Um meint hlutleysi laganna: Ósamræmi í lagaákvæðum kynferðisbrota

Höfundur: Anna Bentína Hermansen.

Lagaákvæði um kynferðisbrot eru í XXII. kafla almennra hegningarlaga. Ákvæðunum má skipta í fjóra flokka í samræmi við mismunandi hagsmuni þeirra sem þeim er ætlað að vernda. Hér ætla ég að fjalla um tvo flokka:

1. Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks (194.-199. gr.)

2. Kynferðisbrot gegn börnum (200.-202.gr.)

Hinir tveir flokkarnir eru eftirfarandi:

3. Vændi (206. gr.)

4. Brot gegn blygðunarsemi og klám (209. gr. og 210.gr.)

Kynferðisbrotalögin eiga það sameiginlegt að varða kynferðislíf fólks á einhvern hátt og veita athafnafrelsi á því sviði vernd. Sumum ákvæðanna er ætlað að vernda kynfrelsi fólks almennt. Öðrum er ætlað að vernda kynlíf þeirra sem eru minni máttar á einhvern hátt hvort sem það er vegna æsku, andlegs sjúkleika eða að viðkomandi þarfnist sérstakrar verndar[1].

Eftir lagabreytingar á ákvæðum kynferðisbrota telst það til refsihækkunar:

 a. ef þolandi er barn yngra en 18 ára,

b. ef ofbeldi geranda er stórfellt,

 c. ef brotið er framið á sérstaklega sársaukafullan eða meiðandi hátt.

Ragnheiður Bragadóttir prófessor og höfundur frumvarpsins bendir á að rannsóknir á dómum Hæstaréttar á árunum 1977-1996 sýni að ekki hafi verið nægilega tillit tekið til ungs aldurs þolenda við ákvörðun refsingar. Hún bendir á að ungir þolendur hafi lítinn líkamlegan eða sálfræðilegan styrk til að verjast nauðgunum. Markmiðið með þessum lið ákvæðisins (195. gr. hgl.) er að leggja áherslu á hversu alvarleg og ámælisverð kynferðisbrot gegn börnum eru. Öll ákvæðin í 194.-199. gr. hegningarlaga ná til brota gegn börnum jafnt sem fullorðnum. Slíkt heyrir þó til undantekninga því brot gegn börnum eru allajafna heimfærð undir 200.-202. gr. hegningarlaganna. Þau ákvæði voru sett með það að markmiði að vernda sérstaklega börn og unglinga gegn kynferðislegu ofbeldi og áreiti. Við þeim er hins vegar, í sumum tilfellum, vægari refsing og erfitt að sjá hvernig það verndi börn frekar gegn kynferðisofbeldi. Einnig virðist enn felast í breytingunum, sem að ýmsu leyti eru til góðs, ákveðið misræmi.

Kynmök við barn eru í eðli sínu gróft ofbeldi gagnvart því og má því ekki undir nokkrum kringumstæðum eiga sér stað. Ákveðið aldurstakmark er sett í lagaákvæðin til þess að koma í veg fyrir slíkt ofbeldi og kynferðismök við börn undir tilteknum aldri eru fortakslaust bönnuð.

200. gr. [Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn sitt eða annan niðja skal sæta fangelsi allt að [8 árum] og allt að [12 ára] fangelsi sé barnið yngra en 16 ára. Önnur kynferðisleg áreitni manns gagnvart barni sínu eða öðrum niðja en sú er greinir í 1. mgr. varðar allt að 4 ára fangelsi og allt að 6 ára fangelsi sé barnið yngra en 16 ára.

Athyglisvert er að refsimörkin eru mun lægri þegar barni er nauðgað en þegar fullorðinn einstaklingur á í hlut. Þegar fullorðinni manneskju er nauðgað skal gerandi sæta fangelsisvist eigi skemur en eitt ár og allt að sextán árum eins og segir í 194. gr. hgl. Ef ákvæðin eru sett til að vernda börn sérstaklega er óskiljanlegt hvers vegna slíks misræmis gætir, þar sem munar fjórum til átta árum á hámarksrefsingunni. Eini munurinn hér er að engin verknaðarlýsing er í þessu ákvæði eins og er í 194. gr. hgl. Hér er með öðrum orðum ekki gerð krafa um að beitt sé ofbeldi eða hótunum um slíkt. Ávallt er saknæmt að hafa samræði við börn, sama hvaða aðferð er notuð. Lögin kveða á um að 194. gr. eigi líka við um börn, en ákvæðin þar eiga hins vegar aðeins við ef ofbeldi er beitt.

Málið verður enn athyglisverðara ef skoðuð er 202. gr. hgl., en hún  á við þegar ekki er um skyldleika að ræða. Þar segir:

[Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en [15 ára], skal sæta fangelsi [ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum]. [Lækka má refsingu eða láta hana falla niður, ef gerandi og þolandi eru á svipuðum aldri og þroskastigi]. Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að [6 árum].

Svo virðist sem gerandi eigi yfir höfði sér þyngri refsingu ef hann misnotar barn sem hann þekkir ekki, heldur en sitt eigið barn. Þetta misræmi er algjörlega óskiljanlegt. Ef maður nauðgar ókunnugu barni eru refsimörkin svipuð og sé um nauðgun að ræða, að lágmarki eitt ár og allt að 16 árum. Ef hinn sami nauðgar sínu eigin barni munar fjórum til átta árum á hámarksrefsingunni og engin lágmarksrefsing er við því broti. Sameiginlegt báðum ákvæðum eru hins vegar þeir dómar sem hafa verið kveðnir upp. Þeir nýta ekki nema fjórðung af hámarksrefsingu ákvæðanna, þar sem refsingin hefur allajafna verið á bilinu eitt til þrjú ár.

Ég hef sjálf ekki mikla trú á refsingum, hins vegar gefur refsirammi ákveðnar vísbendingar um alvarleika brotsins. Ofangreint misræmi í lögunum sýnir að jafnræði laganna er ábótavant. Hvers vegna þykir það minna mál ef barn verður fyrir ofbeldi frá skyldum aðila? Er ofbeldið minna og hver metur það? Eru lögin eins hlutlaus og við viljum að þau séu?

Hér á eftir fara hæstaréttadómar 1992-2009  þar sem sakfellt er fyrir nauðgun sem framin er með ofbeldi eða hótun um ofbeldi og brotaþoli er yngri en 18 ára.

1992:97 16 ára stúlka
1993:198 14 ára stúlka
193:691 13 ára stúlka
1994:230 14 ára stúlka
1994:1874 13 ára stúlka
1995:3089 16 ára stúlka
1997:3173 16 ára stúlka
1999:3459 16 ára stúlka
2000:1722 17 ára stúlka
2001:4518 17 ára stúlka
2003:379 17 ára stúlka
13.3 2003 17 ára stúlka
2003;3386 16 ára stúlka
8.3.2007 15 ára stúlka
24.5.2007 13 ára stúlka
31.5.2007 14 ára stúlka
29.5.2008 16 ára stúlka
11.12.2008 14 ára stúlka
18.6.2009 16 ára stúlka[2]

 

Með kveðju, Anna Bentína kynjafræðingur

Anna Bentína hefur áður fjallað um lagaramma kynferðisbrotamála á Knuz.is, sjá m.a. greinina Líf kvenna – lög karla.

 


[1] Ragnheiður Bragadóttir 2006

[2] Ragnheiður Bragadóttir (2011). Hinn launhelgi glæpur. Kynferðisbrot gegn börnum. Háskólaútgáfan. Reykjavík.

 

2 athugasemdir við “Um meint hlutleysi laganna: Ósamræmi í lagaákvæðum kynferðisbrota

  1. Er að mjög mörgu leyti sammála þér Anna Bentína og finnst innleggin þín hér vera rosalega mikilvæg og þörf – og ég þakka þér fyrir það.
    Ég vil hinsvegar benda þér á Hæstaréttardóm sem gekk 19. janúar 2012 í máli nr. 562/2011 en þar reyndi á alvarleg kynferðisbrot brot gegn 3 stúlkum. Dómurinn er sérstakur að því leyti að þarna er því markmiði sem að var stefnt með breytingunni á kynferðisbrotakaflanum á einhvern hátt náð – þ.e.a.s. ef það er gríðalegur munur, aldurs/þroska og verið er að notfæra sér yfirburðastöðu á milli þolanda og geranda – t.d. fullorðinn einstaklingur að misnota barn er það ofbeldi í eðli sínu. Þarna var beitt 1.mgr. 194.gr. hgl. ásamt 1. og 2.mgr. 201. gr og 1. og 2. mgr. 202. gr. en ekki bara 201/202.gr. eins og áður hefur var gert. Var þetta þó ekki fyrsti dómurinn um kynferðisafbrot gegn börnum sem dæmdur var eftir nauðgunarákvæðinu í 194.gr. eftir lagabreytinguna 2007 – en vonandi er þessi dómvenja komin til að vera.

Færðu inn athugasemd við Anna Bentína Hætta við svar

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.