Ert þú jafnréttissinni en ekki femínisti?

Á Knúzinu ægir öllu saman: hér eru vandaðar skýringar, óformlegar hugdettur, ögranir og grín. Að þessu sinni fékk Knúzið leyfi til að birta pistil eftir Þórhall Auð Helgason sem upphaflega var Facebook-nóta hans.

Um daginn sagði vinkona mín mér að hún væri jafnréttissinni – ekki femínisti – því hún tryði á jafnan rétt beggja kynja og teldi jafnrétti hafa verið á Íslandi. Hún sagði mér að femínismi snerist um að ráðast gegn karlmönnum og þetta væri hugsjón sem einkenndist af öfgum. Þetta þótti mér sárt að heyra. Ef þú ert sammála þessu að ofan, þá bið ég þig að lesa það sem á eftir fylgir með opnum huga. Ég kref þig ekki um samþykki þess sem ég segi en bið þig um að vera sanngjarn/-gjörn í nálgun þinni. Varla trúir þú því að allir sem kenna sig við femínisma séu bara geðveikir og þú svona rosa klár að fatta hvað er að honum. Nei, pældu lengra.

Ég er nefnilega femínisti og jafnréttissinni. Mér finnst það svolítið vera tvær hliðar á sama peningnum. Ég trúi á jafnan rétt kynjanna og vil að fólk fái jafnt borgað fyrir sömu vinnu óháð kyni, svo dæmi sé tekið. Sú hugsjón teygir anga sína víða og ég þarf ekki að telja þá upp frekar. Að þessu leyti er ég jafnréttissinni. Svo er það annað, að eineggja launatékkar mega sín lítið, ef karl og kona eiga að verja þeim peningum í mismunandi penna.

Kynjaðir pennar

Nú gætir þú talið mig hafa stigið fyrsta skrefið í að mistakast að sannfæra þig, þegar ég fer að kvarta yfir stökum penna á markaðnum. Það er kannski skiljanlegt, enda beinir femínismi athyglinni að mörgu sem ekki jafn augljóst í sambandi við jafnrétti. Launatékkar og stjórnunarstöður eru mun haldbærari og aðgengilegri fyrirbæri en misræmi milli kynja, sem birtist svo víða að maður fær varla heildarsýn á það. Inn í samfélag okkar er nefnilega ofin aldagömul hugmyndafræði um stöðu karla og kvenna. Hún hefur líklega komið sér vel þegar karlmenn veiddu mammúta og konur hlúðu að ungabörnum með framstæða brún. Við erum aftur á móti komin á þann stað, þar sem líkamlegt atgervi skiptir litlu sem engu máli í samfélaginu en samt höldum við í leifar þessa viðhorfs og það er einfaldlega orðið stórhættulegt. Við setjum kynin upp sem andstæður; það er einfalt, spennandi og jafnvel kynæsandi. Konur þurfa vernd og karlar þurfa að vernda. Konur eru fíngerðar en karlar eru hráir. Víða er meira að segja svo litið á að karlar ásælist kynlíf en konur ekki. Ég get viðurkennt það að fyrst þegar ég kynntist klámi var ég sannfærður um að svona væri í pottinn búið.

Þessi viðleitni er ekkert eitt dæmi heldur dreifist hún eins og mein inn í smæstu og ómerkilegustu kima samfélags okkar. Það eru heldur ekki vondir karlar eða vondar konur sem ákváðu að hafa þetta svona; þetta er einfaldlega baggi tegundarinnar frá bernskuárum, sem við höfum ekki haft fyrir að losa okkur við. Flestar birtingarmyndir þessa berjum við augum án þess að verða þeirra vör. Svo eru aðrar meira áberandi, samanber tónlistarmyndbönd, lagatexta og tölfræði hælisleitenda á Stígamótum. Það er ekki nóg að ráðast gegn því stærsta og halda að smærri hlutir fylgi. Það sem til þarf er allsherjar hugsjónabylting um kynin. Hér sjá glöggir lesendur að ekki er einblínt á konur. Karlar eiga sér líka málstað innan femínisma. Það þykir eitthvað bogið við karl sem stundar hjúkrunarfræði. Þú átt að vera sterkur og ekki láta neinn vaða yfir þig, annars ertu aumingi (ekki umburðarlyndur). Þú átt að eiga fullt af peningum. Ég get rétt ímyndað mér það ógrynni karlmanna sem hafa fylgt þessu eftir í hálfa öld og sitja ringlaðir yfir kvöldverðinum, einir á báti. Þeim finnst eflaust að samfélagið hafi einhvern veginn svikið sig, svolítið eins og leiðbeiningarnar með IKEA-bæklingnum hafi ekki búið til hilluna á myndinni. Meira hefur verið rætt um þann sess sem konum er skipaður og er hann að mörgu leyti alvarlegri. Maður þarf að leita lengi til þess að finna mynd með konu í aðalhlutverki sem ekki fjallar um karlinn í lífi hennar. Það virðist ákveðið að tala megi um prump og kúk en undir engum kringumstæðum megi ræða túr, því hann sé bara ógeð. Síðan má telja upp fleiri dæmi sem tengjast akstri, eldhúsum og samlokum. Nei – þetta er ekki fyndið og þetta er ekki einu sinni brandari. Þetta er markvisst niðurbrot á helmingi mannkyns og við ættum að vera laus við svona óþroska.

Barney úr How I Met Your Mother

Þetta snýst allt um löngu úreltar staðalímyndir. Margar hafa verið brotnar á bak aftur með tilkomu kosningaréttar kvenna, feðraorlofs og svo mætti lengi telja. Stöku skrefin duga hins vegar ekki lengur. Það er löngu kominn tími til að rífa þessa meingölluðu hugsun upp með rótum – þeim stóru og þeim smáu. Það felst í því að líta gagnrýnum augum á jafnvel smæstu frávik milli kynja, því það saklausa og lítilvæga á dýpstar rætur í samfélaginu. Auglýsingabæklingar með strákum í löggubúningum og stelpum í bleikum prinsessubúningum eru ekki meinlausir. Langt því frá. Orðræða sem vísar til niðurlægingar kvenna – sama hversu létt hún kann að virðast og sama hvar hún birtist – er staðfesting á þessari hugmyndafræði og á ekki að líðast ógagnrýnd.

Það er erfitt að líta gagnrýnum augum á svo djúpa þræði í samfélagi sínu. Umhverfið mótar hugsun manns og siðferði og það, að biðja þig um að hafna einhverju sem hefur aldrei áreitt þig svo þú hafir vitað, fær þig kannski til að öskra „Öfgar!“, „Árás á grunngildi samfélagsins!“ og eitthvað álíka. Það er þó langt því frá að skotmörk femínisma skaði ekki samfélagið. Þau halda aftur af framþróun þess, kynda undir kynferðisofbeldi og setja báðum kynjum skorður hvað tækifæri varðar í lífinu. Það er nefnilega kominn tími til að hætta að tala um hvernig samfélagið er eða var og fara að tala um hvernig við viljum hafa það eftir 10 ár eða 50. Við ráðum því nefnilega alveg sjálf.

Nú gæti verið að þú sért sammála mér um að allt að ofan sé slæmt en svona sé bara staðan í heiminum alls ekkert. Þá ætla ég að biðja þig um að setja upp kynjagleraugun og horfa á hvaða þátt sem er í nýjustu seríu How I Met Your Mother. Fólk virðist ekki fatta hvað þessi þáttur er ömurlega andfemínískur og gerir út á steríótýpur um bæði kynin. Svo er hann líka bara svo drulluleiðinlegur og ekkert fyndinn lengur, eftir fyrstu þrjár seríurnar eða eitthvað. Þú munt ekki skemmta þér en kannski færðu nógu mikið upp í kok til þess að opna augun fyrir fleiri meinum. Að lokum vil ég þakka þér fyrir að lesa þetta. Þú þarft ekki að sannfærast um þetta en komdu fram við þig sjálfa(-n) af nógu mikilli virðingu til að loka ekki á þessa pælingu. Þú tapar engu á því og þú gætir farið að sjá heiminn á miklu fallegri hátt. Takk fyrir lesturinn.

Þórhallur Auður Helgason

3 athugasemdir við “Ert þú jafnréttissinni en ekki femínisti?

 1. Takk fyrir að segja mér hvað er fyndið og hvað ekki – en með vísdóm þinn að leiðarljósi get ég tekið afstöðu.
  hvað á mér að finnast um Kiljuna (veit að Silfrið er vonlaust vegna kynjahalla)?

 2. Ég tel mig vera jafnréttissinna en ekki femínista og eftir að hafa lesið þetta sé ég skýrar út á hvaða hugmyndir um samfélagið femínismi byggist á. Hugmyndirnar ganga ekki út á það að samfélagið er mótað af eðlisþörfum mannverunnar og hugmyndum fólks sem hafa þjónað mannkyninu vel síðustu árþúsundin (jafnvel milljónir ef talið er með að forfeður mannverunar hafi búið yfir meðfæddum kynhlutverkum) t.d. karlmenn vilja ekki flöt brjóst á konu því heilbrigt afkvæmi sem hann gæti átt með henni þarfnast mikillar næringar og að konur vilji karlmenn sem láta ekki vaða yfir sig svo að hann gerist strangur en réttlátur faðir sem gerir afkvæmið tilbúið að takast á við erfiðleikum lífsins. Femínisminn hallar frekar í átt þeirrar hugmyndar að annað kynið sé ekki að vinna með heldur móti hinu kyninu, í eilífum átökum sem leiðir til þess að karlmaðurinn (sem hafði betur) setji upp reglur til að kúga konuna og karlmönnunum sem tókst þetta voru þeir sem voru ákveðnir og ríkir (sem ýtir undir staðalímyndir karlmanna). Ég (persónulega) er mun hlintari samvirknikenningunni um kynhlutverk en átakakenningunni, einnig virðast líffræðingar hinntari henni.

  Er ég las þetta, og gerði með opnum hug, stoppaði ég á nær hverri einustu setningu því mér var ávalt hugsað til mótraka og göllum í kenningum femínismans. Fegurðardýrkun hefur hjálpað manneskjunni að finna sér heilbrigðan maka, launamunurinn stafar af þeim möguleika að konur geti orðið óléttar (mjög slæmt í mikilvægum stöðum) og að konur vinni frekar hlutastörf en full störf, leiðir til þess að þótt þær fái jafn mikið á tímann og karlmenn fái þær ekki jafn mikið á mánuðinn (kr/mánuð eru tölurnar sem mér sýnist að séu oftast birtar en ekki kr/tíminn + frí, sem yrði rétta reikniaðferðin) o.s.f.v.

  Ég bið þig, Þórhallur Auður Helgason, að endurskoða samfélagið útfrá hugmyndinni að það var ekki byggt á kúgurum heldur fólki, af báðum kynjum, sem vann saman til þess að byggja það upp. Ég er ekki þröngva mínum skoðunum upp á þig heldur eingöngu að biðja þig að taka tillit til þessarra hugmynda sem fá ekki að láta ljós sitt skína vegna hræðslu um að vera kallaðar „kvenfyrirlitning“ af fólki sem er of þröngsýnt til að sjá gráa svæðið millli femínismans og karlrembu.

  Ég vil þakka þér fyrir að lesa ummæli mín, ekki síst vegna þess hve leiðinlegt það getur verið að lesa löng comments.

  Virðingafyllst, Óttar Þórhallsson

 3. Ég er jafnréttissinni af því að það nær yfir svo mikið meira en feminismi. Að segjast vera bæði feministi og jafnréttissinni er svolítill óþarfi af því að það að vera jafnréttissinni felur m.a. í sér feminisma. Að aðhyllast aðeins feminisma finnst mér vera nokkuð einhliða.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.