Furðulegar paradísir – 1. hluti

Höfundur: Mona Chollet, Kristín Jónsdóttir þýddi úr frönsku. Greinin birtist upphaflega á peripheries.net þann 1. maí 2012. Hún mun birtast í þremur hlutum.

Höfundurinn, Mona Chollet, er knúzaðdáendum ekki ókunn, því hér hefur áður birst grein eftir hana í þremur hlutum: Kvenlíkaminn: Tilbeiðsla eða hatur? III og III. Mona Chollet er blaðamaður á Monde Diplomatique og bloggar um femínisma á peripheries.net.

 

Í október 2010 skipulögðu rithöfundarnir Séverine Auffret og Nancy Huston ráðstefnu um pjatt í París (enn má hlusta á ráðstefnuna á vef útvarpsstöðvarinnar France Culture, fyrsti og annar hluti). Stemningin var hlýleg og efnið áhugavert, ráðstefnan var með óvenjulegu sniði, bæði hvað varðar efnistök – hvar annars staðar hefði maður heyrt fyrirlestur um tákngildi eyrnalokksins? – og að forminu til, því tónlist og leiklist var blandað inn í hefðbundið fyrirlestrarform.

Út frá þátttöku minni í þessum viðburði fæddist hugmyndin að Beauté fatale [ísl. Banvæn fegurð]. Nancy Huston dýpkaði einnig hugmyndir sínar í bók sem kom út 2. maí síðastliðinn hjá Actes Sud: Reflets dans un œil d’homme [ísl. Spegilmyndir í auga karls]. Ég var hugsi þegar ég hlustaði á hana á sínum tíma en eftir lestur bókarinnar er ég hreinlega hlessa, því miður.

 

Hún hefur skýringuna á því hvers vegna konur leggja svo mikið upp úr útlitinu á reiðum höndum: Náttúrulegt eðli. Bókin er árás á kynjafræðina sem er sökuð um að afneita því að líffræðileg nauðhyggja (e. biological determinism) hafi áhrif á kynhegðun kvenna og karla: „Í stórum dráttum hegða ungar konur sér líkt og apynjur sem tæla karldýrin vegna þess að þær vilja verða mæður. Þær fegra sig til að ná þessu takmarki. Blinduð af nútímahugmyndum um jafnrétti kynjanna sem við neitum að skilgreina á annan hátt en að kynin séu eins, getum við útilokað þessa staðreynd um stund. En ef við einangrum okkur ekki algerlega í kenningarfræðilegri fullvissu verður alltaf eitthvað til að minna okkur á þetta.“ Eða: „Karlar eru þannig gerðir að þeir þrá konur sjónrænt, konur hafa alltaf notið þess að leyfa körlum að horfa á sig því athygli þeirra er einmitt undanfari frjóvgunarinnar.“ Og loks þetta: „Homo sapiens er dýrategund sem er fyrirfram forrituð til að fjölga sér eins og allar aðrar dýrategundir og hvort sem okkur líkar það betur eða verr hegðum við okkur samkvæmt þessari forritun.“

Fram til þessa hef ég verið hrifin af Nancy Huston þegar hún bendir á það hvernig vestræn menning hefur sokkið í fen alræðisþráhyggju og hlúð að hugmyndum um að maðurinn komist fram úr náttúrunni og muni geta sjálfgetið sig. Í Journal de la création og í Professeurs de désespoir greindi hún á mjög áhugaverðan hátt hvernig ýmsir rithöfundar og fræðimenn hafa tjáð andstyggð á líkamanum – andstyggð sem tengist beint kvenhatri og mæðrahatri – en einnig andstyggð á öllu því sem minnir á veikleika mannsins og ósjálfstæði hans og vinnur gegn glæsiímyndinni um ofurmennið sem ríkir yfir öllu.

 

Í okkur er dýrsleg vídd, en upplifun okkar litast þó alltaf af menningunni

Hafa kynjafræðikenningar stundum nært þessa afneitun holdsins, afneitun takmarkana og draumóra um sjálfsgetnað? Já, alveg áreiðanlega. Í bókinni Bodies That Matter frá 1993 varar Judith Butler m.a.s. við þeirri freistingu. Í túlkunum á fyrri bók hennar, Gender Trouble, „voru einhverjir sem lásu í henni merki um viljahyggju (að hægt væri að sviðsetja kyngervi sitt líkt og maður sé að leika hlutverk á sviði, hægt væri að skipta um hlutverk eins og maður skiptir um skyrtu) og hughyggju (að kyngervi byggist eingöngu á menningu eða rökum, það sé enginn raunveruleiki eða nokkrar líkamlegar forsendur að baki kyngervi)“.

Þó að við samþykkjum að það sé vissulega líffræðilegur raunveruleiki að baki kyngervi, þurfum við samt sem áður ekki endilega að draga þá ályktun, líkt og Nancy Huston, að líffræðin ákvarði hegðun okkar. Samkvæmt Butler „felur það að taka efnislegan líkamann með í reikninginn ekki endilega í sér að þar með sé hreinn raunveruleiki, eðlislægur, á bak við kyngvervið: kynið er nauðsynleg forsenda kyngervis, en við höfum ekki og munum aldrei hafa aðgang að raunveru kynsins nema í gegnum miðla, í gegnum menningarlegan skilning okkar.“

Óneitanlega er í okkur dýrsleg vídd en upplifun okkar litast þó alltaf af menningunni. Til að skynja hreint og tært eðli þurfum við að losa okkur undan menningunni en það getur engin manneskja gert. Við erum öll böðuð í henni, ekki bara frá barnæskunni heldur frá getnaðinum, líkt og Elena Gianini Belotti sýndi fram á í ritgerðinni Du côté des petites filles [en. Little Girls: Social Conditioning and Its Effects on the Stereotyped Role of Women During Infancy], þar sem hún skoðaði ýmsar leiðir sem áttu að geta sagt fyrir um kyn barnsins á meðgöngunni.

 

Er síld „tígur í huga síldarinnar“?

Nancy Huston heldur því fram að fylgismenn kynjateóríunnar séu and-darwinískir á sama hátt og sköpunarhyggjufólk því þeir neiti að „setja manninn í líffræðilegt samhengi við önnur dýr.“ Hún undirstrikar að gen okkar séu „98% hin sömu“ og í sjimpönsum. Vandamálið er að með þessari ályktun skautar hún yfir þá staðreynd að við erum ekki af sömu tegund. Það er kerfisbundið litið framhjá þeirri staðreynd í allri orðræðu sem gengur út á að bera okkur saman við frændur okkar úr dýraríkinu. Colette Guillaumin benti á það í Sexe, race et pratique du pouvoir (Côté-femmes, 1992) [en. Sexism, Racism, Power and Ideology] að maðurinn er eina tegundin sem fólk þorir að draga ályktanir um með því að bera hana saman við aðrar tegundir: „Félagsfærni bavíana og termíta telst ekki samanburðarhæf. Þeir hafa ekki sömu tengsl við umhverfi sitt þar sem þeir eru ekki gæddir sömu eiginleikum og þar af leiðandi geta tengsl einstaklinga innan hópsins ekki verið hin sömu. Allir eru sammála um þetta svo lengi sem rætt er um bavíana og termíta, þótt báðir hóparnir séu lífverur. Málið flækist þegar bent er á að hið sama gildi um samanburð á félagsfærni manna og lyngrjúpna á Skotlandi, það þykir óviðeigandi að benda á að hvor hópurinn hefur sín sérkenni. Furðulegt má telja að meðan náttúrulegt eðli getur gert manninn eftir hentugleika að sjimpansa, úlfi eða lyngrjúpu, hefur enginn áhuga á því að skýra hegðun úlfsins út frá lyngrjúpum eða sjimpansann út frá úlfinum. (…) Þótt „maðurinn sé úlfur í huga mannsins“, er síld aldrei „tígur í huga síldarinnar“.“

Þannig skeyta þessar þróunarsálfræðikenningar sem Nancy Huston aðhyllist ekki um þá staðreynd sem Irène Jonas minnti á í Moi Tarzan, toi Jane, að „kynverund mannsins þróaði með sér aðra eiginleika en kynverund annarra prímata sem gera hann alls ólíkan þeim. Hjá manninum var skilið á milli tveggja tegunda kynverundar, önnur varðar þrá, hin varðar fjölgun. Kynverund mannsins er því „heilatengd“ og tekur yfir allan líkamann en ekki aðeins yfir æxlunarfærin. Fjölbreytni í kynhegðun prímata gekk því skrefinu lengra í manninum.“

 

Þróunarsálfræðin gerir árás

Það að viðurkenna þennan sérstaka eiginleika er alls ekki megalómaísk upphafning menningarinnar heldur gefur það okkur færi á að afneita afturhaldssömum og rýrum kenningum sem hafa snúið aftur af fullum krafti undanfarin ár, meðal annars í metsölubókum á borð við Karlar eru frá Mars, konur eru frá Venus eftir John Gray (1). Þessar kenningar hafa átt mikilli velgengni að fagna og Odile Fillod greindi ástæður þess á bloggi sínu Allodoxia í pistli sem nefnist Les faux nez biologistes de la psychologie évolutionniste (25. apríl 2012) [ísl. Líffræðileg gríma þróunarsálfræðinnar]: „Það samræmist þekkingarmýtum (meðal annars þeim sem sprottið hafa frá sálgreiningu) og almennri sannfæringu að blanda saman náttúrulegum breytileika og kynferðislegri hegðun. Það styður fullvissuna um að kynleg sjálfsmynd byggist á staðföstum líffræðilegum grunni og fangar athygli þeirra sem hafa lítinn áhuga á vísindum en þeim mun meiri á kynferði, og er einmitt síðasta hálmstráið í aðgreiningu kynjanna sem hefur úrelst í samræmi við samfélagslegar breytingar.“ Þróunarsálfræðin byggir að stórum hluta á staðlaðri og ímyndaðri sýn á fornöld (karlinn veiðimaður, konan safnari sem hugsar um börnin o.s.frv.) og Nancy Huston viðheldur þessari sýn. Hún vitnar meðal annars í karlkyns kunningja: „Mér líkar vel þessi kenning: Að karlinn hafi þurft að þjálfa sjónina vegna veiðanna. Karlinn er utandyra, hann er rándýrið. Svona erum við forrituð og þetta gildir enn þann dag í dag.“

Á 19. öld voru gerðar mælingar á höfuðkúpum og heilum. Þetta var ekki eins háþróuð aðferð en sama þráhyggja lá að baki, eins og Irène Jonas bendir á: „að finna áþreifanlegan mun á körlum og konum.“ Þróunarsálfræðin er nútímaaðferð þessarar leitar og þykist skýra muninn með líffræðilegri þróun, réttlætir þjóðfélagsgerðina – sem á að endurspegla náttúrulegt líkan – með því að beita fyrir sig óumdeilanlegum vísindarökum. Hún notfærir sér jafnt það að félagsvísindi hafa verið gjaldfelld í samanburði við „hörð“ vísindi og vinsældir sjálfshjálparbóka, að sálfræði er orðinn hluti af almennri menningu (2). Hún birtist, bendir Odile Fillod á, sem „nægilega sjálfstæð frá félagslegum viðmiðum – sem er staðfesting á vísindaleika – til að geta ögrað „rétthugsun.““ Þetta eru einmitt rök Nancy Huston: „Náttúran er ekki mörkuð af rétthugsun, einungis maðurinn getur verið það.“

 

(1) Lesið greiningu Irène Jonas á vefritinu Les mots sont importants.

(2) Sjá greiningu Eva Illouz í Les Sentiments du capitalisme, Seuil, 2006. Einnig, til dæmis, M6: pour vivre heureux, vivons coachés! Télérama, apríl 2012.

Framhald á morgun …

4 athugasemdir við “Furðulegar paradísir – 1. hluti

  1. Bakvísun: Furðulegar paradísir – 2. hluti | *knùz*

  2. Bakvísun: Furðulegar paradísir – 3. hluti | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.