Af stríði og klámi

Höfundur: Auður Lilja Erlingsdóttir

Í bókinni „Og svo fór ég að skjóta… – Frásagnir bandarískra hermanna úr Víetnamstríðinu“ kemur fram í viðtölum við hermenn hvernig þjálfun þeirra fólst m.a. í því að afmennska óvininn, gera mikið úr dýrslegum eiginleikum hans, sýna fram á að óvinurinn hefði ekki sama rétt til að lifa með reisn (eða lifa yfir höfuð) eins og aðrar mannverur.

Bandarískir hermenn kasta af sér þvagi yfir lík. Myndin er héðan.

Í byrjun árs vakti myndband af fjórum bandarískum hermönnum sem migu yfir lík „talíbana“ mikla hneykslun. Í umræðunni kom til dæmis fram að það væri erfitt að búast við meiru af hermönnunum þegar þjálfun þeirra fælist m.a. í að afmennska óvininn.

Fyrirlestur Gail Dines í Háskóla Íslands um klámiðnaðinn vakti hjá mér viss hugrenningartengsl hvað þetta varðar. Til að hafa það á hreinu áður en kommentakerfið fyllist af karlmönnum sem lýsa öllu því fallega klámi sem þeir horfa reglulega á þá er með þessari umræðu um klám ekki verið að vísa til erótískra mynda af nöktum konum úti á engjum, hvað þá myndböndum af fólki að sýna hvort öðru gagnkvæma virðingu og elskast eins og enginn sé morgundagurinn. Hér er notast við eftirfarandi skilgreiningu:

Klám er efni sem sýnir kynlíf og/eða afhjúpuð kynfæri í tengslum við misnotkun og niðurlægingu þannig að slík hegðun sé studd, látin óátalin eða jafnvel hvatt til hennar.

Hér er því verið að vísa til efnis þar sem leitast er við að afmennska konur, smætta þær niður í einstaka líkamshluta, vísa ekki til þeirra nema sem druslna, hóra, ríðuröra, brundtunna o.s.frv. Efni þar sem eðlilegt þykir að míga yfir konur, troða typpi ítrekað svo langt ofan í kok á þeim að þær kúgast eða æla, rífa í hárið á þeim, skyrpa á þær eða niðurlægja á annan máta.

Eins furðulega og það kann að hljóma er gríðarlegt framboð af slíku efni á netinu. Miðað við umfang efnisins mætti ætla að einhver hópur notenda sé til staðar. Hér gef ég hugsanlega færi á að kommentakerfið fyllist af einstaklingum sem halda því fram að klámiðnaðurinn framleiði ekki slíkt efni til að hagnast með sölu heldur sé það framleitt einvörðungu í listrænum tilgangi.

Ég get samt ekki annað en velt því fyrir mér hvort pláss sé fyrir klám í sanngjörnu samfélagi. Ef við viljum búa til samfélag sem er sanngjarnt og öllum líður vel í því verðum við þá ekki að uppræta alla menningu sem felur í sér afmennskun, hvort sem það er í herþjálfun eða klámi?

6 athugasemdir við “Af stríði og klámi

 1. Sæl Auður Lilja,

  Mér hefur sýnst á mörgu sem fólk segir um kynferðislegar fantasíur sínar að það sé töluvert um allskyns dýrslegar langanir í slíku. Þá á ég við að vilja vera „tekin/n“ með valdi eða að kynlífið sé dálítið harkalegt og fleira í þeim dúr. Oft talar fólk um að það vilji að makinn þori að sleppa fram af sér beislinu – hvað sem líður fagurfræði og sómasamlegheitum (og er ég þá þó að sjálfsögðu ekki að tala um hrátt ofbeldi).

  Getur hugsast að margt klám sem virkar fremur harkalegt sé að höfða til slíkra fantasía? Mér skilst að fullt af fólki horfi á afskaplega milt og geðþekkt klám, en það virðist vera stór markaður fyrir hitt klámið líka, þeas. klám sem ekki setur gagnkvæma virðingu efst í mikilvægi.

  Nú eru venjulegar kvikmyndir sjaldnast um fullkomið jafnvægi hlutanna, heldur oft einmitt um ofbeldi og spennu. Er verið að afmennska alla karlmennina sem eru drepnir í hasarmyndum? Eru þeir ekki alltaf „vondir“ og því „rétt“ að drepa þá? Er þá pláss fyrir hasarmyndir í sanngjörnu samfélagi?

  Vonandi finnst þér ég ekki vera að snúa út úr. Það er ekki ætlunin.

  mbk,

  • Kristinn, það er illa hægt að bera klámmyndir saman við hasarmyndir, þar sem enginn hefur enn verið drepinn eða meiddur í dráps- og ofbeldissenum í hasarmyndum, en þegar lim er troðið ofan í kok á persónu í klámmynd er í alvöru verið að troða lim ofan í kokið á leikkonunni. Smá munur þar á.

   • Samanburðurinn þarf ekki að vera fullkominn til að hann sé gagnlegur eða áhugaverður og ég vil meina að þessum samanburði verði ekki sópað af borðinu svo glatt.

    Hvort eru það skilaboð myndarinnar sem þykja slæm eða það að til sé fólk sem leikur í klámmyndum og upplifir hörku? Ég veit ekki betur en að það sé hvort tveggja sem yfirleitt er til umræðu. Skilaboðin skipta því máli, hvort sem um klámmynd eða kvikmynd er að ræða – það hefur mér allavega heyrst að mörgu fólki þyki.

    Er klám sett á svið? Já, að stórum hluta. Auðvitað er það þó raunverulegra en kvikmyndir, en bæði klámmyndir og kvikmyndir eru að stórum hluta settar á svið. Flest venjulegt fólk hefur ekki þjálfun í að beita kynfærum sínum eins og gert er í þessum myndum og í kvikmyndum eru það síðan oft áhættuleikarar sem verða fyrir verstu skakkaföllunum. Fólk með þjálfun tekur að sér ruddalegu atriðin – ekki algilt, en gildir að einhverju marki.

    Í mörgum kvikmyndum er þunnur söguþráðurinn lítið annað en afsökun fyrir að fá að sprengja fólk í loft upp, skjóta og skera svo blóðið velli sem víðast. Þegar ofbeldið snýr að konum er talað um að verið sé að græða á ofbeldi gegn konum. Um það hefur verið fjallað á þessu vefsvæði. Það hefur þó ekkert með raunverulegt ofbeldi gegn leikurunum að gera, heldur þykir nóg að það sé sett á svið til að það teljist vera skuggalegt gagnvart konum.

    Morð á körlum í stórum stíl ættu því samkvæmt þeim mælikvarða að teljast að gróði sem felst í að níðast á körlum.

    Sem sagt, bæði kvikmyndir og klámmyndir fjalla oft um fantasíur sem ekki hafa með hóflegan hversdagsleikann að gera, heldur einmitt með fantasíur um allskyns borderline dót – og það virðast margar kannanir staðfesta að fantasíur séu gjarnan dálítið dýrslegar og felist oft í valdbeitingu. Samkvæmt því ætti því ekki að vera svo óeðlilegt að þau þemu séu að finna í klámi og klám fjalli ekki alltaf um kynlíf jafningja og jafnvel sjaldan.

    Groddaskapur í klámi á því hugsanlega svipaðan tilverurétt og groddaskapur og ofbeldi í öðru efni, nema hvað það þarf hér um bil raunverulegt ofbeldi til að skapa það í klámi. En ef við gefum okkur að ekki sé um alvarlegt ofbeldi að ræða, heldur ruddaskap sem að mestu er settur á svið er það þó einmitt eitthvað sem mögulega er erfitt að líta á mikið öðrum augum en ruddaskap í öðrum kvikmyndum.

    Auðvitað er stigsmunur þarna á, en að láta eins og svipuð lögmál eigi ekki við að einhverju marki í ýmsu öðru gengur varla upp. En það er ekki þar með sagt að það sé bara allt í lagi, heldur bara að greiningin hefur víðtækara inntak, ef svo má að orði komast.

 2. sæll kristinn! Þessi samanburður hjá þér stenst ekki skoðun. Hasarmyndir hafa söguþráð,persónusköpun og oft er um baráttu góðs ills að ræða. Þetta klámefini sem er til umræðu virðist bara snúast um ofbeldi sem raunverulegar manneskjur taka þátt í.

 3. Já einmitt, ég kann mjög illa við samanburðinn á milli kláms og bíómynda og finnst hann eiginlega fáránlegur. En það segir ekkert um ofbeldi í bíómyndum, eða um stríðsmyndir og að þær hugmyndir sem þær byggja á séu eitthvað svo frábærar. En það er eins og þessi umræða sé öll í hausnum á fólki, það er mikill munur á gerviblóði, sprengjum, leiknum öskrum og ópum og alvöru blóði, sársauka, gubbi og fleira. Ég held einmitt að þetta sé gott dæmi um afmennskun.

 4. Þar sem Gail Dines er enskumælandi talar hún um pornography en ekki um klám.

  Pornography:
  1. The explicit depiction of sexual subject matter; a display of material of an erotic nature.
  2. (usually humorous) The graphic, detailed, often gratuitous depiction of something.

  en.wiktionary.org

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.