ÞEGAR FÓLK SEGIR „KARLMÖNNUM ER LÍKA NAUÐGAГ…

Höfundur: Thomas Brorsen Smidt, þýðing: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir

Umfang kynferðisofbeldis í þessu landi er sjokkerandi. Árið 2011 leituðu hvorki meira né minna en 278 nýir þolendur til Stígamóta. Sú tala nær ekki yfir þau sem ekki tókst að yfirstíga skömmina og leita sér hjálpar. Heildarfjöldi þolenda er því væntanlega mun hærri.

Kynferðisofbeldi er ofboðslega mikilvægt málefni og ég hef tilhneigingu til að ræða það við fólk. Hvers vegna er kynferðisofbeldi beitt? Hverjar eru kynbundnu hvatirnar að baki því? Hvað getum við gert í því? Og svo framvegis. Mér finnst mikilvægt að þetta sé rætt og þess vegna geri ég það.

Þar sem flestir þolendur kynferðisofbeldis sem ég þekki eru konur eiga þessar umræður sér yfirleitt útgangspunkt í upplifun kvenna. En reglulega kemur ein rödd inn í heitar hópsamræður, kveður sér hljóðs og kynnir til sögunnar þennan mikilvæga punkt: „Karlmönnum er líka nauðgað.“ Þetta er yfirleitt karlmannsrödd.

Í nokkur fyrstu skiptin sem ég heyrði einhvern troða þessu að í samtali um kynferðisofbeldi fraus ég. Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti haldið samtalinu áfram, tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið án þess að jaðarsetja karlkyns þolendur kynferðisofbeldis.

En einn daginn áttaði ég mig á því að undir þessum kringumstæðum segir fólk „karlmönnum er líka nauðgað“ af öðrum ástæðum en ég myndi segja það.

Því verður ekki neitað að upplifun karla af kynferðislegum árásum gleymist oft í umræðum um upplifun þolenda. Það væri auðvelt að benda á að flestir þolendur eru konur og því sé eðlilegt að fókusera á þeirra upplifun. En alltof fáir átta sig á því að karlar eru allt að 11,5% af þolendum kynferðisglæpa á Íslandi. Það er mun hærra hlutfall en flestir halda.


Samfélagið okkar upphefur líka mjög sterk heterónormatív karllæg gildi og þess vegna verður það mjög kynjuð reynsla að vera karlkyns þolandi kynferðisofbeldis. Ég vil því ekki að þetta fari á milli mála; það er full ástæða til að tala um karlkyns þolendur kynferðisofbeldis. Þeir mega ekki gleymast.

Hitt er annað mál að yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem hafa lagt það til í umræðu sem ég er þátttakandi í að „karlmönnum sé líka nauðgað“ er í rauninni skítsama. Þessi setning er ekki sett inn í samtalið til að draga raunverulega athygli að vandamálinu sem kynferðisofbeldi er, heldur til að þagga niður í femínistanum sem vogaði sér að opna munninn.

Flestir karlar sem draga fram „Karlmönnum er líka nauðgað“ trompið, gera það ekki vegna þess að þeim er svo umhugað um velferð þeirra karla sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Þeir gera það vegna þess að þeir skynja í umræðunni spurningarmerki við forréttindi kynsins síns. Eða þeir taka það til sín þegar bent er á að flestir gerendur í kynferðisbrotamálum (93,8%) eru karlar; þeim finnst að það segi eða eigi að segja eitthvað um dapurlegt stig karlmennskunnar í þessu landi; segja eitthvað um þá.


Frekar en að horfa í spegilinn og díla við það sem maður sér má þá grípa til hinnar þægilegu flóttaleiðar að slengja fram í umræðuna setningu eins og „Körlum er líka nauðgað.“ Fleiri vinsælar þöggunarleiðir af sama meiði eru „Konur nauðga líka!“ (2,2%) eða „Konur í Sádí-Arabíu mega ekki einu sinni keyra bíl og hér situr þú og nöldrar um launamun?!“

Í langflestum tilfellum má það til sanns vegar færa að fólkið sem segir þetta langar ekkert að ræða karla sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, hefur engan áhuga á þolendum kynferðisárása kvenna og gæti ekki verið meira sama um konur í Sádí-Arabíu. Eini tilgangurinn með þessum setningum er að drepa samtalið áður en til þess kemur að þú þurfir að játa og horfast í augu við að þegar kemur að kynferðisofbeldi gætu þín óumdeildu forréttindi sem karlmanns verið einhver hluti af vandanum.

Ný regla: Ef þú segir „Karlmönnum er líka nauðgað“ vegna þess að þú berð hag karla sem hefur verið nauðgað raunverulega fyrir brjósti og vilt ræða hvað er hægt að gera í þeirra málum, þá skal ég hlusta á þig. En ef þú segir við mig „Karlmönnum er líka nauðgað“ vegna þess að þig langar að losna við þitt vandamál; ef femínistinn sem þú ert að tala við er að segja þér aðeins of óþægilegan sannleika um karla, karlmennsku og kynferðisofbeldi; ef þú ákveður að þú ætlir að nota þjáningar, skömm og sársauka karlkyns þolenda nauðgana sem litla skítuga trompið þitt til að drepa samræður við einhvern sem raunverulega tekur þessa hluti alvarlega, vinsamlegast dokaðu við og endurskoðaðu samtalstæknina þína. Eða jafnvel enn fremur; haltu fokking kjafti.

Tölur og myndir úr ársskýrslu Stígamóta, 2011 (pdf)

20 athugasemdir við “ÞEGAR FÓLK SEGIR „KARLMÖNNUM ER LÍKA NAUÐGAГ…

 1. Bakvísun: ÞEGAR FÓLK SEGIR „KARLMÖNNUM ER LÍKA NAUÐGAГ… | *knùz* « Hugmyndir og ferðasögur

 2. „ef þú ákveður að þú ætlir að nota þjáningar, skömm og sársauka karlkyns þolenda nauðgana sem litla skítuga trompið þitt til að drepa samræður við einhvern sem raunverulega tekur þessa hluti alvarlega, vinsamlegast dokaðu við og endurskoðaðu samtalstæknina þína. Eða jafnvel enn fremur; haltu fokking kjafti.“

  Heyr heyr!

 3. Mér finnst frekar illa farið með tölfræði í þessari grein. Það er samasemmerki dregið milli þess hlutfalls karlmanna sem leituðu sér hjálpar hjá Stígamótum árið 2011 og þess hlutfalls karlmanna sem í rauninni verða fyrir kynferðislegu ofbeldi. Í raun er orðum að því leitt að þetta hlutfall geti verið lægra en ekki hærra, þó ekki séu rök færð fyrir því.

  • „Það væri auðvelt að benda á að flestir þolendur eru konur og því sé eðlilegt að fókusera á þeirra upplifun. En alltof fáir átta sig á því að karlar eru allt að 11,5% af þolendum kynferðisglæpa á Íslandi. Það er mun hærra hlutfall en flestir halda.“

   Hvar í þessu er verið að gefa í skyn að hlutfall karlmanna sem verða fyrir kynferðisofbeldi sé í raun lægra en 11,5 prósentin?

   Og hvernig ætti að finna út öðruvísi hversu margir karlmenn verða fyrir kynferðisofbeldi? Mjög margir þeirra kæra ekki og leita ekki á Neyðarmóttökuna. Það er miklu erfiðara að finna út fjölda þeirra því að ofbeldið gegn þeim er faldara en gegn konum (þótt það sé líka falið). Þannig að ég sé bara ekkert að því að nota tölur Stígamóta sem útgangspunkt.

   • Það er hvergi gefið í skyn að hlutfallið sé í raun lægra, bara að það geti ekki verið hærra. Það er gert með því að segja að hlutfallið sé „allt að 11,5%“.

    Hvað varðar seinni málsgrein þína, Guðrún, þá er ég sammála þér. Þessi röksemdafærsla þín rennir jafnframt stoðum undir þá trú mína að hlutfall karlmanna sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi sé í raun hærra en þessar tölur frá Stígamótum sýna. Ég get þó ekki sannað að það sé raunin.

   • Dagur. Tölurnar geta verið hærri og þær geta verið þessar sem Tómas talar um. Við bara vitum það ekki. Þess vegna eru tölur frá Stígamótum fínar sem útgangspunktur.

    En svo vil ég líka segja að Tómas gerir hvergi lítið úr ofbeldi sem karlmenn verða fyrir. Hann talar einmitt um að það þurfi að ræða það. Vandamálið er bara hvernig tal um ofbeldi gegn karlmönnum er notað af sumum karlmönnum til að þagga niður í þeim sem tala um ofbeldi gegn konum.

   • Alveg sammála því. Samfélagslega er enn meiri skömm falin í því að vera karlmaður sem er nauðgað og því töluvert líklegra að þeir leiti sér ekki hjálpar.

 4. Ég velti fyrir mér,

  “Í nokkur fyrstu skiptin sem ég heyrði einhvern troða þessu að í samtali um kynferðisofbeldi fraus ég. Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti haldið samtalinu áfram, tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið án þess að jaðarsetja karlkyns þolendur kynferðisofbeldis.”

  Hvers vegna? Þegar málefni eru rædd er það gjarna þannig að umræðu efnið flöktir aðeins fram og til baka milli skildra efna… ekki satt? Þegar einhver skýtur því inní að körlum sé líka nauðgað væri held ég bara alveg sjálfsagt að taka það inní umræðuna… það er jú eitthvað sem gerist. Upplifun þeirra er oft á tíðum aðeins önnur en kvenna og það er tótalí þess virði að ræða. Það tekur ekkert frá gildi umræðunar um konur og kynferðisofbeldi þó að við tökum okkur stundarkorn til að tala um það… svo ef að umræðan um konur er ekki tæmd (sem er nokkuð ljóst hún er ekki) þá má bara skella sér aftur í það. Alveg sama samræðutækni og við notum fyrir önnur minna viðkvæm efni….. Ég tala – þú skýtur inní- við ræðum það- við höldum áfram að tala.

  Ef að fólk er að nota þessa línu til að drepa umræðu efni þá skal ég alveg vera sammála höfundi um að viðkomandi meigi aðeins fara að endurskoða sitt og halda jafnvel bara kjafti… En það er engin ástæða til að gera ráð fyrir því, held ég að minnsta kosti… infact þá held ég að ef að við gerum ráð fyrir að kommentið stafi af raunverulegum vilja til að bæta við umræðuna og eyðum smá púðri í að ræða það umræðuefni þá munu allir þeir sem að draga þetta fram til að þagga umræðu sjá stórkoslega eftir því.

  Að missta kosti finnst mér ekki að við eigum að setja þetta í flokk með setningum eins og „Konur í Sádí-Arabíu mega ekki einu sinni keyra bíl og hér situr þú og nöldrar um launamun?!“
  Það eru til þeir sem að hafa áhuga á að ræða þetta og finnst þetta vera málefni sem er þaggað og ekki nóg rætt í samfélaginu… endilega ekki vera partur af hópnum sem að veldur þeirri tilfinningu.

  • Ég er ekki alveg sammála þér. Mér finnst nefnilega karlmenn allt of oft vera að drepa umræðunni á dreif þegar þeir koma með komment um að karlmenn verði nú líka fyrir kynferðisofbeldi. Ég tek oft eftir því að umræða á sér stað um t.d heimilisofbeldi eða kynferðisofbeldi gegn konum og þá þarf alltaf einhvar karlmaðurinn að byrja að tala um að karlmenn verði nú fyrir ofbeldi líka. Hvernig væri að fókusinn gæti verið á konur for once? Ekki tók ég t.d eftir því að konur væru að tala svona þegar Thelma Ásdísar ræddi nýlega um ofbeldi sem karlmenn verða fyrir. Þá tóku konur undir það með henni að þetta væri hrikalegt og slæmt vandamál. Af hverju geta þá karlmenn ekki gert það sama þegar rætt er um ofbeldi sem konur verða fyrir?

   • Ég er sammála þér Guðrún, sérstaklega þegar kemur að samúð kvenna með karlkyns fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Ég vildi óska að fólk væri frekar að þrýsta á stjórnvöld til að skilgreina lagaramma kynferðisofbeldis þannig að karlkyns fórnarlömb gætu líka fengið þá aðstoð og úrlausn sem þeir þurfa (skammarlega var það ekki til staðar síðast þegar ég vissi) heldur en að vera í sífelldum baráttuham gegn femínistum, og talsfólki kynfrelsis kvenna. Afhverju í ósköpunum skýtur þessi orthodoxa upp kollinum aftur og aftur???

 5. Mig langar til að bæta einu efnisatriði við. Nauðgun karla eða karls á karli er yfirleitt ekki merki um samkynhneigð heldur aðeins ofbeldi. Það á að auðmýkja tiltekinn karl á sem rækilegastan hátt, og nauðgun (í endaþarm) er hámark auðmýkingar, sýna þeim nauðgaða vald nauðgarans, jafnvel að hann sé aðeins „jafnigildi konu“. Þetta er þekkt í styrjöldum, ekki síst fyrr á öldum.

  • Af hverju er svona mikið meira auðmjúkt að vera nauðgað í endaþarm af öðrum karli? Er það eitthvað meira auðmjúkt en að vera nauðgað í píku já eða endaþarm ef maður er kona? Ef já, þá er það svona frekar hómófóbískt. Hvað er svona niðurlægjandi við að vera karl og vera riðið í rassinn?

   • Hella:
    Það þarf nú ekki að vera að Gísli sé þarna að lýsa eigin skoðun á endaþarmsmökum en þessi hugmynd er mjög ríkjandi í okkar menningu, sbr. orðatiltæki á borð við að „taka einhvern í rassinn“, „eða vera tekin/n aftan frá“.

    Að sama skapi þykir það að sjúga typpi vera merki um undirskipun („suck my dick“ er móðgun, „that sucks“ er áfellisdómur), að minnsta kosti í orðræðunni, þó sjálfsagt séu munnmök nokkuð sem flest fólk nú til dags stundar fyrr eða síðar án þess að stigveldi komi við sögu.

    Sjálf tek ég svona orðnotkun sem persónulegri móðgun en það breytir því ekki að þessar hugmyndir eru ríkjandi í samfélaginu, og já, þær eru bæði hómófóbískar og sexískar.

 6. Það fólk sem kommentar með slíkum hætti: ,,en karlmönnum er líka…“ eða ,,konur gera líka…“ eins og nefnt er dæmi um í greininni, liggur augljóslega eitthvað á hjarta. Það er yfirleitt að kommenta á grein þar sem verið er að tala í hreinskilni um t.d. nauðganir, sifjaspell, áreitni o.s.frv. Og kanski hefur það einmitt mjög persónulegar ástæður fyrir skoðunum sínum.

  En hvers vegna ekki að nýta ástríðuna sem það hefur fyrir að koma málefnum á framfæri og skrifar grein um það sem því liggur á hjarta, og með því skapa umræðu um akkurat þetta sem þeir vilja tala um? Það er augljóslega í lagi í samfélaginu okkar núna að létta af sér, við sjáum ótal dæmi um að fólk er að tjá sig á opinberum vettvangi um erfitt, persónulegt mál og það er að varpa skömminni af sjálfum sér þangað sem skömmin á heima, hvort sem um er að ræða kynferðisofbeldi eða einelti.
  Afhverju geta þessir kommentarar sem hafa þessa ástríðu, ekki skapað sér vettvang til að ræða það sem þeim liggur á hjarta (t.d. skrifa á knuz.is) í stað þess að afvegaleiða umræðu um grein sem fjallar kanski um eitthvað allt annað en það sem það kommentar um?

  Við þurfum að fjalla um allt milli himins og jarðar og ég fagna öllum sem tjá sig af hreinskilni til að bæta heiminn (þó verið sé að fjalla um erfið mál) en upphrópanir og afvegaleiðing í kommentakerfum er ekki nytsamlegt í opinberri umræðu. Það leiðir umræðuna mjög oft í einhvern fúlan drullupytt þar sem engum langar að vera, nema þeim langi að upplifa gremju. Og nema þeim langi að drepa samræðuna eins og Thomas talar um í lok greinarinnar: ,,En ef þú segir við mig „Karlmönnum er líka nauðgað“ vegna þess að þig langar að losna við þitt vandamál; ef femínistinn sem þú ert að tala við er að segja þér aðeins of óþægilegan sannleika um karla, karlmennsku og kynferðisofbeldi; ef þú ákveður að þú ætlir að nota þjáningar, skömm og sársauka karlkyns þolenda nauðgana sem litla skítuga trompið þitt til að drepa samræður við einhvern sem raunverulega tekur þessa hluti alvarlega, vinsamlegast dokaðu við og endurskoðaðu samtalstæknina þína. Eða jafnvel enn fremur; haltu fokking kjafti.“

  Semsagt, allir ættu að tjá sig um meiningar sínar, það er bara spurning hvernig þú kemur því frá þér.

 7. „En ef þú segir við mig „Karlmönnum er líka nauðgað“ vegna þess að þig langar að losna við þitt vandamál; ef femínistinn sem þú ert að tala við er að segja þér aðeins of óþægilegan sannleika um karla, karlmennsku og kynferðisofbeld“

  Það eru svona setningar sem gerir það að verkum að bæði konum og körlum utan þessarar blessaðrar hreyfingar fá þá hugmyndi í kollinn að það sé einhver verulegur biturleiki eða eitthvað sem jaðrar við hatur á karlmönnum sem býr að baki hlutunum.

  Að hvaða leiti tengist ofbeldisverknaður „nauðgun“ körlum í heild sinni eða karlmennsku. Að hvaða leiti er feministinn að segja okkur körlunum óþægilegan sannleika um okkur.

  „að þú þurfir að játa og horfast í augu við að þegar kemur að kynferðisofbeldi gætu þín óumdeildu forréttindi sem karlmanns verið einhver hluti af vandanum.“

  Vá, ég ætlaði að svara þessu, en svarið yrði of langt og færi of vítt….
  Meeeeeeeeeeehhhh! Verður að vera svarið við þessu. (lesist ekki sem jarm… heldur MEH!)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.