Vistfemínismi

Það var einu sinni borg í Ameríku, þar sem allt líf virtist lifa í sátt við umhverfi sitt.  Borgin var byggð inni í miðju landi og allt í kringum hana voru blómleg sveitabýli með kornakra og aldingarða á ávölum hæðum, þaðan sem drifhvít blómblöð komu svífandi eins og ský á vorin yfir akrana.  Á haustin klæddust eik, hlynur og birki skæru litaskrúði, sem lýsti móti dökkum bakgrunni barrtrjánna.  Þá gögguðu refirnir í hæðunum og dádýrin rásuðu hljóð yfir engin, nærri hulin í móðu haustmorgunsins. …Sveitin var í sannleika víðkunn fyrir hið auðuga fuglalíf sitt, og þegar farfuglarnir áttu þar skamma viðdvöl vor og haust, kom fólk langar leiðir að skoða þá.  Aðrir komu til að veiða í ánum, sem komu tærar og svalar ofan úr hæðunum og mynduðu skuggasæla hyli, þar sem silungurinn vakti.  Þannig hafði þetta verið alla tíð frá því að fyrstu landnemarnir reistu hús sín og kornhlöður og grófu brunna sína.

 Svo fór einhver undarleg óáran að gera vart við sig í sveitinni og allt tók að breytast.  Bölvun hafði lagst yfir byggðina:  Dularfullir sjúkdómar herjuðu á kjúklingana, búféð veiktist og dó.  Skuggi dauðans lagðist alls staðar yfir…  Undarleg þögn ríkti alls staðar.  Fuglarnir – hvert höfðu þeir farið?  Margir töluðu um þá, í senn undrandi og uggandi.  Í  görðunum bak við húsin stóðu fóðurstallar fuglanna auðir.  Þeir fáu fuglar sem sáust, voru í dauðateygjunum;  það var ákafur skjálfti í þeim og þeir gátu ekki flogið.  Raddir vorsins voru þagnaðar.  Vormorgnarnir, þegar loftið titraði af söng þrastanna, kurri dúfnanna, tísti músarrindlanna og öðrum fuglaröddum- þessir morgnar voru nú hljóðir. Yfir ökrum, skógum og mýrum vakti þögnin ein.[1]

Þannig farast Rachel Carson orð í sinni frægustu bók, Silent Spring eða Raddir vorsins þagna, sem gefin var út árið 1962 og þýdd á íslensku þremur árum síðar. Carson dregur athygli lesenda sinna að því hversu illa tæknibyltingin hefur farið með jörðina og hvetur þá til að vakna upp af doðanum og snúa þróuninni við.  Í bókinni lýsti Carson margfeldisáhrifum skordýraeiturs á viðkvæm vistkerfi sem ollu meðal annars krabbameini hjá mannfólkinu.  Á þeim fimmtíu árum sem liðin eru frá því að bók Carson kom út hefur ógnin sem steðjar að vistkerfi jarðar vaxið hratt.  Um leið má segja að vitundin  um þessa vá hafi vaxið að sama skapi.

Umræða um vistkreppu og umhverfismál kvíslast út í allar áttir fræða í upphafi 21. aldarinnar.  Vistváin tengir saman greinar, sem engum datt í hug að ættu neitt sameiginlegt áður.  Þannig hefur skapast rými, grænt rými á milli raunvísinda og hugvísinda á sviði umhverfismála, rými þar sem eðlisfræðingurinn og heimspekingurinn, guðfræðingurinn og líffræðingurinn, félagsfræðingurinn, sagnfræðingurinn og bókmenntafræðingurinn gætu haft eitthvað að segja hver annarri, ef þær/þeir kærðu sig um og kæmu saman.

Ekófemínistar, vistfemínistar, sem Sigrún Helgadóttir kallar „kvenlæga vistfræðinga”, eru flestir hallir undir lífhverfar hugmyndir, frekar en mannhverfar.[2]  Lífhverfar hugmyndir gagnrýna tvíhyggju sem greinir að sál og líkama, handanveru og hérvist, anda og náttúru, menn og konur,  og skipar öðru parinu undir hitt.  Þær leggja mikla áherslu á að allt líf sé öðru háð og að líta verði á náttúruna sem virkt afl, sem gefur af sér en er einnig fært um að slá frá sér.  Öllum ekófemínistum er það sammerkt að telja að tengslin á milli ofbeldis gegn konum og arðráns náttúrunnar séu rík. Þeim ber hins vegar ekki öllum saman um eðli þessa sambands, eða hvernig beri að breyta því, þannig að til hagsbóta verði jafnt fyrir gróður, dýr og manneskjur jarðar.

Gaia – mynd fengin hjá acoeuretacris.centerblog.net

Sumar tegundir vistfemínisma velta fyrir sér frumspekilegum hugmyndum um anda og náttúru. Þannig má nefna hugmyndir um guðdóm og náttúru sem eitt algyðisafl. Aðrir vistfemínistar sjá Guð fyrir sér sem jarðmóður sem ali af sér veröldina, eða að hinn mannlegi heimur og hugmyndin um persónulegan Guð spretti báðar fram úr skauti jarðmóðurinnar.  Þessi jarðmóðir er gjarnan nefnd Gaia eftir hinni grísku jarðargyðju og hafa kristnir ekófemínistar á borð við Rosemary Radford Ruether og Anne Primavesi sett fram kristna Gaiu-guðfræði.[3]  Einnig er nærtækt að nefna Sallie McFague, en hún lýsti alheiminum sem líkama Guðs í frægustu bók sinni The Body of God.[4]  Með líkamslíkingunni undirstrikar Sallie McFague hin nánu og samofnu tengsl milli andans og náttúru, án þess að gera þau eitt.  Margir femínistar hafa einnig lagt hinn kristna Guð á hilluna og játa trú á móðurgyðjuna í staðinn, s.s. Mary Daly, Charlene Spretnak og Carol Christ.  Indverski ekófemínistinn og eðlisfræðingurinn Vandana Shiva sem kom til Íslands fyrir nokkrum árum og talaði um umhverfismál fyrir troðfullu Háskólabíói ræðir um jarðmóðurina út frá aðstæðum í Indlandi og í tengslum við prakriti-hugmyndina sem í hindúasið táknir efnisheiminn og jafnan tekur á sig gyðjuform.[5]  Ivone Gebara, sem er rómversk-kaþólsk nunna frá Brasilíu, ritar undir miklum áhrifum frá Sallie MacFague. Hún sendi frá sér bókina Longing for Running Water 1999 þar sem Guðshugtakið er einfaldlega kallað „tengsl” eða “relatedness” og er eitt og hið sama og það sem í daglegu tali er nefnt náttúra.[6]

Aðrir vistfemínistar vilja aðgreina sig frá trúarlegum ekófemínisma, sem þeim finnst undir of miklum áhrifum náttúrudulrænu og eðlishyggju.  Þannig vill femínistinn og vistheimspekingurinn Chris Cuomo greina á milli ekófemínisma (ecofeminism) annars vegar og ekólógísks femínisma (ecological feminism) hins vegar.  Joan L. Griscom fjallar um þessa  aðgreiningu andlegheita og eðlishyggju, sem tengdur er við náttúrdýrkun, Gaiu og móðurgyðju frá öðrum tegundum kvenlegrar vistfræði í grein sinni “On Healing the Nature/History Split in Feminist Thought,” þar sem Griscom telur aðgreininguna milli náttúrufemínista annars vegar og félagslegra femínista hins vegar vera óþarfa og til þess fallna að bæta einni tvíhyggjunni enn í safn vestrænnar hugsunar.[7]

Mannfræðingurinn Sherry B. Ortner skrifaði árið 1974 merkilega grein sem ber nafnið „Is Female to Male as Nature Is to Culture“, eða „Er konan manninum það sem náttúran er menningunni?“  Ortner bendir á að ýmislegt sé líkt með þessum tveimur hugtakapörum, maður/kona og náttúra/menning.  Ortner bendir á að í langflestum samfélögum sé konan undirgefin manninum og spyr hvað geti valdið þessari almennu venju að setja konur skör lægra en karla.  Ortner kemst að þeirri niðurstöðu að ástæðunnar sé að að leita í því að konur séu gjarnan settar í sama flokk og náttúran. „Konan,“ segir Ortner, „virðist vera tákn – tákn um eitthvað sem hvert menningarsamfélag álítur lítils vert, tákn einhvers sem hvert menningarsamfélag telur á lægra stigi tilverunnar en það sjálft.“[10]  Og náttúran, samkvæmt skilgreiningu Ortner, er það sem hvert menningarsamfélag telur sig ekki aðeins aðskilið frá heldur einnig æðra.  Ortner hafnar því að konur séu á einhvern hátt nær náttúrunni en menn, þar sem bæði eru gædd hugsandi vitund og bæði kyn eru dauðleg.  Niðurstaða hennar er að konur verði að geta aðgreint sig frá náttúrunni eins og karlmenn, til þess að eignast hlutdeild í menningunni.

Grein Ortner hafði mikil áhrif á femíníska umræðu, þótt ekki kæmust konur að sömu niðurstöðu og hún um það hvernig sigrast ætti á feðraveldinu.  Leið Ortner til kvenfrelsis lá í gegnum aðgreiningu á minni kvenna og náttúru, en margir aðrir femínistar tóku þessum meintu tengslum kvenna og náttúru fagnandi.  Umhverfismálin og kvenfrelsisboðskapurinn mynduðu eina heild í huga hinna fyrstu ekófemínista og baráttan gegn feðraveldinu öðlaðist kosmíska vídd.  Ekki aðeins skyldi barist gegn rangindum, niðurlægingu og misbeitingu á konum og líkömum þeirra, heldur skyldi barist gegn misbeitingu móður Jarðar líka.  Susan Griffith braut ekófemínískt blað með bók sinni Woman and Nature:  The Roaring inside Her, eða Konur og náttúra:  Öskrin að innan árið 1978 þar sem hin tvö stef konunnar og náttúrunnar eru spiluð saman og á víxl í ljóðrænum prósa sem á margt sameiginlegt með grískum harmkór.   Ég gríp niður í formálann.

Hann segir að kona tali við náttúruna.  Að hún heyri raddir neðan jarðar.  Að blærinn leiki í eyrum hennar og að tré hvísli til hennar.  Að hljóð hinna dauðu komi úr munni hennar og hún skilji kvein ungbarnanna.  En fyrir honum er þessu samtali lokið.  Hann segir að hann sé ekki af þessum heimi, að hann sé ókunnugur í þessum heimi.  Hann aðgreinir sjálfan sig frá konu og náttúru.

Og því er það Gullbrá sem fer heim til bjarnanna þriggja, Rauðhetta á samtal við úlfinn, Dóróthea vingast við ljón, Mjallhvít talar við fuglana, Öskubuska á vini í músunum, litla hafmeyjan er hálfur fiskur, Þumalína á moldvörpu að vonbiðli.  Og þegar við heyrum í Navaho-fjallaseiðnum um fullorðinn mann sem reykir með björnum og spyr íkorna vegar, þá verðum við undrandi.  Við héldum að það væru bara litlar stúlkur sem tala við dýr.

Við erum egg fuglanna.  Egg fuglanna, blóm, fiðrildi, kanínur, kýr, kindur; við erum engisprettur, við erum bergfléttur og sprotar af vafningsviði.  Við erum konur.  Við rísum upp úr öldunni.  Við erum gasella og dúfa, fíll og hvalur, liljur og rósir og ferskjur, við erum loft, við erum eldur, við erum ostra og perla.  Við erum stúlkur.  Við erum kona og náttúra.  Og hann segir að hann geti ekki heyrt okkur tala.

En við heyrum.[11]

Vísindasagnfræðingurinn Carolyn Merchant gaf árið 1980 út bókina The Death of Nature:  Women, Ecology and the Scientific Revolution sem fjallar um breyttar hugmyndir manna um náttúruna í byrjun iðnbyltingarinnar.  Merchant ber saman orðfæri ýmissa forkólfa iðnbyltingarinnar á 17. öld og tungutaksins sem notað var við nornaveiðar á sama tíma.  Í stað hugmyndanna um jörðina sem hina gjöfulu móður, sem svo mjög settu svip sinn á náttúrusýn miðalda, þá verður náttúran að dyntóttri og hættulegri hóru og norn, sem fyrir alla muni þurfi að temja.  Merchant heldur því fram að hin nýja heimsmynd hafi í raun verið forsenda iðnbyltingar og námugraftarins sérstaklega, því að enginn vanhelgar góða móður, en til þess að fá leyndarmál upp úr norn má bora og grafa inn í alla hennar líkamlegu leyndardóma eftir upplýsingum.  Aðferðir Merchant eru dæmi um sagnfræðilegan ekófemínisma, þar sem leitað er upphafs og orsaka hins ekólógíska syndafalls, á meðan Griffin notar bókmenntalega og táknfræðilega nálgun.

Í upphafi 21. aldarinnar er ekófemínisminn tengdur öðrum analýsum misréttis og misbeitingar sterkari böndum en áður var, ofbeldis vegna stéttaskiptingar, kynþáttahaturs, fátæktar og natúrisma.  Umhverfisverndarsinnar hafa m.a. tvinnað orðið ekó-rasismi til þess að undirstrika að það er engin tilviljun að sorpsöfnun, mengun og urðun eitraðra efna frá hinum þróuðu löndum safnast oftar en ekki fyrir á landi hinna fátæku.  Og neðst í röðum hinna fátæku er yfirleitt að finna konur og börn.  Ekófemínistar árétta það, að án raunsærra skilgreininga á ástandi og ofríki feðraveldisins, þá muni konur halda áfram að mynda þennan botnlausa fátæktarbotn mannlegs lífs.  Þannig má með vistfemínískum aðferðum leggja hönd á plóg til að raddir vorsins þagni ekki.


[1] Rachel Carson, Raddir vorsins þagna, þýð. Gísli Ólafsson (Reykjavík:  Almenna bókafélagið, 1965), 15-16.

[2] Sigrún Helgadóttir, “Konur í berjamó:  Hugleiðingar um kvenlæga vistfræði,”  Náttúrusýn, 155-165

[3] Cf. Rosemary Radford Ruether, Gaia and God:  An Ecofeminist Theology of Earth Healing (San Fransisco, CA:Harper SanFransisco ), 1992 og Anne Primavesi,, Sacred Gaia:  Holistic theology and Earth System Science London/New York:  Routledge), 2000

[4] Sallie McFague, The Body of God:  An Ecological Theology, (Minneapolis:  Fortress Press), 1993

[5] Vandana Shiva, Staying Alive:  Women, Ecology and Development (London:  Zed Books), 1989

[6] Ivone Gebara, Longing for Running Water:  Ecofeminism and Liberation  (Minneapolis:  Fortress Press), 1999

[7] Joan Griscom, “On Healing the Nature/History Split in Feminist Thought,” Lois K. Daly (ritstj.) Feminist Theological Ethics (Loisville, Kentucky:  John Knox, 1994), 271-282

[8] Betty Friedan, The Feminine Mystique (New York:  Norton), 1974

[9] Simone de Beauvoir, “From The Second Sex”  Feminist Theory:  A Reader, Wendy Kolmar and Frances Bartkowski (ed.) (Mountain View, CA:  Mayfield Publishing Company, 2000) 146

[10] Sherry B, Ortner, “Is Female to Male as Nature is to Culture”,  Feminist Theory:  A Reader, Wendy Kolmar and Frances Bartkowski (ed.) (Mountain View, CA:  Mayfield Publishing Company, 2000), 205

[11] Susan Griffin, “From Woman and Nature:  The Roaring inside her”, This Sacred Earth:  Religion, Nature, Environment, Roger S. Gottlieb (ed.) (New York/London:  Routledge, 1996), 361, skáletrun höfundar

[12] Karen J. Warren, Ecofeminist Philosophy:  A Western Perspective on What It is and Why It Matters, (Lanham, MD:  Rowman and Littlefield Publ. Inc., 2000), 194

2 athugasemdir við “Vistfemínismi

Færðu inn athugasemd við kolbrún Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.