Um bleiku og bláu bækurnar

Höfundur: Bryndís Björgvinsdóttir

— Tilraun til að útskýra fyrir sjálfri mér af hverju ég finn til andstyggðar gagnvart bleiku og bláu bókunum frá Setbergi —

Tilraun 1: Samanburður.

„Þannig var til að mynda svörtu fólki hér áður fyrr (og jafnvel enn) stillt upp gagnvart þeim hvítu sem andstæður þeirra – á þessa leið: svart fólk/hvítt fólk, latt/duglegt, fáfrótt/gáfað, dýrslegt/siðmenntað og ófrítt/frítt – svo eitthvað sé nefnt.“

Mig langaði til að spyrja Setberg hvort von væri á sambærilegri bók um svarta. Hún myndi þá væntanlega vera í gylltu af því að þeir fíla svo mikið blingið. Og fjalla um vinnu í kolanámum og á bómullarökrum (allir hafa sitt hlutverk!), drive-by-shooting, jerk chicken, rapp, hársléttujárn og lífið í fangelsinu (þegar ég verð stór!). Síðan fattaði ég að þessi bók hefur eiginlega komið út. Hún heitir 10 litlir negrastrákar.

Ef jafn stöðluð bók kæmi út um svertingja eða gyðinga, áhugasvið þeirra og hlutverk, þá myndi ég halda að um stríðsyfirlýsingu væri að ræða.

Tilraun 2: Andstæðuvenslin: Að vera annars flokks. Vald og kapítal.

Umræðurnar um bleiku og bláu bækurnar rifjuðu upp nokkrar óþægilegar æskuminningar.

Þegar ég var svona sjö ára fannst mér fjarstýrðir bílar það flottasta sem litið hafði dagsins ljós á færiböndum leikfangaverksmiðjanna. Strákarnir í hverfinu áttu þannig bíla. Ég bað þá stundum um að lofa mér að prófa. Stundum sögðu þeir: „Ööö, nei.“ Og stundum fékk ég að prófa undir eftirliti þeirra og dómgæslu. Ég stýrði bílnum þeirra á næsta vegg og keyrði á mann og annan. Ég gat ekki neitt af því að ég hafði aldrei fengið að æfa mig.

Foreldrar mínir fengu að heyra það aftur og aftur að mig langaði í fjarstýrðan bíl og þau lögðu saman tvo og tvo og fengu út fimm og enduðu á því á að gefa mér bleikt Barbie-mótorhjól með fjarstýringu sem tengdist samt hjólinu með stuttri snúru. Og það var ekki hægt að láta hjólið beygja. Bara hægt að keyra það beint áfram með einum takka og á næsta vegg.

Fjarstýrði bíllinn. Nei! Ég meina: Barbie-mótorhjólið
góða (vonda).

Ég lét mér þetta nægja og keyrði hjólið meðfram ganginum (lengsta rýmið í húsinu) og hljóp þétt á eftir því þar sem snúran var svo stutt.

Pabbi benti mér á að þetta væri Barbie-hjól og því ætti að vera dúkka á hjólinu. Ég fer og næ í einhverja allsbera dúkku til að friða pabba og tjóðra hana við hjólið og held svo áfram að keyra og Barbie dregst á eftir. Pabbi hefur orð á því að dúkkan sé allsber og líklegast að meiða sig og spyr hvort ég vilji ekki klæða hana í föt. Ég vildi það ekki og bað hann um að láta mig í friði.

Þetta var sum sé minningin um daginn sem ég fékk ekki bílinn sem mig langaði í heldur lélegri „stelpuútgáfu af fjarstýrðu dótaríi (samt með snúru) og með því skilyrði að Barbie þyrfti að vera með (helst klædd).

Þessari minningu svipar reyndar mjög til minningarinnar af því þegar ég fékk ekki svartan stýrissleða eins og strákarnir í hverfinu áttu. Ég fékk hins vegar bleika snjóþotu með engum stýribúnaði né bremsum – sem brunaði bara beint áfram og út í hraun.

Ég fékk samt stundum að prófa stýrissleða af því að einn og einn strákur gaf mér leyfi til þess að fara „eina ferð“. Og að sjálfsögðu fannst þeim ég ekki góð á sleðanum. Ekki mér heldur.

Þetta minnir mig reyndar einnig á það þegar ég fékk ekki Nintendo-tölvuna hver jólin á fætur öðrum sama hversu mikið ég bað til Guðs og grét í mömmu og pabba. Ég bauðst til að borga helminginn og allt en þau skildu samt aldrei þessa löngun mína og spurðu: En af hverju langar þig í tölvu?

En huggun harmi gegn: Það var strákur í hverfinu sem átti Nintendo-tölvu og það komu tímabil þar sem hann leyfði mér að prófa hana – þegar hvorki hann né vinir hans voru að hanga í henni. Það var auðvitað ekkert gaman að spila með mér. Ég var alltaf svo léleg. Þegar ég komst loksins yfir notaða Nintendo-tölvu sem einn strákurinn í hverfinu vildi ekki lengur tók það mig svona 3 daga að verða það góð í Super Mario að ég gat klárað hann á sirka tíu mínútum. Og get enn.

Mér finnst ég hafa þurft að standa í nákvæmlega þessu bölvaða stappi alla ævi. Fólk gerir oft ekkert ráð fyrir því að áhugasvið stelpna nái neitt sérstaklega langt. Varla mikið meira en svona 5-10 metra radíus í kringum heimilið (garðurinn og blómabeðin).

Litlar stelpur þrífa og baka. Gera samt eflaust ekki mikið gagn svona pínupons. Mynd DV/ÁSM.

Það fylgdi því gjarnan vond tilfinning að vera stelpa og mig langaði svo oft til þess að vera strákur. Það gerði enginn ráð fyrir því að ég hefði áhuga á fjarstýrðum hlutum eða tölvuleikjum. En það sem var eiginlega verra er þetta: Ég þurfti alltaf að vera að biðja stráka um að fá að prófa spennandi dót sem var í þeirra eigu. Og ef þeir sáu aumur á mér og sögðu „já“ þá var litið á það sem sönnun á því að tölvur eða stýrissleðar eða fjarstýrðir bílar væru ekki fyrir stelpur í hvert skipti sem ég klessti á. Það eina sem hefði getað afsannað það voru einhvers konar meðfæddir ofurhæfileikar til að vinna tölvuleiki og stjórna bílum án æfingar. Og það var ekki alveg þannig.

Í dag er ég sem betur fer fjárráða og get keypt mér stýrissleða í brettatali.

Bækur sem predika boðskap líkt og þann sem finna má í bleiku og bláu bókunum upplifi ég sem andstyggilegan. Martraðarkenndan. Ég verð alveg 8 ára aftur, liggjandi sveitt uppi í rúmi að gráta mig í svefn yfir því hvað ég er eitthvað misskilin og hvað allir eru eitthvað leiðinlegir, mamma og pabbi og stelpurnar og strákarnir í hverfinu.

Það er ekki nóg með að þessar bækur ætli stelpum mun þrengra áhugasvið en drengjum heldur tengjast þessi áhugasvið þeirra þáttum sem eru undir í því menningarlega flokkunarkerfi sem kennt er við tvíhyggju eða andstæðuvensl. Og það er mjög slæmt. Alveg virkilega.

Andstæðuvensl eru alls ekki meinlaus og hefur Jacques Derrida meðal annarra bent á að yfirleitt halli á annan væng allra andstæðuvensla: Önnur andstæðan gnæfir yfirleitt yfir hina, þykir eftirsóknarverðari og betri. Og ekki nægir það fræðimanninum Stuart Hall sem hefur unnið út frá þessum kenningum Derrida: Hann bendir á að um leið og búið er að flokka fólk á veikari væng andstæðuvensla rennur það ósjálfrátt inn í önnur andstæðuvensl – beint á veikari helming þeirra. Þannig var til að mynda svörtu fólki hér áður fyrr (og jafnvel enn) stillt upp gagnvart þeim hvítu sem andstæður þeirra – á þessa leið: svart fólk/hvítt fólk, latt/duglegt, fáfrótt/gáfað, dýrslegt/siðmenntað og ófrítt/frítt – svo eitthvað sé nefnt. Svart fólk var beisíklí allt það sem glatað er gagnvart hvíta fólkinu.

Reynir, Víðir, Hlynur og Alexander eru á leiðinni út í geim. Ólíklegt! Eiga örugglega bara allir eftir að enda í sagnfræði eða kennaranum. Með brostna drauma 😦 Mynd DV/ÁSM

Og þess vegna eru umræddar bækur gagnrýnisverðar. Þær fara eftir þessu flokkunarkerfi tvíhyggjunnar þar sem stelpum og strákum er stillt upp sem andstæðum. Þau eru stelpur/strákar. Og af stað fer þá enn önnur flóðbylgjan þar sem þau renna inn í alls konar andstæðuvensl: Samkvæmt bókunum eru stelpurnar heima á meðan strákarnir eru úti. Þær laga til (ekki þeir). Þeir spá í risaeðlum (ekki þær). Þeir fara um á farartækjum og á meðan virðast þær einna helst vera inni í svefnherbergi (samkvæmt bókunum). Andstæðuvenslin sem blasa við þegar bækurnar eru skoðaðar eru sumsé einhvern veginn svona: stelpur/strákar, inni/úti, líkami/hugur, óhreyfanlegar/hreyfanlegir, ótækniþenkjandi/tækniþenkjandi, heimili/alheimurinn …

Við mér blasa eiginlega nákvæmlega sömu andstæðuvenslin og þau sem komu í veg fyrir að ég sem lítil stelpa fengi að leika mér eins og ég vildi. Leikföngin mín voru óhreyfanlegri en leikföng strákanna (óhreyfanlegur/hreyfanlegur). Mér var ekki treyst fyrir jafn mikilli tækni (líkami/hugur, ótækniþenkjandi/tækniþenkjandi). Leikföngin mín samanstóðu helst af dúkkuhúsum og Barbie (heimili/alheimurinn, inni/úti).

Bækurnar setja að mínu mati stelpur á veikari og óeftirsóknarverðari væng andstæðuvenslanna en stráka. Það verður líklega að teljast persónulegt mat mitt. Þegar þessi hlutverk eru hins vegar greind út frá kenningum Bourdieu um kapítal þá blasir það við að stelpurnar fást við hluti sem færa þeim mun minna kapítal en strákunum. Stelpurnar virðast einna helst eiga möguleika á láglaunastörfum á borð við þrif og heimabakstur á meðan strákunum er ætluð víðtækari tæknileg þekking (félagslegt kapítal) sem getur jafnvel gert þá að heimsþekktum geimförum (táknrænt kapítal) með milljónir á mánuði (efnahagslegt kapítal) og nafn sitt letrað í mannkynssögubækurnar (menningarlegt kapítal). Kannski svolítið ýkt – en strákarnir eru engu að síður með kapítalið. Og þar af leiðandi valdið. Vald þess sem veit og kann umfram „veikara kynið“. Og svo er bara um að gera stelpur, að biðja strákana um að fá að prófa … og stúta öllu dótinu þeirra (alveg óvart).


Heimildir:

Hall, Stuart: „The Spectacle of the „Other“.“ Representation: Cultural Representations and Signifying Practices. Sage Publications. London, 1997. Kafli 4, bls. 223-279.

14 athugasemdir við “Um bleiku og bláu bækurnar

 1. Dásamlegt. Hreinn unaðslestur. Ég á svona hryllilegar nintendó-minningar. Þessar örfáu gleðistundir þar sem ég fékk að spila nintendó, í gistingum heima hjá vinkonu minni, reyndust alltaf vera ótrúlega sorglegar af því að ég dó alltaf á fyrstu mínútunni. Þá var komið að vinkonu minni sem fór í gegnum sjö borð áður en hún dó og svo tók stóra systir hennar við sem spilaði í hálftíma áður en hún dó. Þá fékk ég að reyna aftur og 35 sekúndum síðar var ég dauð. Þannig að ég fékk aldrei tækifæri til að æfa mig heldur gerði bara óendanlega mikið af því að sitja og horfa á þær spila. Ég get í alvöru fengið tár í augun af hreinni sjálfsvorkunn við að rifja þetta upp.

 2. Eins og talað úr mínu hjarta. Fékk ekki tölvuna sem mig langaði í eða batterídrifin leikföng eða jafnvel bara legókubba. Fékk líka barbí mótorhjól einhver jólin án þess að hafa nokkurtímann beðið um slíkt drasl.
  Varð bókaormur enda var bókasafnið ekkert að ritskoða hvort ég væri að lesa stelpu eða strákabækur. Eða fullorðinsbækur. Ef ég hefði fengið Bleiku bókina hefði hún líklega endað í ruslinu, eða í kassa niðri í kjallara (maður hendir ekki bókum!). Ég vona að bókasöfnin í dag séu ekki heldur að ritskoða smekk barna á bókum frekar heldur en þegar ég var barn, þrátt fyrir aukningu á svona hálfvita kynskiptingar titlum.

 3. Vel skrifað! Það eina sem eldri dóttur mína langaði í á aldrinum 5 til 10 ára voru fjarstýrðir bílar, og helst jeppar. Hvert skipti sem ég keypti slíkan gerði afgreiðsluaðilinn ráð fyrir að ég væri að kaupa handa dreng og varð vandræðalegur þegar ég sagðist vera að kaupa handa stelpu. Ég hef sjálf staðið mig að því að tala um hana sem „strákastelpu“ en er hætt því, hún er stelpa, er hún sjálf, engin tildurrófa og er yndisleg á allan hátt 🙂

 4. Yndislegur pistill! Ég var einmitt „stráka“stelpa en var svo heppin að ég á mjög svo feminíska mömmu sem leyfði mér að vera „stráka“stelpa. Ég fékk stýrisstelða alveg eins og eldri bróðir minn og hann var meira að segja blár, appelsínugulur og svartur. Samfélagið var hins vegar ekki jafn samþykkt hegðun minni sem barni eins og mamma og fékk ég oft að heyra að ég væri sko ekkert dömuleg né fín. Þannig ég ákvað ansi ung að það væri betra að vera strákur heldur en stelpa, svo ég lét klippa mig stutt og sagðist vera strákur. Í dag segist ég nú alveg vera stelpa, en ég fell ekki enn inn í þetta svokallaða norm um það hvernig stelpur eiga að hegða sér eða hvað þær eiga að læra og gera.
  Ég varð ofboðslega reið þegar ég sá þessa bók í gær, ég trúi bara varla að einhver kaupi þessar viðbjóðslegu bækur. Að sama skapi vona ég að ég muni vera sama fyrirmynd og hvatning fyrir börnin mín eins og mamma var fyrir mig, sem hvatti mig til að gera allt sem mig dreymdi um og lét aldrei nokkru skipta að ég væri stelpa.

  • Mér finnst það svo mikilvægur punktur að vald foreldranna sé takmarkað. Vissulega skipta foreldrarnir máli, þeir geta stjórnað því hvaða dót kemur inn á heimilið, hvers þeir ætlast til af börnunum og svona. En áhrif leikfélaga, fjölmiðla, auglýsinga og bara alls umhverfisins eru gífurleg og þeim hafa foreldrar enga stjórn á, nema þeir ali börnin sín upp mjög einangruð og afskekkt. Þess vegna finnst mér það líka frekar vanhugsað þegar fólk fer að tala um að það hafi nú alið sín börn upp á sama hátt en samt hafi stelpan viljað dúkkur og strákurinn bíla og það sé til merkis um einhverja genetíska tendensa. Nei, líkurnar á því að börnin hafi fengið nákvæmlega sama uppeldi eru hverfandi. Umhverfisáhrifin byrja ótrúlega snemma, börn fara mjög snemma að taka eftir hvernig önnur börn gera og þau heyra og sjá alls konar hluti. Þar fyrir utan gerir fólk ýmislegt óafvitandi sem það ætlar sér ekkert að gera, það eru t.d. til rannsóknir sem sýna að mæður tala ekki eins við nýfædda syni sína og dætur og börn fá mismunandi viðmót frá alls konar fólki í samræmi við kyn sitt. Þetta getur verið í gangi hjá foreldrum sem eru allir af vilja gerðir til að stuðla að jafnrétti og koma „eins“ fram við börnin sín.

 5. Can’t understand every word here, but I can hardly believe that books, toys etc. like the ones above still exists. I wonder how long it will take until the separation between woman/man/what ever, will be as much a joke as the view on races was 100 years ago… The sad thing is that the amount of racism that still exists today, gives a dark picture on this development. But I really hope it doesn’t need to take 100 more years…

  Keep opening peoples eyes!

 6. Móðir mín var nú blessunarlega umburðarlyndari en svo að takmarka mig við bleikar blúndur og baby born. Við systurnar deildum þessari fínu Nintendo tölvu þó við værum misfærar, og þar spiluðum við Mario, Megaman og skotleikinn Duck Hunt eins og enginn væri morgundagurinn. Af einstæðri móður er ég alin og að einstæðri móður er ég orðin, og fyrr má ég hundur heita en að sonur minn alist upp við þessa niðrandi og takmörkuðu ímynd um kvenkynið.

 7. Mér finnst þetta flottur pistill hjá þér. Ég er svo heppin að alast upp í sveit með 2 bræðrum á svipuðum aldri og það léku sér allir í því sama. ég lék mér í löggu og bófa og þeir í dúkkó og barbí. Ég fann aldrei neinn mun á því þegar ég var lítil að ég væri stelpa og þeir strákar enda þoli ég ekki í dag þegar það er bara gert ráð fyrir því að ég kunni ekki hluti eins og að skipta um dekk og keyra í snjó afþví ég er kvenkyns!

 8. Frábær pistill sem ég náði að tengja mig ótrlúlega við bæði sem barn og í dag sem fullorðinn einstaklingur. Ég fékk reyndar frá foreldrum mínum fjarstýrða jeppann sem mig langaði svo mikið í og lék oft strákahlutverk í leikjum, nintendo „stelpu“ leikir og leikföng lék ég mér líka með. Ég man þó að oft þegar ég fékk að prufa dót hjá strákunum sem ég átti ekki sjálf eða fékk sjaldan að prufa eins og tæknilegó sem mér fannst með því flottasta sem ég vissi þá fann ég fyrir hálfgerðri skömm og feimni því ég var að gera eitthvað sem ég átti ekkert að vera að dunda mér við eða var léleg í því. Þó svo að enginn hafi sagt mér að ég ætti ekki að leika mér við þetta eða að ég væri léleg í því þá fannst mér það samt sjálf og það hefur án efa að gera með þessar tilbúnu staðalímyndir, hlutverk og „stelpidót“ og „strákadót“ sem eru allt í kringum mann.

 9. Bakvísun: Sjö aðferðir til að skaða framtíðarhorfur dætra okkar | *knúz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.