Birtingarmyndir fordóma og mismununar

Höfundur: Eyja M. Brynjarsdóttir

Margir taka því illa að vera sakaðir um fordóma, hvort sem það er kvenfyrirlitning, kynþáttafordómar, trúarbragðafordómar, fordómar gagnvart fötluðum, feitum, ófríðum eða hvað það nú er, og verða ekki síður viðskotaillir ef einhver segir þá taka þátt í mismunun. Þeir skilja það kannski svo að verið sé að saka þá um að vilja mismuna fólki á óréttmætum forsendum, jafnvel að þeir séu aðilar að samsæri einhverrar forréttindaklíku gagnvart öðrum samfélagshópum. Ef fordómar og mismunun eru eingöngu skilin á þennan hátt er ekki að undra að réttsýnu og velviljuðu fólki sárni að vera vænt um slíkt. En fordómar og mismunun geta birst með ýmsum öðrum hætti og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að hver sá sem þetta les hafi gerst sekur um alls konar mismunun og búi yfir alls konar fordómum.

Þeir fordómar sem auðveldast er að koma auga á eru þeir sem við getum kallað opinskáa fordóma. Það eru þeir sem fólk orðar með beinum hætti eða sem birtast í ýmiss konar umsögnum um einstaklinga eða samfélagshópa. Það eru opinskáir fordómar sem eru viðraðir þegar einhver segir að konur geti ekki bakkað í stæði, að karlmenn geti ekki klætt börnin sín skammlaust eða að þeir sem eru feitir séu latir. Slíkir fordómar hafa svo sannarlega áhrif, bæði með því að særa þá sem fyrir þeim verða og með því að móta hugmyndir annarra sem hlusta og taka mark á þeim sem talar. Kosturinn við opinskáa fordóma er þó að það er hægt að bregðast við þeim beint, svara þeim með beinum hætti.

Opinskáasta og augljósasta form mismununar felst í því þegar mismunandi reglur gilda fyrir fólk eftir kyni, kynþætti eða einhverjum einkennum sem notuð hafa verið til að flokka fólk án þess að séð verði að sömu einkenni ættu að koma málinu við. Þannig er það augljós mismunun að neita konum um kosningarétt meðan karlar hafa slíkan rétt eða að banna svörtum að sækja tiltekna veitingastaði eða nota tiltekin sæti í strætó. Við teljum okkur hafa (og vonandi er það rétt) útrýmt slíkri mismunun á grundvelli kyns á Íslandi; núorðið eiga sömu lög og reglur að gilda um konur og karla, meðal annars hvað varðar rétt til stjórnmála- og atvinnuþátttöku, setu í skóla, til að erfa foreldra sína og maka og til fjármagns- og eignaumsýslu.

Hvern er verið að ávarpa hér og hvern ekki?

Mismunun og fordómar geta verið til staðar án þess að birtast með þessum beina og augljósa hætti. Ýmiss konar fordómar geta falist í að slá fram alhæfingum um fólk án þess að þær fjalli beinlínis um getu þess eða réttindi og þeir geta líka birst í því að takmarkaðar væntingar til tiltekinnar manneskju séu viðraðar í krafti þess að hún tilheyri ákveðnum hópi fólks. „Þykist hann nú geta eldað matinn?“ „Hvað er kvenmaður að vilja upp á dekk hér?“ Mismunun getur verið kerfislæg, til dæmis þegar einhver stofnun er skipulögð með tilteknar þarfir að leiðarljósi og í ferlinu gleymast mikilvægar þarfir tiltekins hóps sem stofnuninni er samt sem áður ætlað að þjóna, kannski af því að þeir sem skipuleggja hugsa bara ekki út í þær. Hún getur líka falist í að fólk mæti alls konar framkomu sem gefur til kynna að það sé óvelkomið, minnir á að það eigi heima í einhverju tilteknu hlutverki, lítillækkar það með ýmsum hætti, setur það í óþægilega aðstöðu eða veldur því öðrum óþægindum. Stundum er það sem býr að baki slíkri mismunun hugsunarleysi eða vanþekking þannig að þeir sem bera ábyrgð á mismununinni vilja allt hið besta og ætla sér alls ekki að valda neinum óþægindum en átta sig af einhverjum ástæðum ekki almennilega á afleiðingunum. Stundum hafa þeir hins vegar allar forsendur til að vita hvað þeir eru að gera.

Hér geta viðbrögð við ábendingum skipt máli. Ef búið er að benda á að skipulag stofnunar geri það að verkum að þörfum ákveðins hóps sem hún á að þjóna sé ekki mætt en ekki er hlustað á það eða því ekki svarað, ekkert brugðist við og engu breytt getur verið vafasamt að bera því við að þetta sé óviljandi þó að kannski megi stundum segja að frekar sé um afneitun að ræða en beinlínis vilja til að mismuna. Og svipað gildir um hegðun á persónulegri nótum. Ef unglingsstrákur segir nauðgunarbrandara má kannski skrifa það á hugsunarleysi og skort á þroska, á vanþekkingu á innviðum samfélagsins, áhrifum orða okkar á fólkið í kringum okkur, sögu samskipta kynjanna og svo framvegis. Ef fullorðinn maður sem hefur margoft fengið að vita að margar konur upplifi nauðgunarbrandara þannig að þeim finnist lítið úr sér gert, þær séu niðurlægðar og þeim jafnvel ógnað, að fjöldi fólks af báðum kynjum upplifi miklu fremur sorg við að heyra slíka brandara en nokkuð sem kallast gætu viðbrögð við fyndni—ef hann heldur áfram að segja nauðgunarbrandara þá er hann í besta falli að gefa til kynna að honum standi svo mikið á sama um tilfinningar þeirra sem hann særir að honum finnist það vega þyngra að geta hlegið með félögum sínum í smástund. Í versta falli er hann vísvitandi að reyna að særa og niðurlægja.

Tökum annað dæmi: Hugsum okkur að ég kalli vinkonu mína negra og að hún segi mér að vegna aldalangs misréttis gagnvart fólki með hennar litarhátt og sögu notkunar þessa orðs þá þyki henni orðið meiðandi og að hún óski eftir að ég hætti að nota það. Ég get við þetta tilefni borið því við að ég hafi ekkert illt meint með notkun orðsins—að ég hafi ekki hugsað út í þetta eða áttað mig á þessu. En þessa afsökun get ég aldrei notað aftur! Ég get ekki haldið áfram að nota orðið negri um vinkonu mína og sagt að ég meini ekkert með því, réttlætt notkun mína með latneskum rótum orðsins („ég er bara að segja að hún sé svört“) og hamrað á því að það sé nú málfrelsi og ég eigi að fá að nota þau orð sem mér sýnist í friði fyrir einhverjum froðufellandi rétthugsunarpostulum. Vissulega er það rétt að í krafti málfrelsis megi ég nota orðið en ég get ekki látið eins og ég viti ekki að með notkun þess sé ég að særa fólk og taka þátt í að viðhalda ákveðnu misrétti. Ég get ekki lengur sagt (án þess að segja ósatt) að ég meini ekkert með því!

Þó að ofangreind mismunun og fordómar komi fram með óbeinum hætti og stundum óviljandi þá er um að ræða tilfelli sem hægt er að benda á að feli í sér mismunun, til dæmis með því að leiða í ljós afleiðingarnar. En mismunun getur líka komið fram í hegðun sem er þess eðlis að ómögulegt er að segja um hvert einstakt tilfelli að um sé að ræða mismunun. Ef ég sem kona lendi í dónalegri framkomu á bílaverkstæði get ég velt því fyrir mér hvort viðkomandi hefði sýnt mér sömu framkomu ef ég hefði verið karl. Einhver sem er svartur, fatlaður, samkynhneigður eða feitur og verður fyrir því sama getur líka velt því fyrir sér hvort dóninn hefði komið eins fram við einhvern hvítan, grannvaxinn, ófatlaðan og gagnkynhneigðan. Eða hvað með starfið sem við sóttum um og fengum ekki, komu fordómar við sögu þar? Oftast er engin leið að fá afgerandi svar í svona afmörkuðum tilfellum. Kannski er viðkomandi bara dónalegur við alla sem á vegi hans verða og kannski hittum við illa á hann af því að hann var nýbúinn að fá slæmar fréttir. En kannski ekki.

Þó að erfitt geti verið að segja eitthvað um einstök tilfelli þá er hægt að draga ýmsar ályktanir með því að skoða heildina, með því að bera saman tölur. Tölur geta sýnt okkur ýmislegt, meðal annars að meðmælabréf kvenna sem sækja um störf í bandarískum háskólum eru öðruvísi en meðmælabréf karla og að ef bandarískir vísindamenn telja að umsækjandi sé karlkyns séu þeir líklegri til að ráða hann í vinnu og bjóða honum hærri byrjunarlaun en ef þeir halda að hann sé kvenkyns. Í þeirri rannsókn var ein og sama starfsferilskráin til skoðunar en sumir fengu hana í hendur með karlmannsnafni og aðrir með kvenmannsnafni. Þarna er ósköp lítið hægt að segja um sérhvert tilfelli, kannski er þetta tiltekna meðmælabréf fullkomlega viðeigandi um þessa tilteknu konu og kannski er þetta tiltekna launatilboð dæmigert fyrir það sem þessi tiltekni prófessor myndi bjóða hverjum sem er óháð kyni. En mynstrið gefur ýmislegt til kynna.

Það er greinilega ekki sama hver á í hlut. Mynd fengin hjá NowPublic

Í þessu samhengi er mikilvægt að líta til dulinna fordóma. Það hefur nefnilega sýnt sig að við getum búið yfir alls konar fordómum sem við áttum okkur ekki á og eigum erfitt með að ráða við. Jafnvel fólk sem af öllu sínu hjarta vill berjast gegn misrétti og mismunun, sem myndi aldrei taka undir fordómafullar yfirlýsingar sem orðaðar væru með beinum hætti, getur verið haldið fordómum sem það kærir sig ekkert um að hafa og sem það gerir sér jafnvel ekki grein fyrir. Þetta er nokkuð sem er nú rannsakað í vaxandi mæli og er verkefnið Project Implicit ágætt dæmi þar um. Hér má svo taka alls konar próf ef maður vill komast að duldum fordómum sínum.1) Duldir fordómar geta haft alls konar áhrif á hegðun okkar; það að við höfum tilteknar væntingar til manneskju og ákveðnar hugmyndir um þá hópa sem hún tilheyrir getur haft veruleg áhrif á það hvernig við komum fram við hana. Þeir geta meðal annars beinst að kyni, kynþætti, líkamsfitu, aldri, fötlun eða trúarskoðunum. Og hér komum við aftur að duldu mismununinni sem ég talaði um hér að ofan. Meirihluti vísindamannanna sem voru skoðaðir í dæmunum sem ég nefndi, þeirra sem skrifa meðmælabréfin og sem taka ákvarðanir um hverja skuli ráða í vinnu, er áreiðanlega ekki vísvitandi að mismuna fólki eftir kyni. Það er miklu líklegra að þarna séu ómeðvitaðir fordómar á ferðinni.

Duldir fordómar eru líka til staðar hjá þeim sem verða fyrir þeim og það birtist í hegðuninni. Sama kynjaskekkjan í mati á starfsferilskrám birtist til dæmis hjá konum og körlum í dæminu hér að ofan. Eins virðast bæði konur og karlar hafa tilhneigingu til að telja karla greindari en konur og það birtist líka í mati þeirra á eigin greind (hér er kannski rétt að minna á að meðalgreind kvenna og karla er í raun mjög svipuð). Það er ekkert því til fyrirstöðu að fólk sé haldið fordómum gagnvart sjálfu sér eða tilteknum hópum sem það tiheyrir og það má rétt ímynda sér það sjálfsniðurrif sem fer þá fram.

Og nú hljótum við að spyrja hvað sé til ráða. Hvernig vinnum við á duldum fordómum og hindrum þessa óbeinu mismunun? Þetta er meðal þess sem reynt er að skoða í rannsóknum á duldum fordómum og lausnin blasir því miður ekki við. Það þykir til dæmis ekki hjálpa sérlega mikið að reyna bara að passa að vera fordómalaus og hlutlægur í mati sínu á fólki. Það getur jafnvel haft öfug áhrif að telja sjálfum sér trú um að maður sé mjög hlutlægur. Stundum er hægt að breyta aðstæðunum, til dæmis með því að hafa umsóknir nafnlausar, en það á auðvitað ekki alltaf við.2) Það sem mikilvægt er að vinna með í þessu sambandi eru staðalímyndir. Þeir duldu fordómar sem við höfum eru ekki meðfæddir heldur höfum við tileinkað okkur þá. Það að sífellt sé hamrað á því með beinum og óbeinum hætti að konur hafi eða eigi að hafa tiltekna eiginleika og karlar eigi að hafa tiltekna aðra eiginleika, eða að þeir sem eru feitir séu latir, gráðugir og óaðlaðandi, hefur áhrif á þessa fordóma okkar. Það gerist hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við getum reynt að vinna gegn þessu með því að leggja okkar af mörkum til að draga úr öllum þessum einhliða áróðri og með því að gera í því að vekja athygli á öllu því fólki sem ekki fellur undir staðalímyndirnar.
~


1) Til að ganga ekki af lesendum dauðum læt ég það eiga sig að birta hér lista með heimildum því til stuðnings að duldir fordómar séu raunverulega til en mér sýnist á flestu að það sé tiltölulega lítið umdeilt núorðið. Áhugasamir geta haft samband við mig og fengið meiri upplýsingar ef þeir vilja.

2) Mér finnst það hræðileg þróun sem virðist vera tíska hjá atvinnumiðlunum hérlendis að biðja fólk um mynd með starfsferilskrá. Við vitum að fólk sem ekki fellur að stöðlum um útlit og líkamsbyggingu verður fyrir fordómum og hér er hreinlega verið að hvetja til útlitsmismununar. Sé vilji til þess að ráða fólk í vinnu á faglegum forsendum þá hjálpar þetta svo sannarlega ekki.

 

Meira efni um dulda fordóma:
http://thurj.org/ss/2011/02/1458/
http://onthehuman.org/2011/09/the-dark-dark-side-of-the-mind/
http://www.opensocietyfoundations.org/voices/implicit-bias-and-social-justice

 

Um fitufordóma:
http://www.sciencedaily.com/releases/2012/11/121107200036.htm
http://www.sciencedaily.com/releases/2009/10/091022101706.htm
http://www.mnn.com/health/fitness-well-being/stories/doctors-may-hold-biases-against-overweight-people-as-much-as-the-p
http://www.myhealthnewsdaily.com/2652-obesity-stigma-weight-loss.html
http://www.livescience.com/3874-voice-reason-fact-fiction-obesity.html

6 athugasemdir við “Birtingarmyndir fordóma og mismununar

  1. Takk fyrir pistilinn, Eyja! Ég verð að taka undir með þér um myndir á ferilskrám á Íslandi – það er ótrúlegt að fólk skuli ekki sjá hvað þetta opnar á gríðarlega útlits- og líka aldurstengda mismunum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.