Knúz.is hefur að undanförnu birt pistla frá nemendum í kynjafræði við Borgarholtsskóla, en á því námskeiði velta nemendur fyrir sér jafnrétti kynjanna í ólíkum myndum með aðstoð Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur kennara. Hér koma tveir í viðbót og við þökkum krökkunum í Borgó og Hönnu Björg kennara kærlega fyrir samstarfið. Það er svo gott og gleðilegt að sjá ungt fólk gera frábæra hluti.
–Ritstjórn
Konur í íþróttum
Höfundur: Harpa Lind
Eftir að hafa verið í kynjafræði í Borgarholtsskóla hef ég fengið allt aðra sýn á hlutina og þar sem ég æfi fótbolta hef ég tekið mjög vel eftir því hversu lítil eða engin umfjöllun er um kvennaíþróttir. Þá vakna upp spurningar eins og:
Af hverju er umfjöllunin svona lítil um kvennaíþróttir?
Er ekki áhugi fyrir þeim?
Myndi áhuginn verða meiri ef umfjöllunin yrði meiri ?
Þessum spurningum hef ég oft velt fyrir mér og spurt sjálfa mig hvort það sé einhver tenging þarna á milli og það sem ég held er að ef umfjöllunin yrði meiri þá myndi áhorfið hækka og áhuginn fyrir að sýna í sjónvarpi og koma og horfa á leiki hjá konum myndi einnig aukast.
Ég hef bæði kynnst því að spila fyrir framan fulla stúku af fólki og einnig spilað fyrir framan næstum því enga og ég get sagt þér það að tilfinningin er ólýsanleg að spila fyrir framan fulla stúku af fólki. En hvað var það sem olli því að stúkan var full af fólki? Var það að þetta var úrslitaleikur um að komast upp í Pepsí-deildina? Eða var það að þessi leikur var auglýstur svo vel að það fór ekki framhjá neinum hvað var að fara að gerast? Ég get sagt þér það að það var kynningin og auglýsingarnar fyrir þennan leik sem leiddi fólkið út á völlinn.
Marta Vieira da Silva vs Christiano Ronaldo
Það eru ekki margir sem vita hver Marta Vieira da Silva er, á meðan allur heimurinn veit hver Christiano Ronaldo er, en af hverju er það? Marta er brasilísk knattspyrnukona og hefur verið kosin leikmaður ársins árin 2006, 2007 og 2008 og eins og Ronaldo hefur hún unnið Gullboltann og gullskóinn, en af hverju vita svona fáir um hana? Getur það verið enn og aftur út af því að kvennaíþróttir eru ekki mikið í umfjölluninni? Já, ég held það bara!
Ég spyr: Er ekki kominn tími til að við gerum eitthvað í þessu og byrjum að breyta til og byrjum að auglýsa og sýna kvennaíþróttir í sjónvarpi og útvarpi?
Harpa Lind, nemandi í Kyn103 í Borgarholtsskóla.
Kvenfyrirlitning í íþróttum
Höfundar vilja ekki láta nafns síns getið.
Það er búið að normalisera kvenfyrirlitningu í íþróttum. Nánast undantekningarlaust er hægt að finna kvenfyrirlitningu í öllum helstu íþróttum heims. Tökum sem dæmi fótbolta, fótboltaþjálfarar koma brjálaðir í viðtal eftir tapleik og láta ýmsa kvenfyrirlitningu í ljós: „Við spiluðum eins og kellingar“ „við nálgumst næsta leik með karlmennsku“. Þetta eru dæmi um setningar sem þjálfarar á Íslandi hafa látið út úr sér. En hvernig er hægt að bregðast við þessu? Maður væri til í að sjá að KSÍ myndi grípa til aðgerða og jafnvel dæma menn í eins leiks bann ef svona lagað kæmi út úr þjálfurum eða leikmönnum.

Mynd fengin hér.
Almennt er á Íslandi í dag fjallað meira um karlmenn í íþróttum heldur en konur, þá sérstaklega í fótbolta, t.d. Pepsi-mörkin á Stöð 2 sport, þar er klukkutíma þáttur um karlaknattspyrnu en ekki mínúta um kvennaknattspyrnu. Það eru 3-4 leikir sýndir beint frá kvennaknattspyrnu en 22-30 leikir sýndir beint frá karlaknattspyrnu. Með því að auka umfjöllun um kvennaboltann myndi þar af leiðandi aukast áhorf á hann, en sorglegt er að sjá oft á tíðum hvað fáir mæta á kvennaknattspyrnuleiki. Nefnum sem dæmi umspilsleikinn hjá konunum á móti Úkraníu um daginn, þetta var gríðarlega mikilvægur leikur, úrslitaleikur um hvort við kæmumst í lokakeppni EM. Leikurinn var auglýstur vel og landsliðsþjálfarinn sjálfur kom með yfirlýsingu um að þær þyrftu stuðning og hann vildi fylla völlinn, eins og er á flestum leikjum hjá karlalandsliðinu. Vissulega var áhorfendamet slegið en þær áttu skilið meiri stuðning.
Atvinnumenn eru með miklu betri laun heldur en atvinnukonur og þetta er eins í öllum vinsælustu íþróttum heims. Karlar sem eru atvinnumenn hafa íþróttina sem vinnu og oft á tíðum geta þeir lifað kóngalífi eftir að ferlinum lýkur en atvinnukonur þurfa yfirleitt að huga að framtíðinni á meðan á ferlinum stendur vegna þess að þær lifa ekki á þeim launum til lengdar eftir að ferlinum lýkur. Til dæmis er Marta sem er besta knattspyrnukona í heimi með svipuð laun og góður leikmaður í úrvalsdeild karla í Noregi og er sú deild ekki hátt skrifuð á alþjóðavettvangi.
Þetta helst allt saman í hendur, umfjöllun eykur áhorfið og áhorfið eykur launin.
Drengir í KYN103 í Borgó.
Marta er rosaleg. http://www.youtube.com/watch?v=Iba7RiOuvEQ
http://www.visir.is/section/MEDIA98&fileid=CLP15669
Ég hef ekki vanið komur mína á Laugardalsvöllinn, reyndar hafði ég aldrei komið inn í stúkuna fyrr en ég fór með dóttur mína og vinkonu hennar á leik kvennalandsliðsins í fótbolta við Úkraínu nýlega. Ekki síst vegna ákalls þjálfara þeirra um að „fylla stúkuna“. Svo varð ég ægilega kát þegar ég þurfti bara að borga þúsundkall inn fyrir mig og ekkert fyrir stelpurnar, alveg þangað til einhver sagði mér að það væri reyndar tvöfalt dýrara á karlalandsleiki. Þannig að til að trekkja á kvennalandsleik þurfti líka að helminga aðgangseyrinn. Það er svolítið raunalegt. PS: leikurinn var frábær.
Fín grein hjá Hörpu Lind. Hún athugar fótbolta sérstaklega e.t.v. vegna þess að hún æfir hann sjálf. Vert væri að beina sjónum að öðrum íþróttum líka. Vil nefna að fimleikadeildinni var úthýst úr KR þegar nýtt og stærra hús var tekið í notkun. Henni var komið fyrir í Gróttu. Jafnfrétti felst ekki í því að allir geti æft fótbolta.