Samtal um vændi

Höfundur: Elín Pjetursdóttir

 

Er vændi endilega af hinu illa?

Ég lendi oft í umræðum við fólk sem telur vændi ýmist ekki alslæmt eða jafnvel af hinu góða. Um daginn var ég einmitt að ræða við vin minn um vændi og samtalið var gott og áhugavert að því leyti að í röksemdafærslu hans komu fram flestar algengustu forsendurnar sem sem fólk grípur til þegar það vill verja vændi.

Vinur minn hélt því fyrst fram að allir hefðu rétt á kynlífi, þar með talið fólk sem ekki gæti fundið sér viðunandi, eða yfirhöfuð nokkurn, bólfélaga með öðrum aðferðum en að kaupa það. Því næst hélt hann því fram að vændi væri eins og hver önnur vinna og að lokum benti hann á að þegar fólk giftist til fjár þá væri það í rauninni að stunda einskonar vændi. Fyrst við getum ekki bannað fólki að giftast til fjár, sagði hann, getum við heldur ekki bannað fólki að selja líkama sinn, þar sem þessir tveir hlutir eru í raun einn og sami hluturinn.

Mig langar að fá að leiða ykkur í gegnum andsvör mín við þessum staðhæfingum.

Vændi er kynlíf og allir eiga rétt á kynlífi

Í fyrsta lagi þykir mér það veik röksemdafærsla að allir eigi rétt á kynlífi. Hefur barnaníðingur rétt á því að stunda kynlíf með barni vegna þess að það er að hans mati viðunandi bólfélagi? Hefur sadistinn rétt á því að meiða bólfélaga sinn vegna þess að það er kynlíf fyrir honum/henni? Á ljóta, illa lyktandi manneskjan rétt á kynlífi ef enginn vill njóta þess með honum/henni? Auðvitað viljum við að allir geti notið kynlífs en við verðum að setja spurningamerki við réttinn til stunda kynlíf ef enginn er viljugur til að stunda það með manni. Ennfremur vil ég setja spurningarmerki við þá hugmynd að ef þú ríður einhverjum sem vill ekki ríða þér, sé það kynlíf.

Kynlíf, í venjulegum skilningi, er þegar tveir einstaklingar vilja sofa hvor hjá öðrum, hver svo sem ástæðan fyrir því er, ást, losti eða forvitni. Ástæðurnar fyrir því að mér þykir þetta fyrirtaks skilgreining á kynlífi eru annarsvegar að það er einmitt það sem kynlíf er fyrir mér, og hinsvegar að það gerir okkur kleift að gera greinarmun á milli kynlífs annarsvegar og nauðgana og kynferðisofbeldis hinsvegar.
Ef við erum sammála um þessa skilgreiningu á kynlífi fellur vændi sjaldan, ef nokkurn tíma, undir þá skilgreiningu. Manneskja sem tekur þóknun fyrir kynlíf hefur ekki valið að sofa hjá þér. Hún valdi mögulega að taka við þóknun frá þér, en hún valdi þig ekki sem bólfélaga. Þú valdir söluvarninginn og hluti af því sem þú borgar fyrir er leikþáttur þar sem söluvarningurinn telur þér trú um að þú sért aðilinn sem hann eða hún vill stunda kynlíf með.
Auðvitað er mögulegt að til sé fólk sem sannanlega vill sofa hjá hverjum sem er og finnst einfaldlega skynsamlegt að taka greiðslu fyrir, samkvæmt hinni einföldu, kapítalísku hugmyndafræði um framboð og eftirspurn, en slíkt fólk virðist þó vera í minnihluta innan vændisiðnaðarins. Þar sem kaupandinn getur aldrei vitað fyrir víst hvort manneskjan sem er að selja líkama sinn sé sannanlega hluti af þeim litla hópi þykir mér það veik vörn fyrir vændisiðnaðinn. Hvað ef manneskjan sem þú ert að kaupa vændi af er ekki hluti af þeim hópi? Ef manneskjan vill í rauninni ekki sofa hjá þér er hið keypta kynlíf ekki lengur kynlíf heldur á það meira sameiginlegt með nauðgun, þar sem önnur manneskjan vill stunda kynlíf en hin ekki.

Vinur minn féllst á þessa röksemdafærslu mína, en vildi þó skoða þann möguleika hvort vændi væri í rauninni ekki eins og hver önnur vinna.

Vændi sem atvinna

Vændisauglýsingar úr danska dagblaðinu Extrabladet, vefútgáfa 21. 10. 2012

Í gegnum tíðina hef ég unnið sem þjónn, kaffibarþjónn og barþjónn, allt störf sem teljast nokkuð hefðbundin þjónustustörf. Í vinnunni minni sel ég tíma minn og líkama minn, í þeim skilningi að ég nota líkama minn til að framkvæma vinnuna. En hvað er ólíkt með því að þjóna til borðs og því að stunda vændi? Í fyrsta lagi eiga sömu rökin við hér og í umræðunni um hvort vændi sé kynlíf. Ef við föllumst á að vændi eigi, í það minnsta oftast, meira sameiginlegt með nauðgun eða kynferðisofbeldi en kynlífi er ekki margt líkt með þjónustustörfum annarsvegar og vændi hinsvegar. Það fer ekkert sérstaklega illa með sálina mína að búa til kaffi, en eitthvað sem svipar til eða getur talist nauðgun hefur töluvert neikvæð áhrif á sálarlífið.

Að auki er eðlismunur á því að selja tíma sinn og líkama sem þjónn eða selja sig sem viðfang til að ríða. Við njótum kynlífs, og þó ég njóti þess að drekka kaffi nýt ég þess ekkert frekar að búa til kaffi fyrir mig heldur en fyrir aðra. Það er einhverskonar nautn fyrir mig að drekka kaffi en það að búa til kaffi er alltaf nákvæmlega eins fyrir mér. Þegar ég hellti upp á kaffi í morgun, bara fyrir sjálfa mig, var það ekkert öðruvísi en þegar ég helli upp á kaffi fyrir aðra, það var enginn eðlismunur þar á milli.
Hinsvegar finnst okkur yfirleitt töluvert betra að sofa hjá þeim sem okkur þykir vænt um en þeim sem við berum engar tilfinningar til. Jafnvel þótt þér þyki ekki endilega betra að sofa hjá þeim sem þú elskar er upplifunin samt allt önnur en í tilfinningasnauðu kynlífi. Ég hef bæði stundað kynlíf með og án tilfinninga, í báðum tilvikum er það mitt val hverjum ég sef hjá, en munurinn er samt sem áður gífurlegur. Þar sem munurinn á milli þessara tveggja tegunda af kynlífi er töluverður hlýtur að vera enn meiri munur á milli þess annarsvegar að velja sér bólfélaga og hinsvegar að sofa hjá hverjum þeim sem er tilbúinn að borga fyrir það.
Ég get því ekki fallist á þau rök að vændi sé einfaldlega vinna, rétt eins og hver önnur. Að búa til kaffi er alltaf sami hluturinn, en að selja kynlíf og stunda kynlíf virðist hinsvegar ekki vera sami hluturinn.

Jú, vinur minn gat líka fallist á þessa röksemdafærslu en var þó ekki tilbúinn að fallast á að kynlíf sem söluvarningur ætti ekki rétt á sér og benti á að hjúskapur í auðgunarskyni væri eins konar vændi. Þar sem við gætum ekki bannað fólki að giftast til fjár væri fáránlegt að banna sölu á kynlífi. Við getum ekki bannað eina tegund vændis á meðan við leyfum vændi í annarri útfærslu.

 

Að giftast til fjár

Ég held að þessi röksemd sé hugsanlega sú sem erfiðast er að svara. Það er rétt að við getum ekki búið til lög og reglur um viðunandi ástæður þess að giftast einhverjum. Í fullkomnum heimi myndu að sjálfsögðu allir giftast af ást, en við vitum að sú er ekki raunin. Fólk giftist af margs konar ólíkum ástæðum. Enn og aftur bendi ég á eðlismun. Eðlismuninn á milli þess annars vegar að velja að giftast einhverjum, jafnvel þótt það sé gert af ástæðum sem við teljum kannski ekki nógu góðar, og þess hinsvegar að neyðast til að giftast einhverjum. Í hvert skipti sem ég fer á netið rekst ég á óteljandi auglýsingar þar sem konur frá fátækum löndum vilja víst óðar og uppvægar giftast mér. Internetið er stútfullt af tilboðum þar sem hægt er að kaupa ungar konur sem eru tilbúnar að giftast hverjum sem er gegn tækifæri til að flytja í betri hluta heimsins. Og hvert er þá vandamálið? Allir græða, ekki satt?

Breski málarinn William Hogarth varar við hjúskap til fjár í verkinu Marriage a la mode (1743-45)

Í fyrsta lagi held ég að fólk sem kaupir sér maka á netinu geri það sjaldnast til þess að hjálpa þeim sem minna mega sín og voru svo óheppnir að fæðast ekki í ríkari hluta heimsins. Kaupandinn er einfaldlega að notfæra sér aðstöðu sína til þess að fá það sem hann/hana langar í og það er nú ekki erfitt að setja siðferðilegt spurningarmerki við það. Það er sannanlega rangt að notfæra sér neyð annarra, hvort sem það er til þess að fá kynlíf eða maka, enda getur það varla talist til  grunnmannréttinda að stunda kynlíf og gifta sig. Að auki eiga sömu rök við hér og í umræðunni um vændisiðnaðinn. Við vitum að mansal er blómstrandi atvinnugrein og kaupandinn getur ekki vitað hvort hinn verðandi maki hefur nokkurt raunverulegt val. Þar sem líkurnar á því að þetta sé í rauninni frjálst val eru hverfandi hljótum við að setja stórt spurningarmerki við slík hjónabönd. En hvað með hina sem velja sér að giftast til fjár?

Okkur getur þótt stórundarlegt, og siðferðilega vafasamt, að velja sér að giftast til fjár en það er svo sannanlega ekki það sama og að neyðast til þess, eða að nýta sér neyð annarra. Ef ég vel að giftast til fjár er maðurinn sem ég giftist ekki neyddur til að giftast mér. Að öllum líkindum vonar hann að ég vilji giftast honum af ást en ekki græðgi, en vonum við ekki alltaf af fólk velji okkur og elski okkur af réttum ástæðum? Við getum í rauninni aldrei vitað hvort ástvinir okkar elska okkur jafn mikið og við elskum þá, eða hvort sú ást byggist á heilbrigðum grundvelli. En ég þarf allavega ekki að hafa áhyggjur af því að hinn ímyndaði ríki eiginmaður minn hafi verið neyddur til að giftast mér og hann veit að ég var ekki neydd til að giftast honum. Ef ég myndi hinsvegar kaupa mér mann af netinu myndi ég þurfa að velta því fyrir mér hvort hann væri fórnarlamb mansals, neyddur til að giftast mér.

Loks gafst vinur minn upp og gekkst við því að vændi væri líklegast töluvert flóknara en hann hafði órað fyrir. Hann vildi þó halda í þá trú að vændi væri í sjálfu sér ekki slæmt en að samfélagið, og við manneskjurnar yfirhöfuð, væri svo spillt og brenglað að það umbreytti vændi í eitthvað slæmt. Kannski hefur hann rétt fyrir sér. Kannski er vændi sem hugmynd ekki endilega slæmt. En vændi eins og það er stundað í raunveruleikanum virðist hinsvegar vera sannanlega slæmt.

10 athugasemdir við “Samtal um vændi

 1. „Í fyrsta lagi þykir mér það veik röksemdafærsla að allir eigi rétt á kynlífi. Hefur barnaníðingur rétt á því að stunda kynlíf með barni vegna þess að það er að hans mati viðunandi bólfélagi?“

  Ertu verri? Þvílíkur útúrsnúningur, barnalegt alveg.

   • @hildigunnur

    Er það stigsmunur, en ekki eðlismunur, á milli þess að vilja stunda kynlíf með fullorðnum, kynþroska einstakling sem getur gefið samþykki, og svo með óþroskuðu barni sem getur ekki gefið samþykki?

    Alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

   • Hvað veist þú um samþykkið sem viðkomandi (jújú fullorðinn og væntanlega sjálfráða) gefur? Hvernig geturðu haft hugmynd um hvort viðkomandi vændiskona eða maður sé ekki fórnarlamb mansals? Þar liggur stigsmunurinn.

   • Þú varst að fullyrða að það sé stigsmunur, en ekki eðlismunur, á því að einhver telji sig eiga ‘rétt’ til kynlífs með fullorðnum einstaklingi á móti því að barnaníðingur telji sig eiga ‘rétt’ á því að stunda kynlíf með barni. Þetta er ósamanburðarhæft.

    Ég er að setja út á fullyrðinguna um að á milli þessara hluta sé ekki eðlismunur. Það er möguleiki á að samþykki liggi fyrir kynlífsathafna milli tveggja fullorðinna einstaklina þó að annar sé í vændi eður ei, það á ekki við í dæminu með barnið. Því er þetta ekki stigsmunur heldur sannanlegur eðlismunur.

    Hvernig gengur þú annars úr skugga um samþykki fyrir kynlífsathöfnum með rekkjunautum þínum, ertu alltaf viss um það að það sem sagt er sé satt?

   • Sko það sem mér finnst bita munur en ekki fjár er hvort maður stundar kynlíf án samþykkis með barni eða fullorðnum. Um leið og samþykki er til staðar breytist grundvallarskilyrðið. Auðvitað getur maður aldrei vitað alveg hvort fólk segir satt en í tilfelli vændis er margsannað að mjög stór hluti þeirra sem stundar vændi er þar í ánauð. Ekki allir, nei ekki allir en það eru allavega miklar líkur til þess að sá sem leitar til vændiskonu eða manns lendi á einhverjum sem er þvingaður til að vera í starfinu. Og þá ertu farinn að tala um rétt þinn til að ganga á rétt annars. Eins og í tilviki barnsins.

 2. Óðinn „vilja stunda kynlíf með fullorðnum, kynþroska einstakling sem getur gefið samþykki (þ.e. vændismanneskju), og svo með óþroskuðu barni sem getur ekki gefið samþykki“ á það sameiginlegt að þú fullnægir kynhvötum þínum á líkama annarar manneskju sem þráir þig ekki til baka. Jafnvel í því tilfelli sem vændiskonan er fullfrjáls í sínu starfi þá er kaupandinn að rúnka sér á annarri mannesku. Sá sem getur látið sig það engu skipta að manneskjan sem hann hefur nakta í fangi sínu, sé þar eingöngu af nauðsyn sínir af sér hjartakulda rétt eins og níðingurinn og nauðgarinn.

 3. Voðalegur tilbúningur er þessi grein? Efast um að greinarhöfundur hafi verið að ræða við vin sinn um málefnið. Búa ekki bara feministar til viðmælendur sína þegar þurfa þykir, til þess að koma propagandanu á framfæri?

  • Hulda, skiptir nokkru máli hvort viðmælandinn sé raunverulegur eða ekki? Þú veist væntanlega að helstu spekingar fornaldar notuðu þessa tækni til að koma skilaboðum sínum til skila – t.d. eru samræður Sókratesar, skráðar af Plató nemanda hans, allar í þessum stíl, og allar „skáldaðar“ að því leyti að samtölin áttu sér aldrei stað í nákvæmlega þeirri mynd sem þau voru skráð. Sjá hér t.d. http://en.wikipedia.org/wiki/Socratic_dialogue.

 4. Flott grein.

  Ég get samt ekki fallist á þau rök að sálfræðileg ráðgjöf sé einfaldlega vinna, rétt eins og hver önnur. Að búa til kaffi er alltaf sami hluturinn, en viðtalsmeðferð og trúnó virðist hinsvegar ekki vera sami hluturinn.

  Hinsvegar getum við sammælst um það að ósniðugt sé að selja vændi, þar sem það getur haft miklar neikvæðar sálrænar aukaverkanir för með sér. Af. Feminism & Psychology (1998) skilst mér að konur sem var margsinnis nauðgað í æsku séu mun líklegri til að stunda vændi (eða halda áfram að stunda vændi) þegar þær eldast. Kannski þeim líði svo illa að þær vonast hvorki til þess að líðanin skáni né óttast að hún geti versnað. Þær hafi til mikils að vinna, en engu að tapa.

  Siðferðislega rangt er að styrkja þrælkun. Það er rangt að versla við þrælaleigu. Það er virkilega slæmt að nauðga þrælum. Rétt eins og það væri rangt að neyða þræl til að ausa geislavirku vatni úr Fukushima eða sjóða kvikasilfur til að einangra gull. Ekki fyrr en þeir bjóðast sjálfir til þess verða þeir verkamenn í heimsins verstu vinnum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.