Brjóstakrabbamein á allra vörum

Undanfarna mánuði hafa söfnunarátök tröllriðið íslenskum fjölmiðlum sem hafa svo náð hámarki með söfnunarþætti á einhverri sjónvarpsstöðinni fleiri föstudagskvöld en ég kæri mig um að muna. Þau hafa öll sama markmiðið; þau vilja bæta aðstæður fólks sem á um sárt að binda. Það er göfugt og gott markmið. Ég styð það markmið.

KFC – bleikþvegið

Að sýna þakklæti í verki

Ég hef lengi velt fyrir mér framkvæmd og gildi slíkra söfnunarátaka. Ég vil styrkja góð málefni, ég kaupi yfirleitt jólakort til styrktar Barnaspítala Hringsins þar sem sonur minn lá á sínum tíma. Ég er þeim þakklát og vil sýna það í verki. En sjónvarpssöfnunarátökin eru orðin svo mörg að ég man ekki einu sinni hvað hvert og eitt þeirra snýst um lengur. Það sem ég man einna helst er að þau eru yfirleitt bleik á litinn og tengjast neyslu á vöru sem skilar einhverju hlutfalli af ágóða til góðgerða.

Af hverju er svona algengt að nota neyslu til þess að láta gott af sér leiða? Allt í einu eru það ekki lengur bara hefðbundin styrktarfélög sem óska eftir stuðningi, heldur stórfyrirtæki á borð við Christian Dior, Campbellsúpur og Coca-Cola. Kannski er einfaldlega skemmtilegra að kaupa fallegt gloss heldur en að setjast niður, finna reikningsnúmer á einhverri heimasíðu og millifæra í heimabankanum. Það er enginn glamúr fólginn í að leita að daufgráum auðkennislykli. Það er hversdagslegt og algerlega óáhugavert. Sérstaklega í samfélagi sem er löngu farið að tengja góðgerðamál við skemmtanir eða hátíðleika, bleika gleði og viðburði í sjónvarpi.

„Það er ekkert bleikt við að fá krabbamein“

Nýlega horfði ég á heimildamyndina Pink Ribbons Inc. en hún fjallar á mjög gagnrýninn hátt um það sem er kallað brjóstakrabbameinsmenning og gagnrýnir hvernig fyrirtæki nota mikilvæga baráttu gegn krabbameini til þess að styrkja og bæta ímynd sína. Í myndinni er fjöldi viðtala við konur sem veikst hafa af brjóstakrabbameini og er sjónum einkum beint að bleika borðanum og þeirri merkingu sem hann hefur öðlast í vestrænni menningu. Margar kvennanna sem hafa veikst gagnrýna krúttlega bleika litinn harðlega og segir ein meðal annars að það sé „ekkert bleikt við að fá krabbamein.“

Í myndinni er fjallað um hugtakið bleikþvottur (e. pinkwashing), sem er birtingarmynd þeirrar jákvæðu ímyndar sem fyrirtæki getur öðlast með því að tengja sig málstaðnum. Þessi aðferð er gagnrýnd í myndinni og rök færð fyrir því að bleikþvottur sé aðferð sem er notuð til að höfða til kvenna og gera út á ótta þeirra við brjóstakrabbamein. Slæma útreið fá snyrtivörufyrirtæki sem nota krabbameinsvaldandi efni í framleiðslu sína á sama tíma og þau selja vöru merkta til stuðnings krabbameinsrannsóknum. Eins ber að nefna jógúrtframleiðanda sem gaf hluta af ágóða bleikmerktrar vöru til krabbameinsrannsókna en gaf mjólkurkúm engu að síður krabbameinsvaldandi hormón við framleiðslu á nákvæmlega sömu vöru.

Eymd til ímyndarsköpunar

Ég velti fyrir mér hvort það sé í raun og veru skynsamlegt að tengja neyslu og góðgerðamál saman. Ef jógúrtsagan kennir okkur eitthvað þá er það að draga í efa raunverulegt gildi þess að kaupa varagloss til styrktar góðu málefni eins og brjóstakrabbameini ef við vitum ekki nákvæmlega við hvaða skilyrði glossið er framleitt og hvaða efni eru í því. Að því gefnu að framleiðsluhættir séu fullnægjandi gæti skipt máli að spyrja spurninga líkt og hver hagnaður fyrirtækisins af góðgerðunum er, t.d. við skattafrádrátt? Og hvaða áhrif hefur það á fyrirtæki á samkeppnismarkaði að tengja ímynd sína við lækningu á hræðilegum sjúkdómum í hagnaðarskyni? Tengja sig við von kvenna um bata og lengra líf? Langar mig að vera ókeypis auglýsing fyrir stórfyrirtæki í slíkri ímyndarherferð? Væri þá kannski ekki betra að halda sig við jólakort Hringsins eða leggja peninga beint inn á reikning þess sem safnað er fyrir?

Hér má svo lesa áhugaverðan pistil Hilmu Gunnarsdóttur um pólitík bleiku slaufunnar. 

Uppfært 18:56 – Pistill Barböru Ehrenreich „Welcome to Cancerland“ er mjög fróðlegur líka. Hann má finna hér.

 

10 athugasemdir við “Brjóstakrabbamein á allra vörum

  1. Sá hana á RIFF þessa einmitt og hún opnaði mjög augu mín, skrifaði um hana á kvikmyndir.is fyrir áhugasama. Manni verður bara óglatt af þessari markaðsvæðingu allri.

  2. Flott grein. Takk fyrir þarft innlegg. Var alveg komin með nóg af fyrirtækjum sem voru að hengja sig utan í bleiku slaufuna. Hunts auglýsti t.d. grimmt að þeir styddu við átakið. í sömu auglýsingu var sagt að neysla á tómötum drægju úr líkum á krabbameini. Slík fullyrðing finnst mér mjög vafasöm. þar sem að það er allskonar aukaefni í tómatvörum og gríðarlegt magn af sykri, sem er að mér skilst alls ekki góður þegar kemur að krabbameini. Þetta er orðið eitthvað svona partý fílingur þegar á að fara styrkja eitthvað. hver getur búið til mesta stuðið í kringum söfnunina.

  3. Frábært að fá pistil um þetta. Sjálf hef ég verið með óbragð í munninum yfir tvískinnungnum í þessari bleiku markaðsherferð sem hófst einmitt hér á landi með sölu á glossi fullu af eiturefnum. En þetta sjónarmið mitt hefur átt litlum vinsældum að fagna enda ljótt að vera á móti góðum málefnum.

  4. Hef einmitt oft velt þessu fyrir mér og kaupi sjaldan vörur sem sagðar eru til styrktar einhverju málefni – frekar styrki beint. Takk fyrir Helga Þórey fyrir góðan pistil.

  5. Frábær grein. Það hefur svo oft verið eitthvað að trufla mig við þetta bleikglingursprang í þágu góðra málefna … sem ég hef ekki alveg áttað mig á hvað er! Takk.

  6. Bakvísun: Bleiku brjóstin | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.