Að vera eða ekki vera – í kvenfélagi

Félagskonur í Líkn í Vestmannaeyjum á árlegu 1. desember-kaffihlaðborði, 1969

Sú var tíðin að ég hefði fremur viljað finnast dauð á víðavangi en lifandi á kvenfélagsfundi. Kvenfélagsfundir voru – taldi ég – hallærissamkomur þar sem smáborgaralegar kerlingar komu saman til að kjafta og kvaka til að drepast ekki úr leiðindum ella, fjöldaframleiddu rjómatertur með kokkteilávöxtum, rósaleppavettlinga og servíettuhringi og prönguðu inn á fólk undir því yfirskini að aurarnir rynnu til einhverja góðgerðarmála, sem gátu nú tæpast orðið merkileg fyrir það sem saman skrapaðist. Ég  hélt nú aldeilis að ég vissi sitthvað um kvenfélög.

Saga kvenfélaga á Íslandi er auðvitað um margt gríðarlega merkileg og innan þeirra vébanda hefur ótal margt verið gert annað en að slúðra og baka. Íslensk kvenfélög hafa lagt mikla og ómetanlega sjóði til velferðarmála og samfélagsumbóta, oft á sviðum sem þeir sem með opinbera sjóði fóru á hverjum tíma sáu litla ástæðu til að sinna sem skyldi. Þannig tóku þessi félög, í borg, bæjum og sveitum, gjarnan að sér félagslega samhjálp til handa þeim, sem ekki komust  inn á radar yfirvalda – iðulega konum, börnum og eldra fólki, svo ekki sé minnst á sjúka og bágstadda.

Kvenfélagið Hringurinn, sem Björg Einarsdóttir stofnaði í Reykjavík árið 1904, og þá einkum með aðstoð við berklasjúka í huga, kom upp búskap á jörð í landi Kópavogs og rak þar hressingarhæli fyrir berklasjúka í afturbata, en færði ríkinu stofnunina að gjöf síðar meir. Því næst einhentu Hringskonur sér í að koma upp  barnaspítala og hafa allar götur síðan verið ein helsta burðarstoð þeirrar frábæru stofnunar, eflt hana og styrkt með tækjakosti, aðbúnaði og óbilandi önn fyrir starfsemi hennar. Rjómaterturnar og prjónlesið reyndust drýgri en maður hefði ætlað. Thorvaldsensfélagið hefur sinnt góðgerðarmálum síðan 1875 , m.a. með styrkjum til barnadeildar LSH í Fossvogi. Og þannig mætti lengi telja – saga kvenfélaga og kvenréttindafélaga á Íslandi er löng og mikil og áhugasamir geta m.a. kynnt sér ritaskrá um efnið á vefsíðu Kvennasögusafns Íslands.

Annað og ekki síður veigamikið hlutverk kvenfélaga var að vera konum, sem annars hefðu varla fundið til þess önnur tækifæri, vettvangur til að þjálfast í félagsstörfum, læra að tjá sig opinberlega og verða virkar utan heimilisins. Margar af brautryðjendunum á sviði stjórnmálaþátttöku kvenna á Íslandi, t.d. Katrín Magnússon, létu til sín taka innan kvenfélaga og fyrsti kvennalisti Íslandssögunnar, sem bauð fram til sveitarstjórnarkosninga árið 1908, var samstarfsframtak Hins íslenska kvenfélags, Kvenréttindafélags Íslands og kvenfélaganna Hringsins (í Reykjavík), Thorvaldsensfélagsins og Hvítabandsins.

Kvenfélagið Hringur í Mývatnssveit var stofnað árið 1901 – þessi mynd er tekin árið 1914.

Í hugum margra er orðið „kvenfélag“ samt sem áður tengt fremur léttvægum kvennasamkomum þar sem meira er gert af því að slúðra og sauma og býsnast og baktala en ræða veigamikil mál, leggja lóð á vogarskálar, styrkja, hafa áhrif, efla og hvetja. Það var því ekki að ástæðulausu að forsprakkar nýjustu plöntunnar í kvenfélagaflóru landsins, hins nýstofnaða Kvenfélags SÁÁ, sáu ástæðu til að rökstyðja sérstaklega á stofnfundinum þá ákvörðun að láta félagið bera þetta ískyggilega nafn. Þeim var ljóst að með nafngiftinni ætti félagið á hættu að vera smættað niður í kvennaklúbb þar sem fram færi kvennahjal og kvennatuð.

En þetta er nú einu sinni félag og í því eru – ja, konur. Og að mörgu leyti er eitthvað fallegt og heiðarlegt við að láta kvenfélagshugtakið lifa áfram, jafnvel þótt þetta tiltekna félag verði kannski ekki dæmigert eintak af tegundinni (ef það er þá til eitthvert „dæmigert“ kvenfélag). Markmiðum félagsins er lýst í fréttatilkynningu á vef SÁÁ  þann 25. september s.l.:

 

rótarkonur

F.v. Kristín Pálsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir

Félagið vill beita sér fyrir frekari úrvinnslu gagna SÁÁ og kanna leiðir til að afla meiri upplýsinga í gegnum viðtölin á Vogi, konum til góða, og stuðla að rannsóknum á þessu sviði. Ennfremur að afla þekkingar, halda fyrirlestra, ráðstefnur og námskeið, eitt eða í samstarfi við önnur félög, og efla umræður um fíknitengd málefni sem snerta konur sérstaklega.

En er ekki nú þegar verið að gera allt þetta innan SÁÁ? Það ber ekki öllum saman um það. Þórarinn Tyrfingsson, fyrrum formaður SÁÁ um árabil og yfirlæknir á Vogi, efast reyndar ekki í þessari umfjöllun á vefsíðu SÁÁ frá 22. október sl. um jafnréttisáætlun samtakanna, sem þá var alveg nýbúið að samþykkja og telur jafnvel að samtökin hafi um áratuga skeið starfað í femínískum anda, einkum í tengslum við meðferðarúrræði fyrir konur:

F.v. Kristín Pálsdóttir, Guðrún Kristjánsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir

Andlit SÁÁ út á við hefur alla tíð verið karlkyns – hér á forsíðumynd SÁÁ-blaðsins, 2. tbl. 2011

Þórarinn segir að SÁÁ hafi tileinkað sér ýmislegt sem þá [1980, innsk. höf.] var í femínisma, hann hafi komið snemma inn í meðferðarsamfélagið. „Við erum ofboðslegir jafnræðis- og jafnréttismenn,“ segir yfirlæknirinn sposkur: „Þó karlar hafi verið fyrirferðarmiklir í stofnuninni þá hefur þetta vegið upp á móti.“

Guðrún Kristjánsdóttir, Kristín I. Pálsdóttir og Guðrún Ebba Ólafsdóttir eru ekki alveg jafnsannfærðar um það, hversu „ofboðslegir jafnréttismenn“ SÁÁ-liðar hafa verið til þessa eða eru sem stendur. Þær eru í fararbroddi þeirra sem standa að Kvenfélagi SÁÁ og í viðtali á vefsíðu SÁÁ þann 9. september s.l. reifa þær ástæðurnar fyrir stofnun félagsins. Guðrún Ebba bendir m.a. á að konur sem leita sér meðferðar hafi í mun meiri mæli en karlar orðið fyrir ofbeldi, kynferðislegu eða öðru (um 80% kvenna sem leita á Vog hafa orðið fyrir ofbeldi), og þeirri hlið meðferðarferlisins hafi hugsanlega ekki verið sinnt sem skyldi:

Einn tilgangur kvenfélagsins er að opna þessa umræðu; spyrja konur beint þegar þær koma í meðferð hvort það sé ofbeldissaga og hjálpa þeim að fjarlægja skömmina og sektarkenndina sem því fylgir [ … ] Konur eru oft í mörg ár að reyna að fyrirgefa sjálfum sér jafnvel þótt þær hafi ekki gert neitt af sér.

Kristín I. Pálsdóttir telur að jafnréttismál hafi setið á hakanum innan SÁÁ og lítur á stofnun félagsins sem leið til að skerpa á þeim áherslum. Að hennar mati hafa konur engan veginn verið nægilega sýnilegar eða virkar innan samtakanna og of lítið gert til að breyta því:

Þegar farið var af stað með samræðukvöld um alkóhólisma í Von tók ég til dæmis eftir því að konur voru í algerum minnihluta þeirra sem komu þar fram. [ … ] Ég  tók saman upplýsingar af heimasíðu SÁÁ og skoðaði kynjahlutföll í ýmsum þáttum starfseminnar. Þá komst ég til dæmis að því að engin jafnréttisáætlun er til hjá félaginu og að lítið er verið að vinna beint að framgangi jafnréttismála. [i]

 

Það virðist því ljóst að umtalsverður kynjahalli sé til staðar innan SÁÁ, þótt gera megi því skóna að eitthvað hafi slegið á hann eftir haldnir voru fjórir Þurrir miðvikudagar sem voru sérstaklega helgaðir „samtali um konur og alkóhólisma“ á síðasta starfsári.[ii]

Guðrún Kristjánsdóttir bendir á að nauðsynlegt sé að auka tengsl SÁÁ við samtök fagfólks á sviði ráðgjafar og endurhæfingar:

Konur koma oft margbrotnar inn í meðferð. Þær sem virðast hafa náð mestum og bestum árangri eru þær sem hafa leitað til fagfólks samhliða 12 spora starfi. Þessu viljum við meðal annars miðla auk þess sem við viljum leggja mikla áherslu á jafnréttismál innan SÁÁ.

Kannski er stofnun kvenfélags SÁÁ opinber birtingarmynd þess, sem margir – karlar sem konur –  innan SÁÁ hafa lengi vitað, en sem hefur kannski ekki fengið athygli sem skyldi í þeim merku, en óneitanlega karlstýrðu samtökum: að áfengissýki kvenna og afleiðingar af henni hafa í för með sér sértæk félagsleg og sálræn vandamál sem eru að mörgu leyti ólík þeim sem karlar í sömu aðstæðum glíma við og að enn eru mun sterkari fordómar gagnvart áfengissýki kvenna en karla, sem m.a. veldur því að konur skila sér enn verr í meðferð en karlar, þótt ekkert bendi til að þörfin sé minni, og koma seinna á sjúkdómsferlinu (sjá pistil undirritaðrar á knuz.is frá síðasta vetri og heimildir sem þar er vitnað til). Sérstök kvennameðferð hefur verið í boði hjá SÁÁ frá því snemma á tíunda áratugnum og skilað mjög góðum árangri, en ljóst er að betur má ef duga skal, bæði hvað varðar aukin skil kvenna í meðferð og virkni þeirra í innra starfi SÁÁ, einkum hvað varðar sýnileika kvenna í samtökunum út á við og hlut þeirra í stjórn og innra starfi. Femínisminn sem Þórarinn Tyrfingsson fullyrðir (hér að ofan) að hafi verið við lýði innan samtakanna í rúm þrjátíu ár þarf að komast út úr skápnum.

 

Svipmyndir frá fundaröðinni "Þurrir miðvikudagar", í SÁÁ-blaðinu í desember 2010

Svipmyndir frá fundaröðinni „Þurrir miðvikudagar“, í SÁÁ-blaðinu í desember 2010

Kvenfélag SÁÁ verður þannig til af brýnni þörf sem ekki virðist hafa verið svarað innan samtakanna; félagið er, á sama hátt og íslensk kvenfélög hafa ævinlega verið, grasrótarhreyfing og starfar sem slík innan vébanda SÁÁ en er ekki beinlínis hluti af innviðum þess. Að minnsta kosti ekki enn, hvernig sem félagið kann að þróast á komandi misserum. Það verður áhugavert að fylgjast með starfi kvenfélagskvennanna, enda dylst engum að mikið starf er óunnið á þeim vettvangi sem þær hyggjast starfa á.

Það er þó ekki víst að það verði haldnir margir kökubasarar, samkvæmt Guðrúnu Kristjánsdóttur, sem fullyrðir í viðtalinu sem vísað er til hér að ofan að „…kannski síst af öllu ætlum við að standa í bakstri eins og kvenfélaga hefur verið siður í mörg ár. Það mun mæta afgangi.“

Það er því af sem áður var að ég gæti fátt hroðalegra hugsað mér en að sjást á kvenfélagsfundi. Enda á víst að heita svo að ég hafi tekið út einhvern þroska síðan ég var í menntó.

Ég heiti Halla Sverrisdóttir og um daginn gekk ég í kvenfélag.

 

4 athugasemdir við “Að vera eða ekki vera – í kvenfélagi

  1. Bakvísun: Kæri Jóli … | *knùz*

  2. Bakvísun: Femínískur áramótaannáll | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.