Kynkaldar staðreyndir

Stundum heyrast þær kröfur að það vanti grjótharðar tölur til að undirbyggja málstað femínista. Sumir ganga svo langt að halda því fram að það sé ekki fyrir neinu að berjast enda hafi kynjajöfnuði þegar verið náð, að minnsta kosti hér á landi. Femínistar hafa margir takmarkaðan áhuga á að eltast við þessar kröfur enda blasir kynjaskekkjan við öllum sem hafa opin augu og vilja til að sjá með þeim. En ég fór nú samt og gúglaði aðeins milli húsverka eitt kvöld og kynnti mér nýjustu tölur.

Á Íslandi telst kona nú jafnast á við 85% af karlmanni sem er heimsmet. Hér er um tölfræðilega stærð að ræða (The Global Gender Gap Index [pdf-skrá]) sem er reiknuð út frá mismuni á stöðu kynjanna í þátttöku og tækifærum í efnahag, menntun, heilsu og pólitík. Íslenskar konur tróna á tindinum vegna sterkrar stöðu í menntun og góðrar heilsu en þær eru frekar neðarlega á listanum þegar miðað er við laun og völd. Á pólítíska og efnahagslega sviðinu er íslensk kona ekki nema um 75% á við karl, og er sérstaklega athyglisvert að þegar konur og karlar í æðri valdastöðum eru taldar ná konur því rétt svo að vera hálfur karl. (Hér er átt við fólk eins og dómara, ráðuneytisstjóra og aðra stjórnendur stofnana og fyrirtækja, og þingmenn.)

Feðraveldið með augum Tatsuya Ishida (The Sisterhood 7)

Ógrynni rannsókna eru til sem sýna ójöfnuð kynjanna á öllum sviðum út um allan heim. Ein nýleg rannsókn sem vakti athygli var þannig að vísindamenn voru látnir meta umsóknir um stöðu á rannsóknarstofu. Sumar umsóknir voru efnislega nákvæmlega eins en nöfn umsækjenda voru stundum karlanöfn og stundum kvennanöfn. Í ljós kom að umsóknir með karlanöfnum voru hærra metnar og vísindamennirnir voru tilbúnir að borga körlum mun hærri byrjunarlaun. Hér skal ítrekað að munurinn var fenginn með því að bera saman mat á nákvæmlega eins umsóknum að öðru leyti en að nöfn gáfu til kynna ólík kyn.

Í mörgum ríku landanna (stundum nefnd „vesturlönd“) beita karlar nú um 20% kvenna kynferðisofbeldi einhvern tíma á ævinni. Íslensk rannsókn frá 2010 bendir til þess að hlutfallið sé um 24% hér á landi, en 13% lenda í því að karl nauðgar þeim eða reynir það. Bandarísk rannsókn frá 2010 segir að 18.3% kvenna hafi verið nauðgað eða lent í tilraun til nauðgunar. Fyrir þau sem vilja kynna sér fleiri tölur er rétt að benda á upplýsingar um ofbeldi karla gegn konum út um allan heim sem Sameinuðu þjóðirnar hafa verið að safna og greina á síðustu árum.

Því miður eru margir sem gera sér enga grein fyrir þessu og virðast telja það sárasjaldgæft að karlar nauðgi eða reyni að nauðga konum. Ég vel orða þetta á þann hátt að karlar nauðgi konum þó að ég viti að það stuðar marga. Ég geri það vegna þess að sú venja að tala ekki um þá sem beita ofbeldi felur frá okkur og spilar niður þessa óþægilegu en mikilvægu staðreynd. Reyndar má segja það sama um annað ofbeldi, það eru yfirleitt karlar sem beita því – bæði gegn konum og öðrum körlum.

Í þessum stutta pistli hefur eingöngu verið tæpt á nokkrum niðurstöðum tölfræðilegra rannsókna. Þetta eru bara ískaldar staðreyndir. Þær koma að vísu femínistum ekki á óvart, enda koma þær heim og saman við femínískar kenningar og kynjafræði. En fræðilegar kenningar eru einmitt nauðsyn þeim sem vilja reyna að skilja hvernig samfélagslegum ójöfnuði kynjanna er viðhaldið gegnum (til dæmis) menningu og efnahagskerfi.

6 athugasemdir við “Kynkaldar staðreyndir

 1. Sæll
  Góð grein að mörgu leyti enn varðandi þetta:
  „Í mörgum ríku landanna (stundum nefnd „vesturlönd“) beita karlar nú um 20% kvenna kynferðisofbeldi einhvern tíma á ævinni. Íslensk rannsókn frá 2010 bendir til þess að hlutfallið sé um 24% hér á landi, en 13% lenda í því að karl nauðgar þeim eða reynir það. Bandarísk rannsókn frá 2010 segir að 18.3% kvenna hafi verið nauðgað eða lent í tilraun til nauðgunar. Fyrir þau sem vilja kynna sér fleiri tölur er rétt að benda á upplýsingar um ofbeldi karla gegn konum út um allan heim sem Sameinuðu þjóðirnar hafa verið að safna og greina á síðustu árum.“

  „Karlar beita 20% kvenna ofbeldi…“ enn það er varla 20% karla sem beita 20% kvenna ofbeldi… hvað er þetta stórt hlutfall karla sem gerir þetta 1%- 2%? minna/meira???
  Eru þetta ekki oftast síbrotamenn sem að mestu leyti sem ráðast á þá sem eru minni máttar og í flestum tilfellum reynast það vera konur, sem oft eru ekki eins líkamlega sterkar og berjast síður á móti. Til þess að minnka þetta hlutfall kvenna sem lendir í þessu ofbeldi væri þá ekki ráð að greina hverjir gera þetta og gera viðeigandi ráðstafanir í stað þess að stimpla alla karla sem mögulegan geranda?

  „just my 2 cents“
  Arnar Ægisson

  • Arnar.
   Ingólfur gefur HVERGI í skyn að 20% karla beiti konur ofbeldi.
   Þarna er mjög greinilega átt við 20% kvenna.
   Þarna er ekki verið að tala um hversu margir karlmenn beita konur ofbeldi, heldur fjölda kvenna sem eru beittar kynferðislegu ofbeldi, og á það fullan rétt á að standa eitt og sér.
   Annars væri ég einnig forvitin að sjá tölur um hverju mörg prósent af karlmönnum beita konur (eða aðra) kynferðislegu ofbeldi. Ég veit að það eru ekki 20%, sem betur fer, alla vega ekki á Íslandi.
   Ef þetta væri svo einfalt, að við gætum einfaldlega látið menntaskóladrengi taka próf, hvort þeir væru nauðgarar eða ekki, eða mælt það með blóðprufum, og gert þá viðeigandi ráðstafanir, þá hugsa ég að við værum búin að því.
   Hvernig hefur þú hugsað þér að greina nauðgara frá hinum venjulega karlmanni?

 2. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að meta „hlutfall karlmanna sem hefur beitt kynferðislegu ofbeldi“. Hins vegar er vel þekkt að í um 70% tilvika er gerandinn nákominn þolanda. Það er þess vegna alveg á tæru að hér er ekki um að ræða örlítinn hóp af sérstökum ofbeldismönnum.

 3. Þetta eru ljótar tölur. Í rannsókn frá Noregi í 2007 kemur það fram að fleiri konur (19 %) enn karlar (13 %) beita börn sín ofbeldi. Í viðtali við forstjóra Familiestiftelsen segir það að börn sem verði fyrir ofbeldi af mæðrum sínum eiga erfiðara með að segja frá um vanda sinn vegna þess að það vanti þjóðfélagslega hreinskilni um að konur geta líka verið gerendur.

 4. Merkilegur pistill að mörgu leiti, sérstaklega þetta með að kona sé hálfur karl þegar litið er til dómara o.s.frv. Hvernig er það, eru karlar þá bara 10% kona þegar litið er til kennara, hjúkrunarfræðinga o.s.frv? Eru karlar bara 30% kona þegar kemur að háskólanámi?
  Ingólfur er fastur í feministaklisjunni um að þar sem ójafnvægi er í starfsvali kynjanna sé kominn sönnun fyrir ójafnrétti. Hjá Ingólfi og öðrum feministum er ekki komið á jafnrétti fyrr en kynin eru jöfn í öllum störfum sem þeim þóknast að skilgreina sem eftirsótt – þannig mun þeirra áhugamál endast þeim alla ævi og mikið lengur en það því kynin hafa alla tíð, og munu alla tíð velja sér mismunandi starfsvettvang – svon heilt yfir.

  Svo er það hin klisjan, þetta með fallna og særða. “ Bandarísk rannsókn frá 2010 segir að 18.3% kvenna hafi verið nauðgað eða lent í tilraun til nauðgunar. “ Tilraun til nauðgunar, hversu mikið er hægt að toga slíkt hugtak og teygja þegar viljin er jafn einlægur og Ingólfur og aðrir feministar búa yfir? Viðreynsla verður að öðru uppháhaldshugtaki feminista, kynferðislegri áreitni, sem aftur verður að öðru hugtaki sem feministum þykir ennþá skemmtilegra, kynferðislegu ofbeldi, sem lítið mál er svo að afgreiða sem“tilraun til nauðgunar“ – það er hugtak sem fær feminista til að væta brækurnar. Eftir sitjum við með 2 fallna og 98 særða, mest er það skrámur en stór hluti varð fyrir andlegu áfalli og getur því flokkast sem særður – og í fræðigreinum verður þetta 100 fallnir eða særðir – ekki amalegt að geta slegið um sig með slíkum tölum.

  Bíð spenntur eftir pistli frá Ingólfi um ofbeldi kvenna – börn eru barin og buffuð af mæðrum sínum um allan heim en ekki heyrist tíst frá feministum um ofbeldi kvenna. Ungabörn eru myrt af mæðrum sínum við fæðingu og fá dóm eins og um búðarþjófnað hafi verið að ræða. Árlega berast 5-6 þúsund tilkynningar til barnaverndaryfirvalda á Íslandi en aldrei hefur nokkur kjaftur verið dæmdur fyrir ofbeldi eða vanrækslu á barni, af því oftast eru það mæður sem eru brotlegar – nema auðvitað að það sé kynferðislegt, þá verður allt vitlaust í bloggheimum og hjá feministum, því oftast eru það karlar sem eru þar brotlegir. En Ingólfur og feministar halda kjafti ef ofbeldi kvenna ber á góma, það hentar ekki málstaðnum að tala um óþægilega hluti. En Ingólfur og feministar geta huggað sig við það að þegar kemur að ofbeldi gegn börnum, þá eru konur mikið meira en 100% karl.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.