Snemma beygist krókurinn

Höfundur: Gísli Ásgeirsson.

„Að fortíð skal hyggja þá framtíð á að byggja“.  Í anda þess eru nú þættir Hemma Gunn rifjaðir upp á næstbesta útsendingartíma RÚV, á eftir föstudagsfréttunum. Þar sátu síðast Hemmi, Þórhallur Gunnarsson og Logi Bergmann og rifjuðu upp eftirminnileg atriði við eigin hlátrasköll. Það sem mesta athygli vakti í þessum þætti voru án efa fatafellur úr MK, kornungir piltar, sem áttu að halda uppi heiðri þjóðarinnar í samkeppni við útlendu Chippendale-hönkin, sem þá mjólkuðu áhuga alþýðu manna á nekt karla. Þyrstir í athygli í vinsælasta þætti landsins fóru unglingarnir í heimsókn til saumaklúbbs og fækkuðu þar fötum við góðar undirtektir viðstaddra kvenna. Síðar í þættinum sjást þeir dansa á nærbrókunum við konurnar í beinni útsendingu og ekki fór á milli mála að sumir voru búnir að fá sér aðeins meira en góðu hófi gegndi. Þetta fannst þeim þremenningum fyndið en hvort þeir sem þarna þekktu sig 20 árum síðar hafi hlegið jafn dátt, er ekki vitað.

Annað mál þessu óbeint tengt var í kvöldfréttum RÚV. Þórduna, nemendafélag VMA, hafði haldið karlakvöld sem fékk misjafnar undirtektir. Í frétt RÚV um það segir m.a. „… þar var meðal annars tölvuleikjamót þar sem í verðlaun voru klámmyndir á DVD diskum og uppblásnar kynlífsbrúður. Móðir sextán ára gamals nemenda í skólanum hafði samband við fréttastofu og lýsti mikilli vanþóknun á þessu kvöldi.

Hún segir að sumum nemendanna hafi þótt nóg um og óskiljanlegt að á skólaskemmtun sé dreift klámfengnum varningi.“

Formaður nemendafélagsins var greinilega ekki sáttur við þessi viðbrögð,  hefur greinilega ekki viljað að þetta kæmist í hámæli og væri eingöngu leyst innan skólans. Hans aðalrök voru þó þessi: „Það er leiðinlegt að foreldrar skuli taka þessu svona. En þetta er fyrst og fremst karlakvöld og þetta á að vera svona…“

Sjálfsagt hefur skólayfirvöldum þótt skorta á iðrun í svari formannsins því síðan kom þessi formlega yfirlýsing til fjölmiðla: „Þórdunu hafa borist kvartanir varðandi vinninga í happdrætti sem við héldum. Það var alls ekki meiningin með þessum vinningum að særa blygðunarkennd unglinga og foreldra heldur var einungis um að ræða grín. Sumum fannst þetta grín hins vegar ganga of langt og biðjumst við velvirðingar á því ef við höfum miðsboðið einhverjum. Við tökum jafnframt fram að vinningar sem þessir verða endurskoðaðir fyrir næsta Kallakvöld.“ (Feitletranir greinarhöfundar).

Þórduna hyggur á kvennakvöld innan skamms og þar verður dagskráin á þessa leið: Tískusýningar, kynningar, gamanmál og sætir strákar. Þarf að segja meira?“

Amma mín sagði alltaf að það lærðu börnin sem fyrir þeim væri haft. Fyrirmyndirnar í þessu tilfelli eru karla- og konukvöld fullorðna fólksins. Þau eru algeng og þar kennir ýmissa grasa eins og netleit leiðir í ljós:

Konukvöld eru ekki fyrir eina konu eins og nafnið bendir til, heldur ætluð mörgum konum og sérsniðin fyrir meint áhugamál kvenna. Þau eru á vegum verslana, kvenfélaga, félagasamtaka og stjórnmálaflokka. Konum er boðið  þar upp á áfengi og eitthvað til að narta í og síðan geta þær keypt ýmsan varning með afslætti. Tískusýningar eru algengar og dæmi eru um kynningar á kynlífshjálpartækjum þar sem konum er kennt að sjúga lim á réttan hátt. Fáklæddir herramenn koma einnig við sögu, stundum olíusmurðir.

Karlakvöld eru sprottin af sama meiði. Þar eru veitingar á boðstólum, fastar og fljótandi, hugsanlega ganga léttklæddar dömur um beina og sýnd verða undirföt frá sérverslunum sem ekki verða nefndar hér.  Súludansmeyjar koma fram og frægt er karlakvöld hestamannafélagsins í Mosfellsbæ þar sem löng hefð er fyrir fatafellum.

„Þetta á að vera svona…“

Hér mætti auðvitað hneykslast upp úr skónum og tala sig sveittan um heim sem versnandi fer, klámvæðingu unga fólksins, hlutgervingu, staðalímyndir og allt þar á milli. Það er auðvelt að hæðast að formanninum unga sem er einkum hugað um að geta haldið áfram með sína karla- og kvennakvöld í friði fyrir hneyksluðu fólki sem fattar ekki djókið. En hann og fleiri eru afsprengi samfélagsins sem hló sig máttlaust að misgrófum uppákomum hjá Hemma Gunn fyrir 20 árum og heillast enn af grófu karlagríni fjölmiðla þar sem allt er leyfilegt undir merkjum spaugsins. Þeir sem dönsuðu í saumaklúbbnum nálgast nú miðjan aldur og bregður væntanlega ekki þótt börnin þeirra hermi svona uppátæki eftir og gangi jafnvel lengra. Heimskuvæðingin og hugmyndafátæktin byrjaði ekki með mannasiðum og heilræðum í metsölubókum fyrir jólin á þessari öld. Tónninn var gefinn fyrir löngu. Þess vegna er þetta svona.

Ein athugasemd við “Snemma beygist krókurinn

  1. Ó þú mikli maður og feministi Gísli Ásgeirsson. Guð hvað ég gleðst yfir því að hafa séð sjálfa mig í sjónvarpinu 20 árum síðar glaða og ánægða í saumaklúbbi. En núna er ég bitur feministi með kynjagleraugu og alltaf óánægð með allt í samfélaginu. Ég er orðin þreytt á að þefa upp skálmarnar á fólki í leit að einhverju neikvæðu. Þegar ég sá sjálfa mig í sjónvarpinu 20 árum síðar svona glaða og ánægða eins og ég var, vissi ég að nú væri stundin runnin upp að taka niður kynjagleraugun og hætta að vera feministi. Með því að hafa gerst feministi fyrir fimm árum síðan breytti ég rangt og gjaldið sem ég greiddi var gleðin og skrítið hjarta sem aldrei sættist. Nú ætla ég að kasta feminismanum á eldinn, vegna þess að ég hef sannfærst um að allt sé mögulegt án feminisma, allar dyr opnast án hans og engin lokast. Þetta er allt saman spurning um eigið sjálf. Karlar komast þangað sem þeir vilja án feminisma, afhverju ættu konur ekki að geta það líka? Ég ætla að hoppa frá borði og spjara mig sjálf og mun aldrei snúa til baka.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.