Fullkominn performans

Höfundur: Nanna Hlín Halldórsdóttir

Bandaríska kjarnakonan Audre Lorde hvatti svartar konur til þess að láta í sér heyra, þó svo þær væru hræddar og þyrðu því ekki. Í bókinni Sister Outsider lýsir hún á magnaðan hátt hve oft hún hefði ekki þorað að tala, uns hún uppgötvaði að hún græddi ekkert á því að þegja nema öruggan óttann.

Þessi bók Lorde rímar mjög við það sem hefur sótt á hug minn síðustu mánuði þegar ég hugsa um margt sem ég hef upplifað sjálf en sé einnig svo víða í kringum mig. Nefnilega þessi hræðsla við að láta í sér heyra. Það er það sem ég kalla þörfina fyrir fullkominn performans eða alls engan, þannig að ekki sé hægt að gagnrýna mann fyrir neitt í fari manns né að nokkurt óöryggi eða vandræðalegaheit sjáist þegar maður tjáir sig.

Audrey Lorde (mynd af Wikipedia)

Þessi fullkomni performans er náttúrulega hvorki einfalt fyrirbæri né algilt. Alls ekki. En mér sýnist eitthvað koma fyrir í mótun stelpna sem ýti undir þessa hræðslu, þessa þörf fyrir fullkomnun, þennan mikla efa. Sjálfsefi og vandvirkni eru auðvitað mjög mikilvægir eiginleikar; skortur á sjálfsefa leiðir oft til þess að fólk (ansi oft karlfólk reyndar, önnur mótun) verður ansi fullyrðingaglatt enda hefur það ekki fyrir því að véfengja mál sitt, einmitt vegna þess að það hefur ofurtrú á því sem það er að segja.

Að láta í sér heyra þýðir að þora, það felur í sér ákveðna félagslega áhættu. Kannski tekur enginn undir með manni, kannski „lækar“ enginn, kannski gagnrýnir einhver mann, eða segir mann vera að bulla! Því það sem við segjum, segjum við við einhvern og bíðum eftir viðbrögðum, samþykki.

Við könnumst mörg við klisjurnar um hlýðnar stelpur og óþæga stráka sem fela í sér leiðinleg algildi. En hvað um þegar samþykki vinanna veltur á samþykki kerfisins, samþykki kennarans? Þegar ég flutti ellefu ára gömul til Reykjavíkur var þetta einmitt það sem blasti við mér til þess að eignast vinkonur (það var ekki í boði að eignast strákavini, þar voru endimörk míns félagslega rýmis). Ég var púkó sveitastelpa sem hlustaði hvorki á tónlist né átti Russell-peysu.

Ellefu ára í bænum þýddi sko þörf á að gera sér grein fyrir hvernig maður ynni sér inn kúlprik hjá stelpunum, í hverju samanburðurinn væri fólginn. Og það fólst einmitt í einkunnum, að skrifa vel, að teikna vel, samþykki kennarans, samþykki kerfisins. Ég man enn hversu gáttuð ég var þegar ég heyrði stelpurnar spyrja hvor aðra: Hversu oft lastu bókina í gegn fyrir prófið? Og sá hversu marglitar glósurnar þeirra voru.

Þrátt fyrir allar klisjur um kynin verð ég að segja: Það er ótrúlegur munur á skrift stúlkna og stráka, kvenna og karla. Hvað ræður því? Hvað fær mann til þess að skrifa fallega í grunnskóla?

Þegar samþykki þeirra sem geta orðið vinir manns felst í samþykki kerfisins og kennarans, verður andóf og sköpun utan við kerfið vart annað en fræðilegur möguleiki. Að þora að senda fingurinn er að þora að gera eitthvað nýtt sem öllum finnst ömó.

Mér finnst fyndið hversu gott dæmi ballet er um fullkominn performans. Þú verður ekki ballerína nema fyrir tilstilli fullkominnar ögunar. Fullkomnun í að „mastera“ reglurnar og fara eftir þeim. Svo lærðar, kvenlegar, fallegar hreyfingar að þú kemst aldrei út úr þeim, þú verður aldrei ljót. Þú getur aldrei hrist mjúku hlutana og flippað; þú hefur ekki mjúka hluta. Svo verða ballerínurnar kannski leikkonur en ná aldrei af sér fullkomlega fallega kvenleikanum. Geta í raun ekki leikið neitt annað en prinsessuna en þurfa stundum að þykjast vera óheflaða almúgakonan en undir niðri skín í hinar ótrúlegu lærðu, fullkomnu hreyfingar.

Nokkrar balletthreyfingar

Ballettinn tengist einmitt öðru atriði varðandi performansinn fullkomna, að vera falleg. Að vera fíngerð í hreyfingum, að geta fullkomlega hermt eftir fallegum hreyfingum og nota látbragð á fallegan hátt, að gera sig sjarmerandi. Ég elska dans og að mörgu leyti elska ég ögun …of mikið …. en meginmálið er að ballettinn, fallega skriftin, góðu einkunnirnar eiga það sameiginlegt að fela í sér öryggi. Þú þekkir reglur kerfisins, reglur normanna, þú veist hvað þú þarft að gera til að fá samþykki. Á sama tíma útilokar þörf á fullkomnum performans þor til að gagnrýna viðtekin gildi og skapa ný gildi.

Þörf á fullkomnum performans virðist mér einnig stundum leiða til þess að mælikvarðinn fer að skipta meira máli en viðfangsefnið. Einkunnir eru besta dæmið um þetta. „Kemur þetta á prófi?“ verður mikilvægari spurning en sú sem afhjúpar að maður skilji ekki eitthvað. Þegar mælikvarðinn skiptir meginmáli fylgir líka oft þörfin á að toppa hann hvað sem maður er að gera, þótt það sé grútleiðinlegt. Vera góð í hverju því sem mælanlegt er samkvæmt stöðlunum, frekar en að prófa að fara eigin leiðir með viðfangsefnið.

Fullkominn performans felur í sér ótta við að standa berskjaldaður frammi fyrir gagnrýni, fúkyrðum eða einfaldlega engum viðbrögðum frá öðrum. Þessi ótti fer ekki ef maður er ófær um að yppa öxlunum yfir að hafa verið að framkvæma einhverja steypu, eins og gerist.

Ennfremur er þörf á fullkomnum performans hið besta tól til þess að viðhalda kerfinu í núverandi mynd. Raunar held ég að sé maður haldinn þessari þörf þá vilji maður mun frekar viðhalda þeim leikreglum sem maður eyddi sjálfur öllu púðrinu í að mastera í stað þess að takast á við óöryggi afnáms þeirra reglna.

Ég veit ekki … jú, ég veit. Mér finnst einfaldlega tími til kominn að taka smá áhættu. Að hrista sitt mjúka, verða þannig mögulega ljótleikinn sjálfur holdi klæddur miðað við fyrri mælikvarða manns. Mér finnst tími til að tala, skrifa, hristast, grínast og bulla. Mér líður enn eins og ég hafi ekki forsendur til að segja neitt, ég þurfi að læra svo miklu meira, lesa svo miklu meira, vera betri í öllu áður en ég geri nokkuð en fokkit! Bæbæ fullkominn performans, fullkominn performans bæbæ.

 

19 athugasemdir við “Fullkominn performans

  1. Já, þetta er eitthvað sem ég tel mig glíma við ansi oft, og það er í raun fyndið hvað það að gera sér grein fyrir þessu virðist ekki breyta miklu, enn sem komið er…<<

    • Mér finnst eitthvað hjálpa að minna sjálfa mig aftur og aftur á að ég þurfi ekki að vera fullkomin og að það sé allt í lagi að vera léleg í sumu, að það að vera glötuð í einhverju og að gera mistök geri mig ekkert endilega að fullkomnum lúser. Eða að minna mig á að það sem ég kann best að meta í fari annarra sé ekkert endilega að þeir séu fullkomnir. Það er samt sorglega stutt síðan ég fattaði þetta.

  2. Takk fyrir góða pælingu. Kerfum verður aldrei breytt ef konur hræddar við að vera púkó og óvinsælar. Stelpur þurfa svo mikið á því að halda að vera óþægar, skapandi og ömó, eins og þú segir, svo að þær verði sterkar konur.

  3. Þarna hitturðu naglann á höfuðið, Nanna. Mér fannst ég vera að lesa um sjálfa mig…. en gott að fá svona áminningu þannig að hugrekkið komi til þess að „hrista sitt mjúka“. Takk fyrir góðan pistil.

  4. Já, þetta er svo sannarlega kunnuglegt. Takk fyrir þessa hugleiðingu, við þurfum virkilega að fara að velta því fyrir okkur hvernig þetta óöryggi mótast og hvernig við getum unnið á móti því og losnað við þessa þörf fyrir ómögulega fullkomnun. Ófullkomleikinn er það besta við manneskjuna.

  5. Þessi grein hittir naglann á höfuðið. Stelpur og konur reyna svo mikið að vera fullkomnar að þær þora ekki, held að við þekkjum þetta flestar því miður.

  6. Kærar þakkir Nanna, fyrir fallegan pistil. Mörg kunnugleg stef þarna á ferð. Það er skelfilega sorglegt þegar stúlkur (og áreiðanlega einhverjir drengir líka) eru agaðar í þetta mót, við endum á því að standa svo afskaplega fjarri sjálfum okkur þegar við eltumst við þennan regluramma.

  7. Þessi grein lýsir svo vel því sem ég næ ekki að útskýra þegar ákveðin manneskja spyr mig: afhverju ertu að hafa áhyggjur af þessu? Geturu ekki bara hrist þetta af þér og gert það sem þig langar?
    – Sem betur fer get ég gert það sem mig langar sjálfri, en það tekur kjark og vilja til að snúa upp á margra ára innrætingu.

  8. Vá en gaman að koma heim að kveldi af mjög inspirerandi anti-racist og anti-sexist worksjoppi og sjá þessi komment frá ykkur 🙂

  9. Takk fyrir góða grein, Nanna Hlín. Audrey Lorde er frábær. Að þora að vera púkó er mikill styrkur því púkó er oft handan meginstrauma og framsækið. Margir karlar þora ekki að vera púkó enda hjarðhugsun oft mjög ríkjandi í karlahópum (sbr. Rannsóknaskýrsluna um hrunið).

  10. já ég segi já … … margir kannast til allrar hamingju við hve endurnærandi það er að finna sitt frelsi til að vera bara „ég“ og ekkert annað og engar afsakanir … fólk hristir höfuðið en það hefur ekki áhrif þegar kjarninn er hreinn … þessi móment eru því miður of fá og margir finna þau ekki eða of sjaldan þar sem spegill endurspeglunnar gilda samfélagsins, skyggir á sönnu myndina svo hún kemst aldrey nema rétt á jaðar stóru myndarinnar … hef oft hugsað um þetta, hressandi og nærandi grein takk fyrir

  11. Mjög góð grein og skemmtilegar pælingar.

    Ég hef aldrei skrifað athugasemd hér áður þó ég lesi oft. Ástæðan fyrir því er einmitt efni þessarar greinar, ég trúi því sjaldnast að ég hafi eitthvað gáfulegt að bæta við umræðuna. Ég þurfi að lesa mér aðeins betur til fyrst… ég er nefnilega ekki lærð í kynjafræði! (þó ég lesi mikið um jafnréttismál). Ég er líka asnalega hrædd við að fá neikvæð viðbrögð, fæ hnút í magann í hvert skipti sem einhver svarar einhverju sem ég segi um kvenréttindamál á netinu.

    Ég las nýverið ummæli prófessors í mínu fræðasviði (lífvísindi) sem hafði unnið með mörgu hæfileikaríku vísindafólki. Hann/hún (man ekki hvort) sagði að hæfileikaríkustu konurnar sem hann/hún hafði kennt héldu undantekningarlaust að þær væru minna klárar en þær í raun voru og öfugt fyrir kláru karlmennina. Ég veit að þetta er bara upplifun þessarar manneskju, en finnst hún áhugaverð. Ætli þetta sé ástæðan fyrir því að svokallað „imposter syndrome“ er töluvert algengara hjá konum? („Imposter syndrome“ er sú tilfinning að þú eigir í rauninni ekki skilið þann árangur sem þú hefur náð, og að fyrr en varði komist upp um þig.)

    Mig langaði ofsalega til að stroka þetta allt út og hætta við, en í tilefni greinarinnar ætla ég að senda þetta inn. 😉

    • Já, meira svona! Ég er að æfa mig í að gera stafsetningar og innsláttarvillur á internetinu…eða vera sama þegar ég sé að ég hef gert það!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.