„Í síðustu viku birti Smugan frétt af stöðuuppfærslu Auðar Magndísar Leiknisdóttur á Facebook um Bechdel-prófið og Dýrin í Hálsaskógi. Umræðan um fréttina gekk að einhverju leyti út á ótta fólks við að femínistar vildu nú breyta Mikka ref í konu á meðan aðrir ræddu um rýrt gildi Bechdel-prófsins við greiningu leikritsins. Umræðan sýndi þó öðru fremur að langfæstir höfðu hugmynd um hvað Bechdel-prófið gengur út á, og verður það því útskýrt hér.
Bechdel-prófið birtist fyrst árið 1985 í sögunni „The Rule“ í teiknimyndasögunni Dykes to Watch Out For eftir Alison Bechdel. Segir þar á gamansaman hátt frá reglum sem ein söguhetjan notast við til að velja sér kvikmynd til að sjá í bíó. Reglurnar eru þessar: 1. Í myndinni verða að koma fram tvær konur* 2. Þessar konur verða að tala saman 3. Þær verða að tala saman um eitthvað annað en karla Bechdel-prófið er því ekki gagnrýni á myndirnar sem slíkar, í sögu Alison Bechdel er reglan sett fram sem grín á augljósa fyrirferð karla innan söguheims kvikmyndanna.
Það er mjög mikilvægt að átta sig á að í Bechdel-prófinu felst alls engin dómur um þau verk sem mæld eru. Prófið segir ekki til um hvort myndin er slæm eða góð – enda falla mjög margar góðar myndir á prófinu á meðan hræðilegar myndir standast það. Prófið segir ekki heldur til um hvort myndin er femínísk eða ekki og í því felst ekki gagnrýni. Það er er mælistika á þátttöku kvenna í atburðarás.
Bechdel-prófið sker því ekki úr um hvort kvikmyndir standist skoðun femínista eða ekki, líkt og Smugan heldur fram í fyrirsögn sinni, heldur sker það aðeins úr um hvort konur séu í kvikmyndinni og hvort þær tali um eitthvað annað en karla. Það mælir viðveru þeirra og tiltekur tengsl þeirra við aðrar konur í þeirri viðveru.

„The Rule“ eftir Alison Bechdel Dykes to Watch Out For (1985)
Allskonar myndir falla á Bechdel-prófinu og má auðveldlega finna ýmsa lista yfir þær á netinu. Sem dæmi má nefna When Harry Met Sally, Lord of the Rings, Avatar, fyrstu þrjár Star Wars myndirnar, Apocalypse Now, Back to the Future, The Social Network svo einhverjar séu nefndar. Það er líka áhugavert að skoða sjónvarpsefni, og jafnvel barnaefni, með þessum gleraugum. Einhvern tímann þegar ég horfði á fimleikaþættina Make It or Break It í Sjónvarpinu fór ég í gegnum heilan þátt þar sem aðalsöguhetjurnar (fjórar stelpur) töluðu aldrei um neitt nema karla. Það eru ekki niðurstöður Bechdel-prófsins sem eru sláandi heldur tíðni niðurstaðanna og samhengi, ekki síst þegar myndir og þættir með konur í aðalhlutverkum standast oft ekki prófið. Prófið dregur eingöngu fram sýnileika kvenna og eðli viðveru þeirra. Þannig endurspeglar það frekar það samfélag sem getur af sér myndirnar heldur en myndirnar sjálfar (þótt það geri það auðvitað líka).
Samfélagið sem Bechdel-prófið varpar ljósi á er ennþá litað af kynjamisrétti og elur af sér menningarafurðir sem minna á það kynjamisrétti. Og prófinu má einnig beita á kynþætti. Þegar Bechdel-prófinu er beitt á t.d. bandarískar kvikmyndir kemur í ljós að fjarvera annarra kynþátta en hvítra er talsverð, einkum þegar þeldökkt fólk í þjónustustörfum eða fólk sem talar bjagaða ensku er tekið í burtu (tvær viðvarandi staðalmyndir í bandarískri menningu).
Að Dýrin í Hálsaskógi komi ekki vel út á Bechdel-prófi eru engar sérstakar fréttir. Konur eru mun síður í meiriháttar hlutverkum í sígildum bókmenntum og leikverkum en karlar. Flest fólk, og þar á meðal femínistar, áttar sig á þessu og lítur frekar á þetta sem tímanna tákn frekar en einhverja atlögu að konum. Það er nútíminn sem veldur (a.m.k. mér) meiri áhyggjum. Til að mynda komu tólf Pixar-myndir með strákum í aðalhlutverki áður en myndin Brave sem fjallar um stúlku kom út fyrr á árinu. Þess má einnig geta að þó nokkrar Pixar-myndir standast ekki heldur ekki Bechdel-prófið: Finding Nemo, Monsters Inc., Ratatouille, Toy Story 1&2, Up og Wall-E.
Það er þess virði að velta því fyrir sér hvort og hvað konur og stelpur tala um í kvikmyndum og sjónvarpsefni. Tala tvær konur saman um eitthvað annað í barnaefninu á þínu heimili? Til dæmis Latabæ? Eða Múmínálfunum? Þótt svarið sé oft nei þá þýðir það ekki efnið geti ekki verið gott, það þýðir einfaldlega að við framleiðslu efnisins sá enginn ástæðu til að gera stelpur eða konur að nægilega virkum þátttakanda í myndinni til þess að myndin uppfyllti þann lága staðal sem Bechdel-prófið setur. Það er umhugsunarvert. * Seinni tíma túlkun á Bechdel kallar á að konurnar tvær heiti eitthvað. Þetta kemur þó ekki fram í sögunni „The Rule“ sjálfri.
Hér er svo afar upplýsandi grein eftir bandarískan handritshöfund um það hvers vegna svona fáar kvikmyndir standast prófið. http://thehathorlegacy.com/why-film-schools-teach-screenwriters-not-to-pass-the-bechdel-test/
Ég skoða þetta oft líka út frá því hvort tveir karlar með nafn tali um annað en konur, til þess að rökstyðja prófið betur þegar ég er að útskýra að mynd stenst það ekki 🙂
Þegar umræða skapast á vefnum um Bechdel-prófið þá bregðast íslenskir karlar til varna og verða agressívir. Bendir til ofríkisins og kúgunarinnar sem er undirliggjandi í íslensku samfélaginu.
Gaman að því að hún segir að síðasta mynd sem hún gat horft á var Alien, þar sem tvær (nafngreindar) konur tala ekki um karlmenn, heldur um „the monster“.
Þetta gæti verið skýrskotun í að konur tala stundum (sín á milli) um karlmenn eins og „monsters“.
(sbr. ummæli Rósu)
„Monster“ getur líka verið slangur yfir typpi.
Ótrúlegt hve margar kvikmyndir falla á þessu prófi, en það er kannski ekki raunverulegur mælikvarði á bókmenntalegt gildi þeirra. Prófið er góð hugvekja, engu að síður.
Bakvísun: Leikaraval stórmynda – í lit | *knùz*