Sjálfstraust

Myndin er fengin hér.

„Er traustvekjandi að sækja um starf þar sem lofað er jafnréttisstefnu um jafnan hlut kynja í störfum, konur jafnt sem karlar eru hvattar til að sækja um? Svolítið einsog að segja; við ætlum að eiginlega að ráða konu óháð hæfileikum af því að það eru svo margir karlmenn sem ráða í heiminum, takk samt,“ sá ég haft eftir landskunnum fjölmiðlamanni á Facebook 24. október, á Kvennafrídeginum.

Þetta þóttu mér merkileg ummæli.

Mér fannst í fyrsta lagi aðdáunarvert að einhver skuli hafa komist til fullorðinsára á Íslandi með svona bjargfast sjálfsálit og halda að enginn geti verið honum fremri og enginn hæfari til starfa en hann. Einu ástæðurnar fyrir því að önnur manneskja sé tekin fram yfir þetta ofurmenni hljóta að vera annarlegar, kynjakvóti eða whatever. Vel gert! Mikið hafa nú konurnar í lífi þessa einstaklings verið duglegar að hlaða undir egóið hjá honum, að hann skuli halda þetta. Og örugglega karlmennirnir líka.

Mér fannst í öðru lagi eftirtektarvert að þora að opinbera svona takmarkalaust sjálfstraust – „enginn er mér fremri“ – á Fésbókarvegg, sem allir vita að ratar beina leið í fjölmiðla ef því er að skipta. Kúdos fyrir það! Hér er maður sem þorir að viðra skoðanir sínar! (Alveg burtséð frá því að engum virðist þykja maðurinn nógu merkilegur eða ummælin nógu athyglisverð til að hafa þau eftir. Nema auðvitað mér, sem er kona, komin úr barneign og femínisti og þar af leiðandi ekki marktæk í neinni umræðu.)

Mér fannst í þriðja lagi stórmerkilegt að enn séu á landinu menn (eða að minnsta kosti einn karl) sem hafa í grundvallaratriðum misskilið jafnréttislögin og halda að þau séu sett til höfuðs karlmönnum en ekki að þeim sé ætlað að tryggja jafnan rétt jafnhæfra einstaklinga og koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis. En kannski heldur þessi tiltekni fjölmiðlamaður að konur geti aldrei staðið körlum jafnfætis eða – *hrollur!* –  verið hæfileikaríkari en þeir.

Mér fannst í fjórða lagi íhugunarvert að ummælin birtust á Facebook skömmu áður en um þessa könnun var fjallað í fjölmiðlum.

Niðurstöður úr henni fundust mér aðallega sorglegar.

Mjög sorglegar.

En kannski er þarna eitthvert samasemmerki sem þið sjáið en ekki ég.

6 athugasemdir við “Sjálfstraust

 1. „Mikið hafa nú konurnar í lífi þessa einstaklings verið duglegar að hlaða undir egóið hjá honum, að hann skuli halda þetta. Og örugglega karlmennirnir líka.“

  Er þetta alvöru djók eða grín djók ?

 2. Það er stórmerkilegt að fyrrverandi fréttamaður, sem ætti að vera vel upplýstur, skuli ekki þekkja jafnréttislögin eða túlkun þeirra. Nægar hafa nú verið fréttirnar af þeim undanfarið. Kynferði umsækjenda kemur aðeins til álita ef báðir umsækjendur eru jafnhæfir. Þá á að ráða þann umsækjanda sem er af því kyni sem er í minnihluta í viðkomandi starfsgrein. Þessari reglu er afar sjaldan beitt, enda ekki oft sem umsækjendur eru metnir jafn hæfir.

  Ef Þorsteinn J. er jafn hæfur og hann virðist halda, þarf hann því engar áhyggjur að hafa.

  • Hvað með konuna sem var metinn minna hæf en gaurinn í starf hjá Jóhönnu, og fékk síðan bara starfið útaf lögsóknum og einhverju þvílíku?

   Þessi lög eiga eiginlega ekki að vera til, þar sem að kona er hæfari í starf en jafnhæfur karl (eða hæfari karl sbr. dæmið) aðeins því hún er kona. Þetta er mismunun, og engin mismunun er „jákvæð“.

   • Halldór, geturðu bent mér á hvar það stendur í jafnréttislögum að það megi taka minna hæfa konu fram yfir hæfari karl? Pointið hjá Magneu, og hjá Önnu sem þú ert að svara, er einmitt að sæmilega upplýst fólk veit að það er fullkomin afbökun á jafnréttislögunum að halda þessu fram. Tilgangur jafnréttislaga er einmitt að tryggja að fólk sé *ekki* tekið fram yfir aðra umsækjendur vegna kynferðis.

 3. Tek undir með Önnu. Þarna var haldið á lofti alvarlegum misskilningi á jafnréttislögunum og inntaki þeirra og fjölmiðlafólk til fjölda ára á að vita betur. Og það getur ekki annað en læðst að manni sá grunur að það viti raunar betur, en við það breytist „misskilningurinn“ í (vísvitandi?) rangtúlkun sem getur ekki annað en verið mjög gagnrýniverð, einkum af hálfu einstaklings sem sækist eftir ábyrgðarstöðu hjá ríkisreknum fjölmiðli. Þessi misskilningur/rangtúlkun á vægi kynferðis og hæfis er ótrúlega útbreiddur og fjölmiðlafólk ætti að vera síðast allra til að ýta undir hann.

 4. Ég hef tvennt (a.m.k.) um þetta að segja og vil að sjálfsögðu fá að básúna því hér:

  1. Ég á afar erfitt með að trúa að fjölmiðlamaðurinn áhyggjufulli, eða bara hvaða maður sem er sem fúnkerar í þessu samfélagi og fylgist sæmilega með, sé svona illa að sér um sérúrræðisákvæði jafnréttislaganna. Annað hvort er hann fáfróðari en ég hefði getað ímyndað mér eða þá að hann hreinlega vill breiða út þennan misskilning þrátt fyrir að vita betur.

  2. Ég er ekkert alveg sannfærð um að málið snúist bara um sjálfstraust, þótt það sé ágætis kenning líka. Nógu margir eru þeir alla vega, karlarnir sem virðast ganga að því sem vísu að hæfasti umsækjandinn hljóti alltaf að vera karlkyns og sé kona valin úr hópi umsækjenda þá hljóti það að vera vegna einhvers kynjakvóta fremur en að hún gæti hafa verið hæfust. En sem sé velti ég því fyrir mér hvort það sé endilega merki um sjálfstraust að vilja ekki keppa við konur á jafnréttisgrundvelli. Nú er alls ekki meiningin að dylgja eitthvað sérstaklega um hæfni þessa tiltekna manns, ég veit ekkert um hæfni hans til hinna ýmsu starfa sem hann kynni að vilja sækja um, heldur er ég að velta fyrir mér hvað býr að baki svona viðhorfi. Getur það verið að viðkomandi búist alveg eins við því að einhver annar sé metinn hæfari en hann, jafnvel kona, en að hann telji sig samt eiga „rétt“ á starfinu fram yfir konu? Þ.e.a.s. að málið snúist um einhvers konar entitlement (hvert er íslenska orðið yfir það?) ekkert síður en bjargfasta trú á eigin hæfni?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.