Nýr kvennalisti

Höf.: Þórhildur Þorleifsdóttir

Í umræðum í Silfri Egils 9. september um nýju framboðin sagði Guðríður Arnardóttir að þau skorti hugmyndafræði. Það eru orð að sönnu. Óli Björn Kárason bætti við að annað af tvennu þyrfti til að ný framboð næðu árangri. Sterkan leiðtoga eða hugmyndafræði og hvorugt væri að finna hjá þeim. Ég er ekki sammála hugmyndum Óla Björns um hinn „sterka leiðtoga“. Framboð sem skarta sterkum leiðtogum verða til í kringum einn mann, sem oftast á harma að hefna. Hefur ekki náð árangri í eigin flokki eða er eins máls maður, enda hefur það sýnt sig að þau urðu endaslepp, m.a. vegna þess að hugmyndafræðina skorti.

Kvennaframboðið og Kvennalistinn voru frábrugðin öðrum „nýjum framboðum“ – áttu sér enda lengri lífdaga. Þar var nefnilega sterk hugmyndafræði lögð til grundavallar. Grunnur sem alltaf var hægt að leita í þegar á þurfti að halda. Það þurfti ekki að finna upp stefnuna jafnóðum.

Hugmyndafræðigrundvöllurinn, sem byggði auðvitað á kvenfrelsishugmyndum, var undirstaða ítarlegrar stefnuskrár, bæði þeirrar fyrstu og þeirra sem fylgdu í kjölfarið næstu 16 ár. Þær tóku auðvitað breytingum eftir því sem á leið, en grundvöllurinn – hugmyndafræðin – tók ekki miklum breytingum. Enda þaulhugsað plagg sem fjöldi kvenna kom að. Öllu viðteknu var kastað fyrir róða og allt hugsað upp á nýtt. Frelsi hugans og hugmynda sveif yfir vötnum og sköpunargleðinni gefinn laus taumur. Það virtist enginn endir á hvað konum datt í hug. Lausar undan oki viðtekinna hugmynda feðraveldisins og hefðbundinna flokka, létu þær gamminn geysa og smíðuðu í huganum nýtt og betra samfélag og festu á blað. Ein styrkasta stoð hugmyndafræðinnar var sú að unnið skyldi eftir aðferðum “concensus” – sáttar. Sú aðferð var síðan notuð í störfum stjórnlagaráðs og skilaði góðum árangri.

Það er fróðlegt að rifja upp hve mörg af málum Kvennaframboðsins og Kvennalistans, sem birtust í tillögum og frumvörpum, bæði í borgarstjórn og á Alþingi hafa litið dagsins ljós núna, 25 – 30 árum seinna. Þau eru ófá. Svo framsýnar og langt á undan sinni samtíð voru konurnar. Forsendur flestra tillagnanna er að finna í hugmyndafræðigrundvellinum. Það væri að æra óstöðugan að telja upp öll mál sem Kvennaframboðið og Kvennalistinn fluttu, en það hlýtur að fara að líða að því að sagnfræðingar og stjórnmálafræðingar fari að kafa ofan í þessi mál og gera samanburðarrannsóknir.

Gamlar hugmyndir – en síungar

Kynning í DV á stefnuskrá Kvennalistans fyrir Alþingiskosninngar 1987

Tilefni þessara skrifa núna er tillaga sem lætur lítið yfir sér og birtist í samtali við framkvæmdastjóra Strætó bs. í blaðinu Reykjavík 8. september. Þar er lýst hugmynd um meginleiðir stórra strætisvagna og að minni bílar, skutlur eða leigubílar af einhverju tagi, annist afganginn. Mjög svipaða hugmynd mátti finna á stefnuskrá Kvennaframboðsins á 9. áratugnum. Tvær meginleiðir frá úthverfum í gegnum borgina og litlar skutlur sem tengdu þær. Einnig voru orðaðar hugmyndir um rafmagnslestir, sem hluta af samgöngutækjum borgarinnar. Þetta er aðeins eitt mál af mörgum sem sýnir að konurnar voru langt á undan sinni samtíð.

Í borgarstjórnarkosningunum 1982 var eitt megin „átakamálið“ hvort framtíðarbyggð Reykjavíkur ætti að verða í Grafarholti eða við Rauðavatn. Kvennaframboðið blandaði sér ekki í þessar deilur, taldi þær enda fánýtar, þar sem bæði svæðin myndu byggjast. Þess í stað var lögð áhersla á nauðsyn þess að þétta byggð og flugvallarsvæðið nefnt í því sambandi.

Umhverfismál voru strax eitt af megin stefnumálum Kvennalistans. Viðbrögðin á Alþingi voru oftar en ekki að umhverfismál væru ómerkileg útlend mál sem kæmu Íslendingum ekkert við og ágætt dæmi um að menntakonurnar í Kvennalistanum væru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann! Það eru bara 30 ár síðan! Fyrir utan kvenfrelsismál af ýmsum toga, (ofbeldi gegn konum og börnum, launamálin, neyðarmóttöku fyrir fórnarlömb nauðgunar og margt, margt fleira) má finna tillögur um sjálfbærni, nýjan grundvöll í útreikningum hagvaxtar, vetnisnotkun, beint frá býli hugmyndir, úrbætur í ferðamannaiðnaðinum, eflingu handverks og hönnunar, nýsköpun og rannsóknir, m.a. kvennafræðirannsóknir v/Háskóla Íslands. Mannréttindamál af ýmsu tagi voru rík í huga Kvennalistakvenna, m.a. réttindi samkynhneigðra, svo eitthvað sé talið. Einnig voru lagðar fram tillögur um umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti. Sumar hugmyndirnar hafa nú, áratugum seinna, náð fram að ganga. Loksins, loksins.

 

Kynbundinn launamunur

Eitt er það mál sem sífellt skýtur upp kollinum og allir segjast sammála um að verði að leysa, en það er launamunur kynjanna. Sífellt er kannað og nefndir stofnaðar, starfsmat endurskoðað og guð má vita hvað, en lítið gengur. Enn má fara í smiðju Kvennaframboðsins og Kvennalistans. Þegar Ingibjörg Sólrún varð borgarstjóri var launamunur kynjanna hjá Reykjavíkurborg 15.5%. Árið 2002 var hann orðinn 7% og átti enn eftir að lækka ef ég man rétt. Í dag mælist hann u.þ.b. 12%. Nálgast óðfluga fyrri hæðir. Steinunn Valdís hækkaði með „handafli“ laun láglaunakvenna hjá borginni og fékk hjá mörgum bágt fyrir. Áreiðanlega ekki hjá konunum sem hækkuðu í launum, heldur þeim sem þykjast og vilja hafa þessi mál í hendi sér.

Hvernig fór Ingibjörg Sólrún og samstarfsfólk hennar að því að ná þessum árangri og hvaða hugmyndafræði lá til grundvallar? Sú staðreynd að konur bera sífellt minna úr býtum en karlar byggir auðvitað á þeirri hugmyndafræði feðraveldins að vanmeta konur og þar af leiðandi störf þeirra. Því var einungis hægt að svara með þeirri hugmyndafræði að endurmeta vanmat feðraveldisins. Sem og þessar konur gerðu! Hvernig væri nú að fara í smá söguupprifjun og athuga hvernig árangur náðist og- ekki síður, af hverju hann glutraðist niður.

Eins má minna á að í stjórnarmyndunarviðræðum í kjölfar kosninganna 1987 gerði Kvennalistinn það að úrstlitamáli, sem endanlega braut á, að hækka lágmarkslaun, lesist laun kvenna, með lagasetningu ef ekki vildi betur. Þetta féllust Sjálfstæðis- og Alþýðuflokkur ekki á og því fór sem fór. Kjarkleysi hefur þetta svo verið kallað æ síðan. Ekki kjarkleysi áðurnefndra flokka heldur Kvennalistans! Það sem meira var; hvorki atvinnurekendur VSÍ né, sem er enn athyglisverðara, ASÍ höfðu áhuga á að leggja þessu máli lið. Skrifuðu meira að segja sameiginlegt bréf og sögðu það ekki framkvæmanlegt eða raunsætt að fara að tillögum Kvennalistans. Leituðu allt til hinnar fornu Mesapótamíu máli sínu til stuðnings. Já, feðraveldið stendur á gömlum merg og á sér stoðir víða!

 

Nú, hækkið þau þá!

Það er einungis ein leið fær til að leiðrétta kynbundin launamun og hún er sú að hækka laun kvenna. Hvað er til fyrirstöðu? Kannski skortur á konum sem ganga á hólm við hugmyndir feðraveldisins, bjóða því byrginn og taka til sinna ráða – kvennaráða. Það skilar engum árangri að bíða eftir að karlarnir geri það. Konur hafa ævinlega þurft að sækja sín réttindi sjálfar. Stundum hafa þær notið liðsinnis karla, en þær hafa alltaf haft frumkvæðið og fylgt málum eftir uns þau voru í höfn.

Íslenskar konur fylkja liði á Kvennafrídaginn 1975

En hvar og hvernig sameinast þær til hólmgöngu? Ekki innan hefðbundinna virkja feðraveldisins, svo mikið er víst. Er það ekki fullreynt? Einungis sameinaðar konur, og þeir karlar sem eru tilbúnir að ganga til liðs við þær, munu reynast þess megnugar að taka til hendinni svo um munar til að útrýma kynbundnum launamun – og ýmsu fleiru í leiðinni. Kannanir, nefndir, skýrslur, prósentur og línurit leysa ekki vandann. Heldur gjörðir! En ein og ein mega konur sín lítils. Þær verða að segja eins og Jón forðum: „Sameinaðar stöndum við, sundraðar föllum við.“

Er ekki kominn tími á nýjan kvennalista – með hugmyndafræði í farteskinu?

 

 

 

 

 

 

Þessi grein birtist fyrst á pressan.is þann 10. september 2012 og er hér endurbirt með góðfúslegu leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.