Til varnar feminískum framhaldsskólanemum

Höfundur: Thomas Brorsen Smidt. 

Þýðing: Halla Sverrisdóttir, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir og Ingólfur Gíslason.

Í gær bloggaði Harpa Hreinsdóttir um grein sem birtist á Knúz undir yfirskriftinni „Þetta sjúka samfélag.“ Greinin er skrifuð af Úlfari Viktori Björnssyni, nemanda í Borgarholtsskóla, undir handleiðslu kynjafræðikennarans hans, Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur.

Í bloggfærslunni bendir Harpa á að grein Úlfars er vísindalega gölluð og að það sé á ábyrgð Hönnu Bjargar að fræða nemendur sína um vísindalega ásættanleg vinnubrögð áður en til opinberrar birtingar kemur. Þetta virðist hafa hleypt af stað skítastormi á netinu þar sem grein Úlfars er tætt í sundur eins og nýdautt dýr af svöngum hrægömmum.

Byrjum á byrjuninni. Persónulega myndi ég aldrei hvetja framhaldsskólanema til að birta opinberlega efni sem gefur sig út fyrir að vera vísindalega ásættanlegt. Ég myndi ekki vilja setja nemanda minn í þá stöðu að þurfa að svara fyrir rýni sem gerir ráð fyrir allt annarskonar vinnubrögðum en gerð er krafa um að nemendur hafi tileinkað sér á framhaldsskólastigi.

Að því sögðu; grein Úlfars er skrifuð af ástríðu og vel rökstudd miðað við menntunarstig höfundar. Og hér eru skilaboð til Úlfars frá manni sem hefur staðið í þessu aðeins lengur en hann: þrátt fyrir hvað Harpa eða hver annar hefur að segja, þá les ég úr greininni þinni að þú hefur hugrekki til gagnrýninnar hugsunar. Að taka slaginn við það sem flestir forréttindastrákarnir í kringum þig taka sem sjálfsögðum hlut er brjálæðislega hugrakkt og að leggja í þetta er einkenni á alvöru hugsuði. Þú ert í menntó og það er að sjálfsögðu margt sem þú átt ólært um skriftir og gagnrýnið mat á gögnum. En þú ert í framhaldsskóla. Það er ætlast til þess að þú finnir heimildir á Vísindavefnum og notir þær; sem og þú gerðir. Það er ekki gerð krafa um að þú metir þekkingarfræði og aðferðafræði á þessu stigi. Og ennfremur; þú hafðir hugrekki til að skrifa þennan texta og meira að segja birta hann opinberlega. Þegar ég var á þínum aldri var ég enn staurblindur á mín eigin forréttindi. Ég var ennþá að fróa mér yfir ógeðslegustu tegundum kvenniðrandi kláms, enn að segja karlrembubrandara og hefði verið skítlogandihræddur við að birta fyrstu tilraun mína til akademískra skrifa á netinu. Þú ert ótrúlega hugrakkur. Ekki hætta að gera það sem þú hefur verið að gera.

Við alla sem hafa tekið þátt í þessum netofsóknum, þar með talinn andfeminíska skarann sem er í þessum töluðum orðum að froðufella og míga á sig af kæti eins og ofvirkir hundar á Facebook, vil ég segja: þegar þið lásuð grein Úlfars, hvaða hluta af fyrirvaranum „pistill frá nemanda í kynjafræði við Borgarholtsskóla“ áttuð þið erfitt með að skilja? Ætlist þið í alvöru til þess að frumraun menntaskólanema við ritun greinar á knúz.is standist kröfur ritrýndra fræðirita? Hvað fáið þið út úr því að krukka í og tæta sundur „vísindaleg vinnubrögð“ framhaldsskólanema? Fyllist þið sjálfumgleði? Finnst ykkur þið hafa réttlætt heimsmyndina ykkar? Líður ykkur svolítið vel með þetta?

Sannleikurinn er sá að þetta hefur ekkert að gera með það hvort grein Úlfars standist vísindalega mælikvarða. Auðvitað gerir hún það ekki, hann er í framhaldsskóla, og sum okkar hafa vit á að taka það með í reikninginn þegar við lesum greinina. Þetta snýst um það að allstórum og mjög bitrum hluta Íslendinga finnst niðurstöður Úlfars vera árás á sig og Úlfar, verandi framhaldsskólanemi, er auðvelt skotmark. Ég sé ekki fyrir mér að þetta fólk eyði dýrmætum tíma sínum í að vega og meta rannsóknir Ariel Levy, Pamelu Paul, Carol Platt Liebau, Meenakshi Gigi Durham, Carmine Sarracino, Kevin M. Scott eða Tanith Carey, sem mynda eitt örlítið brot af þeim hópi félagsvísindamanna sem komast í meginatriðum að svipuðum niðurstöðum og Úlfar. Nei, þið ráðist á Úlfar vegna þess að gallar á „vísindalegri aðferðafræði“ framhaldsskólanema eru ykkur kærkomið tækifæri til að njóta þess í smástund að hugsa: „sko: allt sem þessir heimsku femínistar segja er kjaftæði.“ En vitiði hvað? Það bíður ykkar heill heimur af fræðilegum ritrýndum megindlegum og eigindlegum feminískum rannsóknum sem bíða þess eins að þið áttið ykkur á að að heimurinn er ekki eins dásamlega svarthvítur og þið viljið halda.

Það sem ég er að segja er þetta: hættið að pönkast á Úlfari og finnið ykkur fórnarlamb sem er nær ykkur í aldri.

6 athugasemdir við “Til varnar feminískum framhaldsskólanemum

 1. Takk Thomas. Ég er búin að vera hissa á hversu fólk getur lagst lágt. Úlfar er unglingur og skrifar þessa grein af innsæi og ástríðu. Hann styður við heimildir sem eru viðurkenndar á framhaldsskólastigi og vísar í rannsókn á Vísindavefnum sem gerð er af dr. í fjölmiðlafræði. Það er hins vegar ráðist á hann og kynjafræðikennslu í framhaldsskólum.

  Smekklegheitin og taktleysið í vinnubrögðum þeirra sem finna femínisma og kynjafræði allt til foráttu, náði eiginlega hámarki í dag.

 2. Úlfar: Þú átt alla mína virðingu félagi. Það þarf hugrekki til að senda svona frá sér.

  Þótt að ég hefði frekar átt von á „gagnrýni“ frá karlkyns samnemendum þínum frekar en fimmtugum framhaldsskólakennara… en þetta er svona…

  kveðja
  Einar
  32 ára femínisti.

 3. Og hvar voru sömu áhugamenn um vísindilegar aðferðir þegar kunnur háskólamenntaður fjarþjálfari fullyrti í opnuviðtali við vinsælt unmennablað, að áhrif kláms og tölvuleikja væri ómögulegt í ljósi þess að ungt fólki væri jú með heila? Hvað varð þá um heimtingu á nákvæmri gagnarýni og vísindalegri greiningu?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.