Land míns föður?

Það gengur á með prófkjörum um þessar mundir og ímyndaspuna og stuðningsgreinum rignir yfir landsmenn, eins og von er á í slíku árferði.

Á Eyjunni skrifaði Stefán Ólafsson, prófessor við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, til dæmis pistil til stuðnings Össuri Skarphéðinssyni, sem hann telur öðrum hæfari til að leiða flokkinn bæði á framboðslista og sem formaður. Eina helstu ástæðuna fyrir því hversu hæfur Össur er telur Stefán vera þessa:

úr Íslenskri orðabók, á snara.isÞað er óumdeilt að Össur, með sína miklu reynslu og persónutöfra, er einn af örfáum einstaklingum í stjórnmálunum um þessar mundir sem ná því að hafa ímynd landsföður.

 

 

Þegar þetta er skrifað er ljóst að talsverður fjöldi flokksfélaga kaus Össur til að leiða flokkinn í Reykjavík og að svo gott sem jafnstór hópur flokksfélaga kaus Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur til að leiða listann. Hvort ímynd þeirra Össurar sem landsföður annars vegar og Sigríðar sem einhverrar kvenkyns útgáfu af sama fyrirbæri hinsvegar réði því hvorum megin atkvæðin féllu má eflaust lengi ræða, en verður ekki gert hér.

 

Landsfeður höggnir í grjót í Mount Rushmore, Bandaríkjunum

 

Það sem mér finnst áhugaverðara er hugtakið „landsfaðir“ og notkun þess í samtímaumræðu um stjórnmál og samfélagsmál.
Reyndar aðallega það að einhverjum skuli hreinlega enn þykja þetta hugtak boðlegt til notkunar í samtímalegri umræðu um stjórnmál og samfélagsmál.

Þetta er nefnilega afskaplega gildishlaðið orð sem vísar beint í hefðina fyrir hinu karlkyns valdi, valdhafanum sem „föður“, sem karlkyns. Þannig getur „landsfaðir“ aldrei verið annað en orð sem ýtir undir og festir í sessi þá viðteknu skoðun að völd séu ætluð körlum, „feðrum landsins“, að það sé frávik en ekki viðmið þegar það gerist að kona fari með sambærileg völd, að æðsta birtingarmynd velviljaðs valds hljóti að vera karl en ekki kona. Orðið „landsfaðir“ hefur næstum yfir sér trúarlegan blæ, eins og það feli í sér guðlegt vald eða vald sem er gjöf frá einhverjum æðri mætti.

Orð eru til alls fyrst, orð eru byggingareiningar þess málfræðilega og félagslega veruleika sem við notum til að smíða okkur skilning á samtímanum. Og orðum fylgir ábyrgð, ekki hvað síst þegar þau hrjóta úr penna, lyklaborði eða munni þeirra sem framarlega standa í samfélagsumræðunni og ekki hvað síst í uppfræðslu um stjórnmál, samfélagsmál og félagsvísindi.

Þó er vissulega úr vöndu að ráða. Á meðan framkvæmdavaldið er í höndum ráðherra (orð sem er óumdeilanlega karlkyns), dómsvaldið í höndum dómara (orð sem er karlkyns í hugum flestra) og löggjafarvaldið í höndum þingmanna (karlkyns, að minnsta kosti málfræðilega og sennilega að mestu leyti líka í hugarfarslegri merkingu) – já, og fyrirtækjum er stýrt af forstjórum, markaðnum af markaðsstjórum, trúarlífinu af prestum og skólakerfinu af prófessorum, dósentum, aðjúnktum, lektorum og kennurum, er kannski ekkert undarlegt að félagsvísindamanninum skuli þykja eðlilegt og æskilegt að yfir allri þessari málfræðilega karlkyns hersingu eigi og skuli tróna landsfaðir – sem einhvers konar súperegó hins karlkynja valds, jafnt málfræðilega sem félagslega.

 

14 athugasemdir við “Land míns föður?

 1. Þakka áhugaverðan pistil.

  Mér finnst samt of langt seilst að gagnrýna þetta orðalag hjá Stefán af slíku offorsi. Ef þú hugsar um fjölskylduna sem félagslega stofnun þar sem viðhöfð er ákveðin verkaskipting er ekkert að því að tala um föður í því sambandi í jákvæðum skilningi. Sjálfum finnst mér Jóhanna t.d. svolítið móðurleg og finnst bara ekkert nema gott um það að segja.

  M.ö.o. enda þótt feðraveldið sé raunverulegt neikvætt fyrirbæri eru feður það síður en svo.

 2. Takk fyrir kommentið, mér finnst ég reyndar ekki hafa gengið fram af sýnilegu offorsi, en það er eflaust smekksatriði. Stefán er ekkert sérstaklega útsettari fyrir þessa orðanotkun en annað fólk og hugleiðingin beinist ekkert frekar að honum en öðrum samfélagsrýnum. Við höfum hins vegar öll gott af því að velta því fyrir okkur af og til hvaðan orðin koma og hvert þau vísa.

  Reyndar er ég alls ekki viss um að mér þyki „landsmóðir“ neitt skárra, það hefur hins vegar augljóslega ekki (enn?) fengið sama hefðarvenjusætið og „landsfaðirinn“ og hefur því ekki sömu táknmið. Persónulega er ég frekar lítið höll undir leiðtogaorðræðu og finnst hvorki „landsfaðir“ né „landsmóðir“ hugtök sem ætti að nota yfir fólk sem hefur gefið kost á sér til þjónustu við samborgara sína. En það er kannski önnur umræða 🙂

  kv. Halla

 3. Ég ældi upp í mig þegar Egill Helgason taldi það Svandísi Svavarsdóttur til tekna sem framtíðar pólitíkus að vera „hæfilega móðurleg.“ Ég er ekki endilega viss um að Hrafn skilji almennt um hvað þessi grein snýst.

 4. „Reyndar aðallega það að einhverjum skuli hreinlega enn þykja þetta hugtak boðlegt til notkunar í samtímalegri umræðu um stjórnmál og samfélagsmál.“ Offors er kannski full djúpt í árina tekið af minni hálfu. En ég neita því hins vegar að samlíkingar úr stjórnmálum í fjölskyldueininguna séu óboðlegar eða duldar valdafyrirskipanir feðraveldisins.

  Hildur e.t.v. deili ég ekki þinni skoðun á því hvað þessi grein snýst um. En það angrar mig ekki hið minnsta hót. Þú sýnir hins vegar töluverðan hroka í því að þú virðist með þessari skoðun þinni ætla að þú hafir höndlað sannleika Höllu (þið hafið kannski skrifað greinina saman? ertu meðhöfundur?) en ekki ég.

  Það mætti ætla að öll verkaskipting byggt á kyni sé í raun ofbeldi. En jafnvel þótt að slík verkaskipting hefði ekkert með valdafyrirkomulag, kúgun eða skilvirkni að gera, heldur væri með öllu handahófskennd, þá yrðu samt til ákveðin hlutverk sem annað kynið tæki að sér skv. hefð. Ætliði að gagnrýna slíkt? Mætti skrifa um það ljóð?

  • Hrokinn er nú ekki meiri en svo að við Halla sitjum bæði í ritstjórn þessa vefs og höfum rætt þessa hluti fram og til baka. Ég veit hvar hún stendur og hvað henni finnst um að stjórnmálakonum sé lýst sem móðurlegum og stjórnmálakörlum lýst sem landsföðurlegum. Þeim skoðunum deilir hún einmitt með mér.

  • Sæll Hrafn. Ég skil engan veginn síðasta kaflann um verkaskiptingu, ofbeldi og hlutverk sem annað kynið tæki að sér skv. hefð. Eða ég vona að ég sé að misskilja eitthvað. Geturðu útskýrt hvað þú átt við?

   • Ég er að vísa til þess að óhjákvæmilega verður til eitthvað kerfi verkaskiptingar í öllum sameiginlegum verkefnum (og enginn er eyland er þa?). Það að verkaskiptingin leiði af sér ákveðin hlutverk sem vísað er í, sbr. föðuhlutverkið sem svo er yfirfært yfir í landsföðurinn í þessu dæmi er ekki slæmt í sjálfu sér vil ég meina þó það geti auðvitað verið það – við getum fundi dæmi þar um (e.t.v dæmi Hildar úr Silfrinu) – , og í því getur falist ákveðin drottnun með normalíseringu.

   • Ókei, nú er ég endanlega týnd. Þú ert sumsé sammála pistlinum nema þér finnst hann skrifaður af of miklu offorsi eða eitthvað í þá áttina. Eða ekki.

   • Eins og ég sagi í fyrstu athugasemdinni „enda þótt feðraveldið sé raunverulegt neikvætt fyrirbæri eru feður það síður en svo.“ Við eigum að vera vakandi fyrir inntaki, þ.e. raunverulegri meiningu, þeirra hugtaka sem við notum og pæling Guðjóns hér fyrir neðan er gott dæmi um góða slíka pælingu. Pæling Höllu finnst mér því góð í prinsippinu en dæmið sem hún tekur missir marks.

    Feður/mæður hafa eiginleika – hlutverk – sem engin ástæða er til að gagnrýna eða gera lítið úr. Þau geta aldrei verið sambærileg með öllu – hvaða ástæða svo sem liggur fyrir mismunandi verkaskiptingu. Dæmi um óréttláta (og úrelta og steríótýpíska) verkaskiptingu er mamman vaskar þvott og skiptir um bleiu en karlinn er í hvítflibba/verkamanna brauðfæðaravinnu. Þessi verkaskipting er hluti af eldra valdakerfi sem sér fyrir endanum á – þótt eflaust sé langt í land. Önnur verkaskipting gæti verið sú að pabbinn skipti alltaf um bleiur því að honum finnst það skemmtilegra en mömmunni. Ekkert að þeirri verkaskiptingu, en um leið eru komin hlutverk sem má tengja við kyn (móðirin er ekki tengd við bleiur). Í því samhengi mætti kalla Steingrím J. föðurlegan (taka til eftir hrun). Og ekkert að því.

 5. Einhver gæti notað orðið landsmóðir fyrir konu þannig að þá eru pælingar sem greinin leggur útfrá óþarfar. Annað mál er að karlar hafa sögulega stjórnað heiminum og mörg karlkyns orðin standa eftir(en er reyndar alveg hægt að nota mörg fyrir konur, málfræðilega eru þau bara karlkyn). Reyndar eru konur líka menn en „menn“ hafa eignað sér það orð enda hafa þeir farið með völdin. En hvernig er með orð eins og „hetja“ það er kvenkyn, ættum við karlar ekki að vera brjálaðir út af því af því að þegar er komið frá mæðraveldinu og vegur að karlmennsku okkar? 😉

 6. Takk fyrir þessa grein. Prýðisgóðar og þarfar ábendingar. Ég hélt satt að segja ekki að vel menntað fólk myndi árið 2012 nota „landsfaðir“ sem skjall. Minnist þess síðast að hafa heyrt þetta um Davíð Oddsson, líklega af vörum annars vel þekkts fræðimanns úr HÍ.

  Langar hins vegar að benda á eitt smáatriði varðandi orðið „ráðherra“. Þegar umræða um það embættisheiti hefur komið upp hef ég aldrei orðið var við að nokkur taki tillit til þess að orðið „herra“ hefur a.m.k. tvær nokkuð ólíkar merkingar. Sú nýrri er „karlmaður“ (eins og í herraföt, herrabindi o.s.frv.). Hin upprunalega er hins vegar „yfirboðari“ eða einhver sem er á einhvern hátt hærra settur en flestir aðrir. Dæmi um þessa merking er þegar Jesús er ávarpaður „herra“ í guðspjöllunum eða þegar mektarbokkar voru fyrrum ávarpaðir „minn æruverðugi herra“ eða eitthvað slíkt. Það getur ekki verið líklegt að merking orðsins ráðherra hafi nokkurn tíma átt að vera „ráðskarlmaður“ enda næsta óþarft að undirstrika kyn þess háttar ráðamanna sem voru einmitt allir af sama kyni þegar orðið komst fyrst í notkun. Er ekki líklegra að orðið hafi átt að vísa til þess að viðkomandi færi með völd, væri e.k. yfirboðari, valdamaður í ráði (ríkisráði, ráði drottningar/konungs)? Því er þó ekki að neita að orðið „herra“ myndi aldrei vera (og hefði aldrei verið) notað um konu, jafnvel þó það sé notað í merkingunni „yfirboðari“. Það er því sannleikskorn í því að orðið ráðherra vísi merkingarlega til karlkyns, en slík fullyrðing skautar framhjá því að orðið „herra“ hefur fleiri en eina merkingu. Önnur umræða er að ráðherrar eiga náttúrlega ekki að bera embættisheiti sem vísar í völd eða úreltan stöðumun. Þeir ættu að heita ráðþjónar eða almannaþý eða eitthvað svoleiðis. Erum við að tvista?

 7. takk fyrir athugasemdir, sérstaklega finnst mér áhugaverðar pælingar Guðjóns hér að ofan. Hún er stór, spurningin um það hvort það gangi upp málefnalega, þótt það geri það kannski málfræðilega, að þrjóskast við að nota karlkynsorð yfir embætti sem við viljum að okkur sé jafneiginlegt að sjá fyrir okkur konu gegna og karl. „Málfræðilega eru þau bara karlkyn“ kann að vera stærra „bara“ en við, sem samdauna þessu blessaða tungumáli okkar, gerum okkur grein fyrir. Umræðan um kynjun orðræðu um embætti er svo ótrúlega nýbyrjuð að það er varla hægt að segja að hún sé komin af stað enn. Enda tíðkaðist lengi að hlæja að, gera lítið úr og fussa yfir þeim sem reyndu að hefja hana, einkum ef málshefjendur voru þingmenn – ég man í fljótu bragði eftir Kolbrúnu Halldórsdóttur og Steinunni V. Óskasdóttur. En þetta er ótrúlega spennandi umræða – höldum henni endilega áfram!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.