafa setið við skriftir í klaustrum, en vandasamt er að segja til um að hve miklu leyti:

Mikið af ritstörfum miðalda hefur farið fram í klaustrunum. Á þessu tímabili voru tvö nunnuklaustur á Íslandi, annað stofnað 1186 og hitt 1296, og þar hefur að öllum líkindum verið unnið að ritstörfum eins og í munkaklaustrunum og nunnuklaustrum erlendis. En um starf nunnuklaustranna á Íslandi eru fáar heimildir (17).

Þá langar mig að nefna sérlega áhugaverða umræðu Helgu um orðið edda, en rökræður um merkingu orðsins hafa lengi átt sér stað innan fræðanna. Helga nefnir nokkrar hugmyndir um merkingu orðsins, en það hefur bæði verið talið þýða langamma og óður; hún nefnir einnig þann möguleika að orðið sé myndað út frá staðarheitinu Oddi, þar sem Snorri Sturluson ólst upp, eða að orðið sé dregið af latnesku sögninni edo sem þýðir að safna saman, gefa út, yrkja. Helga bendir á heimildir um að drengir hafi numið kveðskaparlist af vörum mæðra sinna því þeim tilheyrði hin munnlega frásagnarlist sem áður segir, og því tengist heiti Snorra-Eddu hvorutveggja fróðum konum (langömmum) og óð. (22-24) Þetta held ég að sé eins nærri sannleikanum og við komumst.

Helga skýtur stundum föstum skotum og slíkt getur verið stuðandi en mér finnst eiginlega ekki annað hægt en að hafa húmor fyrir því:

Neðanmáls ræðir [Konráð Gíslason] um langömmu-kenninguna og byrjar þar með þá hefð bókmenntastofnunarinnar að ræða neðanmáls um hugsanlega hlutdeild kvenna í bókmenntaarfinum. (191-2)

Þessa hlutdeild Konráðs í umræðunni ræðir Helga að sjálfsögðu í neðanmálsgrein.

Þótt af nægu sé að taka í skemmtilegri og stórfróðlegri bók Helgu Kress þá verð ég að láta staðar numið hér eftir að hafa aðeins klórað í yfirborð fyrsta kaflans. Ég mæli með Máttugum meyjum handa öllum þeim sem hafa áhuga á íslenskum miðaldabókmenntum, sama hver afstaða tilvonandi lesanda til femínisma eða femínískrar bókmenntagreiningar annars kann að vera. Ég læst ekki vera sammála öllu sem stendur í bókinni en þó ekki væri fyrir annað er alltaf frískandi að skoða „hinn þekkta heim“ frá nýjum sjónarhóli, kannski reynist hann kynlegri en áður var talið. Þess utan er von að lesandinn komist að ýmsu sem hann ekki vissi áður.

Ég lýk pistlinum á tilvitnun þar sem Helga fjallar um sennu skáldskapargoðsins Braga við tröllskessu sem situr fyrir honum úti í skógi:

Þar með hefur hann kveðið hana í kútinn. Hann er skáldið, hún er tröll. Þessi fundur tröllkonunnar og fyrsta skáldsins á sér stað utan samfélagsins, úti í skógi, sem skáldið ekur um í myrkri. Annars vegar má hér sjá tröll/konu/nafnleysi og hins vegar skáld/karl/nafn. Skáldskapur skógarins heyrir konum til. En karlinn hefur síðasta orðið. (26)

Ein athugasemd við “Hann er skáldið, hún er tröll – um Máttugar meyjar eftir Helgu Kress

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.