Viltu láta drepa skrímslið eða eigum við að bjóða honum kaffi?

Höf.: Guðný Elísa Guðgeirsdóttir

Vakin er athygli á því að atriði í efni greinarinnar gætu valdið brotaþolum kynferðisofbeldis óþægindum.

Í samfélagsumræðunni er gjarnan talað um mikilvægi þess að þolendur nauðgana segi frá í stað þess að glíma einir við afleiðingarnar. Brotaþolum sem stíga fram og segja opinberlega frá reynslu sinni er gjarnan hrósað fyrir hugrekki og styrk. Það þarf líka engan smá hetjuskap til að afhjúpa sig sem þolanda nauðgunar í okkar samfélagi.

En í hverju felst þetta hugrekki? Felst það í því að yfirstíga eigin fordóma og skömm sem þolendur upplifa í kjölfar nauðgunar? Felst það í því að sigrast á ótta við hefnd gerandans? Eða felst hugrekkið kannski í því að þora að takast á við dómhörku og fordóma samfélagsins?

Samfélagið fordæmir nauðganir og krefst þess að kynferðisbrotamönnum sé refsað fyrir afbrot sín, en um leið minnir það brotaþola á ábyrgðina sem fylgir því að benda á einhvern ákveðinn sem geranda nauðgunar. Ef einhverjum er í ALVÖRU nauðgað skal finna helvítið sem á sökina og skera undan honum. Það á að kasta honum í fangelsi, henda lyklinum og slökkva ljósin. Helst eiga svo samfangar hans að misþyrma honum líka. Svona yfirlýsingar hefur maður margoft séð fólk láta falla í heilagri reiði sinni og vandlætingu yfir þessum ógeðs hrottum sem „myrða sálir“ í skjóli nætur. Það vantar ekki stóryrðin og eldmóðinn hjá fólki sem er misboðið. En þess vegna er líka eins gott þetta hafi verið ALVÖRU naugðun og fórnarlambið sé alvarlega lemstrað með beinbrot og sígarettubruna. Helst á nauðgarinn líka að hafa migið og skyrpt á fórnarlamb sitt í hita leiksins, svona til að kóróna niðurlæginguna. Allt annað er smotterí og það er hrein illmennska að gera veður út af því. Eins og Ameríkanar segja:  „Show me the pictures or it didn‘t happen.“

angry-mobEf þú ætlar að ræsa út múginn með heykvíslarnar þá er líka eins gott að þú getir framvísað alvöru skrímsli en ekki bara einhverjum velgreiddum og vandlega girtum meðaljóni. Þú þarft að spyrja sjálfa þig vandlega hvort þetta hafi nú virkilega verið svo slæmt. Hvort það að líf þitt sé í rjúkandi rúst og þú þjáist af áfallastreitu sé nú í alvöru svo mikið rask að það borgi sig að kvarta yfir því og jafnvel ætlast til þess að einhver bregðist við því. Að væla yfir því að einhver noti líkama þinn í leyfisleysi á kynferðislegan hátt en skilji þó ekki eftir sig sjáanlegar skemmdir á yfirborðinu er eins og að tuða yfir því að einhver gleymi að nota glasamottu á sófaborðið. Þú ferð ekki að níða dreng góðan þótt hann hafi „smá“ nauðgað þér.

Hámarks refsilengd fyrir nauðgun er 16 ár. Enn hefur enginn á Íslandi nauðgað nógu grimmilega til að vera dæmdur til refsingar sem er lengri en um helmingur af hámarksrefsingu. Þetta er óskiljanlegt og varla í mannlegum mætti að ímynda sér hversu hrottafengin og hreinlega skrímslaleg nauðgun þarf að vera til að verðskulda að refsiramminn sé fullnýttur. Margir spyrja sig hvaða réttlæti felist í því að gerendur fái yfirleitt vægasta mögulega dóm ef sannað þykir að þeir hafi gerst sekir um nauðgun. En þegar ofan á væga dóma bætist svo skrímslastimpillinn frá almenningi þyngist refsingin til muna.

Þetta er vandamál sem bitnar ekki eingöngu á gerandanum heldur líka á brotaþola. Það er ekki nóg með að þér hafi verið nauðgað heldur þarftu að velja hvort þú ætlar að bera harm þinn í hljóði eða segja frá og þar með vera vegin(n) og metin(n) eftir mælistiku almennings sem byggir dóma sína á innantómum goðsögnum um hreinar meyjar og blóðþyrst skrímsli með kryppur. Því situr þolandinn ekki bara uppi með afleiðingar nauðgunarinnar heldur líka ábyrgðina á því að gefa veiðileyfi á aðra manneskju.

Líkt og gerendur afmennska þá sem þeir nauðga þá afmennskar samfélagið nauðgarana. Fyrir vikið gengur fólk út frá því að ef sá sem er ásakaður um nauðgun sást einhvern tímann leiða gamla konu yfir götu eða seldi klósettpappír til styrktar UNICEF á sínum ungdómsárum þá geti hann ekki mögulega verið nauðgari. Venjulegur maður hlýtur þá að vera hafður fyrir rangri sök. En hvers konar manneskja lýgur svo alvarlegum glæp upp á saklausan kórdreng? Það hlýtur bara að vera einhver skelfileg drusla sem borðar ungbörn í morgunmat og saumar sér kjóla og korsilettur úr mannaskinni.

Það kemur kannski á óvart en nauðgarar búa ekki eingöngu í hellum í Mordor og skríða út á næturnar til nauðga og drekka blóð. Augun í þeim glóa ekki í myrkri og dýr flýja ekki eða fara að urra þegar þau verða vör við þá. Það heyrist ekki stefið úr Jaws þegar þeir nálgast og það koma ekki þrumur og eldingar ef þeir eru úti að kvöldi til. Eftir að hafa nauðgað heldur gerandinn áfram með sitt líf. Hugsanlega fer hann að vinna í skattaskýrslunni sinni eða skreppur í ræktina. Kannski er hann menningarlegur og fer á tónleika í Hörpunni eða kannski veit hann ekkert skemmtilegra en að horfa á Sci-Fi-þætti. Hann flokkar jafnvel ruslið sitt og tekur þátt í mottumars.

Enginn óskar dauðlegum mönnum þeirrar meðferðar sem fólk lýsir í ummælakerfum fjölmiðla þegar rætt er um nauðgara. Ekki einu sinn fórnarlömb nauðgana. Sem þolandi nauðgunar bið ég ykkur að láta mig ekki velja á milli þess að sætta mig orðalaust við nauðgun og þess að útsetja sjálfa mig eða þann sem nauðgaði mér fyrir því að vera skrímslavædd af dómstóli götunnar. Ég á ekki að þurfa að velta fyrir mér hvort mér hafi verið nauðgað nógu mikið til að mega segja frá því. Gerið það að raunhæfum möguleika fyrir gerendur að játa brot sitt án þess að verða ofsóttir. Gefið brotaþolum tækifæri til að leita réttar síns án þess að vera vændir um lygar og fégræðgi. Gefið svigrúm fyrir alvöru réttlæti.

 

14 athugasemdir við “Viltu láta drepa skrímslið eða eigum við að bjóða honum kaffi?

 1. Þessi grein er algjörlega frábær. Mig langar að þakka þeim sem skrifaði hana innilega fyrir að lýsa svona vel veruleika þolanda.

  • Það er nú varla nauðgun ef að þolandi er ekki tilbúinn að láta geranda svara til saka. Ef að gerandinn veit ekki að hann er að nauðga og ef að þolandinn lætur ekki vita af því fyrr en eftirá, jafnvel dögum seinna þá er það engann veginn nauðgun! Eftirsjá er ekki nóg til að réttlæta það að nota orðið nauðgun. Þú mátt alveg bjóða „gaurnum sem að ég svaf hjá en var ekkert alltof mikið að fíla það at the time en ég nennti ekki að vera með vesen þannig að ég lét mig hafa það“ í kaffi en þú myndir ekki bjóða nauðgaranum þínum…

   • Sæll Siggi, ég ætla rétt að vona að þú sért að „trolla“. Ef þú ferð yfir þessa klausu hjá þér og setur „barsmíðar“ í stað „nauðgunar“ – þá held ég að þú sjáir vissulega hversu undarleg þessi setning er. Það er ekki verið að tala um „eftirsjá“ – nauðgun er ömurlegur glæpur, og skelfileg upplifun. Sjokkið eitt og sér getur verið svo mikið að það tekur þolanda dágóðan tíma að safna hugrekkinu til að konfronta geranda sinn.
    Ef viðkomandi gerir sér ekki grein fyrir því að hann er að nauðga, þá er auðvita afskaplega gott ef það er möguleiki á að hann sé konfrontaður – svo hann geti viðurkennt mistök sín og lært hvað heilbrigð mörk eru. Það breytir því ekki að skaðinn hefur átt sér stað. Alveg eins og einstaklingur lemur einhvern; sama á hvaða forsendum það er, þá hefur viðkomandi lamið einhvern – sama hvort viðkomandi „gerði sér grein fyrir því að hann hafi verið að lemja“ eða ekki.

    Annars vil ég hrósa höfundi fyrir góða grein. Næmur og vel skrifaður texti.

   • Kæri höfundur: takk fyrir greinina!

    Kæri Siggi: Ég er sammála Mariu, þú hlýtur að vera að trolla. Það er ekki þitt að ákveða hvað önnur manneskja upplifir sem nauðgun eða hvernig hún skal bregðast við. Það er hennar — og hennar einnar.

    Okkar hlutverk sem samfélag er að skapa umhverfi sem er reiðubúið að styðja við bakið á hverri þeirri manneskju sem réttir upp hönd og segir „Mér var nauðgað.“

    „Varla nauðgun“ … hef aldrei heyrt þetta hugtak áður. Er það svipað og „ég rændi hann bara smá“ eða „ég lamdi hana bara aðeins“?

    Og hver ákveður viðbrögð brotaþolans, eða alvarleika glæpsins? Sá sem framdi glæpinn?

    Nei. (hjúkket)

   • Ég held að betri samanburður við það sem Siggi sé að segja fælist í eftirfarandi dæmi:

    Segjum sem svo að þú spyrjir nágrannan hvort þú megir fá lánaða sláttuvélina, hann muldrar eitthvað sem hljómar eins og já og þú tekur vélina með þér heim. Næsta dag bankar hann svo uppá og sakar þig um að hafa stolið vélinni. Þá kemur í ljós að hann var í raun í símanum í gær þegar þú spurðir hvort þú mættir fá vélina og var í raun og veru ekkert að tala við þig. Vissulega er þá um að ræða þjófnað, í strangasta skilningi, en hvort að þú sért glæpamaður er kannski annað mál.

    Það liggur auðvitað beint við að nauðgun er margfalt alvarlegri glæpur og hefur auðsjáanlega talsvert verri afleiðingar heldur en sláttuvélastuldur, en sjá má fyrir sér hvernig annað eins getur komið upp, sér í lagi þegar áfengi, dópi, kvíða, losta, framhjáhaldi og iðjum líkt og þeim sem lýst er í „Fifty Shades of Grey“ er blandað í málið.

    Ég vona að enginn fari að túlka þetta sem tilraun til að réttlæta nauðgun, það eina sem ég á við er að nauðgun geti átt sér stað án þess að illur vilji fremjanda sé til staðar. Og í daglegu tali er almennt talað um atvik þar sem einn brýtur á rétti annars án þess að illur vilji sé fyrir hendi sem slys.

    Auðvitað myndi það aldrei ganga ef „ég gerði það óvart“ væri nóg til þess að sleppa algjörlega við refsingu, annars væru engra lögfræðinga þarft, enda væri enginn að brjóta af sér, þetta væri allt saman bara „óvart“. Það sem ég er að reyna að ýja að er að nauðgun, líkt og allt annað sem tengist mannlegum samskiptum, er ekki bara svart og hvítt.

    Ég vona að það sem ég sé að reyna að segja hérna hafi ekki brenglast of mikið við það að setja það niður skriflega, en ef svo er, biðst ég forláts og vona að ég geti leiðrétt það síðar.

   • Ég skil hvað þú átt við og þetta er kannski einmitt kjarni málsins þegar einhver sem nauðgar upplifar sig mjögulega ekki sem nauðgara. Mér finnst hinsvegar sláttuvél vera frekar vægt dæmi, segðu að þú viljir fá lánaðan ómetanlegan erfðagrip, og heldur að þú hafir fengið leyfi til þess, eða allavega var þér ekki bannað að taka hann. Þegar manneskjan ásakar þér um að hafa rænt gripnum þá líður þér kannski ekki eins og glæpamanni en margir vilja meina að það var alltaf á þinni ábyrgð að vera viss um að þú mættir fá þetta lánað, ef það var eitthvað efasamt þá er það jafngilt nei-i.

    Málið er að þegar einhver hefur fengið eitthvað lánað í leyfisleysi þá geturðu fengið hlutinn til baka, enginn skaði skeður, það sama á ekki við um afleiðingar nauðgana og þessvegna ætti að vera ennþá skýrara að viðkomandi hafi leyfi til að gera það sem hann gerir. Að vita ekki er ekki afsökun.

 2. Kannski er „Siggi“ að trolla. En það getur vel verið að honum sé alvara því það sem hann segir lýsir allt of vel viðhorfum sem margir, karlar og konur, hafa enn til nauðgunar – með alls konar skilyrðum og forsendum sem aðeins þeir sem ekki þekkja þennan veruleika geta búið sér til. Fyrir okkur, sem ekki höfum upplifað nauðgun, er mikil gæfa að þeir sem það hafa vilji deila reynslu sinni, opna okkur sýn inn í sinn heim og auka skilning okkar. Ég vil þakka greinarhöfundi kærlega fyrir það örlæti.

 3. Mér sýnist á þessu kommenti hans Sigga að einhver hafa séð eftir því að sofa hjá honum. Eða eitthvað þannig.

  Góð grein.

 4. Ég er mjög hrifin af greininni sem birtist hér að ofan en er á sama tíma ekki að skilja hvernig umræðan sem á eftir fylgir hefur ekkert með greinina að gera heldur snýst hún eingöngu um athugasemdir Sigga. Það að líkja nauðgun við hugsanlegan stuld á sláttuvél eða erfðagrip finnst mér svo fráleit að ég get ekki einu sinni lýst því fyrir ykkur. Mér var nauðgað fyrir allmörgum árum og það hefur enn áhrif á mitt líf í dag, það var líka brotist inn til mín og skarti stolið frá mér sem var mér afar kært. En allt gull veraldar myndi ég gefa fyrir það að geta sofið hjá manninum mínum í myrkri án þess að fara aftur í tímann þar sem ég sé andlit nauðgarans fyrir mér. Allar mínar veraldlegu eigur myndi ég gefa fyrir að ef einhver snertir hálsinn á mér þá tryllist ég ekki og fari aftur í herbergið þar sem hryllingurinn átti sér stað. Það getur enginn sem ekki hefur lent í nauðgun skilið skuggann sem fylgir þér alla tíð, myrkrið og myndirnar sem koma í hugann þegar þú finnur lykt af einhverju sem tengdist deginum sem sakleysi þínu var rænt. Einfaldir hversdagslegir hlutir geta kallað fram vanmáttinn og þann endalausa sárskauka sem þessu fylgir.
  Ég vil það sama og pistilhöfundur, heim þar sem þolandinn þarf ekki að sanna hversu mikið hann/henni var nauðgað og misboðið, heldur vil ég heim þar sem þolandinn mætir skilningi og stuðningi þegar hann/hún þarf mest á honum að halda.

 5. Bakvísun: Kvennabylting – Gegn #þöggun | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.