Þetta sjúka samfélag

Hér birtist enn einn pistill frá nemanda í kynjafræði við Borgarholtsskóla, en í því námskeiði velta nemendur fyrir sér jafnrétti kynjanna í ólíkum myndum með aðstoð Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur kennara. Við þökkum krökkunum í Borgó og Hönnu Björg kennara kærlega fyrir pistlana. Það er svo gott og gleðilegt að sjá ungt fólk gera frábæra hluti.

–Ritstjórn

Þetta sjúka samfélag

 

Klám hefur verið áberandi undanfarið og veltir sá iðnaður mjög miklum peningum. Flest höfum við heyrt eldra fólk tala um okkur ungmennin sem „hina eiginlegu klámkynslóð“. En hvað einkennir þessa svokölluðu klámkynslóð, hver er menningarlegur bakgrunnur hennar?

Britney Spears – myndin kemur frá topnews.in

Fræðimenn miða klámkynslóðina ekki við neinn sérstakan aldur en aðallega virðist átt við ungt fólk í blóma lífsins og sem elst upp við mikið klám í umhverfi sínu. Klámið hafi síðan þau áhrif að ungmennin byrji að tileinka sér boðskap klámsins og þau viðhorf og lífsgildi sem í því séu falin. Síðustu árin hefur klámmyndaiðnaðurinn farið að færa sig mikið af jaðrinum og inn í líf fólks sem venjulegt daglegt brauð. Við sjáum klám allsstaðar! Í gegnum auglýsingar, sjónvarpsefni, internetið, tónlistarmyndbönd og fleira. Klámmyndaleikkonur leika mjög oft í tónlistarmyndböndum fyrir tónlistarmenn, þar má nefna t.d. myndbönd Britney Spears. Klámmyndaleikstjórar eru þá oft látnir leikstýra þessum tónlistarmyndböndum sem innihalda mikið af fáklæddu fólki. Strákar sitja oft berir að ofan og að sjálfsögðu hnyklandi upphandleggsvöðvann með brjóstaskorumiklar píur klofvega ofan á sér í nærbuxum og brjóstahaldara einum klæða. Slæmu afleiðingar þessa eru þær að ungt fólk er farið að tileinka sér klæðaburð, ímyndir og tákn sem einkennast af klámi.

Þessi þróun er mjög slæm og hefur valdið yfirvöldum áhyggjum og árið 2005 var gerð könnun á Norðurlöndunum á klámnotkun ungs fólks. Hér á landi svöruðu 323 unglingar á aldrinum 14-18 ára spurningalista. Þá kom í ljós að 96% stráka og 89% stelpna höfðu séð klám. Unglingarnir voru í kringum 11-12 ára þegar þeir sáu klám í fyrsta skipti en u.þ.b. 60% svarenda höfðu séð klámið gegn eigin vilja. Oftast höfðu þeir séð klámið á netinu, í sjónvarpi eða í klámblöðum. Það sem þykir hinsvegar mjög athyglisvert er að ungmennin töldu sig líka hafa séð klám í allskonar dagblöðum og öðrum óaldurstakmörkuðum tímaritum.

Flestir vita að strákar horfa mjög mikið og mun oftar á klám heldur en stelpur. Í könnuninni kom í ljós að 1 af hverjum 5 strákum sér klám daglega en aðeins 2% af stelpum sögðust sjá klám það oft.

Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessari klámvæðingu. Börn eru fljótlega meðvituð um líkamsstærð sína og annarra. Þau tileinka sér viðhorf og kröfur samfélagsins sem gerir það að verkum að feit börn eru síður valin sem leikfélagar. Árið 2000 var gerð ítarleg rannsókn hvað þetta varðar af þeim Davison, Markey og Birch. Þar kom fram að 20% fimm ára stúlkna voru óánægðar með líkamsvöxt sinn og höfðu áhyggjur af því að vera of feitar.

Baby Bratz – fyrir þær yngri. Mynd fengin að láni hjá hannahmoonagle.wordpress.com

4 ára litlar stelpur geta nú fengið PINK eða Hello Kitty g-strengi í Hagkaupum. [Innskot ritstjórnar, 29. nóvember: Fulltrúi Hagkaupa hafði samband og Hagkaup kannast ekki við að vera að selja G strengi frá Hello Kitty eða Pink á 4 ára börn.] Þær geta nú leikið sér með Bratz sem eru litlar plastdúkkur sem oft eru klæddar upp eins og vændiskonur, í mini-pilsi og naflastuttum bol. Ekki nóg með það heldur er stundum hægt að ýta á þær til þess að þær gefi frá sér flisshljóð og setningar eins og „Hehehe, Oh! It tickles!“.  Þetta finnst mér hálfgerð skömm. Af hverju getur lítil plastdúkka fyrir börn ekki bara verið í venjulegum klæðnaði? Þetta elur  á klámímyndinni hjá mjög ungum stelpum og þess vegna erum við byrjuð að heyra stelpur á leikskólaaldri tala um hversu feitar og ljótar þær eru, sem er svakalega sorglegt þar sem þessi aldurshópur ætti allra síst að hafa áhyggjur af útliti.

Það kom í ljós að mikill munur er á viðhorfi milli stráka og stelpna um klám. Flestum stelpum fannst klám ógeðfellt og leiða til nauðgana á meðan strákum fannst ekkert athugavert við það og sögðu að það gæfi þeim góðar upplýsingar um kynlíf. Strákar þóttu líka líklegri til þess að hafa prófað eitthvað sem þeir höfðu séð í klámmyndum, en „gonzo“ klámmyndir eru allar klipptar, framleiddar og lagaðar til af fagmönnum klámiðnaðarins og draga upp mjög óraunsæa mynd af kynlífi. Klámið hafði mikil áhrif á sjálfsmynd stelpna þar sem konur í klámmyndum eru oftar en ekki með mjög stór brjóst og grannar. Stelpurnar sögðu að klámið fyllti þær ótta við að standa ekki undir þeim væntingum og kröfum sem gerðar eru til þeirra í rúminu. En það er ekki hægt að vera góður í rúminu. Það er aðeins hægt að kunna vel á manneskjuna sem þú ert að stunda kynlíf með, með því að ræða saman opinskátt um ykkar kynlíf, hvað ykkur finnst gott og hvað ekki.

Með kláminu kom þessi óraunverulega mynd af stelpum þar sem þær eru oft látnar líta út fyrir að vera mun yngri en þær eru. Þá eru 18 ára löglegar stelpur í klámiðnaði settar í köflótt skólapils og uppháa sokka og oft eru þær með tígó, slaufu í hárinu eða annarskonar barnalegar hárgreiðslur. Strákar eru margir orðnir það heilaþvegnir af klámi að þeir þurfa að horfa á klám á meðan þeir stunda samfarir – sem ætti að teljast frekar móðgandi í garð stelpnanna.

Þetta er ekki poppstjarna heldur … fótboltastjarna! Fengið að láni hjá lepetitjournaliste.wordpress.com

Það er óhætt að fullyrða það að hálfnaktar poppstjörnur eru að kenna komandi kynslóðum hvernig þær eigi að hegða sér, og láta stelpur halda að hegðun og tágrannt útlit poppstjarnanna séu til fyrirmyndar. Það er einnig mjög umhugsunarvert og skrýtið að barnafataverslanir og aðrar verslanir sem selja föt á börn og unglinga, flytja inn, selja og auglýsa föt og fylgihluti sem ekki er mjög ósvipað þeim fatnaði sem poppstjörnurnar klæðast. Þar með leggja verslanirnar sitt af mörkum til þess að rækta og styrkja þær hugmyndir með stelpum að djörf framkoma og klæðnaður átrúnaðargoðanna í tónlistarmyndböndunum sé eðlilegur og að svona eigi þær að klæða sig.

Það er því ekki mjög undarlegt að við unga fólkið séum skilgreind sem klámkynslóðin. Við unglingarnir verðum að gera okkur grein fyrir því að það sem við sjáum í fjölmiðlum og í klámmyndum er ósjaldan mjög röng mynd og er ekkert í samræmi við það kynlíf sem raunveruleikinn býður upp á.

 

Úlfar Viktor Björnsson KYN 103 í Borgarholtsskóla

6 athugasemdir við “Þetta sjúka samfélag

 1. Það er undarlegt að beat-kynslóðin hafi ekki enn fengið þetta heiti: Klámkynslóðin. Meginviðhorf þeirrar „kynslóðar“ eða þess hóps sem kenndi sig við beat, var að hafna viðteknum venjum og lífsgildum samfélagsins. Orð eins og „lífsflótti, eiturlyfjaneysla, sjálfsupphafning, frjálst kynlíf og rómantík“, hafa verið notuð til að lýsa stefnunni. Má segja að hún hafi snúist jafnt um lífsstíl og list; uppreisn gegn meðalmennsku. Blómabörn eru þau kölluð.

  • Þú segir nokkuð. Að mínu mati er frjálst kynlíf og rómantík svona u.þ.b. eins fjarri nútíma-klámi og hægt er að vera, þannig að mér sýnist það bara frekar rökrétt að blómabörnin hafi aldrei verið kölluð klámkynslóð.

 2. reyndar áhugavert að skoða þá kynslóð og hippana í ljósi markaðsvæðingarinnar, sem hefur sennilega að einhverju leyti knúið þá „byltingu“ – eins og oft vill verða. Hitt er ljóst að sú kynslóð lagði áherslu á að rísa gegn ríkjandi gildum og þar sem „klámkynslóðin“ einkennist fyrst og fremst af því að sigla með straumnum og samþykkja það sem dægurmenningin heldur að unga fólkinu finnst mér samanburðurinn meira en hæpinn. Og tek að öðru leyti undir það sem Herdís sagði.

 3. Úlfar: Þú átt alla mína virðingu félagi. Það þarf hugrekki til að senda svona frá sér.

  Þótt að ég hefði frekar átt von á “gagnrýni” frá karlkyns samnemendum þínum frekar en fimmtugum framhaldsskólakennara.

  kveðja
  Einar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.