Kynferðisleg áreitni- hvað er það?

Síðasta föstudag birtum við tvo pistla eftir nemendur í kynjafræði við Borgarholtsskóla, sem velta fyrir sér jafnrétti kynjanna í ólíkum myndum með aðstoð Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur kennara. Pistlana má nálgast hér. Hér kemur sá þriðji og von er á fleirum. Við þökkum krökkunum í Borgó og Hönnu Björg kennara kærlega fyrir pistlana. Það er svo gott og gleðilegt að sjá ungt fólk gera frábæra hluti.

–Ritstjórn

Það gera sér ekki allir grein fyrir því hvað kynferðisleg áreitni er. Ég er 19 ára framhaldsskólanemi og ég hef aldrei fengið fræðslu um það hvað sé kynferðisleg áreitni og hvað ekki, þó er ég búin að fara í kynfræðslur og allskyns fyrirlestra í grunnskóla jafnt sem framhaldsskóla. Í 17. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 er kynferðisleg áreitni vel skilgreind:

Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagsstarfs skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað, í stofnun, félagsstarfi eða í skólum. Kynferðisleg áreitni er kynferðisleg hegðun sem er ósanngjörn og/eða móðgandi og í óþökk þess sem fyrir henni verður, hefur áhrif á sjálfsvirðingu þolendanna og er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn að hegðunin sé óvelkomin. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Fyrir u.þ.b tveim vikum las ég grein á Pressunni þar sem faðir 15 ára stúlku segir frá kynferðislegri áreitni sem dóttir hans varð fyrir í Vinnuskólanum í sumar. Greinina má nálgast hér. Þar kemur meðal annars fram að yfirmaðurinn, sem var um tvítugt, hafi sagt nokkrum stúlkum í hópnum frá kynferðislegum athöfnum sínum og einnig hvað þeim ætti eftir að finnast gott þegar þær myndu byrja að stunda kynlíf. Eins og fyrr segir þá voru þessar stúlkur aðeins 15 ára!

Dóttir mannsins sem skrifaði greinina var hugrökk. Hún áttaði sig á hversu röng hegðun yfirmannsins var og sagði pabba sínum frá því sem hefði gerst.  Samkvæmt fréttinni hringdi faðirinn í umsjónarmann umhverfis- og framkvæmdarsviðs Árborgar, sem er jafnframt yfirmaður unglingavinnunnar, og sagði henni það sem dóttirin hafi sagt honum. Að sögn föður stúlkunnar greip konan fram í fyrir honum og eiginlega réttlætti hegðun mannsins! Ástæðan sem hún kom með var sú að stúlkurnar hefðu verið erfiðar og latar í vinnunni. Þetta aðgerðarleysi hjá yfirmönnum unglingavinnunnar nær engri átt.

Mesta áfallið við lestur greinarinnar var þó að heyra að yfirmaður hópsins, pervertinn, hafi aðeins verið færður til í starfi.  Hann vann samkvæmt greininni daginn eftir í kringum hópinn sem stúlkurnar voru í og ekki nóg með það heldur mætti hann einnig á lokahóf Vinnuskólans! Það er nógu erfitt að stíga fram og segja frá kynferðislegu áreiti í vinnunni, hvað þá þegar maður er 15 ára, en að þurfa að mæta gerandanum deginum eftir? Það er eiginlega verið að réttlæta hegðun hans, allavega verið að gera lítið úr kynferðislegu áreitninni. Stelpurnar fá þau skilaboð að hegðun hans hafi ekki verið eins alvarleg og hún í rauninni var, að þó svo að hann hafi beitt þær kynferðislegri áreitni á  vinnustaðnum þá sé það ekki svo alvarlegt. Að mínu mati ætti manninum, í minnsta lagi, að vera tafarlaust vísað úr starfi með skömm.

Það sem kom einnig á óvart í greininni var það að eftir að stúlkan hafi sagt frá áreitninni í unglingavinnunni hafi komið fram sex stúlkur í hópnum sem að studdu frásögn hennar. Ef þessi unga stúlka hefði ekki áttað sig á hversu röng hegðun yfirmannsins var, hefði þetta þá einhverntímann komist upp? Er ekki líklegt að hinar stelpurnar hefðu bara þagað yfir þessu og látið þetta naga sig að innan það sem eftir er? Ég er ekki viss um að ég sjálf hefði þorað, á þessum aldri, að standa upp fyrir sjálfri mér og segja frá hegðun yfirmanns míns. Aðalástæðan fyrir því væri sú að ég hefði ekkert verið viss um að þessi hegðun væri ólögleg, röng og viðurstyggileg.

Það þarf að upplýsa börn og unglinga. Það þarf að setjast niður með þeim eða halda fyrirlestra og fræðslur um það hvað kynferðisleg áreitni sé og hvernig maður skuli bregðast við. Unglingar á Íslandi fara flest mjög ung út á vinnumarkaðinn, hvort sem það er í Vinnuskólanum eða annarsstaðar, og því á að fræða þau um það hvað sé rétt og hvað sé röng hegðun yfirmanns eða annars starfsmanns í vinnunni. Það þarf að opna þessa umræðu og auðvelda börnum að leita sér hjálpar ef þau eru í minnsta vafa um hegðun starfsmanns/yfirmanns á vinnustað þeirra. Það á ekki að gera lítið úr hegðun gerandans og þannig normalisera kynferðislega áreitni á vinnustað. Það sem þarf að breytast, og það strax, er fræðslan og umræðan.

Kolbrún Sjöfn nemandi í KYN 103 Borgarholtsskóla

Merki Vinnuskóla Árborgar er tekið af heimasíðu sveitarfélagsins.

 

6 athugasemdir við “Kynferðisleg áreitni- hvað er það?

 1. Líka finnst mér mikilvægt að nefna að kynferðisleg áreitni er líka óvelkomin snerting, t.d. gripið í rass á djamminu. Ef karlmanni finnst gaman að snerta á kvenfólki á óvelkominn hátt sem þennan, þá er sá maður að kynferðislega áreita aðra manneskju. Slíkt er algjörlega viðbjóðslegt á t.d. vinnustað, og ætti ekki að vera talið eðlilegt á skemmtistöðum heldur. Það ætti líka að vera tekið á því sem slíku, og það á ekki að líta á konur sem standa upp fyrir sínu þegar slíkt gerist sem „ómægod totly leiðinlegar, hún ætti að taka þessu sem hrósi.“

 2. Það er eiginlega hálfgert vandamál að lögin krefjist þess að „skýrt [sé] gefið í skyn að hegðunin sé óvelkomin“. Ætti ekki að vera nóg að einfaldlega gefa það í skyn?

 3. Sammála Kári. Eða … ég myndi vilja ganga lengra. Maður á að hafa réttmæta ástæðu til að ætla að kynferðisleg hegðun sé velkomin áður en maður „heldur henni áfram“.

 4. “ Unglingar á Íslandi fara flest mjög ung út á vinnumarkaðinn, hvort sem það er í Vinnuskólanum eða annarsstaðar, og því á að fræða þau um það hvað sé rétt og hvað sé röng hegðun yfirmanns eða annars starfsmanns í vinnunni.“

  Þetta er alveg hárrétt og hefur raunar allt of lítið verið rætt. Á Íslandi þykir sjálfsagt að senda unglinga út að vinna, út af tiltölulega vernduðu umhverfi heimilisins, og það gleymist áreiðanlega ansi oft að spá í að um leið verða þau berskjölduð gagnvart ýmsu. T.d. einhverju á borð við það sem hér er lýst. Flottur pistill.

  • Kári:

   Það er eiginlega hálfgert vandamál að lögin krefjist þess að „skýrt [sé] gefið í skyn að hegðunin sé óvelkomin“. Ætti ekki að vera nóg að einfaldlega gefa það í skyn?

   Ingólfur:

   Sammála Kári. Eða … ég myndi vilja ganga lengra. Maður á að hafa réttmæta ástæðu til að ætla að kynferðisleg hegðun sé velkomin áður en maður „heldur henni áfram“.

   Ég skil ykkur ekki alveg.

   Á maður núna að fá hlutina helst á pappír áður en maður beygir sig fram eftir kossi, í glasi á djamminu ?

   Á maður að spyrja um leyfi, helst í viðurvist vitna ?

   Ef stelpa dansar þétt upp að ykkur á dansgólfinu og þið leggið höndina á bossan á henni, eruð þið að ganga yfir strikið eða var hún að ganga yfir strikið þegar hún fór að dansa þétt upp að ykkur ?

   Ég hef verið klipinn í klofið á djamminu, ætti ég að geta kært fyrir slíkt ? (random stelpa af dansgólfinu) Hvernig ætti refsiramminn að vera ?

   Eeeeða kannski bara þú veist „Gaur, hættu að reyna að kyssa mig ég hef engan fokking áhuga á þér“
   „Stelpa, væri þér sama, þetta er ekki stressbolti“ *Setur hendina á bossan og tékkar hvort sæta stelpan sem var að dansa færi hana af eða fari*

   Seinni parturinn kannski örlítið meira common sense ?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.