Kynbundið ofbeldi – skilgreiningar á þvers og kruss

Höfundur: Herdís Schopka

 

Undanfarið hefur kynbundið ofbeldi verið mikið í umræðunni, enda er árvissu 16 daga átaks Mannréttindastofu Íslands gegn kynbundnu ofbeldi að ljúka í dag. Ég hef setið og fylgst með umræðunni á netinu og fæ ekki séð að fólk hafi almennt getað komið sér saman um hvað þetta hugtak „kynbundið“ þýðir og gegn hverju sé í raun verið að berjast.

Myndin er fengin af síðunni http://www.thehindu.com/.

 

Á heimasíðu UN Population Fund er gerð eftirfarandi grein fyrir ástandi mála:

Violence against women has been called „the most pervasive yet least recognized human rights abuse in the world.“ Accordingly, the Vienna Human Rights Conference and the Fourth World Conference on Women gave priority to this issue, which jeopardizes women’s lives, bodies, psychological integrity and freedom. Violence may have profound effects – direct and indirect – on a woman’s reproductive health, including:

 • Unwanted pregnancies and restricted access to family planning information and contraceptives
 • Unsafe abortion or injuries sustained during a legal abortion after an unwanted pregnancy
 • Complications from frequent, high-risk pregnancies and lack of follow-up care
 • Sexually transmitted infections, including HIV
 • Persistent gynaecological problems
 • Psychological problems

Gender-based violence also serves – by intention or effect – to perpetuate male power and control. It is sustained by a culture of silence and denial of the seriousness of the health consequences of abuse. In addition to the harm they exact on the individual level, these consequences also exact a social toll and place a heavy and unnecessary burden on health services.

UNFPA recognizes that violence against women is inextricably linked to gender-based inequalities. When women and girls are expected to be generally subservient, their behaviour in relation to their health, including reproductive health, is negatively affected at all stages of the life cycle.

Í stuttu máli er þarna lýst ömurlegum veruleika milljóna kvenna um allan heim sem verða fyrir endurteknu og alvarlegu ofbeldi vegna kyns síns. Tekið er fram að ofbeldi gegn konum séu með útbreiddustu mannréttindabrotum í heiminum í dag og þetta ástand mála sé til þess fallið að viðhalda kerfi þar sem karlmenn hafi tögl og hagldir. Þar að auki verða konur fyrir gríðarlega miklu heilsutjóni vegna ofbeldis sem hefur að sjálfsögðu slæm áhrif á heilbrigðiskerfi heimsins. Baráttan gegn kynbundnu ofbeldi sprettur upp úr þessum raunveruleika og kannski ágætt að hafa það í huga við lesturinn.

Tékkum aðeins á dæmigerðum kommentum við bloggfærslur, fréttir og facebook-statusa þar sem kynbundið ofbeldi er til umræðu:

umm ég hélt að kynbundið ofbeldi tengdist því að gerandinn í þessum málum er alltaf karlmaður, en ekki að það tengdist því að ofbeldinu væri sérstaklega beint gegn kvenkyni, svona veit maður lítið. Ég hafði reyndar bara rökstuddan grun á bakvið mína kenningu en hún meikar í raun mjög mikið sense miðað við opinberu skilgreininguna. Því sama hvernig fórnarlambið er (lítil stelpa, unglingspiltur, kona etc) þá eru það alltaf karlmenn sem eru að beita „kynbundnu ofbeldi“.

Hér svarar einn kommentari öðrum:

A: ”Er það ekki kynbundið ofbeldi ef að kona lemur karlmann? Eða ef kona beitir karlmann andlegu ofbeldi eða bara einhverskonar ofbeldi? Hvað er það þá kallað?”

B: NEI, þetta sem þú nefnir er ekki kynbundið ofbeldi. Það er ekki neitt kynbundið við það að fullorðin manneskja löðrungi aðra fullorðna manneskju eða leggi hana í einelti með orðum. En nauðganir, kynferðislegt ofbeldi osfrv, það er kynbundið ofbeldi og nánast bara framið af karlmönnum.

Og sá þriðji bendir á að:

Hvort sem kynbundið ofbeldi sé eingöngu þegar karl beitir ofbeldi eður ei, þá finnst mér rangt að halda fram án þess að hafa réttan skilning á orðinu, sem ég hef ekki því miður, enda hef ég lítið séð um þetta orð, og enga skilgreiningu heldur. Það væri kannski ágætt að fá almennilega skilgreiningu á því hvað kynbundið ofbeldi sé nákvæmlega, því eins og með mörg orð, þá taka sumir part af skilgreiningunni og nota það hægri vinstri virðist oft vera.

Sumir gera tilraun til að skilgreina hugtakið:

Hér er einhver misskilningur á ferðinni. Kynbundið ofbeldi er ekki þýðing á hugtakinu „sexual violence“ heldur á enska hugtakinu „gender based violence“ sem er breiðara hugtak. Hér er um að ræða ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir beinlínis vegna kyns síns. Þetta getur verið kona sem er beitt kynferðislegu, eða annars konar ofbeldi, en líka t.d. karl sem er neyddur í herþjónustu gegn vilja sínum, eða er beittur líkamlegu ofbeldi vegna gruns um að tilheyra uppreisnarhópi eingöngu vegna þess að hann tilheyrir ákveðnu þjóðarbroti og er á ákveðnum aldri.

Hinsvegar er það rétt að hugtakið er einkum notað í umræðu um réttindi kvenna víðs vegar um veröldina, en það er ekkert í sjálfri skilgreiningunni á hugtakinu sem kemur í veg fyrir að því sé beitt í baráttu gegn kynbundnu ofbeldi þar sem karlmenn eru fórnarlömb.

Að viti þess sem hér skrifar ægir þarna saman mismunandi túlkunum á hugtakinu „kynbundið“ hjá almenningi. Að auki fetta margir fingur út í áhersluna á kyn í þessari baráttu og líta svo á að verið sé að fórnarlambavæða konur og um leið segja körlum að éta það sem úti frýs. Það er því ekki úr vegi að skoða hvernig þær stofnanir sem standa fyrir átakinu skilgreina það sem barist er gegn.

Á síðu Mannréttindastofu er þessi skilgreining á fyrirbærinu sett fram:

Kynbundið ofbeldi lýsir sér í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðisáreitni og annars konar líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og stúlkum inni á heimilum þeirra sem utan.

Hér er sem sagt „kynbundið ofbeldi“ túlkað sem ofbeldi sem konur verða fyrir vegna kyns síns fyrst og fremst. Einnig er tekið fram að um „annars konar líkamleg(t) og andleg(t) ofbeldi“ sem konur verða fyrir, bæði á heimili þeirra og í almenningsrými, falli undir þessa skilgreiningu. Vefur Mannréttindaskrifstofu Íslands er með svipaða skilgreiningu, þar segir:

merkir hugtakið „ofbeldi gagnvart konum” ofbeldi á grundvelli kynferðis sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga kvenna, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

UN Population Fund býður upp á þessa skilgreiningu á „gender-based violence“:

Gender-based violence both reflects and reinforces inequities between men and women and compromises the health, dignity, security and autonomy of its victims. It encompasses a wide range of human rights violations, including sexual abuse of children, rape, domestic violence, sexual assault and harassment, trafficking of women and girls and several harmful traditional practices.

Sé litið á allar þessar (hálf-)opinberu skilgreiningar sem heild er augljóst að engin þeirra tekur sérstaklega fram að karlar, samkynhneigðir, transfólk eða hinsegin fólk verði fyrir kynbundnu ofbeldi, áherslan er alltaf á konur. Íslenskar stofnanir skilgreina beinlínis kynbundið ofbeldi sem ofbeldi gegn konum og virðast því ekki gera ráð fyrir að karlar og LGBT/hinsegin-fólk geti orðið fyrir slíku (ég hef ekki lesið allt efni frá þeim og það getur auðvitað vel verið að þetta sé rætt frekar annars staðar). Hins vegar er ekkert í skilgreiningum UN Population Fund sem útilokar að önnur kyn en konur geti orðið, og verði, fyrir kynbundnu ofbeldi. Eins og allir sjá sem vilja er ég augljóslega að skoða lítið úrtak skilgreininga og það væri gaman að sjá önnur tilbrigði sem lesendur þekkja eflaust til.

Sumir hafa ekki áhuga á að ræða skilgreininguna á „kynbundið“ heldur vilja frekar ræða af hverju það þurfi yfirhöfuð að skilgreina mismunandi tegundir ofbeldis. Er ekki ofbeldi ofbeldi, sama hver beitir því og hver verður fyrir? Þetta er frekar einfeldningsleg spurning – er ekki flestum ljóst að t.d. fullorðnir menn í slagsmálum eru í allt annarri stöðu hvor gagnvart öðrum en t.d. fullorðinn maður að berja barn? Er ekki kona sem haldið er gegn vilja sínum í kynlífsþrælkun í annarri stöðu gagnvart kvölurum sínum en maður sem haldið er nauðugum í pólitískum fangabúðum?

Ef við komum okkur saman um að það sé a.m.k. gagnlegt að ræða ofbeldi út frá kyni þolanda og geranda vaknar fyrst spurningin hvort einhver munur sé á hugtökunum „kynbundið“ og „kynferðislegt“ ofbeldi. Að ofan sést að „kynbundið“ er íslenskun á enska orðinu gender-based meðan „kynferðislegt“ á við um sexual. Tengslin milli „gender“ og „sexual“ eru alltaf að verða flóknari og íslensku hugtökin eru ekki nógu lýsandi til að gera þessum tengslum e-r almennileg skil.
„Gender“ er ansi teygjanlegt hugtak og það má færa rök fyrir því að „kynbundið“ sé afleit þýðing á þessu orði – enda er „gender“ ekki bundið við kyn heldur viðhorf í menningunni gagnvart fólki og kynhlutverkum þeirra. Kannski má segja að kynferðislegt ofbeldi sé alltaf kynbundið en kynbundið ofbeldi ekki alltaf kynferðislegt – þ.e. að kynferðislegt ofbeldi sé undirflokkur kynbundins ofbeldis. Þetta þarf þó ekki að vera algilt.

Önnur stóra spurningin sem vaknar við lestur allra þessara skilgreininga er hvort eini þjóðfélagshópurinn sem verður fyrir ofbeldi einungis vegna kyns síns sé konur og í framhaldi af því hvort karlar séu þá alltaf sökudólgarnir. Fjölmargir virðast vera á þeirri skoðun (samanber fyrsta kommentið hér að ofan) og ekki er að að sjá í texta UN Population Fund og Mannréttindaskrifstofu að þeirra skilgreining á fyrirbærinu taki sérstaklega til ofbeldis gegn körlum eða LGBT/hinsegin-fólki. Eftir því sem ég fæ best séð helgast þetta af valdahlutföllunum sem eru innbyggð í skilgreininguna á kynbundnu ofbeldi, eins og er tekið sérstaklega vel fram hjá UN Population Fund (sjá ofar): Kynbundið ofbeldi snýst ekki bara um manneskju af karlkyni að beita manneskju af kvenkyni ofbeldi heldur snýst það um manneskju af því kyni sem nýtur forréttinda í samfélaginu að beita manneskju af því kyni sem er undirokað í samfélaginu ofbeldi. Þetta er grundvallaratriði sem er kannski ekki tekið nógu skýrt fram alla jafna og leiðir til þess að allt tal um að karlar séu a.m.k. jafnmikil fórnarlömb kynbundins ofbeldis og konur hljómar hálf hjákátlega. Það virðist því varla vafi á að það sé réttlætanlegt að setja ofbeldi gegn konum á oddinn þegar rætt er um kynbundið ofbeldi.

Hér eiga margir eflaust eftir að fussa og sveia og jafnvel grýta tölvunni í vegginn, enda finnst mörgum og væntanlega sérstaklega karlmönnum að sér vegið þegar málin eru sett fram á þennan hátt. Það er því best að taka það strax fram að ég, og allir femínistar sem ég þekki, hafa fulla samúð með karlkyns fórnarlömbum ofbeldisglæpa. Við erum bara ekki tilbúin að kalla það ofbeldi kynbundið, nema í undantekningartilfellum.

Þriðja stóra spurningin sem oft er varpað fram er hvort allt ofbeldi gegn konum sé kynbundið ofbeldi. Er það kynbundið ofbeldi þegar kvenkyns meðlimur glæpagengis er drepin í drive-by shooting í erlendri stórborg? Er það kynbundið ofbeldi þegar afgreiðslukona í verslun er barin niður af ræningjum? Og er það kynbundið ofbeldi gegn körlum þegar karlmenn en ekki konur þurfa að gegna herskyldu? Ég myndi persónulega svara öllum þessum spurningum neitandi, enda á ofbeldið sér í engu þessara tilfella rætur í félagslegri undirskipan þess kyns sem fyrir ofbeldinu verður. Það má í raun segja að sú staðhæfing að allt ofbeldi gegn konum hljóti að vera kynbundið gengisfelli hugtakið algerlega.

Að lokum má svo velta fyrir sér hvar LGBT/hinsegin-fólk stendur í þessari umræðu. Það er alkunna að LGBT/hinsegin-fólk verður fyrir skelfilegu ofbeldi úti um allan heim og réttindabarátta þeirra er mjög skammt á veg komin víðast hvar. Nærtækt dæmi er Úganda, þar sem nýlegt lagafrumvarp innihélt m.a. dauðarefsingu við samkynhneigð (frumvarpinu hefur nú verið breytt og dauðarefsing felld út) . Í þessum tilfellum verður fólk ekki fyrir ofbeldi vegna kyns síns heldur kyngervis, þar sem kyngervi LGBT/hinsegin-fólks er ógn við kynjakerfið sem við eigum að venjast. Þetta er auðvitað mjög sambærilegt við rætur kynbundins ofbeldis gegn konum. Ofbeldi gegn LGBT/hinsegin-fólki getur því sannarlega flokkast undir kynbundið ofbeldi og baráttan gegn því ætti að njóta sama stuðnings og barátta gegn ofbeldi gegn konum.

Fyrir þau sem vilja lesa sér til um þá baráttu:

http://en.wikipedia.org/wiki/Violence_against_LGBT_people

http://www.npr.org/2011/09/29/140877153/violent-attacks-on-transgender-people-raise-alarm

 

4 athugasemdir við “Kynbundið ofbeldi – skilgreiningar á þvers og kruss

 1. Flott samantekt, takk. Mér sýnist hugtakið kynbundið ofbeldi stórgallað. Kyngervistengt ofbeldi? Dálítið þunglamalegt, en í það minnsta gagnsærra.

 2. Hugtakið er ekki bara stórgallað, það skaðar og sundrar í stað þess að leysa og sameina.

  Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra skrifaði um helgina á visir.is greinina „Útrýmum kynbundnu ofbeldi“. Í athugasemd við greinina skrifaði ég m.a.: „Kæra Jóhanna, OFBELDI ER EKKI KYNBUNDIÐ, hvorki á Íslandi né annars staðar. Röng hugtakasmíðin gerir illt verra, felur þolendur kvennaofbeldis og greiningu kvenkynsgerenda, og hindrar að hægt sé að hjálpa báðum og að fá þá síðarnefndu til að bæta ráð sitt. “ og ennfremur „Jóhanna, vinsamlega hafðu í huga að SKAÐINN AF NOTKUN HINS RANGA HUGTAKS „KYNBUNDIÐ OFBELDI“ SUNDRAR Í STAÐ ÞESS AÐ SAMEINA, SAKGERIR Í STAÐ ÞESS AÐ LEYSA. Mundu, SAMEINUÐ STÖNDUM VÉR, SUNDRUÐ FÖLLUM VÉR. “

  Hugtakið „Kynbundið ofbeldi“ er skilgreint í lögum nr. 10/2008 og er viðmið í aðgerðum ríkis og sveitarfélaga, aðgerðaráætlum m.a. í smíðum á vegum velferðarráðuneytisins. Þetta er á Íslandi ekki innantómt hugtak því það hefur áhrif, til að ná markmiði, „Útrýmum“ þá þarf að fara í aðgerðir. Alvarleiki þess að færa í lög slíkt hugtak er mikill, getur bundið mikið fé og er langvarandi, það er fátt sem næst að útrýma.

  Áhersla undanfarinna ára hefur verið á að stöðva ofbeldi karla gagnvart konum og börnum. Ég veit ekki hver árangurinn er af áherslunni, vonandi mikill, en ég óttast að hvorki þolendur né gerendur í þessum tilfellum hafi fengið þá hjálp og aðstoð sem æskileg væri, og er oft nauðsynleg til að aðilarnir treysti sér til og geti tekið fulllan þátt í samfélagi okkar allra. Því það þarf að vera markmið okkar, virkir samfélagsþátttakendur á ný.

  En hvað með fórnarlömb ofbeldis kvenna, þ.e. drengi og stúlkur, karlmenn og konur? Hjálpar áherslan á ofbeldi af hálfu karla þeim, skiptir áherslan þau engu eða skaðar hún kannski þau? Feministar hafa fyrr blásið á þessa ábendingu, það að þessi fórnarlömb gleymist og gerendurnir lika. Á stundum er vísað til þess að þessi tilfelli séu svo fá að ekki sé ástæðu til áherslu þar á, jafnvel þó það sé jafn vont fyrir þessi fórnarlömb að verða fyrir ofbeldinu, jafnvel þó þau hafi jafn mikla þörf fyrir aðstoð út úr ofbeldinu og til bata.

  Tíðni ofbeldis af hálfu kvenna er því miður ekki lág, er 30-55% sbr. rannsóknir á Vesturlöndum. Rannsóknir sýna ennfremur að hegðun er svipuð á Íslandi og í öðrum Vesturlöndum og því verður að álykta að ofbeldi af hálfu kvenna á Íslandi sé á svipuðum nótum. Ofbeldi er því alls alls alls ekki bundið við kyn. Það er bundið við einstaklinga. Þannig er það einnig í löndum austan Evrópu, í Afríku, Asíu, Indónesíu og víðar. Í riti bandarísku læknasamtakanna JAMA segir að í borgarstyrjöldinni í Kongó sýna skráningar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) að um 30% kvenna hafi í stríðsmarkmiði verið beitt kynferðislegu ofbeldi og um 22% karla en talið að hlutfall karla sé mun hærra þar sem meðal almennra borgara féllu 2 karlmenn á móti hverri konu, ekki er s.s. vitað um tíðni kynferðisofbeldisins á meðal fallinna. Þar segir ennfremur að karlmen segi næstum aldrei frá nauðgunum á sér, því þá séu þeir taldir sekir um hommaskap, sem getur falið í sér alvalegar afleiðingar, líflát en að þekkt sé líka að eiginkona þeirra yfirgefi þá ásamt börnum sínum og spyrji er þetta kona eða maður? Geti hann ekki varið sig gegn nauðgun, hver ver þá mig? Hjálparsamtök neiti að viðurkenna þetta ofbeldi á körlum, þess vegna eru litlar tölur þar til, en þessir karlar eru margir útskúfaðir.

  Kynbundið ofbeldi gætir þú Herdís sagt þarna, ofbeldi af hálfu karla, en í grein í JAMA má lesa að um 40% nauðgana kvenanna og 10% naugðana karla var framkvæmd af konu eða konum. Tim Goldich greinir frá Hútú-konunum fimm sem taldar voru hafa skipulagt þjóðarmorðið á 800 þúsund Tútsum og hópa kvenna sem hvöttu til og tóku þátt í og beinlínis frömdu morð á Tútsum nágrönnum sínum sem dæmi.

  Það er því ljóst að ofbeldi er ekki bundið við kyn, ekki hópa af hverju kyni heldur einstaklinga af hvoru kyni um sig. Og eins og þú sérð af þessu Herdís, þá eru það ekki bara konur sem eru kúgaðar, heldur karlmenn líka, af körlum og konum. En það tengist aftur einstaklingum, á stundum kynþáttum (sect) og fjölskyldum en ekki öðru kyninu.Þess vegna á að hætta að tala um kynbundið ofbeldi, og horfa frekar á hvernig hægt er að greina þolendur, finna gerendur og hjálpa báðum.

  • Sæll Ingimundur, takk fyrir þetta langa komment. Þér er greinilega mikið niðri fyrir og ég skil það vel, og ég get alveg verið sammála bæði þér og Kristínu sem kommentar að ofan um að hugtakið „kynbundið“ sé meingallað. Það breytir því ekki að ég tel það vera gagnlegt að tala sérstaklega um ofbeldi gegn undirskipaða kyninu sérstaklega, þar sem það sprettur einfaldlega upp úr öðrum jarðvegi en annað ofbeldi, t.d. pólitískt ofbeldi. Í þessu kommenti ætla ég að nota þetta blessaða orð enda ekki úr mörgum betri að velja (þó kyngervistengt ofbeldi sé fínt líka :)).

   Þú fellur í þá gríðarstóru (og fjölsóttu) gryfju að halda að femínistar vilji útiloka umræðu um annars konar ofbeldi en kynbundið – það er reginmisskilningur. Við bara viljum halda því til haga að sumt ofbeldi orsakast af undirskipun annars kynsins og því þarf að beita öðrum aðferðum við að uppræta það. Ofbeldi er augljóslega gríðarlega fjölbreytt fyrirbæri og það meikar engan sens að hægt sé að berjast gegn öllu ofbeldi með sömu aðferðunum.

   „Ofbeldi er því alls alls alls ekki bundið við kyn“, segirðu eftir að lýsa því hvernig 30-55% ofbeldis á Vesturlöndum sé framið af konum. Ég ætla ekki að leggja mat á sannleiksgildi þessara prósentutalna, heldur benda þér á að það er EKKERT í skilgreiningunum á kynbundnu ofbeldi hér að ofan, né í nokkrum einasta pistli og/eða ræðu sem nokkur femínisti hefur látið frá sér hér á knúzinu (eða annars staðar ef því er að skipta), sem segir að konur beiti ekki ofbeldi. Við vitum öll að konur eru fullfærar um að beita ofbeldi og gera það oft. Það ofbeldi er hins vegar ekki nauðsynlega kynbundið ofbeldi.

   Einnig virðistu gera ráð fyrir að ofbeldi sem konur beita aðrar konur sé þarna skilið út undan af femínistum. Ég hef kannski ekki sagt það hreint út í greininni en ég sé ekki af hverju konur ættu ekki að geta beitt aðrar konur kynbundnu ofbeldi, enda mjög margar konur sem taka fullan þátt í því að viðhalda feðraveldinu og ójöfnum rétti kynjanna.

   Mér sýnist sem sagt að þú þurfir að anda aðeins djúpt og lesa greinina áður en þú skrifar næsta komment.

   Sögurnar sem þú segir frá Kongó eru náttúrulega alveg hræðilegar, það er ekki spurning. Ég veit ekki nóg um landið og ófriðinn til að viðhafa stóryrði um nákvæma flokkun á ofbeldi þar en mér þætti ekki ólíklegt að ofbeldið gegn körlum sem þú ræðir sé kannski fyrst og fremst af pólitískum toga (ættbálkar). Það er sannarlega kynferðislegt ofbeldi að nauðga, sama hvors kyns allir málsaðilar eru, en það þarf ekki að vera kynbundið ofbeldi. Það að konan yfirgefi mennina eftir slíkan harmleik er kannski einmitt lifandi dæmi um feðraveldið, þar sem það er svo skammarlegt af karli að vera veikur fyrir að hann á ekki „rétt“ á að eiga fjölskyldu lengur? Það kæmi mér ekki á óvart, og væri þá enn ein ástæðan til að berjast með kjafti og klóm fyrir afnámi kynjakerfisins.

 3. Ef að karl ber konuna sína vegna þess að hún er sífellt nöldrandi og að ögra honum og hreint út sagt óþolandi er það þá kynbundið ofbeldi?
  En ef að karl ber annan karl (sem hann er ekki í sambandi við) vegna þess að hann er sífellt nöldrandi og að ögra honum og hreint út sagt óþolandi er það þá kynbundið ofbeldi?
  Og hvað ef karl ber konu fyrir sömu sakir sem hann er ekk í neinu sambandi við? Hún er e.t.v. með leiðindi niður í bæ og að bögga hann?

  Er útgangspunkturinn sú að ofbeldi af hálfu yfirskipaðs kyns gagnavart undirskipuðu kyni eða kyngervi sé kynbundið ofbeldi, nokkurn veginn óháð tilefni, tengslum aðilanna og eða hvort að það sé tilviljun háð hvort kynið verðið fyrir ofbeldinu? (og í þessari spurningu felst engin viðurkenning á þeirri grundvallar trúarsetningu feminista að konur séu eitthvað undirskipaðar á Íslandi).

  Ég er eiginlega engu nær eftir að hafa lesið pistil og athugasemdir.

  Ætti baráttan ekki að snúast um baráttu gegn ofbeldi inni á heimilum? Í staðinn fyrir að reyna að klæða þetta í einhvern fræðilegan búning og að nota einhver fín orð sem enda úti í móa?
  Berja karlar konurnar sínar inni á heimilum vegna þess að þær eru konur eða vegna þess að þær eru mótaðilinn í sambandinu og það er ekki neinum öðrum til að dreifa ef menn vilja leysa ágreiningsefnin með ofbeldi (sem ég mæli nú ekki með)? Kannski berjar karlar konurnar sínar einmitt, þrátt fyrir að vera konur, enda er það hluti af vestrænum karlakúltúr að það sé aumingjalegt að berja konur. Ef svo er, er þá ekki ofbeldið í raun súperókynbundið?

  Ergo, ofbeldi inni á heimilum er vandamálið, kynbundið ofbeldi (sem ekki er kynferðislegt eins og nauðgun) er einhver steypa.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.