Staðalímyndir í sjónvarpi og kvikmyndum

Unga fólkið í jafnréttisfræðslunni í Borgarholtsskóla sendi Knúzinu nokkrar greinar og hér að neðan birtast tvær þeirra, en fleiri birtast síðar. Við þökkum krökkunum og kennaranum, Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur, kærlega fyrir efnið og hlökkum til að heyra meira frá þeim í framtíðinni.

–Ritstjórn.

Kvenfyrirlitning í sjónvarpsþáttum: Two and a Half Men

 

Eftir að hafa verið í kynjafræðitímum í skólanum okkar, Borgarholtsskóla, höfum við fengið aðra sýn á ýmsa hluti. Þar sem við erum tvítugar stúlkur í samfélagi sem horfir mikið á sjónvarp fórum við að velta fyrir okkur staðalímyndum sem birtast okkur á skjánum. Two and a Half Men er vinsælt sjónvarpsefni og höfum við haft gaman af því að horfa á það hingað til. Þegar við fórum hins vegar að horfa á þættina frá öðru sjónarhorni brá okkur eilítið þegar við tókum eftir því að í þáttunum er mikil kvenfyrirlitning.

Þættirnir fjalla um Charlie Harper, ríkan piparsvein sem býr í flottu húsi við ströndina. Fátækur og fráskilinn bróðir hans, Alan Harper, flytur inn til hans með son sinn sem kemur til þeirra um helgar. Ráðskonan Berta vinnur hjá þeim yfir daginn og þrífur húsið og eldar ofan í þá. Berta er í yfirþyngd og vinnur útlitið ekki með henni. Hún er samt eina konan í þáttunum sem hefur í alvöru skemmtilegan persónuleika. Hún lætur bræðurna, og þá sérstaklega Charlie, ekki vaða yfir sig, eins og Charlie annars gerir við flestar aðrar konur.

Charlie Sheen í hlutverki sínu í Two and a Half Men

Charlie elskar að koma heim með nýjar píur eftir að hafa verið úti að skemmta sér og spandera peningum sínum í áfengi og vændi. Svo virðist sem Charlie beri enga virðingu fyrir konum og sé fullur kvenfyrirlitningar en jafnframt getur hann ekki lifað án þeirra. Eina konan sem hann leggur ekki í er Berta en hann lítur eiginlega ekki á hana sem konu þar sem hún uppfyllir ekki útlitsvæntingarnar sem hann gerir til kvenna.

Alan bróðir Charlies á erfitt með samskiptin við hitt kynið og gerir Charlie mikið grín að honum fyrir það. Hann er hræddur við flestallar konur, og kann ekki að haga sér í kringum þær. Hann lítur á konur sem frekjur og yfirgangssamar manneskjur. Judith fyrrverandi kona hans er glæsileg kona en persónuleiki hennar yfirgnæfir þá fegurð með frekju og leiðindum.

Það sama má segja um móður bræðranna, Evelyn. Hún er stórglæsileg kona en bræðurnir eru báðir hræddir við hana, þola hana einfaldlega ekki. Svo má ekki gleyma öllum stelpunum sem Charlie kemur með heim en þær eru flestar vændiskonur eða staðalímyndin af heimskri ljósku, og enda á því að verða yfir sig hrifnar af piparsveininum. Þær eru allar með stór brjóst og ótrúlega kynþokkafullar en hafa engan persónuleika.

Það er merkilegt að það er ekki ein kona í þáttunum sem er bæði glæsileg og hefur jákvæðan persónuleika. Annað hvort eru þær eins og Berta ráðskona eða eins og Judith og Evelyn. Two and a Half Men er engan veginn eini sjónvarpsþátturinn sem ýtir undir þessar staðalímyndir á konum en þær koma sérstaklega sterkt fram í þessum þáttum.

–Hanna og Vigdís, nemendur í KYN 103 Borgarholtsskóla

————

Staðalmyndir kynja í kvikmyndum

 

Í langflestum kvikmyndum sjáum við einhverskonar staðalímyndir, hvort sem það eru staðalímyndir kynja, kynþátta eða trúarbragða.

Ég hef horft mikið á kvikmyndir og sjónvarpsþætti og eins og margir aðrir tek ég stundum eftir týpískum staðalímyndum kynja. Oft eru konurnar óöruggar, væmnar, aumar og þarfnast annað hvort björgunar eða huggunar. Karlar hins vegar eru frekar öruggir, harðir og vanalega bjargvættirnir. Það eru auðvitað til undantekningar en þetta á við um frekar margar kvikmyndir.

Kynjamismunur er oft augljós í kvikmyndaheiminum. Í kvikmyndunum sjálfum sjáum við oftar karlinn sem bjargvættinn heldur en konuna. Tvær staðalmyndir kvenna standa upp úr í kvikmyndum. Annars vegar er það þessi unga, óörugga, fallega, flotta eiginkona sem er heimavinnandi móðir, þrífur húsið og sér um börnin. Ef hún er ekki heimavinnandi er hún oft einkaritari eða hjúkrunarfræðingur en sér samt sem áður um heimilið almennt.

Hins vegar höfum við hina staðalímyndina, fyrrverandi eiginkonur. Þær eru oft tilbúnar að rísa upp gegn karlmönnunum en þá eru þær settar upp sem erfiðar og frekar konur. Við sjáum þessar staðalímyndir oft í kvikmyndum og þáttum í sjónvarpi.

Við skulum líta á nokkrar kvikmyndir sem eru vinsælar í dag. Looper er kvikmynd sem var sýnd hér á Íslandi frekar nýlega og margir hafa séð. Framtíðarkvikmynd um karlmenn sem vinna við að drepa menn fyrir mafíur framtíðarinnar. Við sjáum þar þrjár konur. Ein er hóra, ein er hrædd kona sem sér ein um barnið sitt og ein er eiginkona sem við fáum að vita lítið um. Í myndinni sjáum við stórborg árið 2044 ef mig misminnir ekki. Og þar virðist vera aðeins ein leið fyrir konur til þess að fá borgað og geta lifað einar og það er í gegnum vændi. Önnur afkomuleið fyrir þær er að giftast karlmanni sem sér fyrir þeim. Þriðji valkosturinn er að flytja út úr stórborginni á bóndabýli og reyna að lifa þar.
Þar sem myndin er skáldskapur og á að gerast í framtíðinni getum við ekki tekið beint mark á þessu en hvað er verið að gefa í skyn? Að framtíðin sé vonlaus fyrir kvenfólk nema þá undir þessum þremur kringumstæðum?

Taken 2 er kvikmynd sem kom út í október hér á Íslandi. Hún er framhald af kvikmynd þar sem ungri stúlku er rænt og faðir hennar gerir hvað sem er til að ná henni aftur

Maggie Grace í hlutverki dótturinnar í Taken 2

Taken 2 snýst bókstaflega um það sama og fyrri myndin, nema að í þetta skiptið er karlmanninum og fyrrverandi eiginkonu hans rænt. Hann þarf þá að leiðbeina dóttur sinni í gegnum síma til þess að hún geti bjargað honum. Á meðan er fyrrverandi eiginkona hans rænulaus og algjörlega hjálparvana nánast allan tímann. Báðar konurnar eru fallegar, ungar, óöruggar, feimnar og hjálparvana.

Faðirinn er öruggur, með mikið sjálfstraust, hugrakkur og lætur ekkert stöðva sig. Hann er bjargvætturinn í þessari mynd allan tímann. Þó svo að dóttir hans þurfi að bjarga honum sjáum við hana hika við nánast allt. Reyndar sjáum við atriði þar sem að hún er að keyra og þarf að flýja undan lögreglunni og glæpamönnum og tekst henni það stórkostlega.

–Birkir Örn Árnason, nemandi í KYN 103 í Borgarholtsskóla

8 athugasemdir við “Staðalímyndir í sjónvarpi og kvikmyndum

  1. Það fór alltaf skelfilega í taugarnar á mér í „gömlu“ myndunum þegar konan stóð hjá, hrædd og hjálparvana, á meðan vondi kallinn reyndi að kyrkja manninn hennar. Í stað þess að taka byssuna, sem annar hafði misst í átökunum, upp af gólfinu og púlla Honey Bunny á vondakallinn („Any of you fucking pricks move, and I’ll execute every motherfucking last one of ya!“) Eða, ef hún kæmist ekki í byssuna að taka þá styttuna af Venusi ofan úr hillu og rota hann með holdgerfingi hins kvenlega.

    Hins vegar getur verið gagnlegt að rýna í Two and a Half Men (sem ég hef reyndar ekki séð) út frá því sem fram kemur í pistlinum. Konurnar í þáttunum eru annað hvort valdamiklar, stjórnsamar og ógnvekjandi. Eða heimskar og hrifnæmar. Bræðurnir hafi búið við ofríki móður sinnar og geti ekki myndað alvöru tengsl við konur. Annar bróðirinn giftist ímynd móður sinnar, en sú hafi tuggið hann og spýtt honum út. Hann er því hræddur við konur og treystir þeim ekki. Hinn bróðirinn fer út í hinar öfgarnar og lítur á konur sem kynlífsleikföng, forðast nánd og velur sér „fórnarlömb“ sem ógna honum ekki.
    Vissulega er þetta kvenfyrirliting. En hvort kom á undan staðalímyndin eða stúlkan?

  2. Flottar greinar eftir nemendurna. Unga fólkið kemur með nýja og betri tíma. Eldri Íslendingar eru svo forpokaðir og eins og sést á samfélagi okkar þar sem ójöfnuður er eins og eðlilegur hlutur þá ber eldri kynslóð ábyrgð. Unga fólkið er vonandi svona meðvitað og upplýst og lætur ekki misrétti líðast.

  3. Frábært hjá ykkur að vekja athygli á þessu og vera ófeimin við að taka til máls í þessari umræðu :). Ég hefði líka óskað að það hefði verið kynjafræðsla þegar ég var í grunnskóla og menntaskóla.

  4. Sama segi ég, ég dauðöfunda ykkur af því að geta valið svona áfanga, hefði mátt vera í boði þegar ég var í menntó! Fínar greinar með áhugaverðum pælingum og greiningum.

  5. Bakvísun: Kynferðisleg áreitni- hvað er það? | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.