Bleikt

Mynd fengin hér.

Ég hef aldrei verið sérstaklega hrifin af bleiku, ekki sinu sinni þegar ég var krakki. Mér hefur alltaf þótt það dálítill hvorki-né-litur, útvatnaður og lítið spennandi. Ég man að við vinkonurnar fyrirlitum bleikt af öllu hjarta á vissu aldursskeiði (fermingaraldri) og strengdum þess heit að sniðganga þann lit alla ævi. Við höfum örugglega allar svikið það.

Þetta gæti auðvitað eitthvað tengst því að bleikt hefur aldrei klætt mig sérstaklega vel. Bræður mínir voru miklu sætari í bleiku.

Bleikt klæddi reyndar líka dóttur mína, núverandi femínista en þáverandi Öskubuskuaðdáanda, og fram að 11 ára aldri sótti hún líka dálítið í slaufur, gullskraut og blúndur. Hún gerði sérstakt samkomulag við eldri konur í fjölskyldunni til að verða sér úti um bleikar flíkur og pífur. Þær versluðu í tiltekinni búð á Laugaveginum og þær bundu líka bleikar slaufur í hárið á henni.

Núna þarf ég hins vegar að þræða bæinn endilangan til að finna flíkur í öðrum litum en bleiku á dótturdætur mínar. Ja, eða kaupa eitthvað með hauskúpu- og köngulóamynstri í strákadeildinni.

Sjálf er ég  meira fyrir dramatískari liti – svona eftir að svarta tímabilinu lauk – og forðast að ganga í bleiku. (Var ég búin að nefna að bleikt klæðir mig ekki sérlega vel? Svona er ég nú ókvenleg.)

Ekki svo að skilja að bleikt sé ekki dramatískur litur og jafnvel harmrænn. Það var hann að minnsta kosti fyrir þá 50-60.000 homma sem voru auðkenndir bleikum þríhyrningi í útrýmingarbúðum nasista. Hommar hafa tekið bleika þríhyrninginn aftur upp á sína arma núna sem alþjóðlegt baráttu- og sameiningartákn. Gott hjá þeim!

Kannski er þá kominn tími til að sættast við bleika litinn. Og jafnvel slaufur líka. Að minnsta kosti Bleika slaufu Krabbameinsfélags Íslands en október er einmitt kenndur við hana. Þá efnir Krabbameinsfélagið til árveknis- og fjáröflunarátaks sem landsmenn taka vonandi þátt í af heilum hug.

Ég þarf varla að segja neinum að starfsemi Krabbameinsfélagsins, að ég tali nú ekki um Leitarstöðina sem það rekur, skiptir miklu máli fyrir líf og heilsu okkar allra. Þegar við heyrum fréttir af því hvað krabbameinstilfellum hefur fjölgað mikið á einhverju árabili er sú fjölgun ekki síst að þakka hve krabbamein greinist miklu fyrr núna en áður og jafnvel á frumstigi, sem eykur að sjálfsögðu bata- og lífslíkur fólks umtalsvert. Á heimasíðu Leitarstöðvarinnar er þetta sagt um tilgang leitarstarfsins:

Tilgangur skipulegrar krabbameinsleitar er að koma í veg fyrir myndun krabbameina með því að finna þau á  forstigi, áður en ífarandi krabbamein hefur myndast, eða að finna sjúkdóm á hulinstigi (frumstigi), þ.e. eftir að ífarandi vöxtur hefur byrjað en áður en einkenni koma fram.

Þeim hefur tekist býsna vel í fræðslu og forvörnum en til að starfið geti haldið áfram að eflast þurfum við öll að koma að því og vera meðvituð um það, bæði konur og karlar. Við konurnar megum ekki heldur gleyma að fara í reglubundið eftirlit – panta tíma strax og áminningin kemur! – og ættum líka að vera duglegar að minna hver aðra á að fara í skoðun. Það getur orðið dýrkeypt að slugsa.

Þegar ég var stelpa sem hataði bleikt varð ég vitni að langdregnum og kvalafullum dauðdaga tveggja kvenna sem mér voru kærar. Þær hefðu kannski haldið lífi ef Leitarstöðin hefði verið til á þeim árum.

Svo kannski ætti ég að hætta að hata bleikt. Að minnsta kosti í dag, því nú er nefnilega BLEIKI DAGURINN!

Krabbameinsfélagið biður landsmenn um að klæðast einhverju bleiku eða hafa bleikan lit áberandi í kringum sig til að vekja athygli á átakinu. Sumir prjónagraffa í tilefni mánaðarins og Hljómskálinn er óneitanlega ansi flottur svona.

Mynd fengin hér.

Að maður tali nú ekki um Kolfreyjustaðarkirkju á Fáskrúðsfirði.

kolfreyjustadarkirkja

Engin hálfvelgja í þessum bleika lit!

Kannski ég verði þá í bleikum sokkum í dag. Eða að minnsta kosti með Bleika slaufu.

4 athugasemdir við “Bleikt

  1. Mér fannst bleikur lengi ómögulegur litur. Ég gekk þó vissulega um eins og marsípanrúlla í kringum fermingu: svartir skór, bleikar legghlífar, svartarbuxur, bleikt belti, svartur bolur, bleikur trefill vandlega rúllað á tæknilegan hátt um hálsinn.
    Eftir að ég eignaðist dóttur varð hins vegar bleikur svo mikill hluti af lífinu að ég smitaðist algerlega. Hún er nú farin að vilja frekar svart eða sterka „dramatíska“ liti, en áfram heillast ég af bleiku stöffi og þrjóskast t.d. við að ganga í bleikum buxum sem ég keypti mér fyrir nokkrum árum og eru orðnar bæði snjáðar og með óafmáanlegum bletti í. Það má því segja að ég sé bleika týpan, þó ég gangi að vísu í fullt af öðrum skærum og skemmtilegum litum líka.

  2. Bleikur var alveg tabú í mínu lífi frá því ég var unglingur og þangað til Femínistafélagið var stofnað (aftur?) og bleiku bolirnir gerðir (man einhver eftir þeim? „Ég hugsa, þess vegna er ég femínisti“ og fleiri flott slagorð :)). Ég var alveg svakalega glöð einhvers staðar inni í mér þegar konur tóku bleika litinn til baka og hef reynt að eiga eitthvað bleikt allar götur síðan. Bleikur er dásamlegur litur!

  3. Hér í Frakklandi eru það ekki bara konur sem hafa tekið bleika litinn, því hér eru hörðu úthverfanaglarnir komnir í bleikar hettupeysur. Ég hef ekki lagt í að fá að mynda þá, en þarf nú eiginlega bara að herða mig upp í að gera það.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.