Ekki benda á mig

„Það var bara fólk sem sá um þetta fyrir okkur.“  Þetta sagði Haraldur Leifsson framkvæmdastjóri Wurth á Íslandi í samtali við DV fyrir helgi. Tilefni viðtalsins var myndband sem birt var á netinu af Októberfesti fyrirtæksins, sem selur verkfæri, rafmagnsvörur og fleira slíkt.

Á myndbandinu má m.a. sjá ungar stúlkur á brjóstahöldum ganga á sviði og halda á rörtöngum, sem gera má ráð fyrir að umrætt fyrirtæki selji. Sömuleiðis sjást stúlkur sem klæddar eru í klámvæddar útgáfur þýskra Bæjaralandsbúninga hella dósabjór í glös hjá gestum, sem flestir virðast vera karlkyns.

En víkjum aftur að framkvæmdastjóra Wurth, sem sagðist engu hafa fengið að ráða um skipulag októbergleðinnar. Einhverja hugmynd virðist hann þó hafa haft um „þemað“ en „bjóst ekki við að þær yrðu svona léttklæddar“ og fannst þetta „aðeins of“ og „óþarflega“ mikið.

Það kemur ef til vill í ljós á næsta ári hversu mikinn léttlæðnað ungra stúlkna Wurth metur nauðsynlegan til þess að geta selt verkfærin sín, enda ekki að sjá að fyrirtækið væri neitt sérstaklega að velta því fyrir sér að breyta um samkvæmisstíl.

Wurth tekur gagnrýninni greinilega mátulega alvarlega og sá t.d. ekki ástæðu til að fjarlægja myndbandið af vefsíðu sinni.Þar fann ég það á forsíðu nokkrum dögum eftir að gagnýnin kom fram. „Tæplega 600 manns létu sjá sig og sýnir þetta myndband aldeilis vel stemninguna,“ segir á vef Wurth.

Þessi fáklædda stúllka axlaði rörtöng, en pípulagningamenn eru sjálfsagt ekki svona til fara við sín störf.

En það er að fleiru að huga. Hvaða „fólk“ var það sem sá um gerð myndskeiðsins, sem það hefði raunar sómt sér vel í þætti úr Mad Men? Fyrir þau sem ekki þekkja lýsa þeir þættir heimi bandarískra auglýsingakarla á sjöunda áratug síðustu aldar, um það leyti sem önnur bylgja kvennabaráttunnar var að rísa.

Fólkið sem framkvæmdastjóri Wurth segir hafa skipulagt brjóstahaldarasýninguna vinnur hjá auglýsingastofunni Pipar. Hér vakna strax spurningar. Hvernig má það vera að fólk sem hefur auglýsingagerð að atvinnu, láti sér detta í hug að svona uppákoma geti eflt ímynd fyrirtækis? Og hafi einhver fengið þessa hugmynd, hvers vegna í ósköpunum var hún ekki kæfð strax? Sá virkilega enginn hversu niðurlægjandi sýning af þessu tagi er fyrir fólk (fyrir utan að vera hrikalega hallærisleg)?

Í þessu sambandi má nefna rannsókn Maríu Ingunnar Þorsteinsdóttur og Auðar Hermannsdóttur sem kynnt var á félagsvísindaráðstefnunni Þjóðarspeglinum, sama dag og DV fjallaði um samkomu Wurth. Rannsóknarspurning þeirra var sú hvort auglýsingar ýti undir staðalmyndir kynjanna að mati auglýsingagerðarfólks og var starfsfólk auglýsingastofa beðið um að svara spurningalista um þessi mál.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að almennt reynist auglýsingafólk hvorki sammála né ósammála fullyrðingum sem lúta að því að auglýsingar ýti undir staðalímyndir kynjanna.

Auglýsingakarlarnir í Mad Men eru fulltrúar fyrir þann tíma þegar menn veltu lítið fyrir sér jafnfrétti kynjanna.

Hvað segir þetta okkur?  Upp í hugann kemur sú mögulega skýring að auglýsingafólk telji sig ekki þurfa að sýna sérstaka meðvitund um staðalmyndir kynja. Það mál sé ekki á dagskrá.

Þó vekur að athygli í rannsókninni að munur reyndist á mati þátttakenda eftir kyni. Konur sem vinna á auglýsingastofum telja auglýsingar frekar ýta undir staðalímyndir beggja kynja en karlar.

„Það hvernig birtingarmynd karla og kvenna er í auglýsingum getur verið til þess fallið að viðhalda og ýta undir gildandi  hugmyndir og ríkjandi staðalímyndir um kynin og hefur birtingarmynd kynjanna í auglýsingum því verið notuð sem mælikvarði á það hvernig litið er á kynin í ákveðnum samfélögum,“ segir í ágripi rannsóknar Maríu og Auðar.

Þetta er áleitin spurning. Hvað segir myndbandið, sem byggist á viðburði sem skipulagður af auglýsingastofunni Pipar okkur um það hvernig litið er á kynin á Íslandi?

Greinilegt var á svip margra karla sem sáust á októbergleði Wurth að þeim fannst viðburðurinn vandræðalegur. Það eru góðu fréttirnar. Framkvæmdastjórinn er ekki það stoltur af hönnun viðburðarins að hann gangist við því að eiga hlut að máli sjálfur. Hann tekur þó hvorki ábyrgð né sýnir vilja til róttækra breytinga. Það er verra.

 

 

 

 

2 athugasemdir við “Ekki benda á mig

  1. Ótrúlega pínleg og gamaldags uppákoma hjá Wurth. Ég fór reyndar að velta fyrir mér hvort samfélagsvitund sé nokkuð hluti af námi auglýsingahönnuða þegar ég sá auglýsingu frá Stillingu hf um varahluti í bíla á bls. 23 í Fréttablaðinu í dag, með mynd af hoppandi konu, reyndar alklæddri, fyrir framan bíl. Ég gat ekki séð nokkurt samhengi milli efnis auglýsingarinnar og þessarar myndar, nema hún væri kannski svona hoppandi glöð yfir að Stilling hf ætti varahluti í bílinn hennar. Eða kannski var þetta bara kona sem vinnur hjá Stillingu við að setja varahlutina í bílinn. Hvað veit ég.

  2. Mín tilfinning er að auglýsingabransinn fyrir hönd kostunaraðila byggi á því að halda uppi neyslu og höfða til ógagnrýninna viðtakenda en ekki fyrst og fremst því að kynna efni fyrir þeim sem hafa þörf fyrir það. Bara partur af tilverunni sem mætir fólki á þessum tímum sóunar á öllum sviðum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.