Kynbundið ofbeldi og „fallega gríman“

Höfundar: Sigríður Guðmarsdóttir og óþekktur höfundur

Kynbundið ofbeldi er eitt af stærstu félagslegu meinum nútímans og beinist að tilteknum hópum fólks vegna kynferðis þeirra. Konur og stúlkur verða gjarnan fyrir ofbeldi, ofbeldi sem beinist að kynferði þeirra sérstaklega vegna undirskipunar kvenna í samfélaginu. Einnig má færa rök fyrir því að ofbeldi gegn þeim sem passa illa inn í hefðbundin kynhlutverk geti talist kynbundið.  Barátta og rannsóknir á kynbundnu ofbeldi verður að skoðast sem liður í andspyrnunni gegn ofbeldi í öllum þess birtingarmyndum. Barátta gegn kynbundnu ofbeldi myndar þannig hliðstæðu við fleiri birtingarmyndir kerfislægs ofbeldis t.d. vegna kynþáttahyggju, aldurshroka, stéttaskiptingar, gagnhneigðarhroka, þjóðernisrembings og fleiri þátta.

Sameinuðu Þjóðirnar hafa lagt mikla áherslu á að útrýma ofbeldi gegn konum, m.a. með sérstakri yfirlýsingu sem nálgast má hér. Nú stendur yfir 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi á alþjóðlega vísu. Hér á landi eru það Mannréttindaskrifstofa Íslands, UN Women, Jafnréttishús, Rauði krossinn, Kvennaathvarfið, Stígamót og fleiri samtök sem standa að átakinu og hefur því verið fylgt fram með fjölmörgum uppákomum undanfarna daga undir kjörorðinu Heimilisfriður-Heimsfriður. Átakið á sér síðu á Facebook sem öll þau vilja vinna gegn kynbundnu ofbeldi eru hvött til að láta sér líka við, sjá hér. Sem dæmi um viðburði á vegum átaksins á næstunni er aðventukvölddagskrá í Guðríðarkirkju næstkomandi miðvikudag 5. des kl. 20, þar sem rætt verður um börn og ofbeldi og fólki gefst kostur á að eiga uppbyggilega stund við kertaljós.

Kynbundið ofbeldi er vá sem ógnar friði í heiminum, bæði í hinu persónulega og opinbera rými. Kynbundið ofbeldi er heilsufarslegt og félagslegt vandamál, vandamál sem grefur undan friði og öryggi í samfélaginu. Kynbundið ofbeldi skilur eftir sig brotin heimili, þolendur með hræðilegar minningar, barðar konur, konur sem verða fyrir nauðgun, fórnarlömb mansals, nauðungarhjónabönd, meðgöngur án vilja móður, stríðsnauðganir, vansæl börn, karlmenn og konur sem eru föst í vítahring ofbeldis sem rekja má til undirskipunar. Og þessum aðstæðum er hægt að breyta.

Um daginn barst Knúzinu aðsend grein þar sem ung, íslensk kona lýsir kynbundnu ofbeldi sem hún varð fyrir og braust undan; ljótt ofbeldi sem var falið á bak við „fallega grímu“, eins og höfundurinn segir. Saga greinarhöfundar er ekki aðeins saga af hinu ljóta. Í henni felst einnig von og vissa um það að hægt sé að brjótast úr viðjum kynbundins ofbeldis og stuðla að friði og öryggi í heimi sem og á heimili. Frásögn konunnar birtist hér fyrir neðan og Knúzið þakkar henni fyrir að deila með okkur hugrekki sínu og styrk.

„Kynbundið ofbeldi finnst víða á íslenskum heimilum þó að við viljum ekki trúa því. Þetta ofbeldi hefur margar birtingarmyndir eins og t.d. líkamsmeiðingar, kynferðislegt ofbeldi, andlegt ofbeldi, stjórnun og yfirráð yfir brotaþolanum. Það getur falist í því að setið um brotaþolann eða að gerandi stjórni fjárhag brotaþolans. Vímuefnaneysla og geðsjúkdómar hjá gerandanum geta haft áhrif á það hvort ofbeldi eigi sér stað eða ekki.

Sjálf lenti ég í kynbundnu ofbeldi og kynferðislegu ofbeldi af hálfu fyrrverandi kærasta sem ég var með í nánast þrjú ár. Gerandinn minn er með geðsjúkdóm sem kallast manic depression eða tvískautaþunglyndi. Það lýsir sér þannig að hann er annaðhvort ofboðslega glaður og allt er svo frábært eða langt niðri í þunglyndi og fullur af reiði; enginn er millivegurinn þar. Einnig var hann vímuefnaneytandi og vímuefnasali en það var eitthvað sem hann náði að fela fyrir mér allan þennan tíma. Nánast það eina sem ég man eftir á þessum þrem árum er að allt sem ég gerði snerist um gerandann.  Ég hugsaði um hvort það sem ég klæddist væri nógu flott fyrir hann og ákvað hvað ég ætti að borða útfrá því að vera nógu grönn fyrir hann.  Í framhaldinu þróaði ég með mér átröskunarsjúkdóminn búlimíu. Hann stjórnaði því líka hverjir mættu vera vinir mínir. Honum líkaði illa við marga vini mína og ég sleit allavega tveimur vinasamböndum af þeim ástæðum.

Gríma – mynd fengin að láni hjá assemblingself.blogspot.com

Við rifumst á hverjum degi. Stundum ásakaði hann mig um að halda framhjá og setti út á það sem ég sagði. Allt var mér að kenna. Gerandi minn hélt margoft framhjá mér með mörgum konum. Samt var hann alltaf að ásaka mig um að halda framhjá honum sem ég gerði aldrei og hefði aldrei dottið í hug að gera. Ég man eftir að hafa verið að vinna með skólafélaga að verkefni að kvöldi og að morgni skoðaði gerandinn minn samtalið. Hann hleypur upp tröppurnar og öskrar á mig hver þetta sé og hvað ég hafi verið að gera með honum og um leið grípur hann mig hálstaki og heldur mér upp að vegg þannig að fæturnir mínir ná ekki niður í gólf. Ég man hvað ég grét og bað hann um að sleppa mér en hann hélt svo aldeilis ekki. Hann henti mér fram á gang og gerðist líklegur til að draga mig niður stigann á hárinu. Móðir mín kom heim og hann hætti strax og varð allt annar maður á augabragði. Oft hugsa ég hvað hefði gerst ef mamma hefði ekki komið heim á þessu andartaki.

Málið með hann var að hann kom alltaf svo ofboðslega vel fram við alla, svo að enginn vildi trúa þessu uppá hann. Hann var með fallega grímu yfir ljótu sálinni eins og ég sá þetta fyrir mér. Þegar við stunduðum kynlíf var það ofboðslega sjaldan með mínum vilja. Honum var alveg sama þótt að ég ældi eða mér blæddi. Hann tók einnig upp á því að bíta eins fast og hann gat í rasskinnarnar mínar eða á innanvert lærið eftir kynlíf. Stundum sagði hann mér að standa naktri á miðju gólfinu. Þá hljóp hann að mér með hnefann á lofti og kýldi mig í magann og brjóstin. Eftir það henti hann mér niður á gólf og hélt mér á meðan hann beit mig alla, kýldi mig í kynfærin og hrækti yfir andlitið á mér. Þetta gerðist oftar en einusinni og oftar en tíu sinnum. Hann tók upp á fullt af öðrum hlutum sem eru of grófir til að skrifa niður  hér. Mér gekk illa í skóla samhliða sambandinu og þurfti að endurtaka sum árin aftur.

Á endanum fékk ég loksins nóg, ég hætti með gerandanum mínum en gekk þó í gegnum nokkurt skeið þar sem hann var stöðugt að hringja og lét mig ekki vera. Ég hef farið mánaðarlega á Stígamót í meira en ár og er nýbyrjuð í svokölluðum hópatímum sem eru einu sinni í viku. Ég gerði mér ekki grein fyrir hinum rosalegu afleiðingum sem fylgdi þessu stöðuga ofbeldi daglega í þrjú ár fyrr en ég fór á Stígamót. Alltaf taldi ég mér trú um að þetta hefði bara verið slæmt samband, eitthvað sem væri bara í fortíðinni. Stundum hugsa ég: „Af hverju ég? Af hverju lenti ég í þessu?  Hvað gerði ég til að verðskulda þetta?“ Svarið við því er að í dag er ég sterkari en ég hef nokkurntímann verið, þökk sé Stígamótum og góðu fólki sem hjálpaði mér.“

 

9 athugasemdir við “Kynbundið ofbeldi og „fallega gríman“

  • Eru einhver úrræði til að taka á svona mönnum án þess að leita til dómstóls götunnar? Ég er innilega sammála að það þurfi að stoppa svona menn (lækna þá, ef það er mögulegt?), en það er kannski ekki alveg sama hvernig það er gert. Ég er ekki að spyrja til að vera erfiður, mig langar virkilega að vita hvað ég á að ráðleggja vinkonum og hvað ég get gert til að hjálpa ef þær lenda í svona aðstæðum.

   • Sæll Bjarni Rúnar og takk fyrir góða fyrirspurn. Það getur verið snúið að leysa þolendur og gerendur úr vítahringnum. Ég held að fyrsta skrefið sé það að horfast í augu við meinið, því að kynbundnu ofbeldi fylgir oft mikil skömm og afneitun, t.d. heimilisofbeldi. Og svo er að leita að úrræðum. Kvennaathvarfið og Stígamót vinna mikið og gott starf með konum sem eru að glíma við afleiðingar heimilisofbeldis og kynferðisofbeldis. Um daginn var góð grein í Fréttabréfinu sem var beint til karlmanna sem beita ofbeldi og benti á meðferðarúrræði, sjá http://www.visir.is/opid-bref-til-karla/article/2012711279939. Ofbeldi er refsivert að lögum eins og má lesa um í hegningarlögunum, sjá http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/1940019.html, t.d. lagagrein 194 og 225.
    Kveðja, Sigríður

   • Takk fyrir þetta Sigríður, ég skoða greinina og deili henni áfram. Vissi svo sem að þetta hlyti að vera lögbrot, en það að fá þolendur til að kæra og fá gerendur dæmda er sjálfsagt ekki auðvelt. Svo veltir maður fyrir sér hvort dómar og afleiðingar þeirra hafi lækningar/fælingarmátt eða hvort gerendur læri bara að þeir þurfi að passa betur að vera ekki gómaðir.

 1. Málið er nú líka að einsog t,d með mig sjálfa sem var í svona ofbeldissambandi í 11 ár að loksins þegar ég fann leið út þá var ég á lífi en andlega DAUÐ, og ég var ekkert að spá í einhverjum kærum eða öðru ég var aðallega og er enn eftir að hafa losnað fyrir 7 árum síðan að reyna að styrkja mig andlega 🙂 Ég er utan af landi og hef oft hugsað ef að kvennaathvarfið eða einhver hjálp hefði verið til staðar þegar ég losnaði úr þessu þá hefði ég kannski verið fljótari að ná mér og treysta á ný, en það var ekki einu sinni starfandi sálfræðingur á svæðinu hvað þá heldur einhvað annað 😦 þetta er sorgleg staðreynd.

  • Ég held að þú deilir þeirri reynslu með mörgum Ása, Ég vildi að þú hefðir haft kost á kvennaathvarfi og betri stuðningi í nærsamfélagi þínu þegar þú varst að losa þig undan ofbeldinu.. Ég óska þér alls hins besta á vegferð þinni.. Kveðja, Sigríður

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.